Dagur - 01.03.1985, Blaðsíða 9

Dagur - 01.03.1985, Blaðsíða 9
1. mars 1985 - DAGUR - 9 fást um slíka hluti; ég hafði ekki troðið neinum um tær. Ég hafði ekki beðið um þetta starf að fyrra bragði, þannig að ég kom inn í KEA með mjög góða samvisku, fullur af áhuga. Ég hef þar að auki tiltölulega gott jafnaðargeð og á yfirleitt auðvelt með að umgangast fólk. Ég einsetti mér að setja það ekki fyrir mig, þótt einhver kynni að reka horn í síðu þess, að hingað kæmi ungur maður til ábyrgðarstarfa. Ég kom því hing- að í góðu jafnvægi. Ég eignaðist fljótt marga góða vini meðal yngri sem eldri starfsmanna kaupfélags- ins.“ - Hvernig gekk samstarf ykkar Jakobs? „Mjög vel eftir að við kynntumst hvor öðrum og þegar frá leið var vin- átta okkar bundin traustum böndum. Jakob er sá maður sem ég met hvað mest af þeim mönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni; hann kemur næst föður mínum. Við Jakob kom- um úr ólíku umhverfi; hann úr gróskumiklu landbúnaðarhéraði í Eyjafirði, en ég frá litlu sjávarplássi austur á landi. Þar að auki vorum við á ólíkum aldri og ólíkir að allri pers- ónugerð. Við vorum því nokkuð lengi að finna hvor annan, en sam- starf okkar gekk ótrúlega vel. Það urðu aldrei neinir meiriháttar árekstrar okkar á milli.“ - Síðan tekur þú við af Jakobi? „Það var um það samið þegar ég hætti hjá Samvinnutryggingum, að ég hefði tveggja ára umhugsunar- frest; ég gæti snúið þangað aftur á þeim tíma ef dæmið gengi ekki upp hjá KEA. En við kunnum ákaflega vel við okkur hér fyrir norðan og hér er ég enn. í ársbyrjun 1970 ákvað stjórnin að ráða mig sem aðstoðar- kaupfélagsstjóra, án þess að ég hefði þar nokkurt frumkvæði. Þá má segja að stjórnin hafi gefið um það tóninn, að hún vildi að ég tæki við af Jakobi þegar hann léti af störfum 1971 vegna aldurs. Það kom því sem af sjálfu sér, að ég tók við starfi hans, án þess að það væri auglýst eða til átaka kæmi um mína ráðningu. Þá var Brynjólfur Sveinsson stjórnar- formaður og okkur varð gott til vina. Hann er með gáfaðri mönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Fleiri mætir menn hafa reynst mér vel í stjórninni. Sérstaklega vil ég nefna vin minn Sigurð Óla Brynjólfsson, sem lést á síðasta ári langt fyrir aldur fram. Einnig hef ég átt mjög gott samstarf vð núverandi formann, Hjört E. Þórarinsson á Tjörn, sem er tryggur vinum sínum og hollráður. Formlega varð ég kaupfélagsstjóri í júní 1971.“ - Það hafa verið mikil völd og mikil ábyrgð að axla fyrir 35 ára gamlan mann. Hvernig tilfinning var það? „Það var ágæt tilfinning. Ég var í góðu hugarjafnvægi, þekkti félagið vel, þannig að ég vissi út í hvað ég var að fara. Ég var bjartsýnn, það voru uppgangstímar, þjóðin hafði rétt við eftir kreppu, og það stóðu flestir hlutir með blóma í Eyjafirði. Það var líka ljóst, að mín biðu mörg og stór verkefni. En ég hugsaði ekki um þetta sem valdamikið embætti hvorki þá né síðar. Fyrst og fremst leggja slík embætti manni miklar skyldur á herðar og þegar maður starfar í samvinnufyrirtækjum verður maður fyrst og fremst að líta á sig sem starfsmann mikils fjölda fólks. Kaupfélagsstjóri er í þjónustuhlut- verki og það er skylda hans að starfa í farvegi þeirrar stefnu, sem á rætur sínar hjá því fólki sem stendur að þessum fjöldasamtökum.“ v Margt hefur vel til tekist - Nú eru liðin 14 ár frá því að þú tókst við sem kaupfélagsstjóri. Ertu ánægður með þróunina hjá félaginu á þeim tíma? „Um margt er ég það, á mörgum sviðum hefur starfsemin verið kröft- I ug á undanförnum árum. Hinu er ekki að leyna, að þegar tekist er á við eitt stórt verkefni verða önnur hð bíða. Það er ekki hægt að gera allt í einu og það bíður skafl af spennandi verkefnum á næstu árum, sem sýnir það best hvað starfsemi félagsins er byggðarlaginu mikilvæg.