Dagur - 10.09.1984, Blaðsíða 9

Dagur - 10.09.1984, Blaðsíða 9
10. september 1984 - DAGUR - 9 Kveðja f Halldór Ólafsson úrsmíðameistari F. 28.6 1928 - D. 2.9. 1984 í dögun verðurlífið öllum ljúft, sem líta upp og anda nógu djúpt. Að allra vitum ilmur jarðar berst, þó enginn skilji það, sem hefur gerst. En hverri sál, sem eitt sinn Ijósið leit, er Ifknsemd veitt og gefið fyrirheit. Pví mun hún aldrei myrkri ofurseld, að minningin er tengd við dagsins eld. Sá einn ersasll, sem á sinn morgunheim. Sá einn er tign, sem lýtur mætti þeim, ergetur björgum líkt og laufi feykt og lífsins eld á jörð og himni kveikt. í dögun. - Davíð Stefánsson. Um sólarlagsbil sunnudaginn 2. september andaðist vinur okkar Halldór Ólafsson á Fjórðungs- sjúkrahúsinu á Akureyri eftir erf- iða banalegu. Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta þetta kvöld eins og hann hefur lengst af gert í sumar. Þó drottni nú hin djúpa þögn kringum vin okkar þá er mér ómögulegt að tengja kvöldið eða myrkrið við minningu hans. Það er dögunin og dagsins eldur sem verður okkur efst í huga. Davíð Stefánsson segir í kvæði að guðirnir gefi þeim gleði sem landið sjái. Ut við nes og nafir, á árbakka eða við fjallsbrún, á ferð og flugi hefur okkur félögunum, konum og körlum, verið gefin mikil gleði, sem við deildum lengi með Halldóri Ólafssyni. Hann kunni öðrum mönnum bet- ur að meta dögunina er „gleði himinsins flæðir yfir fjöll og byggð og höf, og allt er líf sem andinn skynjar og augað lítur.“ Leiðir okkar Halldórs lágu fyrst saman í skíðalöndum Akur- eyringa upp úr stríðinu er hann var keppandi fyrir Knattspyrnu- félag Akureyrar. Æ síðan reynd- ist Halldór þarfur maður því ágæta félagi. Lionsklúbburinn Huginn naut einnig góðs af kröftum hans. Þetta félagsstarf varð til þess að fjölskyldur okkar tengdust vináttuböndum og brátt varð til nokkur hópur fjölskyldna sem sameinaðist í veiðiferðum í Vopnafjörð, ferðalögum á há- lendinu og veiðibúskap að Keld- um í Sléttuhlíð, þar sem alþýðu- snillingurinn Sölvi Helgason fæddist, og nafni hans vaggar nú á gárum Sléttuhlíðarvatns. Ferðalög til útlanda tilheyrðu einnig þessum góðu, liðnu stundum. Um þátt Halldórs í öllu þessu eiga vel við orðin í kvæði Davíðs: „Hann gekk heill að hollu verki, heimtaði allt af sjálf- um sér. “ Hann hlífði sér aldrei í sameiginlegum verkum og var alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd hvar sem þurfti að leggja hönd á plóginn eða létta undir með náunganum. Hann var formaður Flugbjörgunarsveitar Akureyrar um árabil og vann þar mikið starf. Halldór Ólafsson fæddist 28. júní 1928 að Arndísarstöðum í Bárðardal, elstur barna Ólafs heitins Tryggvasonar huglæknis og Arnbjargar Halldórsdóttur konu hans. Halldór fluttist til Akureyrar er hann var 15 ára gamall og hafði hug á að nema rafvélavirkjun. Sveitastörfin áttu ekki við hann en hann tók fagn- andi hverju tæki sem á bæinn kom og linnti ekki látum fyrr en hann hafði rifið þau sundur og sett saman að nýju. Fyrsti vísir- inn að innreið tækninnar í sveita- búskapinn kom ímyndunaraflinu af stað og markaði framtíðar- brautina. Halldór var of ungur til þess að vera tekinn í vélavirkjun, en þá kom til skjalanna frændi hans, Bjarni heitinn Jónsson úr- smíðameistari og bauð honum til sín í læri. Það var heillaspor því leitun var að öðrum eins ná- kvæmnis- og þolinmæðismanni í þessa iðn. Halldór Ólafsson varð mikils metinn í sinni stétt og úr- smíðaverkstæði hans og sölubúð fjölsótt af Akureyringum og nær- sveitamönnum alla tíð. 27. maí 1950 var annað heilla- spor stigið er Halldór kvæntist eftirlifandi konu sinni Oddnýju Laxdal, dóttur hjónanna Jóns Laxdals og Huldu Jónsdóttur frá Meðalheimum á Svalbarðs- strönd. Heimili þeirra hin síðari ár að Eyrarlandsvegi 24 var ein- staklega fallegt og þangað var og er gott að koma. Halldóri og Oddu varð fjög- urra drengja auðið. Elstur er Jón Laxdal skáld f. 19.7. 