Dagur - 29.03.1983, Blaðsíða 8

Dagur - 29.03.1983, Blaðsíða 8
ER FARIN A — Rætt við Steingrím Sigurðsson, listmálara, um „líflínunacc, Akureyri o.fl. - Ég hlakka til þessa afmælis. Ekki vegna þess að ég ætli að glansa - því er ég löngu hættur - en hins vegar reynir maður að standa sig í lífinu. Ég er ákaflega sekur við tilveruna en ég er líka fyrstur til að viðurkenna mína bresti. Það hef ég kennt mér á hinni nýju stefnu minni í lífinu sem ég kalla ,,líflínuna“. Það hef- ur aldrei verið meiri sókn í mér en einmitt núna því ég er ham- ingjusamur. Ég finn gleðina inni í mér - starfsgleðina og verk- gleðina og ég finn að ég er andlega mjög vel stemmdur til að mála þessa mynd, hvort sem hún tekst eða ekki. Ég geri gífur- legar kröfur til mín varðandi þetta verkefni og það má eiginlega segja að þetta sé „sveinsstykkið“ hjá mér. Sá sem þetta segir er hinn umdeildi listamaður, Seingrímur Sigurðsson, listmálari, en hann dvelst nú á Akureyri við að mála mynd af Menntaskólanum sem færð verður skólanum að gjöf á fjörutíu ára stúdentsafmæli Steingríms og bekkjarsystkina hans nú í sumar. Já, fjörutíu ára stúdentsafmæli - sem leiðir hugann að því að þá hlýtur Steingrímur að vera vel yfír fímmtugt, nokk- uð sem erfítt er að gera sér í hugarlund, enda létt yfir mannin- um. Engin lognmolla - aðeins lífsgleði. - Þetta var gífurlegt uppgjör hjá mér viö gamla siði og ég er núna búinn að vera sine vino í ná- lega þrjú ár. Ég fór þvingaður út í þetta fyrst og það við illan leik. Það hafði líka sitt að segja að ég fékk slæmsku í augun, einhvern vírus sem ég náði mér í á Sauðár- króki eða Skagaströnd. Þetta var mjög hættulegur vírus og ég þurfti að vera hjá þremur spesíalistum í Reykjavík. En það var svo skrýtið, alveg eins og maður hefði einhvern varaforða, að ég örvænti aldrei hvað um mig yrði ef ég missti sjónina. En ef það gerðist þá var ég staðráðinn í að fá mér segulband og Iáta gamlan draum rætast. Skrifa inn á band, segir Steingrímur og brosir. Myndir og texti: ESE Síðasti sjússinn og sine vino Það má því segja að sumarið verði tvíheilagt hjá Steingrími - fjöru- tíu ára stúdentsafmæli og þriggja ára „sine vino“ eins og hann orðar það. Síðasta sjússinn tók hann reyndar fyrir utan Sjallann, fékk þá síðar um nóttina rétta vín- flösku - en þetta bragðaðist þá bara alveg eins og ég geri mér í hugarlund að blásýra sé á bragðið, segir Steingrímur og grettir sig herfilega. - En svo við víkjum talinu að öðru. Hver er saga þessarar stúdentsmyndar sem þú ert að tala um að mála? - Það er nálega ár síðan við bekkjarsystkinin komum saman í húsi Vatnsveitunnar í Reykjavík. Þetta var eins konar prufukeyrsla fyrir fjörutíu ára stúdentsafmælið sem verður haldið upp á núna 16. og 17. júní í sumar en aðallega komum við þama saman til að fagna því að vera á lífi. Á þessu kvöldi kvaddi Geir Kristjánsson, rithöfundur, sér hljóðs og stakk upp á því að mér yrði falið að mála mynd sem við bekkjarsyst- kinin gæfum svo MA á afmælinu. Ég færðist undan þessu fyrst í stað og ég vona að það sé tekið gilt og því sé trúað þegar ég segi það, en síðan var þetta ítrekað og ég sá ég varð að samþykkja. Bæði var það að ég vildi takast á við eitt- hvað erfitt og eins fannst mér þetta ákveðið heiðursatriði. Þú mátt ekki halda að ég sé að þessu til að græða á bekkjarsystkinum mínum. Málið er einfaldlega það að ég er fæddur og uppalinn í þessari stofnun. Ég var einnig kennari við skólann árum saman og ég vildi sýna ákveðna hollustu við minn bekk. Ég var alltaf í ákaflega slæmri stöðu gagnvart bekknum sem sonur