Dagur - 26.08.1983, Blaðsíða 7

Dagur - 26.08.1983, Blaðsíða 7
þess að hafa vit á þeim ólesnum? „Að sumu leyti. En það er talið að miklu minna sé lesið af ljóðum núna, ljóðum eldri skálda. Áður var þjóðin alltaf að lesa ljóð, eða okkur er talin trú um það. Fólk las þessi skáld sem til voru, hvort sem þau voru dauð eða lifandi. En líka verður að viðurkenna að eldri skáldin voru flest miklu aðgengi- legri. Við getum sagt núna að þau ortu eins og átti að yrkja, en þeir komu með sínar nýjungar líka. Jónas Hallgrímsson, og þeir sem komu með rómantísku stefnuna hingað, komu með miklar nýj- ungar inn í íslenska ljóðagerð og voru þar af leiðandi ekkert vinsæl- ir í fyrstu, þóttu alls ekkert góðir. En það jók síðar á vinsældir þeirra að menn fóru að semja sönglög við þessi rómantísku kvæði og fólki um allt land var kennt að syngja þetta og það varð aftur til þess að öll þjóðin þekkti þessi skáld og kvæði þeirra.“ - Eru þeir þagnaðir þessir menn sem sögðu hvernig átti að yrkja? „Ég hugsa ekki. En þeir eru lágværir núna.“ - Tímaritið Birtingur, Jón. Nú fæst hann ekki undir húsverði. Þeir sem glugga í hann taka eftir því að þar birta heimilismenn ekki greinar hverjir um aðra. Af hverju var það? „Við tókum þá stefnu. Ég gæti trúað að meira sé um góðviljaða samtryggingu í öðrum tímaritum núna. Okkur fannst hæpið að fara út í slíkt.“ - Hefur aldrei komið til tals að gefa Birting út aftur í einhvers konar bókarformi, til dæmis úrval? „Aldrei. En þetta var nú þrjóska í okkur að halda svona lengi áfram. Ragnar í Smára kost- aði fyrsta heftið, gaf okkur það. Við hefðum aldrei getað þetta öðruvísi. Svo var það dugnaður- inn við að safna áskrifendum. Thor og Hörður voru sérstaklega duglegir. Og Einar Bragi líka. Eg var handónýtur í því. Það var mikil samvinna hjá okkur í fyrstu. Við tókum þetta svo alvarlega; komum saman reglulega að ræða hvert hefti, skipa niður efni, út- vega þetta og þetta, eða skrifa. Svo höfðum við ágætan mann til að annast fjármálin þar sem Einar Bragi var, hann var einstaklega klár í því. Þannig að við komumst aldrei í skuldir. Allt stóðst. En með því auðvitað að enginn reiknaði sér kaup.“ - Hvað varð til þess að þetta öndvegis tímarit datt upp fyrir? „Við vorum orðnir dreifðir, og þrátt fyrir að við hleyptum okkur ekki í skuldir var þetta erfitt pen- ingalega þegar fram í sótti. Allt hækkaði gífurlega á þessum árum. Svo vorum við orðnir þreyttir, kannski hver á öðrum. Og svo að standa í þessu, því það fór mikill tími í þetta.“ - Erlendir höfundar voru mikið kynntir í Birtingi. Hafa ekki sumir þeirra legið óbættir hjá garði síðan? „Jú. Okkur þótti mikils vert að opna glugga út í heiminn, eins og við kölluðum það, gera lesendum okkar ljóst að við værum ekki ein- angraðir. Það er ekki hægt að stunda menningarstarfsemi hérna án tengsla við umheiminn. “ - Þú hefur sagt að gert hafi ver- ið út af við smásöguna einhvern- tíma upp úr 1950. Hver gerði út af við hana? „Ja... .mér verður líklega svara- fátt þegar stórt er spurt. En það var alltaf erfitt að fá íslendinga til að lesa smásögur, að minnsta kosti hafa útgefendur alltaf sagt það. Ég ræddi einu sinni við Krist- ján Albertsson um Sögur frá ýms- um löndum, ákaflega myndarlegt safn, 3 bækur, úrvalsþýðendur og úrvalssögur. Hann sagði mér að ekki hefði verið hægt að halda þessu áfram, það hefðu ekki fengist nógu margir kaupendur. Þó var smásagan þá í miklu meira gengi hér en síðar varð og byrj- endur gáfu út smásögur eftir sig áður en þeir lögðu út í stærri verk. En þetta seig alltaf á ógæfuhliðina þannig að ekki varð nokkur leið að koma út smásagnasafni. Ég til dæmis kom ekki mínu smásagna- safni út fyrr en 6 árum eftir að ég hafði samið þær flestar þessar sem komu út 1952. Það hefur meira verið gefið út af smásagnasöfnum í seinni tíð en á tímabili; menn fá meiri umsagnir fyrir smásögur en áður. Ég er ekki frá því að það sé meiri grundvöllur fyrir þær núna.