1950, giftur Oddu Margréti Júlíusdóttur og eiga þau eitt barn Völu Dögg. Þá er Ólafur fiskifræðingur f. 30.8. 1954, kvæntur Gígju Gunn- arsdóttur. Dóttir þeirra er Þóra Sif. Dreng eignuðust þau 14.2. 1962 sem var skírður Ingvár en lést nokkurra vikna gamall. Yngstur er Halldór Halldórsson f. 18.6. 1965, nemandi í Mennta- skólanum á Akureyri. Allt eru þetta drengir sem hefur verið ánægjulegt að kynnast og vera samvistum við í uppvexti þeirra. Halldór Ólafsson var hár maður, grannvaxinn og myndar- legur á velli. Honum var fremur stirt um mál en það háði honum aldrei í vinahópi. Hins vegar má vera að ókunnugum hafi þótt hann heldur fámáll. Svipur hans var ætíð bjartur og kankvís og lýsti góðum gáfum. Skapið var mikið en svo vel hamið að dag- farsprúðari mann var ekki hægt að hugsa sér. „Menn halda stundum skammt á leikinn liðið,/ er lífið dregur tjaldið fyrir sviðið.“ Við höfðum hlakkað til miklu fleiri samveru- stunda með Halldóri en það deil- ir enginn við dómarann í lífsins leik. Við verðum að vera þakklát fyrir að hafa notið leiksins saman þó að það sé ofar okkar getu að skilja tilgang hans og erfitt sé að sætta sig við svo skjótan endi og skamman leiktíma. Megi Guð varðveita hann og styrkja. Fyrir hönd okkar Sigríðar og fjölskyldunnar að Norðurbyggð 23 færi ég Oddnýju vinkonu minni, drengjum hennar, Arn- björgu móður Halldórs, svo og öllum vinum og vandamönnum, innilegustu samúðarkveðjur. Ég veit að þau munu líkt og við geyma minninguna um góðan dreng sem helgan dóm. Haraldur M. Sigurðsson. Sunnudagskvöldið 2. september barst sú sorgarfregn um Akureyr- arbæ að Halldór úrsmiður væri látinn. Okkur var nú horfinn sjónum kunnur hagleiksmaður og ljúfmenni. Hann hafði mátt þola þungar sjúkdómsraunir í tvo mánuði svo að fráfall hans kom ekki að öllu á óvart. Hann var fæddur 28. júní 1928 að Arndísarstöðum í Bárðardal og var elstur fjögurra systkina. Foreldrar hans voru hjónin Ólaf- ur Tryggvason bóndi þar, síðar landskunnur fyrir huglækningar og kona hans Arnbjörg Halldórs- dóttir frá Seyðisfirði. Eftir bernskuárin í sveitinni kom Halldór til Akureyrar 15 ára gamall og hóf hér nám í Iðnskól- anum og úrsmíðanám hjá Bjarna Jónssyni skáldi frá Gröf. Honum sóttist hvoru tveggja vel, enda greindur og iðinn og snemma fór orð af verklagni hans. Mikil vin- átta tókst með þeim Bjarna og mat Halldór mikils læriföður sinn og Ólöfu konu hans. Vorið 1950 kvæntist hann Oddnýju Jónsdóttur Laxdal frá Meðalheimi á Svalbarðsströnd og reyndust það vera mestu gæfu- spor lífs hans, svo mjög sem hún var samhent manni sínum í einu og öllu og heimili þeirra rómað fyrir hlýju og myndarskap. Synir þeirra þrír eru, Jón kennari hér í bæ, Ólafur fiskifræðingur í Reykjavík og Halldór nemi í M.A. Halldór vann að iðn sinni og verslunarrekstri í nær 40 ár hér í bæ við almennar vinsældir. Hon- um bárust verkefni víðs vegar af landinu, sem öll virtust auðveld í hagleikshöndum hans. Þrátt fyrir hægláta framkomu og látleysi var hann snemma eftirsóttur til þátttöku í félags- málum og munaði hvarvetna um liðsinni hans. Hann hafði sjálfur fá orð um það en lét verkin tala. Fjallaferðir og skíðaiðkun var eitt af hugðarefnum Halldórs og þar hóf hann fyrstu kynni sín af félagsmálum. Hann var góður skíðamaður og vann þar til verð- launa. Sökum dugnaðar og ósér- hlífni var hann um skeið formað- ur Skíðaráðs Akureyrar og starfsmaður við fjölda íþrótta- móta í mörg ár. Þess má geta að fyrsti vísir að skíðatogbraut hér í bæ var verk Halldórs og nokk- urra