“ - Kaupfélagsformið sem slíkt, er það til frambúðar? . „Það er ómögulegt að fullyrða neitt um það. Þetta samvinnuform sem er á íslandi, blönduð samtök framleiðenda og neytenda, er mjög sérstætt og á sér ekki hliðstæður t.d. á Norðurlöndunum. Þar eru fram- leiðendur sér og neytendur sér. Svona blönduð félög eru þó til ann- ars staðar í heiminum, t.d. austur í Japan. Það er ekkert vafamál, að á því þróunarskeiði sem ísland hefur gengið í gegnum á síðustu öld, þá nefur þetta samvinnuform reynst mjög vel. Þess vegna hafa félögin orðið stærri, öflugri og fjölþættari, þannig að þau hafa verið brjóstvörn og sóknartæki landsins, sérstaklega þó dreifbýlisins. Það er hins vegar ljóst, að þjóðlífið er að breytast og samvinnufélögin þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum á hverjum tíma. Þróunin hefur verið í þá átt, að þétt- býlið hefur eflst. Það fækkar í sveit- um og dregur úr landbúnaði, sem mér persónulega finnst umdeilanleg þróun. Af þeim sökum hafa sam- vinnufélögin minna hlutverk á því sviði. Á sama tíma hefur bryddað á aukinni spennu á milli dreifbýlisbúa og þeirra sem búa í þéttbýlinu. Það er spurning hvort þessi spenna, ef hún verður viðvarandi, leiðir til breytinga í samvinnuhreyfingunni. Ég held að þau mál verði samvinnu- hreyfingin að skoða innbyrðis sjálf. Ég held að það sé hægt að gera skipulagsbreytingar á samvinnu- hreyfingunni, þannig að hver hags- munahópur út af fyrir sig hafi meiri áhrif á sín málefni heldur en nú er, án þess að hreyfingin sé klofin upp. Þess vegna held ég að kaupfélögin og samvinnuhreyfingin eigi langa líf- daga fyrir höndum, ef þess er gætt að aðlaga skipulagsmálin breyttum tím- um hverju sinni.“ 4 Alltaf staðið styr um samvinnu- hreyfinguna - Nú hefur samvinnuhreyfingin verið gagnrýnd harðlega á ýmsum tímum. Sú gagnrýni beinist þá að samtökunum sem heild eða stjórn- endum þeirra persónulega. Á þessi gagnrýni við einhver rök að styðjast? „Það hefur alla tíð staðið mikill styr um samvinnuhreyfinguna. Það er eðlilegt að svo verði áfram. Það eru ákveðin hagsmunaátök í þjóðfé- laginu og mörgum þeim sem eru í einkarekstri finnst samvinnuhreyf- ingin vera fyrir sér. Þess vegna eru þeir henni andvígir, enda liggja þarna mjög mismunandi hugsjónir til grundvallar, þannig að árekstrar eru óumflýjanlegir. Persónulega hef ég sloppið við op- inberar árásir og út af fyrir sig kann ég að meta það. Hins vegar eru þær árásir sem dynja á samvinnuhreyf- ingunni nú af sérstökum toga. Þær endurspegla þau hagsmunaátök sem eru í þjóðfélaginu á milli höfuðborg- arsvæðisins og landsbyggðarinnar. Samvinnuhreyfingin dregst óhjá- kvæmilega inn í þessi átök, þar sem hún á fremur rætur sínar í dreifbýl- inu. Núna heyrir maður nýjar og mjög kindugar raddir frá Reykjavík, sem eru af allt öðrum toga en áður, samanber nýlegt erindi Um daginn og veginn í útvarpinu, sem frægt er með eindæmum. Það er ekkert vafa- mál, að þeir sem reka tryppin á þennan hátt, telja að samvinnuhreyf- ingin standi í vegi fyrir þeirri þróun sem þeir vilja stuðla að. Einkum hefur sókn samvinnu- hreyfingarinnar á höfuðborgarsvæð- inu farið fyrir brjóstið á þessum mönnum, sérstaklega stofnun Mikla- garðs. Þar hefur verið höggvið skarð í smásöluvígi einkarekstursins á höfuðborgarsvæðinu. Af hálfu sam- vinnuhreyfingarinnar er þetta ek'.ci nema eðlilegt. Samvinnuhreyfingin hlaut að leitast við að efla sína smá- söluverslun á höfuðborgarsvæðinu, aðalmarkaðstorgi þjóðarinnar, til þess meðal annars að tryggja