Dagur - 19.04.1985, Blaðsíða 9

Dagur - 19.04.1985, Blaðsíða 9
8 - DAGUR — 19. apríl 1985 - Jón, hvers vegna Sigurðarson? „ Vegna þess að ég er sonur Sigurð- ar Jónssonar og Kolbrúnar Bjarna- dóttur á Ysta-Felli. Ég kaus að skrifa mig Sigurðarson í sérvisku minni. Tilefnið var bréf sem kom að Ysta- Felli merkt Jóni Sigurðssyni. Afa mínum varð það á að lesa það, sem hann átti náttúrlega alls ekki að gera. Gamli maðurinn hafði gaman af þessu, en ég ákvað að aðgreina okk- ur með þessum hætti, þannig að sag- an endurtæki sig ekki.“ - Var þetta ástarbréf? „Það segi ég ekki, en það var frá stúlku. Ég var nú ekki nema 13 ára. Þetta var sem sé ástœðan, en auk þessfannst mér „Sigurðar- son“ fallegra og réttara. Þú segir ekki „bílinn hans Sigurðs". Þar við bætist að ég er svolítið smámæltur og það eru færri ess í Sigurðarson held- ur en Sigurðsson.“ - Þú ert alinn upp á Ysta-Felli, sem er sögufrægur bær, þó ekki sé nema fyrir það, að þar er samvinnu- hreyfingin stofnuð. Þar hafa líka löngum búið miklir framfaramenn. Hafði þetta áhrif á þig í uppvexti? „Já, það er ekki nokkur vafi á því. Afi minn og nafni hafði mikil áhrif á mig í uppvextinum. Hann var fram- farasinni, aldamótamaður, sem trúði á samvinnuhreyfinguna. Hann var mjög sérstakur maður; það eru til af honum margar gamansögur, og ég skal viðurkenna það, að ég hugsa oft til þess í starfi sem leik, hvað honum hefði nú þótt um hlutina. Og alla tíð mun ég muna þau heilræði sem hann gaf mér. Hann var sprottinn upp úr akri samvinnuhreyfingarinnar og Framsóknarflokksins, því faðir hans og langafi minn, Sigurður Jónsson, var með í stofnun þessara hreyfinga. Ysta-Fell varð því samkomustaður margra þeirra sem tileinkuðu sér þessar hugsjónir. Afi var líka þátt- takandi í að stofna fyrsta ungmenna- félagið; það var stofnað í Köldukinn en ekki á Akureyri, eins og oft er haldið fram. Við erum ekki montnir Þingeyingar; við erum hreyknir. Og þó að ég sé orðinn mikill Akureyr- ingur í mér, þá verð ég að leiðrétta þá sögufölsun, að fyrsta ungmenna- félagið hafi verið stofnað á Akureyri. Það var stofnað í Köldukinn. Foreldrar mínir og föðurbróðir, höfðu líka afgerandi áhrif á mig í uppeldinu eins og gefur að skilja. Ég er þeim mjög þakklátur fyrir það frjálsræði sem ég naut í uppvextinum, og það var rætt við okkur krakkana eins og fullorðið fólk. Það kom oft fyrir, að heimilisfólkið var ekki sam- mála, en þá voru málin rökrædd.“ - Það hefur þá ekki verið kyn- slóðabil á Ysta-Felli? „Nei, því fer fjarri. Ég ólst upp á heimili þar sem voru þrjár kynslóðir. Þetta gafmérsýn aftur í tímann, þetta gamla íslenska fjöl- skyldumunstur, sem smátt og smátt er að leggjast af. Og það hlýtur að gera það, því það eru breyttir tímar. Það er ekki hægt að endurskapa það á nokkurn máta.“ - Varstu búmannslegur í uppvext- inum? „Afi hélt mér talsvert að bústörf- um. Sjálfur var hann mikill grúskari, ættfræðingur og rithöfundur, þannig að ég sinnti oft um féð fyrir hann, stóð jafnvel yfir því á beit. Ég er ekki frá því, að afi hafi talið að ég ætti að verða óðalsbóndi. En það átti ekki fyrir mér að liggja. Það er ekki fýsi- legt að hefja búskap á íslandi í dag.“ - Skólaganga hefðbundin? „Já. Ég get sagt eins og margur gamall maðurinn; ég naut ákaflega lítillar skólagöngu í barnaskóla. Aftur á móti menntuðust menn þar vel, því þá fengu nemendur að halda áfram með fögin eftir því sem þroski þeirra leyfði. Þetta var farskóli. Eftir barnaskóla var ég eitt ár heima á Ysta-Felli og las það sem hét að mig minnir yngri-deild við Laugaskóla heima, ásamt góðum félögum mínum. Síðan lauk ég landsprófi frá Laugaskóla og fór í Menntaskólann á Akureyri." - Menntaskólinn á þeim árum sem óróleikinn var sem mestur með- ai stúdenta, kominn frá Frakklandi. Varstu pólitískur á þessum árum? „Já ég var bullandi pólitískur. Þá stóð ég gjarnan á föstudögum niður við Ríki, með sultardropa á nefinu, og seldi Neista, málgagn þeirra sem töldu sig vera lengst til vinstri og rót- tækasta. Það var í tísku þegar ég var í