Dagur - 06.04.1984, Blaðsíða 8

Dagur - 06.04.1984, Blaðsíða 8
DAGUR-6. apríl 1984 6. apríl 1984 - DAGUR - 9 „Golfíþróttin hefur veitt mér mjög mikla ánægju eins og öðrum sem þá íþrótt stunda. Það er sama hversu erf- iður vinnudagur er að baki, þú getur alltaf farið upp á golfvöll eft- ir vinnu, labbað nokkrar holur og snúið til baka hress og endur- nærður á sál og lík- ama. Áhyggjurnar og amstrið verða eftir niður í bæ, enda kemst ekkert annað að en golf þegar maður er kom- inn af stað á eftir kúl- unni. “ - Þeir sem hafa tek- ið „golfbakterínuna“ í sig geta án efa tekið undir þessi orð Gísla Braga Hjartarsonar formanns Golfklúbbs Akureyrar, og œtli hann sé ekki þegarfar- inn að gera vart við sig fiðringurinn sem gríp- ur golfara þegar dag- inn tekur að lengja. Menn sitja heima og strjúka kylfur sína og kúlur og bíða þess að golfvöllurinn komi undan snjó. Og strax ogfer að sjást í völlinn undan snjónum eru þeir hörðustu komnir af stað. Gísli Bragi tók við formennsku í Golfklúbbi Akureyrar sl. haust, en það er langt síðan hann kynnt- ist íþróttinni fyrst. „Það var að mig minnir 1957 sem ég fór fyrst í golf og það var vegna þess að kunningjar mínir og félagar á Brekkunni voru farn- ir að stunda þessa íþrótt. Gunnar Sólnes hafði aldrei sýnt neina til- burði í þá átt að taka þátt í flokkaíþróttum, og Árni vinur minn Jónsson var strax svo „bústinn" sem unglingur að slíkt kom ekki til greina. Þeir voru því komnir á kaf í golfið og einn- ig Ragnar Sigurðsson augnlækn- ir, og ég fór með.“ Kommúnisti í golfi - Var ekki golf „heldri manna íþrótt“ á þessum tíma? Ég man ekki betur í mínu ungdæmi en það væri álitið visst stöðutákn ef menn sáust með golfsett í bílnum hjá sér. „Það er staðreynd að golfið var svokölluð heldri manna íþrótt og svo hafði verið frá því það kom fyrst hingað til lands. Það vakti því ekki svo litla kátínu þegar „Nunni Konn“ fór að spila golf og menn höfðu á orði að hann væri eini kommúnistinn í heimin- um sem það gerði. Hann fékk líka oft að heyra það karlinn en svaraði fullum hálsi eins og hon- um einum er lagið. Ég man hvað Jón Sólnes hafði gaman af þessu, að kommúnistinn „Nunni Konn“ skyldi vera golfleikari og auk þess einn af þeim bestu í íþrótt- inni hér. Jón Sólnes talaði mikið um kommúnistann sem spilaði golf, íþrótt sem var bönnuð í Rússlandi og í A.-Evrópu yfir- leitt.“ - En nú eru breyttir tímar? „Já heldur betur. Nú líta menn á golf sem íþrótt fyrir alla; börn, unglinga, konur og karla og aldurinn skiptir ekki máli. Það sést best á því að félagar í golf- klúbbi Akureyrar eru á aldrinum 7-77 ára. Þeir Jón Guðmundsson sem er 77 ára og Jón Sólnes sem er 72 ára spila golf nær daglega á sumrin og gefa ekkert eftir þótt árunum fjðlgi." - Gísli Bragi tók sem fyrr sagði við formennsku í Golf- klúbbi Akureyrar sl. haust. Hvernig bar það að? „Mér fannst það fráleitt að ég tæki þetta að mér þegar það var fyrst nefnt við mig. Mér fannst það sjálfgefið að ef ég tæki mér aukinn tíma til tómstunda yrði það til þess að spila meira golf sjálfur en ekki til þess að fara í stjórnarstörf. En því er ekki að leyna að það var hópur manna innan klúbbsins óánægður með hvernig starfsemi klúbbsins hafði verið. Ég neita því ekki að ýmislegt hefði mátt betur fara en það var líka margt sem vel hafði verið gert. Það hef- ur átt sér stað mjög mikil upp- bygging að Jaðri, bæði hvað varðar völlinn sjálfan og ekki má gleyma klúbbhúsinu. en ég sló til og samþykkti að taka að mér for- mennskuna í eitt ár. Viss metnaður Ég neita því heldur ekki að þarna spilar inn í viss metnaður. Golf- klúbburinn verður 50 ára á næsta ári og það var markmið sem fé- lagar í klúbbnum settu sér á sín- um tíma þegar flutt var upp að Jaðri að á 50 ára afmælinu yrði kominn upp 18 holu völlur og myndarleg félagsaðstaða. Og þótt þeir hafi hugsanlega ekki verið margir sem trúðu því undir niðri að þessi markmið yrðu að veruleika, þá er staðan þannig í dag að nú vantar aðeins herslu- muninn. 