skólameist- ara og það bætti heldur ekki úr skák að þessi árgangur, stúdentar frá MA 1943, var eini árgangurinn sem faður minn sálugi ávítti við útskrift. Léttúðugur bekkur - Af hverju stafaði það? - Nú, þetta var fyrst og fremst byggt á því að bekkurinn var mjög brotlegur við lög skólans, segir Steingrímur og brosir í kampinn. - Þetta var á stríðsárunum og við umgengumst setuliðið í sambandi við vín og annað og þóttum vera léttúðugir. Leituðum á forboðna staði og þar fram eftir götum. Þetta var góður bekkur og bara til að gefa smá hugmynd um sam- setningu hans þá ætla ég að nefna nokkur bekkjarsystkini mín. Þarna var Björn Bjarmann, rit- höfundur og kennari, Jón Hjalta- son, Jón Þorsteinsson, læknir, Karl Jóhannsson, í útlendingaeft- irlitinu, Tómas Tómasson, nú í Keflavík, Hörður Helgason, sendiherra, bræðurnir Sveinn og Jóhann Finnssynir, Ragnar Karlsson, geðlæknir, Friðný Pét- ursdóttir, Eva Ragnarsdóttir, Úlfur Ragnarsson, læknir, Páll Árdal, sem lengi var í Svíþjóð, bróðir Jonna í Hamborg og Hermann Gunnarsson, sonur Gunnars á Fossvöllum. Ekki má gleyma honum Friðrik Þorvalds- syni og sjálfum Barða Friðriks- syni, mági Steingríms banka- stjóra. Þetta var heimsmanna- bekkur og við gengum um götur með Battersby-hatta, svona eins og í amerískum Chicago-stíl. - Hvenær komst þú norður til að mála myndina? - Ég kom hingað fyrir nokkru með Pétri og Valdimar. Ég er nefnilega svo íhaldssamur að ég ferðast oftast um með vöruflutn- ingabílum, einkum þegar vegir liggja norður, alveg eins og ég gerði hér á árum áður er ég var prófdómari við MA. Þetta var góð ferð en ég vonaði alltaf hálft í hvoru að veðrið yrði vont. Það rættist svo þegar við komum á Holtavörðuheiðina og Öxnadal- urinn var einnig erfiður en þetta eru slyngir bílstjórar sem vita hvað þeir eru að gera. Ég sat svp allan tímann og skrifaði niður það sem gerðist og bar fyrir augu og það verður sérstakur kafli í bók minni um þessar ferðir með norð- lenskum langferðatrukkum. Legg Iífsorku mína í þessar bækur“ - Bók? - Ég hlaut rithöfundarlaun í fyrsta skipti núna í ár og ég er aftur byrjaður að skrifa eins og ég gerði í gamla daga. Ég verð þrjá mánuði hér fyrir norðan í sumar, í Skagafirði, til að ljúka við tvær bækur sem ég hef verið að vinna að. Annað er skáldverk en hitt samlede verker með nýju ívafi. Ég ætla að vanda til þessara bóka og m.a. hef ég hug á að fá sérstak- an útlitsteiknara til að ganga frá samlede verker með mér. Þetta er Akureyringur sem starfar fyrir 8 - DAGUR - 29. mars 1983 sunnan, góður vinur minn og mjög listrænn en ég ætla að halda því leyndu hver hann er enn um sinn. Það hafa fjórir útgefendur haft samband við mig vegna þess- ara bóka og ég ætla að leggja alla mína lífsorku í að gera þær sem best úr garði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef getað þjálfað með mér þann sjálfsaga og þá sjálfsstjórn sem þarf til að geta sest niður við skriftir. Ég ætlaði alltaf að verða rithöfundur - eiginlega allt frá sjö ára aldri og ég tek ritmennsku mjög alvarlega. Þetta er við- kvæmt mál fyrir mér og ég legg sál mína að veði. Hið skrifaða orð er mjög hættulegt og maður verður aldrei nógu sjálfgagnrýninn þegar ritverk eru annars vegar. - En hvernig var þér innan- brjósts þegar þú komst á æsku- stöðvarnar? - Ég var eiginlega búinn að herða mig upp að innan löngu áður en ég kom. Ég vildi koma hingað með hinu nýja hugarfari mínu sem ég kalla „líflínuna“. En það er geysilega gaman að vera kominn heim. Ég kem ekki til að viðra mig upp við Akureyri - þeir þekkja mig - en ég var