Dagur - 06.02.1984, Blaðsíða 4

Dagur - 06.02.1984, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - 6. febrúar 1984 ®mm ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 130 Á MÁNUÐI - LAUSASÖLUVERÐ 18 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: GlSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRÍKUR ST. EIRlKSSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDfS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI: 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. 33 Hver eða hverjir standast prófið? Umræðan sem fram fer í þjóðfélaginu þessa stundina er að langmestu leyti um efnahags-, atvinnu- og kjaramál sem er eðlileg afleiðing af því ástandi sem þjóðin býr við í dag. Við stöndum frammi fyrir minnkandi þjóðartekjum þriðja árið í röð sem leiðir af sér minna atvinnufram- boð, sem er komið á það stig að verulegt atvinnuleysi gerir nú vart við sig víða um land. Af þessu leiðir að allur þorri almennings hefur orðið fyrir verulegri kjara- skerðingu sem er komin á það stig að þeir sem hafa lægstu launin og börn á framfæri sínu, sér í lagi ein- stæðir foreldrar eru í mörgum tilfellum í algjörri neyð, sem getur haft og hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þau börn sem alast upp við slíkar að- stæður. Frammi fyrir þessum staðreyndum stöndum við og ekki verður hjá því komist að leysa þessi mál með við- unanlegum hætti. Eða hvaða ábyrgur aðili í þjóðfélag- inu getur varið það fyrir sjálfum sér eða öðrum að það ástand ríki í landi okkar á árinu 1984 að ýmsir þegnar þjóðfélagsins búi við þær aðstæður sem ekki er hægt að flokka undir annað en neyðarkjör, en þar eru fyrst og fremst börn og uppalendur. Uppeldisleg áföll barna munu oft stafa af óheyri- legu vinnuálagi, fátækt og aðstöðuleysi foreldranna. Nú vantar ekki yfirlýsingar flestra þeirra aðila sem ættu að geta haft áhrif á hvernig staðið verður að lausn kjaramálanna gagnvart þeim aðilum sem verst eru settir. Allir hafa þeir sungið í kór „þeir sem verst eru settir verða nú að sitja fyrir, þeir verða að fá veru- lega kjarabót, hinir sem skárri laun hafa verða að bíða við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag". En er þetta spánnýtt lag? Hefur láglaunafólkið ekki heyrt þennan söng áður svo að segja við hverja kjara- samninga svo langt aftur sem menn muna? Hefur þetta ekki verið kjörorð forystumanna í öllum kjara- samningum? En hver hefur niðurstaðan orðið fram að þessu? Hefur hugur fylgt máli? Reynslan er ólygnust, láglaunafólkið hefur alltaf setið eftir með þeim afleiðingum sem lýst er hér að framan og eftir fregnum að dæma virðist allt útlit fyrir að sagan muni endurtaka sig, að þeir sem umboð hafa til að semja um kaup og kjör í þjóðfélaginu í dag hafi ekki manndóm til að ganga frá þeim málum á þann hátt að rétta hlut þeirra sem verst eru settir. Að forystulið launþega muni enn falla á prófinu. Mér verður það lengi minnisstætt sem láglauna- kona sagði er hún ræddi við mig um þessi mál: „Ég er nú komin á þá skoðun að sumir forystumenn laun- þega vilji viðhalda ranglætinu til að geta í orði kveðnu haldið áfram að berjast fyrir réttlætinu. Þetta virðist vera atvinnuspursmál þeirra." Þó þjóðin fagni þeim mikla árangri sem náðst hefur í glímunni við verðbólguna og flestir segjast vilja leggja mikið á sig til að koma í veg fyrir að allt snúist á ógæfuhlið í því efni þá væri það mikið gæfuleysi ef hugur fylgdi ekki máli í því efni hjá þeim sem betur mega sín. En reynslan ein