Dagur - 11.03.1985, Blaðsíða 4

Dagur - 11.03.1985, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - 11. mars 1985 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SÍMI:. 24222 ÁSKRIFT KR. 200 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 28 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: GlSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRlKUR ST. EIRÍKSSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI: 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Dollaralánin Á almennum stjórnmálafundi með þing- mönnum Framsóknarflokksins í Norðurlands- kjördæmi eystra fyrir skömmu kom fram fyrir- spurn um það, hvort ekki hefði verið hugleitt að stjórnvöld leyfðu þeim, sem hafa til þess traust og möguleika, að taka erlend lán án milligöngu íslensku bankanna. Fram kom í svari að þetta hefði verið hugleitt. Það er ekki að ófyrirsynju að slík spurning skuli koma fram. íslensku bankarnir eru illa í stakk búnir til að lána til atvinnuveganna og ef um einhverja verulega fyrirgreiðslu er að ræða hafa bankarnir aðeins milligöngu um lántöku og útvegun ábyrgða. Oft á tíðum eru þessir sömu bankar smærri og vanmegnugri fyrirtæki en þau sem þurfa á láninu að halda. Því þarf þá þessa milligöngu, sem óhjákvæmi- lega kostar lántakandann meira, því bankinn íslenski verður jú að fá sitt? Af hverju má ekki skipta beint við erlenda banka og taka lán í þeirri mynt sem hagfelldast er fyrir hvert fyrirtæki. Og þarna er ef til vill komið að kjarna málsins: Fjölmargir forráðamenn ís- lenskra fyrirtækja súpa nú seyðið af því að hafa tekið lán í dollurum en ekki öðrum er- lendum myntum. Þeir halda því fram að þeir hafi engu fengið um það ráðið í hvaða mynt lánin hafi verið tekin, eða a.m.k. hafi þá ráð- leggingar bankanna , einkum Seðlabankans, verið í þá veru að taka bæri dollaralán. Húsvíski togarinn Kolbeinsey er gott dæmi um þetta. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar hefur haldið því fram að útgerðin hafi ekki haft neitt val. Þeir hafi mátt gjöra svo vel að undirrita tilbúna pappíra frá bankanum þegar að því kom að taka lán. Skuldir Kolbeinseyjar eru nú hátt á þriðja hundrað milljónir og talið er að ef lánin hefðu verið tekin í hagstæðri Evrópumynt, en ekki í dollurum, þá stæðu Húsvíkingar ekki frammi fyrir því nú að sjá á eftir togaranum á uppboð. Þarna er talið að um milljónatugi sé að ræða í mismun. Annað fyrirtæki sem bent hefur verið á að stæði mun betur nú ef ekki hefðu komið til dollaralán er Hitaveita Akureyrar. Veitan skuldar nú um 1,7 milljarð króna og þar af eru 43% í evrópskum myntum, hitt í dollurum. Dollarinn hefur hækkað langt umfram flesta aðra gjaldmiðla og vegna þessa er talið, að verðgildi þess hluta lána Hitaveitu Akureyrar sem er í dollurum, hafi hækkað 240 milljón krónum meira því í júní 1982 til þessa dags, heldur en ef sama upphæð hefði verið tekin í þýskum mörkum. Séu þessar fullyrðingar réttar, sem full ástæða er til að þrautkanna, hafa ráðgjafar bankanna sem spá í þróun gjaldmiðla tekið alrangar ákvarðanir, sem valdið hafa þjóðar- búinu ómældu tjóni. Frumsýning Leikfélags Akureyr- ar á Edith Piaf. Höfundur: Pam Gems. Pýðandi leikrits og söngva: Þór- arinn Eldjárn. Leikmynd og búningar: Guðný Björk Richards. Lýsing: Viðar Garðarsson. Hljómsveitarstjóri: Roar Kvam. Leikstjóri: Sigurður Pálsson. Aðalhlutverk: Edda Þórarins- dóttir, Sunna Borg, Guðlaug María Bjarnadóttir. Þakið ætlaði að rifna af Sam- komuhúsinu eftir frumsýninguna á Piaf á föstudagskvöldið. Önnur eins hrifningaralda hefur tæpast heyrst í húsinu, enda var sýningin stórkostleg í einu og öllu. Ég þori að fullyrða að litlu hafi mátt muna að salurinn tæki ekki undir í vinsælustu og þekktustu lögun- um, s.s. Milord. Hefði það raun- ar verið vel viðeigandi. Allir þekkja lagið og viss er ég um að á tónleikum Piaf hefur áheyr- endaskarinn tekið undir með henni. Ég sá raunar ekki betur en Edda Þórarinsdóttir, sem leikur Edith Piaf með einstakri prýði, hafi verið að hvetja áheyrendur til að vera með. Vonandi verður sú raunin á öllum þeim sýningum