“ - Fæstu minna við þýðingar í seinni tíð? »Ég er nýbúinn að þýða frönsku skáldsöguna „Allir menn eru dauðlegir“ eftir Simone de Beauvoir, sem kom út hjá ísafold fyrir ári. Hana þýddi ég reyndar til að vinna fyrir mér.“ - Er hægt að vinna fyrir sér með þýðingum? „Það er hægt miklu frekar nú en áður, þó með tvöfaldri vinnu ef um erfiða þýðingu er að ræða. Annars eru þýðingarlaun orðin svo miklu betri núna. Ef um létt- ari þýðingar er að ræða þá er það allsæmilega borgað, held ég. En margt af því sem eiga að vera betri bókmenntir er illa þýtt. Og það eru ekki launin sem valda því, heldur þýðandinn sjálfur. Menn átta sig ekki á að það þarf sérstaka æfingu til að þýða vel. Hér gengur margt út á þrykk í svo afkáraleg- um þýðingum að betra hefði ver- ið að gefa það alls ekki út. Og mér sýnist stundum á því sem lærðir menn eru að skrifa um þýðingar nýrra bóka, að þeir hafi bókstaf- lega ekki vit á því sjálfir hvað er vel þýtt og hvað ekki.“ - Hvað viltu segja um bókina um Sölva Helgason, sem þú vinnur að núna? „Ég byrjaði á henni vegna þess að ég fór að veita myndum hans meiri athygli. Það voru þessar endurprentanir sem voru gefnar út einhverntíma fyrir 1970 held ég. Mjög merkilegar þó þetta væru endurprentanir.“ - Verður þetta bók í skáld- söguformi eða heimildarrit? „í rauninni heimildarrit. Ég reyni að kanna hvernig ferill Sölva var og hvers konar maður hann var raunverulega á bak við þessar myndir. Mér finnst þetta hafa vantað. Það er til þó nokkuð á prenti um hann, glefsur á víð og dreif, þættir sem ýmsir hafa skrif- að í þessar svokölluðu þjóðfræði- bækur okkar, svo og í endurminn- ingum manna. Það er víða minnst á hann. En við athugun sést að það er allt minningar fólks sem hafði einhver kynni af Sölva öldr- uðum. Og þá um leið ef til vill sagnir annarra, sem það svo tilfær- ir. En það er sammerkt um allar þessar glefsur að þeir sem segja frá smáatvikum, tilsvörum og þess háttar, þeir vita ekki um allan feril Sölva.“ - Hversu- vel heldurðu að Davíð Stefánsson hafi kannað þetta? „Töluvert. Hann hefur þá sér- stöðu að hann er mjög tengdur fólki frá slóðum Sölva í Fljótun- um. Öll líkindi benda til að hann hafi haft mikið munnlega frá hin- um og þessum. Hvað hann hefur mikið kannað aðrar heimildir, dómsskjöl eða handrit Sölva sjálfs, það finnst mér koma af- skaplega lítið fram í bók hans, Sólon íslandus. Þar er kannski meira á ferðinni frásögn af ýmsu háttalagi hans, en myndlistar- maðurinn í honum hverfur að mestu. Þó vissi Davíð vel af því. Það sýnir sig að hann hefur fengið myndir eftir hann og hengt upp í húsinu sínu, Davíðshúsi sem nú heitir. Ég geri ráð fyrir að Sölvi sé alveg sérstakur. Hann er ein- kennileg samsetning af manni, en það voru margar ástæður sem réðu því hvernig ferill hans varð. Það er fullt af myndum eftir hann á Þjóðminjasafni, að vísu margar litlar, en geysilega falleg- ar. Ég skrifa bókina með það í huga að veita Sölva uppreisn sem listamanni. Geysimikið hefur glatast af myndum hans, þannig að ekki er nokkur leið að vita hversu margar þær voru. Hann hefur í og með þess vegna ekki verið talinn til myndlistarmanna. Hólmfríður Hjaltason, sem gift var Guðmundi Hjaltasyni alþýðu- fræðara, segir á prenti þar sem hún minnist á Sölva, að hann hafi gamall löngu verið hættur að sýna myndir sínar, því það hafi ekki verið til neins. Sölvi var einstakt fyrirbæri á þessum tíma. Hann falsaði reisupassa til að geta ferðast um landið. Eftir það er hann álitinn vera afbrotamaður. Sú mynd af honum hefur lifað sem lengst. Ingunn á Kornsá varð einna fyrst til að skrifa um hann af samúð og skilningi. Sömuleiðis Elínborg Lárusdóttir í Föru- mönnum. Með þeirri bók er hún að koma þjóðinni í skilning um að margir þessir menn hafi haft sitt- hvað til brunns að bera, sem þjóð- in áttaði sig ekki á.