Dagur - 15.10.1982, Blaðsíða 4

Dagur - 15.10.1982, Blaðsíða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI RITSTJÓRNARSlMAR: 24166 OG 24167 SlMI AUGLÝSINGADEILDAR OG AFGREIÐSLU: 24222 RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM.: HERMANN SVEINBJÖRNSSON, BLAÐAMENN: ÁSKELL ÞÓRISSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON, AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: JÓHANNES MIKAELSSON FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT H.F. Miðað við aðstæður Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár hefur verið lagt fram á Alþingi. Eins og eðlilegt má teljast dregur það dám af því ástandi sem nú ríkir í efnahagsmálum hér á landi. Það dregur dám af þeirri efnahagskreppu sem ríkir um allan hinn vestræna heim og er nú farin að hafa veruleg áhrif hér á landi með margvíslegum hætti. Fj árlagafrumvarpið byggir á þeirri staðreynd að minna er nú til skiptanna en áður og það má rekja til stórkostlegs aflasamdrátt- ar og stórversnandi viðskiptakjara og óhag- stæðs viðskiptajöfnunar. Undanfarin ár hefur með fjárlagafrumvörp- um verið gert ráð fyrir hallalausum rekstri. Það hefur tekist og að því er einnig stefnt nú. Til þess að ná þessu markmiði verður að draga úr opinberum fjárfestingum og er reiknað með að samdráttur í þeim nemi 8—10%. Þetta er að sjálfsögðu mikið áfall og mun eflaust hafa mikil áhrif, en við því er ekkert að gera eins og á stendur. Lánlaus stjórnarandstaða Stjómarandstæðingar sjá nú sæng sína upp- reidda. Þeir treystu því að þjóðin væri svo skyni skroppin að hún sæi ekki nauðsyn þeirra viðnámsaðgerða gegn verðbólgu og við- skiptahalla sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir með bráðabirgðalögunum. Þeir treystu því að nota mætti þessi óvinsælu bráðabirgðalög, sem þeir töldu vera, til ómerkilegra atkvæða- veiða. Þetta voru raunar ekki annað en dæmi- gerð viðbrögð stjórnarandstæðinga, sömu ábyrgðarlausu viðbrögðin sem þessa dagana koma fram í lítt rökstuddri andstöðu þeirra gegn fjárlagafrumvarpinu, sem nýlega hefur verið lagt fram. En vopnin snerust í höndum stjórnarand- stöðunnar þegar í ljós kom í skoðanakönnun að bráðabirgðalögin voru ekki eins óvinsæl og þeir héldu. Það vill nefnilega svo til að fólkið í landinu er löngu búið að skilja nauðyn harðra aðgerða í baráttunni gegn verðbólgu og allri þeirri óáran sem henni fylgja, og ekki síst þeg- ar ótal utanaðkomandi erfiðleikar bætast við. Það kom sem sagt í ljós að stjórnarandstæð- ingar höfðu sem fyrri daginn vanmetið og gert lítið úr skilningi kjósenda á íslensku efnahags- lífi. Mennirnir sem hrópuðu hátt um að fella bráðabirgðalögin og þá væntanlega einnig fylgifiska þeirra, breytingar á vísitölukerfinu, breytingar á orlofslögum og sérstakar lág- launabætur til þeirra sem verst standa, hafa nú snúið við blaðinu og sýnast nú fullir ábyrgðartilfinningar. En aftur falla þeir í sömu gryfjuna, að vanmeta fólkið í landinu. Það sjá nefnilega allir að enn eru þeir að hagræða seglum eftir þeim pólitísku vindum sem þeir telja að blási í þjóðfélaginu. Lánlausari stjórnarandstöðu er vart hægt að hugsa séir. MYNDLIST Ólafur H. Torfason Varast ber að ofsj óða Guðmundur Oddur Magnússon og Þorlák- ur Kristinsson: 9 mál- verk í Rauða húsinu 9.- 17. okt., undir heitinu: Nýmálarar. Núna hafa tveir fjölhæfir garð- yrkjubændur í aldingarði lista og bókmennta gefið okkur kost á því að virða fyrir okkur smá- minnispunkta, sem þeir hafa nýlega fest á striga hér á Akur- eyri. Kennir þar margra grasa, ef ekki lostætra ávaxta, úr nán- asta umhverfi listamannanna, andlegu og efnislegu. í Rauða húsinu sjálfu hafa þeir framleitt þau 9 verk sem þar hanga, þann- ig að þau eru alveg splunkuný, enda nefna félagarnir sig nýmál- ara og eru báðir menntaðir í ný- listadeild Myndlista- og hand- íðaskóla íslands. Rímar þetta allt. Og hvað er svo hér á ferðinni? Sumir vilja sleppa ódýrt og kalla þetta „nýju villimennina“, en sú nafngift var fundin upp fyrir skemmstu til að geta komið böndum á hópa ungra málara í Þýskalandi, á Ítalíu og víðar. Þessir útlendu kauðar mála í eins konar expressíónískum anda, sletta hráum litum úr túp- unum á risavaxin léreft og dreifa úr kökunum með allt að þriggja