mun skera úr því. Þó ég viðurkenni að þjóðin standi nú í nokkrum vanda þá er óþarfi að mikla hann fyrir sér, en fyrst og fremst ríður á því að þjóðin sé raunsæ og hegði sér samkvæmt því. En umfram allt þá verður að koma í veg fyrir að sár neyð þjaki nokkurn íslending. Slíkt ástand á að vera liðin tíð. Um það ættu allir að vera sammála, bæði í orði og verki. Þjóðin mun fylgjast vel með því hverjir standast það próf. S.V. Og þú líka barnið mitt Brútus - Þorrakveðja til Jóns Sigurðarsonar frá Ystafelli fifi Þessi orð komu mér ósjálfrátt í hug, þegar ég heyrði um fram- gang þinn og tillögur um álverk- smiðju við Eyjafjörð. Síst átti ég von á slíku frá þér, því þótt þú sért formaður atvinnumálanefnd- ar Akureyrar er ástæðulaust að setja allt á annan endann, þó heyrst hafi að „Álfurstar" utan úr heimi væru væntanlegir í ná- grennið, til athugunar á, hvort fjörðurinn væri þess virði, að hægt væri að nota hann sem „serlablað". Mér finnst heldur ekki, að hægt sé að sjá, að ýmsir Akureyr- ingar hafi metið svo mikils upp- byggingu SÍS og KEA á Akureyri undanfarna áratugi, að þú megir vænta mikils þakklætis við verklok, fyrir unnið „brautryðj- andastarf", og er ég þá ekki að leggja álver að jöfnu við Sam- bands verksmið j urnar. Þú verður líka að gæta að því, og muna, að þú ert sonarsonur samvinnufrömuðarins og hug- sjónamannsins, Jóns Sigurðsson- ar í Ystafelli, sem mat samvinnu- stefnuna og hið gróandi líf, fram yfir flest annað. Ég held að hann hefði seint dýrkað „lögmál frum- skógarins „eða tilbeðið afl auðs- ins" (eins og t.d. í Dallas). Þú ert líka alinn upp við angan og ilm íslenskrar moldar. í bernsku þinni, hefur þú eflaust oft setið í gróðurreit frænda þinna og afa í Ystafellsskógi, „í sólskini og sunnanvindi," og beðið þess og vonað að fyrr en varði „riði Sörli í garð". Eins og við vitum báðir, þá er Eyjafjörður ein allra gróðurrík- asta og veðursælasta byggð landsins, og óvíða munu vera betri skilyrði til ræktunarbúskap- ar en þar. Enda hafa eyfirskir bændur líka sýnt það í verki að þeir kunni að notfæra sér það. Þeir báru líka gæfu til að hafa sína uppbyggingu á félagslegum samvinnugrundvelli. Þá hafa þeir einnig verið svo heppnir, að eiga hvern afburða- manninn öðrum betri, til að veita félagssamtökum sínum forstöðu. Nefni ég þar til þá bræður Hall: grím og Sigurð Kristinssyni, Vil- hjálm Þór, Jakob Frímannsson og Val Arnþórsson. En við megum samt ekki gleyma því, að allir erum við breyskir, og getum hrasað, og það þarf sterk bein og staðfestu, til að standast útlent auðmagn. Hins vegar eru landfræðilegar aðstæður þannig í Eyjafirði, að óvíða mun hættulegra að setja niður álver, á landi hér, ef eitt- hvert óhapp kæmi fyrir. Og trúað gæti ég, að þá yrði Eyjafjörður ekki lengur „prýði vors prúða lands", í búskaparlegu tilliti, og mörgum kotbónda myndi þá finnast þröngt fyrir dyrum, ekki síður en ef íslendingar hefðu gef- ið Ólafi digra Gn'msey forðum. En ef á annað borð, við verðum neyddir til að setja upp slíkt iðju- ver, ætti það sjálfsagt best heima á annesjum eða útskerjum. Eins og þú veist og þekkir, þá höfum við þingeyskir samvinnu- menn, litið með nokkru stolti og lotningu til samvinnufélaganna á Akureyri, og velgengi þeirra, þó e.t.v. hafi stundum ekki verið frítt við öfund í tillitinu. Við þig, og störf þín á vegum Sambandsins, höfum við bundið miklar vonir. Þú ert framgjarn, vel gefinn og áhugasamur dugn- aðarmaður. En því er ekki að leyna, að ég og ýmsir fleiri, bera kvíðboga