18 holu golfvöllur hefur þegar verið tekinn í notkun og það hef- ur verið unnið geysimikið starf við hann á undanförnum árum þótt enn sér nokkuð í land með að hann sé eins og við viljum að hann verði í framtíðinni. Þá er staðan þannig í dag að allt bendir til þess að nýja klúbbhúsið verði fullklárað í vor og tekið í notkun. Þá ætti stjórn klúbbsins að geta snúið sér meira að því sem ég tel að eigi að vera aðalstarf hennar, en það er að efla íþróttina og gefa sem flestum kost á því að vera með. Og það er einmitt það sem er efst á lista hjá okkur því ef vel á að vera þurfa félagar í Golf- klúbbi Akureyrar að vera á bilinu 500-600, en þeir eru ekki nema Það er mikilvægt að stilla sér rétt upp.... rétt um 300 í dag. Þetta þýðir að við fáum ekki nægilega góða nýt- ingu á vellinum og ef við hefðum t.d. 600 félaga myndi það breyta ýmsu. Þá þyrftum við ekki að ganga með betlistaf í hendi fyrir hvers manns dyr eins og nú er því miður, því félagsgjöldin myndu færa klúbbnum auknar tekjur. Það myndi þýða að við gætum verið með erlendan kennara í klúbbnum allt sumarið án þess að taka nokkra fjárhagslega áhættu, en undanfarin ár höfum við orðið að láta okkur nægja að fá hingað golfkennara 1-2 vikur á sumri. Við höfum þegar skipað ungl- inganefnd og nýliðanefnd og þessar nefndir eiga að vinna að því að gera þeim nýliðum sem til okkar koma auðveldara fyrir með að laga sig að aðstæðum. Það þarf að veita byrjendum kennslu og leiða þá fyrstu skrefin. Hingað eru allir vel- komnir og allir geta náð tökum á golfinu til þes að geta haft af því ánægju. Við höfum verið með kennslu í íþróttahöllinni að undanförnu, bæði fyrir unglinga og fullorðna og í sumar munu bæði Þorvaldur Ásgeirsson og Árni Jónsson veita tilsögn upp á golfvelli." - Telur þú raunhæft að ætla að í ekki stærri bæ geti orðið um 600 manna félagsskap að ræða? „Já tvímælalaust. Ef við lítum á þann fjölda sem fer á skíði og deilum í þá tölu með tveimur, þá erum við búnir að finna þann fjölda sem stundar íþróttir með ákveðið markmið í huga. Þetta fólk þarf líka á hreyfingu að halda yfir sumarið og þá er engin íþrótt betri en golfið. Golf er besta trimm-íþrótt sem hægt er að hugsa sér og auk þess svo skemmtileg að ef hún nær tökum á manni þá situr maður fastur, það er svona einfalt. Fimm afreksmenn Þótt eflaust væri hægt að ræða við Gísla Braga um golf lengi, þá var ekki ætlunin að einskorða þetta samtal alveg við golfið. Margir vita að Gísli og Aðalheiður Al- freðsdóttir kona hans eiga 6 börn og þar af eru 5 synir sem allir ....baksveifian er ekki síður vanda- söm.... hafa náð frábærum árangri í íþróttum. Hjörtur Gíslason varð íslands- meistari unglinga í lyftingum áður en meiðsli urðu til þess að hann varð að hætta í þeirri íþróttagrein. Þá fór hann yfir í frjálsíþróttir og hann hefur keppt í landsliði íslands í tugþraut, spretthlaupum og grindahlaupum með góðum árangri. Alfreð Gíslason handknatt- leiksmann þekkja allir sem fylgj- ast með íþróttum. Hann á tugi landsleikja