sem hljóta að koma í kjölfarið. Ég er illa svikinn ef Piaf verður ekki vinsælasta stykkið sem L.A. hefur boðið upp á til þessa. Að mínu mati slær þessi sýning My Fair Lady út svo um munar og reyndist Ladyin þó vinsæl. Piaf er stórskemmtilegt og fyndið verk á köflum, mjög dramatískt í ann- an stað og þar eru frábærir tón- leikar með fallegum, vinsælum lögum. Sigurður Pálsson, leikstjóri, og Edda Þórarinsdóttir hafa bæði lagt á það ríka áherslu að þarna sé ekki á ferðinni stæling á Piaf og söng hennar. Enda sé slíkt al- gjörlega ómögulegt þar sem text- arnir eru á íslensku en ekki á frönsku. Það þarf því enginn að búast við því að heyra neina eftir- líkingu á Piaf í þessari uppfærslu L.A. Edda er hins vegar góð söngkona og leikkona, sjálf- stæður listamaður sem túlkar Piaf vel án þess að reyna að líkja eftir henni. Frammistaða Eddu er stórgóð og saman hefur henni og leikstjóranum tekist að laða fram þessa viðkvæmu sál sem gefur sig alla, en er þó alltaf trú uppruna sínum. Götustelpuorðbragðið verður aldrei klúrt, vegna þess hvernig það er á borð borið. Peim Eddu og Sigurði hefur tek- ist að þræða þennan gullna meðal- veg og gefa trúverðuga lýsingu á Piaf. Fyrir þau bæði hlýtur þetta verk að vera stórkostlegur leik- sigur. Hlutverk Eddu er langstærst í sýningunni og næst þar á eftir kemur hlutverk vændiskonunnar og vinkonu Edith, Toine. Sunna Borg fer þar á kostum og sannar aftur svo um munar að hún er sí- fellt vaxandi leikkona. Er það ekki síst Sunnu að þakka hversu skemmtileg þessi sýning er. Guð- laug María Bjarnadóttir fer með stór hlutverk í sýningunni og minnisstæðust er hún fyrir túlk- unina á Marlene Dietrich. Þessar þrjár leikkonur bera uppi sýning- una. Það er fyrst og fremst þeirra hvort sýningin heppnast og það gerir hún svo sannarlega. Þá má gjarnan geta Emih'u Baldursdótt- ur sem leikur ritara Piaf, Made- leine, með miklum ágætum. Karlhlutverkin í sýningunni eru veigaminni en þó mikilvæg. Allir leika karlarnir mörg hlut- verk og best tekst þeim Þráni Karlssyni og Pétri Eggerz upp. Marinó Þorsteinsson er einnig í veigamiklum hlutverkum, sem hann skilar með prýði, og sama má segja um Theodór Júlíusson og Gest E. Jónasson. Þá eru ótal- in tvö sem fram koma, þau Har- aldur Hoe Haraldsson og Helga Alice Jóhannsdóttir, sem dansa og skapa ágæta næturklúbbs- stemmningu í salnum. Tónlistin er í stóru hlutverki í þessari sýningu og mikið hvílir á hljómsveitinni. Hljómsveitin skilar sínu betur en ég hef áður heyrt. Hún er í góðu jafnvægi og hnökrarnir fáir á frumsýningu. Roar Kvam, stjórnandi hljóm- sveitarinnar, á heiður skilinn, en hann ásamt Edward Frederiksen æfðu söngvana og önnuðust við- bótarútsetningar. Leiktjöldin eru alveg sérstakur kapítuli. Allt sviðið er notað og engar breytingar gerðar meðan á sýningu stendur. Ljósin breyta sviðinu og hefur Viðari Garðars- syni tekist sérstaklega vel upp í ljósahönnun. Sviðsmyndin er einföld, kraftmikil. Hún aðlagast hugblæ sýningarinnar, er frá- hrindandi og kuldaleg þegar það á við, en styður á hinn bóginn hugljúf og falleg atriði í sýning- unni. Samspil leiktjalda og ljósa skapar þessi mismunandi áhrif. Búningar lýsa vel tíðarandanum og tískunni á þeim tíma sem verkið gerist. Með góðri förðun og hár- greiðslu tekst Sigríði Pétursdótt- ur og Elsu Björnsdóttur að lýsa á trúverðugan hátt þeim breyt- ingum sem verða á leikpersónum á því árabili sem verkið tekur yfir. Þar á lýsingin einnig mjög stóran hlut að máli. Þegar á heildina er litið er sýn- ing Leikfélags Akureyrar mikill listviðburður og frábær skemmtun. Það eina sem mér fannst vanta var að fá ekki að tralla með í einu lagi eða svo. Ég er reyndar viss um að minnstu mátti muna að frumsýningargest- ir tækju lagið með Eddu. Á ein- um stað, svo að einhverju öðru sé nú fundið, hurfu mikilvæg leikhljóð í klapp. Það var þegar flugvélin með ástmanni Piaf fórst. Það ætti að vera auðvelt að lagfæra. Eddu og öllum hinum sem gerðu þessa sýningu að því sem hún er eru færðar þúsund þakkir. Hermann Sveinbjörnsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.