mark- aðsaðstöðu fyrir framleiðsluvörur sinna umbjóðenda, hliðstætt við það sem Sláturfélag Suðurlands hafði gert. Það sem andstæðingar okkar kalla „skipulega sókn“ í sjávarútvegi hefur líka farið verulega fyrir brjóstið á ýmsum einkaframtaksmönnum. Þetta er grundvallarmisskilningur. Slík stefna hefur aldrei verið mynduð hjá samvinnuhreyfingunni. Þetta hefur ekki verið annað en sjálfvirk þróun, samhliða því að við höfum eðlilega reynt að standa okkur vel á sjávarútvegssviðinu. Það hefur verið lögð áhersla á gott skipulag, hag- kvæmni í rekstri og hágæðavöru á öllum sviðum. Þetta hefur tekist og við uppskerum samkvæmt því. Á sama tíma hefur borið á sam- drætti á sumum höfuðsvæðum einka- framtaksins, t.d. á Suðurnesjum. Þar voru mörg fyrirtæki og smá, sem ekki virðast hafa nýtt það fjármagn sem þar myndaðist í góðærum, til að byggja fyrirtækin upp og styrkja þau til að mæta erfiðleikum. Stjórnendur þeirra hafa heldur ekki gætt þess að skipuleggja fyrirtækin í nægilega stórar heildir. Þar við bætist að ver- tíðarfiskurinn, sem er stór hluti af hráefni þessara húsa, hefur ekki reynst eins gott hráefni til frystingar. Við höfum hins vegar víðast haft mjög gott hráefni, rekstur okkar hef- ur verið allvel skipulagður og okkar sölusamtök hafa sýnt af sér framtak og árvekni. Þetta hefur lyft okkur upp í bili, en dæmið getur vissulega snúist við. Það skiptast á skin og skúrir í þessu sem öðru. Þetta er undirrótin að þessari herferð, sem margir vilja meina að hafi verið skipulögð á hendur sam- vinnuhreyfingunni að undanförnu. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Persónulega á ég marga góða vini innan einkaframtaksins, sem ég ber hlýjan hug til og ég veit að því er líkt varið með marga mína samherja í samvinnuhreyfingunni." Máttur hinna mörgu - Máttur hinna mörgu, eða vald fárra stjórnenda? „Að sjálfsögðu er samvinnuhreyf- ingin máttur hinna mörgu. Það heyr- ist svo sem, að hreyfingin sé einungis fjöldahreyfing að nafninu til, því að í reynd sé hér einungis um að ræða auðhring undir stjórn fárra einstakl- inga. Þessi gagnrýni sést einkum í fjölmiðlum á höfuðborgarsvæðinu, og hún er sett fram af fólki sem þekk- ir ákaflega lítið til skipulags hreyfing- arinnar. Syðra sér fólk tæpast annað en Sambandið og setur því samasem- merki milli þess og hreyfingarinnar. Sambandið eigi öll kaupfélögin og helst Framsóknarflokkinn að auki, en öllu sé þessu stjórnað af örfáum mönnum sem sitji uppi í Sambands- húsi. Það vita allir, sem þekkja innviði hreyfingarinnar, að þetta er alrangt. Þeir vita að kaupfélögin um allt land eru sjálfstæð og í eigu fólksins á hverjum stað. Kaupfélögin halda mikinn fjölda funda, deildarfundi, stjórnarfundi og aðalfundi, sem kjósa fulltrúa á aðalfund Sambands- ins. Og það eru kaupfélögin sem eiga Sambandið, en ekki öfugt, eins og svo margir virðast halda. Það eru ekki til þau fyrirtæki á íslandi, sem lúta eins lýðræðislegu skipulagi við ákvarðanatöku og samvinnufélögin. Það sést af öllum þeim fjölda fólks, sem tekur þátt í að marka stefnuna á hverjum tíma. Samvinnuhreyfingin er því máttur hinna mörgu, en ekki undir stjórn fárra manna." - Á síðasta aðalfundi Sambands- ins var ágreiningur um samþykktar- breytingar, sem margir vildu túlka sem upphlaup alþýðubandalags- manna innan Sambandsins. Nú eru stjórnmálaflokkar fíknir í að ná áhrifum í fjöldahreyfingum; verður þú var við það, eru alþýðubandalags- menn t.d. að reyna að ná völdum í Sambandinu? „Nei, það held ég ekki. Það er ekki nýtt, að skoðanaágreiningur komi upp á aðalfundum Sambands- ins og stundum hefur verið deilt þar harkalega, þó oftar nái menn saman. Átökin