að baki í handboltan- um auk unglingalandsleikja og í vetur hefur hann leikið með V- þýska liðinu Essen í handboltan- um þar ytra við góðan orðstýr. Alfreð þykir nú einn allra snjall- asti handknattleiksmaður okkar. Gunnar Gíslason lét sér ekki eina íþróttagrein nægja heldur hefur hann leikið í landsliði ís- lands bæði í handknattleik og knattspyrnu og er í hópi okkar bestu manna í báðum þessum greinum. Tvíburabræðurnir Gylfi og Garðar Gíslasynir hafa haft sig mjög í frammi á Norðurlanda- mótum unglinga í lyftingum og oftsinnis staðið þar á efstu þrepum verðlaunapalla. Þeir eru framtíð- armenn íslands í þessari íþrótt. Eina dóttur eiga þau hjón og heitir hún Lilja. Hún hefur ekki látið að sér kveða á íþróttasvið- inu enda e.t.v. nóg komið frá einni fjölskyldu. „Óhemju harðir við sjálfa sig“ - Hvað veldur því að allir strák- arnir hafa náð svona langt í íþróttum? „Þar spilar sjálfsagt ýmislegt inn í. Við vorum mjög ung þegar við áttum börnin við Aðalheiður, hespuðum þetta af á 7 árum þeg- ar við vorum 18-25 ára og höfðum bæði verið mikið í íþrótt- um sjálf. Aðalheiður var í hand- bolta í Þór en ég hafði verið að grautast í öllu. Ég var m.a. valinn í unglingalið íslands á skíðum, það fyrsta sem Skíðasambandið sendi úr landi og nokkrum sinn- um varð ég unglingameistari ís- lands í frjálsum íþróttum. Af ....horfa á kúluna - horfa á kúl- una.... þessu leiddi að þegar strákarnir ólust upp var mikið rætt um íþróttir og það hefur sennilega orðið til þess að áhugamál þeirra hneygðust í þá átt. Annað er, að þeir hafa alltaf verið óhemjuharðir við sjálfa sig og gert sér grein fyrir því að í íþróttum eins og öðru verða menn að leggja mikið á sig til þess að ná árangri. Þeir voru til- búnir til þess að gera þetta, og Alfreð t.d. æfði miklu meira en allir jafnaldrar hans þegar hann var unglingur. Ég held að strák- arnir hafi gert sér grein fyrir því að þeir voru ekki fæddar íþrótta- hetjur og að þeir urðu að leggja á sig mikla vinnu til þess að ná langt." Fjör í eldhúsinu - Það hafa heyrst hrikalegar sögur um það að erfitt hafi verið að klæða og þá sérstaklega að fæða alla þessa íþróttastráka þeg- ar þeir voru að vaxa úr grasi. „Já það hafa verið í gangi sögur og sumar lognar og aðrar sannar eins og gengur og gerist. En það gekk oft mikið á við mat- arborðið. Ég man eftir því að þegar strákarnir voru farnir að heiman og við vorum orðin eftir ein heima með stelpuna þá keypti konan 10 kjötskrokka í sáturtíð- inni eins og venjulega, þetta var orðinn vani. En það eru engar ýkjur að oft var tekið hraustlega til matarins og ekki átti þetta síst við þegar félagarnir úr lyftingun- um komu með heim og fengu bita. Það var lygilegt hvað þeir gátu látið ofan í sig og oft fóru miklir peningar í matarinnkaup- in.“ Konan fékk fermingarskeyti Þau Gísli Bragi og Aðalheiður kynntust þegar þau voru í „Gagg- anum“. - „Ætli þeir séu margir sem hafa sent konunni sinni fermingarskeyti,“ segir Bragi og hlær. „Við vorum farin að horfa, heilsast og dansa saman á þessum árum og ég sendi henni skeyti þegar hún fermdist. Það er því miður glatað í dag en það væri gaman að eiga það skeyti. Þegar við ræddum um félags- málastörf Gísla Braga kom í ljós ...sú fékk það óþvegið. að í 6 ár sat hann í stjórn Þórs. Hann var einnig í æskulýðsráði og íþróttaráði og sat þar sem full- trúi Alþýðuflokksins. Skikkaður til liðs við krata - Svo þú ert krati, hvernig vildi það til að þú gekkst til liðs við Al- þýðuflokkinn? „Það er nokkuð