tommu breiðum penslum. Þeir kæra sig kollótta um hefðbundin hlutföll og myndbyggingu, lita- spil og fjarvídd, en láta umfram allt sprelllifandi verur æða þarna um, starandi á áhorfandann, eða að breytast í torkennilegar skepnur sem tákna þætti í sálar- lífinu. Porlákur teflir fram vopnuð- um skötuhjúum í mynd nr. 1, „Náin kynni“, en þar stendur vörð sósíalrealistískt ættuð, andlitslaus frelsisgyðja á evu- klæðum, og heldur á tákni van- getunnar, hlaupsagaðri hagla- byssu. Karlskröggur krýpur þar undan og skýtur um leið af sér hausinn með annarri hagla- byssu. Við það leysist hins vegar úr læðingi tilfinning hans fyrir raunverulegri kyngetu sinni og geislaflóð fullnægingarinnar gýs í öllum fáanlegum olíulitum úr hlaupinu. Þetta gerist allt á últramarínbláum grunni, en blátt táknar einatt dauðann, ei- lífðina og fjarlægðina í myndlist og mun sá hefðbundni skilning- ur duga hér. í hinum enda salarins liggur Jón Laxdal Halldórsson mak- indalega yfir Akureyrarpolli í mynd Guðmundar Odds nr. 6, „Lygnan", og horfir með skil- greiningarsvip dulhyggjumanns- ins á þessa atburði. Risavaxið tímaglas er honum til fóta, hvort sem það á líka að tákna afstæði tímans eða vísa til uppruna skáldsins, en faðir hans er úr- smiður að iðn. Þetta rólega málverk er unnið í fáum, hnit- miðuðum blæbrigðum, og ber síst nokkurn „villimanna“-svip. Guðmundur Oddur er agaður teiknari, og hefur fullt vald á út- línuformunum í myndum sínum. Langsterkust er mynd hans nr. 9, „Freistingin“, en þar er fyrirmyndin Þorlákur félagi hans, í upphafi ferils síns sem listmálari. Berhannfyrirsiglita- spjaldið sem skjöld, en otar penslinum að óvætti, sem gerir sig líklegan til að ráða honum bana og éta hann. Er þó enga hræðslu á listamanninum að sjá, heldur fullkomna rósemi og næstum vorkunn, því hann er þess fullviss, að þennan tákn- gerving ræður hann algerlega við. Þorlákur er nefnilega búinn að steypa sér út í málverkið af miklu hugrekki og snerpu, hisp- urslaus og harðneskjulegur í senn, eins og í dægurlagatextum þeim sem hann hefur samið fyrir bróður sinn Bubba. Báðir málararnir eru sem sé óvenjulega persónulegir í mynd- um sínum og ganga hreint til verks. Þorlákur sækir yrkisefni sín í klassískar bókmenntir Grikkja og íslendinga, Hóm- erskviður og verk Halldórs Laxness. Hann er meiri kólor- isti, eða litaspilsleikari, heldur en Guðmundur, og nær því magnaðri áhrifum. í einni myndanna, „Dögun“, bregður fyrir vídeóbjarma á himni, sem leiðir aftur hugann að Þorvaldi Skúlasyni og Karli Kvaran, sem eru síðastir móhíkanar skært- hljómandi svipuhögga í ab- straktinu hérlendis. Fyrir skemmstu var litskrúðug yfirlitssýning á norðlenskri myndlist á Húsavík. Hestir lista- mennirnir (sem alls voru 27), virtus sniðganga abstraktið, nema aldursforsetinn (áníræðis- aldri). Jónas frá Hriflu hefði orðið hrifinn, ef honum hefði auðnast að sjá þá sýningu. Einar Helgason og Lýður Sigurðsson voru þarna með sín sleiktu ná- kvæmnis- og þolinmæðisverk. En í þessu völundarhandbragði þeirra saknar maður hins vegar oft snerpunnar, spennunnar, lífsorku andrárinnar. Margoft hefur verið bent á, hve frumdrög og skissur myndlistarmanna, sem þeir vinna hratt og í al- gleymi sköpunarþrárinnar, reynast oft sterkari en fínpússuð úrvinnslan. Frægt listasafn í Lundi, Svíþjóð, „Skissornas Museurn", geymir einvörðungu slík tilhlaup. Og þótt þeir félag- ar, Þorlákur og Guðmundur, hugsi verk sín vafalaust í öðrum anda en sem frumdrög, þá er því ekki að neita, að áhrif þeirra eru líkust þeim titringi sem maður verður fyrir, við að skoða fæð- ingarhríðir kunnra listaverka í frumdrögum listamannanna. Ég hef grun um, að nýmálar- arnir í Rauða húsinu líti á upp- skeru sína líkt og Karl Ó. J. Björnsson segir í riti sínu „Sultu- og Cocktailbókin“: „í raun og veru er ekki eins létt verk að laga góða sultu og ýmsir ætla . . . Góð sulta á að geyma það bragð, sem að ávext- inum er, sem minnst skemmt. Bragðefni ávaxta eru oftast hvikular olíur, sem ekki þola neitt verulegt hnjask. Sé sultan soðin lengi við háan hita, tapar hún því bragði eða angan, sem gerir ávöxtinn lostætan.“ (Reykjavík 1936.) 4 - DAQUffc 15>:qktóþpr 4 98? :

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.