hissa þegar ég komst að því hve mikill Ákur- eyringur ég er í mér. Nú finnst mér ég loksins, loksins geta skilið Akureyri. - Hefur þú verið tekinn í sátt? - Eins og allir vita þá er ég súspenderaður kennari við Menntaskólann í sambandi við þetta svokallaða draugamál á sín- um tíma. Þetta var leiðindamál sem Steindór Steindórsson getur um í lífssögu sinni og sá blessaði maður, Steindór, sem mér er frekar hlýtt til hann sýndi mér mikla ræktarsemi. Einum átta árum eftir þessa atburði kom ég hingað norður til að halda sýningu og þá bauð Steindór mér upp í skóla. Ég afhenti skólanum stóra abstraktsjón, sem ég kalla Á ferð um ísland, við þetta tækifæri og Steindór lagaði mig einhvern veg- inn tilfinningalega gagnvart MA með framkomu sinni. Balsam Steindórs Ég var svolítið sár - ég var kannski sekur, það er annað mál- en ég hafði lengi verið beiskur í garð skólans og það var slæm til- finning. En þessi gestus Steindórs orkaði sem balsam og þegar ég stóð þarna uppi í pontunni þá fannst még eins og ég hefði kvatt MA daginn áður. Það fannst mér dálítið skrýtið. Nú, varðandi ævi- sögu Steindórs - ég vil endilega að það komi fram - þá voru hinir og þessir sem lesið höfðu bókina skakkt að hringja í mig og benda mér á hitt og þetta. Ég las bókina sjálfur síðar og mér fannst hún at- hyglisverð. Á einum og einum stað finnst mér Steindór ekki fara nógu rétt með staðreyndir, sem er ólíkt Steindóri, jafn fróðum manni og velkunnandi. Hann seg- ir ekki alveg rétt frá „draugamál- inu“ og varðandi föður minn - hvað á ég að segja, málið er mér alltof skylt - en hins vegar kemur þarna fram ýmislegt satt og sér- staklega segir hann jákvæða hluti um föður minn sem stjórnanda skólans. Ég hafði gaman af að lesa þessa bók og ég er minnugur þess sem hann segir um móður mína. Hve hún hafi haft mikið brjóstvit og að hún hafi kunnað að velja og hafna, sem fæstir kunna í dag. Fór að „búsa“ eftir að krakkarnir sofnuðu - Gætir þú hugsað þér að setjast hér að? - Ég veit það ekki. Ég vil vera þar sem hasarinn er. Það er árátta eins og alkóhólismi og kvennafar og það er erfitt að venja sig af skrýtnum siðum. Ég var að hugsa þegar ég gekk eftir Hafnarstræt- inu í morgun, „Hvernig væri það ef þú flyttir norður með húð og skegg? Myndir þú sakna einhvers fyrir sunnan?“ - Ég veit það ekki og ég er ekki búinn að gera það upp við mig en ef ég geri það og flyt norður þá verð ég hér það sem eftir er. Ég hef búið á mörgum stöðum og áti til að mynda heima á Stokkseyri í nokkur ár. Þar skeði margt í lífi mínu en mér leið stundum vel á Stokkseyri. Ég kom þarna einn með þrjú skilnað- arbörn mín og ég fór að vorkenna mér hve lífið væri erfitt. Það greip mig viss skelfing, enda ekki einu sinni heitt vatn í húsinu. Krakk- arnir tala alltaf um þetta sem eitt besta tímabil ævi sinnar en þau vissu sem betur fer ekkert hvað mér leið. Ég fór að nota vín, nota hið forboðna eftir æðilangt hlé frá Bakkusi, líklega á svipaðan hátt og Víetnam-hermaðurinn fór að nota marijúana. Jafnvel eftir að krakkarnir voru sofnaðir á kvöld- in fór ég að „búsa“ og hringja til umheimsins. Það var farið að tala um þetta og þá komst ég í vörn. Ég fór að dæma umhverfið og hrokinn kom upp í mér, en það er indælisfólk á Stokkseyri sem reyndist mér vel. Eins og á Sturlungaöld Ég varð þó fyrir ýmsum skakka- föllum. Það var ráðist á bæinn, allt brotið og bramlað og stungnar mublur. Ég fór ekki með það í blöðin þó að aðkoman einu sinni hafi líklega verið líkust því sem gerðist á Sturlungaöld. Lögreglan á Selfossi drap fyrir mér tíkurnar og það var