skemmtileg saga á bak við það en upphafið var að ég starfaði í Iðnnema- félaginu hér á Akureyri ásamt mörgum góðum mönnum. Einu sinni var ákveðið að efna til kappræðufundar um stjórnmál og þar sem enginn félagsmaður fannst sem vildi halda uppi vörn- um fyrir Alþýðuflokkinn og stefnu hans var ég skikkaður í það. Ég undirbjó mig mjög vel fyrir þennan fund, las bæklinga, rit og greinar um þessa stjórnmála- stefnu og heillaðist af því sem ég las og af því sem Alþýðuflokkur- inn hafði gert og ætlaði sér að gera. Síðan hef ég verið sanntrú- aður. Að vísu nokkuð langt til vinstri í þessu öllu saman og ég held að ef óhæfuverk kommún- ista s.s. í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu hefðu ekki komið til þá hefði ég orðið kommún- isti.“ - Varst þú virkur í Alþýðu- flokknum? „Ég var það nokkuð á sínum tíma eða þar til það slettist upp á vinskapinn hjá mér og nafna mínum Sigurjónssyni. Okkur fannst sumum sem hann væri ein- um of ráðríkur og við stóðum fyr- ir því að það kom framboð á móti honum í prófkjöri innan flokks- ins og Árni Gunnarsson felldi hann 1979. Ég hef ekki verið virkur í Alþýðuflokknum undan- farin ár, en auðvitað fylgist ég með úr fjarlægð og hef mínar skoðanir á hlutunum.“ „Verðum að reyna eitthvað“ Gísli Bragi er einn af eigendum byggingarfyrirtækisins Híbýli h.f. en það fyrirtæki hefur verið stór- tækt á sínu sviði á Akureyri undanfarin ár. Og nú hefur harnað á dalnum hjá bygging- arfyrirtækjum í höfuðstað Norðurlands. „Við höfum brugðist þannig við þessu að reyna að leita eftir verkefnum utan bæjarins, og það má segja að sameiginleg við- brögð fyrirtækjanna sem hafa staðið í eldlínunni hér á þessu sviði hafa verið að stofna fyrir- tækið „Eyfirskir verktakar“. Á vegum þess fyrirtækis er nú unnið að tilboðsgerð vegna byggingar flugstöðvarinnar á Keflavíkur- flugvelli svo eitthvað sé nefnt. Við verðum að reyna eitthvað, en á hinn bóginn má segja áð það sé varla raunhæft að við séum að berjast við stóru fyrirtækin á Reykjavíkursvæðinu hvað snertir þetta verk. Ef við fengjum það þyrftum við að gera út héðan 70 manns og ráða auk þess 80-90 fyrir sunnan. En við væntum þess að það fari eitthvað raunhæft að gerast í málunum hér á svæðinu. Við erum ekki eingöngu að hugsa um fyrirtækin sem við eigum og rekum. Hjá þeim starfar mikill fjöldi manna sem byggir lífsaf- komu sína á atvinnu hjá fyrir- tækjunum og við þessa menn sem sumir hverjir hafa unnið mjög lengi hjá okkur höfum við skyldum að gegna.“ „Viðbrigðin eru mikil“ - Er það ekki afskaplega erfitt að standa í þessum „slag“? „Jú það má segja það. Við- brigðin frá árunum 1972 til 1978 þegar eina vandamálið var að geta ekki framleitt nægilega mik- ið eru að sjálfsögðu mikil. Það sem hefur bjargað Akureyri er að opinberir aðilar hafa byggt mun meira hér en var á þeim árum er mest var að gera við íbúðahúsa- byggingar. En þessum samdrætti hefur fylgt að fyrirtækin hafa farið að undirbjóða hvert annað. Á með- an svo er sjá verkkaupendur sér að sjálfsögðu mestan hag í því að bjóða öll verk út og nú fer mikill tími í tilboðsgerð og þess háttar. - En þegar maður er laus að kvöldi undan þessu daglega amstri er ekkert betra en að tölta upp á golfvöll. Vinnan verður eftir heima, og eftir að hafa labb- að á eftir golfkúlunni svona 2-3 km fer maður heim hress og endurnærður og til í slaginn að morgni.“ gk-. Gísli Bragi Hjartarson formaður Golfklúbbs Akureyrar í helgarviðtalmu

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.