félaga hans. Hann var virkur þátttakandi í Ferðafélagi Akur- eyrar, ætíð dugandi og úrræða- góður og til marks um traust það sem borið var til hans var að hann var fenginn sem aðstoðar- maður í Öskjuleiðangur Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Halldór hafði unun af veiði- skap og var einn þeirra félaga sem keypti lítið veiðibýli, Keldur, vestur í Skagafirði og fjölmargar urðu þar vinnustundir hans við uppbyggingu staðarins. Flugbjörgunarsveitin á Akureyr- ar naut starfskrafta hans og gegndi hann þar formannsstarfi um hríð. Þá var hann ennfremur einn af máttarstólpum Lions- klúbbsins Hugins og Knatt- spyrnufélags Akureyrar um langt árabil og um tíma í stjórn þeirra beggja. Svo sem sjá má var Halldór gæddur óvenju miklu starfsþreki og Oddný kona hans studdi hann dyggilega í störfum hans og hugðarefnum og ómældir eru all- ir þeir kaffibollar og veitingar sem hún veitti hinum ýmsu fé- lögum á heimili þeirra, enda voru oft haldnir þar fundir. Halldór var ekki einungis gæddur næmleika á hinu verklega sviði heldur einnig á hinu listræna og nutu þau hjón ríkulega tón- leika, leiksýninga og myndlistar- sýninga og ber heimili þeirra þess vott. Nú þegar þessi óvenjulegi og fjölhæfi maður hefir lokið fagurri lífsgöngu er mörgum þakklæti og söknuður í huga. Við Elsa kveðj- um með trega góðan vin og þökkum áratuga tryggð og vin- áttu og biðjum hinn æðsta að veita Oddnýju og öllum skyld- mennum styrk á þessari þung- bæru stundu. Haraldur Sigurðsson. t Halldór Ólafsson og Pétur Pálmason Pétur Pálmason Kveðja frá íþróttabandalagi Akureyrar Ég heyri ykkur kvaka af kvistum þrestir með klökkum róm, er sumri fer að halla og blómin visna, blöð af greinum falla og boða haust, en snjó á jörðu festir. (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi) Með örskömmu millibili hafa fallið frá tveir menn er skráð hafa nöfn sín í sögu íþróttabandalags Akureyrar. Báðir störf- uðu í Skíðaráði Akureyrar og annar í stjórn f.B.A. um langt árabil. Báðir störfuðu af festu og heilindum. fþróttaiðkendur á Akureyri bera söknuð í brjósti. Pétur Pálmason verkfræðingur andaðist 1. september 1984. Halldór Ólafsson úrsmiður andaðist 2. september 1984. Við vottum þeim virðingu okkar og þökk og sendum að- standendum öllum dýpstu samúðarkveðjur. Stjórn íþróttabandalags Akureyrar. Kveðja frá Lionsmönnum „Sjaldan er ein báran stök.“ Orðtæki þetta sannast oftlega þegar voveifleg tíðindi ber að höndum og hafa atburðir síð- ustu vikna verið svo sem til staðfestingar þvf. Enn virtist þetta ásannast um síðastliðna helgi gagnvart okkur félögum í Lionsklúbbnum „Huginn", þeg- ar tveir hinir mætustu menn úr hópnum hurfu af sjónarsviðinu, Halldór Ólafsson, úrsmiður, eftir nokkurra vikna sjúk- dómsstríð og Pétur Pálmason, verkfræðingur, óvænt og fyrir- varalaust. Báðir voru þeir í klúbbnum um langt árabil og gegndu trúnaðarstörfum innan hans, m.a. sem stjórnarmenn. Ennþá var þó meira um vert að þeir höfðu til að bera óhvikulan áhuga og samviskusemi í störfum, ævinlega boðnir og búnir til starfa þegar leita þurfti til félaganna er leysa þurfti verkefni með sameiginlegu átaki innan klúbbsins. í því gengu þeir fram af alúð, prúð- mennsku og hógværð sem báð- um var ásköpuð. Óefað fannst einhverjum okkar félaga að Ijár hins slynga sláttumanns hvini ónotanlega nærri þegar tíðindin um lát þeirra bárust. Missir okkar er þó smávægilegur hjá þeim söknuði og harmi sem kveðinn er að fjölskyldum og vanda- mönnum við fráfall manna á miðjum starfsaldri. Undanfar- andi fátækleg orð eiga að votta aðstandendum innilega samúð okkar og hluttekningu. Kveðja frá félögum í Lionsklúbbnum „Huginn“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.