“ - Er bókin búin að vera lengi í smíðum? „Það er langt síðan ég byrjaði að kanna efnið og þefa uppi allt sem til var á prenti um Sölva. En það er ekki fyrr en í sumar að ég byrjaði að sícrifa og er kominn svolítið á veg; á samt eftir að kanna heilmikið. Til eru mörg handrit eftir Sölva. Þau eru svo smátt skrifuð að ég verð að lesa þau með stækkunargleri. Það er ekkert áhlaupaverk. Þessi handrit eru aðallega af Þjóðminjasafni, töluverður bunki. Á handrita- safni Landsbókasafnsins er líka svokölluð Frakklandssaga eftir hann, sem stundum er minnst á og menn héldu vera eingöngu hrukkulínur og engin orð, nema stöku orð með stærri stöfum á milli, til að láta menn halda að þetta væri raunverulegt handrit. Einhverntíma var prestur nokkur spurður hvort hann hefði séð þessa Frakklandssögu, því Sölvi hafði sagt að hann hefði sýnt hana þessum presti. Prestur sagði: „Reyndar hef ég séð handritið, en get ekki sagt hvort þar eru skrifuö nokkur orð eða heiti.“ En þetta er nokkuð mikið handrit, ég gæti trúað um hundrað síðna bók af meðalstærð. - Hvernær kemur bókin út? „Ætlunin var að hún kæmi út á næsta ári; það fer eftir því hvað mér vinnst þetta. Ég reisi bókina mikið á viðamiklum dómsskjöl- um. Svo er að komast í gegnum þessi handrit Sölva, því mörg þeirra eru um hann sjálfan.“ - Um hvað skrifar hann? „Margvíslegt. Hann hefur ver- ið sískrifandi. Ýmist að skrifa eða mála. En handritin eru þannig að aldrei er hægt að vita fyrirfram hvar hann fer að minnast á sjálfan sig. Og heimildir eru svo stopular að ég verð að reyna að elta allt uppi.“ - Verður þetta stór bók? „Nokkuð stór, það er ekki hjá því komist. Það verður ef til vill aðalkúnstin að hafa hana ekki of langa.“ - Er hægt að lifa af því að skrifa svona viðamikið rannsókn- arverk? „Ekki nema með því að fá þessi starfslaun frá Launasjóði rithöf- unda. Ritlaunin ein nægja engan- veginn." - Hver er hlutur höfundar af sölu bókar? „Mig minnir 18%, hef annars ekki athugað það nýlega. - Teldirðu ekki ósanngjarnt að svona einstakt verk kæmi út með þúsund öðrum titlum í jólabóka- flóði? „Ég held þeir séu orðnir alltof margir titlarnir. Margt af þessu á fjarskalega lítið erindi til okkar. Éiginlega get ég ekki komið því heim og saman hvernig hægt er að láta þetta berq sig. Samkeppnin er orðin þannig í bókaútgáfunni að ég skil ekki annað en mikið af þessu falli alveg dautt. Enda skilst mér að svo sé. Tiltölulega fáar bækur selj ast vel, og þá með mikl- um auglýsingum. Og sannleikur- inn er nú sá að mestu auglýsing- arnar eru einmitt um það sem hvort eð er selst mest af.“ - Að lokum Jón Óskar, verð- urðu áfram hér á Akureyri á sumrin? „Ekki er alveg vitað hvernig það verður. En það er mjög gott að vera hérna, verðráttan hér er þannig að maður getur eiginlega gengið að henni vísri. Það er vit- anlega ekki lítið atriði. Og kyrrð- in miklu meiri hér en fyrir sunnan. Svo er mjög gott að koma á Amts- bókasafnið og vinna þar ef ég hef þurft á að halda, afskaplega lipurt fólk þar og orðið gamlir kunningj- ar mínir.“ 26. ágúst 1983 - DAGUR - 7

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.