fyrir glímu þinni og Samvinnuhreyfingarinnar, við út- lenda auðhringinn. Aðstaðan virðist svo ójöfn. Þú þarft ekki að halda að þið fáið orkuna á sama verði og kjölturakkinn við Straumsvík. Eða að þið komist í hálfkvisti við þá í skattsvikum. Og hvar og hvernig ætlið þið að taka „hækk- un í hafi". Því væri ég ekkert undrandi, þó Hirti vini mínum á Tjörn og öðrum forráðamönnum Samvinnuhreyfingarinnar við Eyjafjörð, yrði ekki allt of svefn- samt um nætur á næstunni, því varla mun búandkörlum ganga betur að keppa við stóriðjuna um starfskrafta unga fólksins, en Sambandsverksmiðjunum, þó að þeir búi í blómabyggðum Eyja- fjarðar. Furðuleg finnst mér framkoma og viðhorf sumra sjálfstæðis- manna í bæjarstjórn Akureyrar til kvenna (J.G.S. og G.R.) og lítt til eftirbreytni. Framkoma þeirra virðist stundum minna á „karlrembusvín". Það mættu þó þessir góðu menn muna, að af konu eru þeir fæddir, og blíðu kvenna hafa þeir notið. En það veit ég að þú þekkir og vonandi kannt að meta, að á mörgum sviðum standa konur okkur miklu framar. Sérstaklega hafa þær næmari skilning á mannlegum tilfinningum og við- horfum, og þörfum barna og aldraðra, og annarra þeirra sem höllum fæti standa í lífsbarátt- unni. Því finnst mér ástæðulaust, af bæjarstjórn Akureyrar, að líta með fordómum og fyrirlitningu á tillögur og viðhorf kvenna í bæjarstjórninni. Og bágt á ég með að trúa að Valgerður á Lómatjörn eða aðrar eyfirskar konur, muni ganga „hlæjandi til sængur", ef mökkur frá álveri kæmi siglandi austur og/eða inn fjörðinn. Eins og þú veist er ég nú farinn að reskjast, og ekki til mikilla stórræða lengur, en ég kvíði því, ef ég á eftir að horfa upp á vin minn og gamlan skólabróður, Ingimar Brynjólfsson á Ásláks- stöðum, svældan inni eins og melrakka í greni, eða riðinn und- ir á sínu eigin heimahlaði, af út- lendum álfurstum. Og vel skil ég og met, afstöðu og álit Stefáns Valgeirssonar alþingismanns í ál- málinu, og að hann langi ekki til, að sjá skógarlund Önnu í Auð- brekku, rétta krónur sínar -til himins eins og blásna beinagrind á berangri. Þá virði ég einnig afstöðu Ingv- ars Gíslasonar, og mér finnst hann hafa tekið með mjög mikilli skynsemi aðvörun þeirri, sem kjósendur gáfu Framsóknar- flokknum hér í kjördæminu við síðustu kosningar, og rétt sé að flana ekki að neinu, í þessum stjóriðjumálum. Um afstöðu Guðmundar Bjarnasonar er ég hins vegar meira uggandi. En hér áður fyrr, hefðú Þingeyingar goldið honum „rauðan belg fyrir gráan", að vísu í óeiginlegri merkingu, ef hann heldur lengi við trú sína á amerískt auðmagn - þó hann hafi sofið nokkrar nætur í amerísku „móðurskipi". Og að endingu Jón minn: Nátt- úrlega verður það fyrst og fremst ákvörðun Eyfirðinga og Akur- eyringa, hvort æskilegt verður talið að reisa álver við Eyjafjörð, og ekki er líklegt að við Þingey- ingar blöndum okkur mikið í þau mál. Samt vona ég, ef þér eða öðrum samvinnumönnum við Eyjafjörð lægi lítið við, að óhætt væri að nefna nafnið okkar, þó ólíklegt sé, að við eigum nú nokkurn Ófeig í Skörðum, hvað þá graðhesta, til að ríða til Eyja- fjarðar, til að setja þar hnefann í borðið. Hins vegar höfum við Þingeyingar hingað til, fyllt flokk Einars Þveræings, en ekki Guð- mundar ríka. Og ég vona að svo verði enn um langa framtíð. Með vinarkveðju og fyrirbænum, Grænavatni í fyrstu viku þorra 1984 Sigurður Þórisson. „Og er ég þá ekki að leggja álver að jöfhu við Sambandsverksmiðjurnar."

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.