á síðasta aðalfundi voru alls ekki flokkspólitísk. Þau snerust fremur um það hvað fulltrúar á aðal- fundinum ættu að fá langan tíma til að fjalla um vandasöm viðfangsefni. Kannski voru þetta átök um hversu virkt lýðræðið ætti að vera. Þeir sem vildu hafa það sem virkast vildu fá tækifæri til að skoða þessar sam- þykktarbreytingar betur. Ég var þeirrar skoðunar, að það væri að skaðlausu fyrir Sambandið, að þessar breytingar fengju að bíða í eitt ár. Ég taldi raunar að það yrði gagnlegt fyr- ir lýðræðið í hreyfingunni. Enda var það tilgangur okkar sem stóðum að þessum samþykktarbreytingum, að efla það. Hins vegar skynjaði fólkið á aðalfundinum þetta nokkuð á ann- an hátt. Á aðalfundi Sambandsins er fólk úr öllum flokkum, sem sameinast undir merki samvinnustefnunnar. Þetta fólk á heima í flokki „félags- hyggjumanna", samvinnujafnaðar- manna og er að finna allt frá miðju Alþýðubandalagsins yfir að miðju í Sjálfstæðisflokknum.“ - Þurfa menn að vera framsóknar- menn til að ætla sér að verða eitthvað innan samvinnuhreyfingarinnar? „Nei, það er ekki nauðsynlegt, en það skaðar ekki! Það er þó ekki hægt að ganga framhjá mönnum vegna þess að þeir eru framsóknarmenn! En við skulum átta okkur á því, að það eru mikil hugsjónatengsl á milli Framsóknarflokksins og samvinnu- hreyfingar, alveg á sama hátt og mér finnst mikil tengsl á milli jafnaðar- manna og samvinnuhreyfingar. For- ystumenn samvinnuhreyfingarinnar þurfa að vera samvinnumenn fyrst og fremst, en hvar þeir eru í flokkspólit- íkinni skiptir ekki öllu máli.“ - Það hefur ekki hvarflað að þér að ganga í flokk með föður þínum og gerast alþýðuflokksmaður? „Sem krakki áleit ég alveg sjálfsagt að ég væri alþýðuflokksmaður. En það breyttist þegar ég fór að hlusta á málflutning manna á framboðsfund- um austur á landi. Einkum heillaðist ég af Eysteini Jónssyni, þannig að hann ber ábyrgð á því að ég gerðist framsóknarmaður. En ég hef hins vegar ekki látið af því að vera jafnað- armaður, þannig að ég er samvinnu- og jafnaðarmaður, en í Framsókn- arflokknum.“ H Kom öllum á óvart - Fyrst við erum komnir út í pólitík. Þú varst kosinn í bæjarstjórn 1970 og sast þar í tvö kjörtímabil, varst m.a. forseti bæjarstjórnar um árabil. Síð- an gafstu ekki kost á þér við kosning- arnar 1978 og sú ákvörðun kom mönnum á óvart. Hvers vegna hættir þú í bæjarpólitíkinni? „Já, þessi ákvörðun mín kom flatt upp á marga, en hún var tekin að vandlega athuguðu máli. Þá þegar höfðu hlaðist á mig mikil störf. Ég var því kominn að þeim punkti, að þurfa að velja og hafna. Það var ekki gerlegt fyrir mig að halda áfram í þessu öllu. Og ég ákvað að leggja störfin í bæjarstjórn Akureyrar á hilluna. Þannig gat ég betur helgað mig störfum innan samvinnuhreyf- ingarinnar og ég hafði það á tilfinn- ingunni að þau myndu aukast, sem líka varð raunin á. En þetta var erfið ákvörðun, en það létti mér valið að ég vissi af manni í bæjarstjórn, sem ég treysti jafnvel betur heldur en sjálfum mér til að berjast fyrir mínum lífssjón- armiðum. Þar var um að ræða Sigurð Óla Brynjólfsson, sem var minn besti vinur og nánasti samstarfsmaður á sviði félagsmála. Síðan hef ég þurft að sjá á bak Sigurði Óla, en aðrir mætir menn hafa haldið uppi merk- inu. Þeirra á meðal er Sigurður Jó- hannesson, mjög góður vinur minn, sem ég treysti ákaflega vel.“ - Síðan þetta gerðist hefur þú ver- ið orðaður við framboð til Alþingis. Heillar það þig? „Nei. Reyndar hefur það komið nokkrum sinnum til tals og fyrir all- „Sigurður ÓIi Brynjólfsson var besti vinur minn." - Valur og Sigurður Óli á aðalfundi KEA 1979.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.