komið eitthvert hatur í þetta. En það voru ekki Stokks- eyringar sem stóðu fyrir þessu, heldur aðkomumenn og eftir að þetta gerðist þá vörðu Stokkseyr- ingar bæinn. Mér líður alltaf vel þegar ég kem til Stokkseyrar og ég get farið vopnlaus í gegnum bæinn, segir Steingrímur og hlær. - Hvað um málverkið í dag? Hvað finnst þér um hið svokall- aða „nýja málverk"? - Ég má eiginlega ekkert tala um verk kolleganna. Ég má ekki hneykslast á þeim og ég má ekki lýsa yfir vanþóknun minni. Ég hugsa mitt en af vissri hollustu við stéttina þá segi ég ekki neitt. Það væri eins og ef rakari færi að segja að hann klippti betur en rakarinn í næstu götu. Þetta er prinsipp hjá mér en ef ég kem í hús og sé fallegt málverk eftir óþekktan listamann þá segi ég eins og er. Ef mér finnst myndin ljót þá steinheld ég kjafti. Eitt það allra versta sem ég lendi í er þegar ég kem í hús og ég er spurður hvernig mér finnist þessi og hin myndin. Myndum er troðið fyrir vit mér og ég á að lykta af eins og hundur af beini. Önnur hver bredda farin að mála Annars er það versta að önnur hver bredda í borginni er farin að mála ofan á fjölbrautina og nú er svo komið að maður fær engan striga lengur. Það er kannski allt í lagi að þessar breddur máli, bara ef þær slokra ekki upp alla mennt- un og striga í landinu. Það er ekk- ert fínt að vera listmálari. Það er þrælavinna. Ég hef verið til sjós fyrir vestan og það er hressing að vera þar á skaki í bandbrjáluðu veðri miðað við að þurfa að mála erfiða mynd. Ég lít á það sem ein- staklingsframtak að mála. Mér hefur verið borið á brýn að ég sé ekki handíða- og myndlistar- skólapródúkt en ég tel mig eigin- lega hafa meiri möguleika fyrir bragðið. Ég er ekki mótaður af neinum ismum en hef hins vegar reynt að vinna mig upp í þessu starfi. Ég fékk góða dóma í Sví- þjóð og ég gerði það af skömm minni að ég birti ljósrit af sænsku pressunni í Morgunblaðinu og þýðingu með. Það var mynd af hausnum á mér á a.m.k. tveim stöðum en þetta birti ég svona sem sannindamerki fyrir því að þessar sýningar hefðu yfirleitt verið haldnar og umrædd gagn- rýni hefði komið fram. ítalskt bókhald og naglabókhald - Þér geðjast sem sagt vel að mála á „líflínunni"? - Margir hafa spurt mig hvern- ig það gangi að mála svona sine vino. Ég get bara bent á að þessi sýning mín sem ég hélt í Reykja- vík, fimmtugasta og fimmta sýn- ingin á mínum ferli, er fyrsta skipulagða sýningin sem ég hef haldið með bókhaldi og öllu saman. ftölsku bókhaldi og nagla- bókhaldi. Ég er núna að borga niður íbúð og er líklega ári á undan áætlun þannig að ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Þeir voru að ýja að því þarna við hring- borðið á Caféteríunni á dögunum að hann Steingrímur hlyti nú eig- inlega að vera orðin ríkur, en þá sagði Flosi Ólafsson. - Hann Steingrímur verður aldrei ríkur af fé og ætli það sé ekki laukrétt hjá honum, segir Steingrímur. Þess má að lokum geta að allar horfur eru á að Steingrímur sýni í Austurríki einhvern tímann á þessu ári, fyrir tilstilli Dr. Hermes Messimo, sem Steingrímur hefur hitt tvívegis hér á landi. - Þetta er einn af þessum dæmigerðu þýsku og austurrísku ferðagörpum sem koma hingað æ ofan í æ og ganga um fjöll og firn- indi, segir Steingrímur og bætir svo við. - í hvert sinn sem ég keppi að því að standa mig, heið- ursins vegna - fyrst og fremst vegna heiðurs - þá verður mér samtímis alltaf hugsað heim til gömlu og góðu en skrýtnu Akur- eyrar . . . hvernig sem á því stendur. 29. mars 1983 - DAGUR

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.