menntaskóla, að vera kommúnisti. Sá þótti bestur sem var mestur kommúnisti. Og ég lenti með í þess- ari tísku. En þetta rjátlaðist af mér, því strax á menntaskólaárunum fór ég að gerast fráhverfur þessu stein- barni sem kommúnisminn er. I stað- inn gerðist ég raunsærri." - Þú varst viðloðandi Æskulýðs- fylkinguna á þessum árum? „Já, já, það voru afskaplega rót- tæk samtök, sem ég var viðloðandi um tíma. Ég kem inn í Menntaskól- ann á Akureyri 1968, en þá er ein- mitt þessi ’68 bylting í Frakklandi í algleymingi. Upp frá því var um ára- bil mikill óróleiki og uppreisnarandi í skólum hér. Þá var mjög gaman að vera til, en hitt er annað mál, að við vorum mjög óraunhæf í skoðunum. Menn voru líka reiðir út af Vietnam- stríðinu og höfðu miklar heims- áhyggjur. Við vorum óþæg við kennarana; það var líka í tísku. En það var gaman.“ - Hverju voruð þið að mótmæla? „Ég veit það ekki alveg; ég efast um að við höfum vitað það sjálf. Þó held ég að við höfum verið að mót- mæla kerfinu án þess þó að hafa skil- greint það nógu vel. Við vorum mikl- ir friðarsinnar og það lifir í mér enn. Við vorum í slagtogi með Banda- ríkjamönnum, sem þá voru að fremja glæp í Víetnam, það atriði hvíldi mjög þungt á mönnum. Við vildum auka lýðræði í skólum, koma nemendum inn í skólaráð, hvort sem það hefur nú haft lýðræðisleg áhrif eða ekki, ég veit það ekki. Við vild- um sem sé fá að hafa meiri áhrif á okkar menntun, heldur en fyrri kyn- slóðir höfðu haft.“ - Hvernig tilfinning var það, að síanda við Ríkið og selja Neista? „Það var ekki svo slæmt, það var mikið verra að ganga í hús og bjóða hann þar til sölu. Ég man til dæmis eftir því í einu húsi á Oddeyri, að gömul kona skammaði mig alveg óskaplega. En þetta var gaman, vegna þess að ég trúði því þá, að ég væri að gera heiminum mikið gagn með því að selja Neista. Ég man þó eftir einu atviki, sem hratt helvíti illa við mér. Þá heimsótti ég gömul hjón heima í sveitinni minni; þeim þótti mjög vænt um mig. Ég kom með Neista og fannst sem ég væri að boða þeim fagnaðarerindið. Ég rökræddi þessi mál við bóndann, en þegar ég fór fylgdi gamla konan mér út á tröppur og sagði við mig að skilnaði: Frekar vil ég aldrei þurfa að sjá þig aftur, en að þurfa að sjá þig oftar með þetta blað. Þetta var fólk sem Jónas frá Hriflu hafði alið upp. Ef til vill var hann höfundur kommúnista- grýlunnar." - Ég hitti einhverju sinni Þingey- ing, sem ég hélt að væri kommúnisti. Hann sagðist vera framsóknarmað- ur, en af gamla skólanum, sem væri svipað því að vera alþýðubandalags- maður í dag. Ertu sammála því? „Þetta er reginmisskiln- ingur. Framsóknarmaður getur aldrei verið komm- únisti. Hitt er svo annað mál að Alþýðubandalagið hefur aldrei getað gert það upp við sig, hvort það er kommúnistaflokkur eða sósíal-demokratískur flokkur. Ogsvofremisem það síðarnefnda verðifyrir valinu, þá er ekki mikið sem skilur þessa flokka að í sjálfu sér. Hitt er svo annað mál, að fyrir mér er mun- urinn á Alþýðubandalaginu, sem ég fylgdi um tíma, og Framsóknar- flokknum mikill. Sá fyrrnefndi á sér mikið af teoríum en er lítið fyrir framkvæmdir, en Framsóknarflokk- urinn rekur pólitík þeirra sem vilja framkvæma hlutina. Það þýðir ekk- ert að vera í pólitík, nema menn viti hvort tveggja; hvað þeir ætla að gera og hvernig þeir ætla að gera það. Menn dreymir um að heimurinn eigi að vera svona og svona, en það er gagnslítið ef menn vita ekki hvernig þeir ætla að láta draumana rætast.“ - Þú ert efnaverkfræðingur; var það alltaf markmiðið? „Nei, síður en svo, ég ætlaði mér að verða blaðamaður. Þá var ekki komin fjölmiðladeild við Háskóla íslands, en mér var sagt að hún væri á næsta leiti. Ég ætlaði að bíða eftir henni, en ákvað að nota tímann til að styrkja mig í eðlis- og efnafræði, en það voru fög sem ég var alltaf frekar slappur í. Það endaði svo með því að ég varð efnaverkfræðingur, lauk því námi í Kaupmannahöfn, enda eins gott, því fjölmiðladeildin er ekki komin enn.“ - Hvers vegna varð Akureyri fyrir valinu að námi loknu? „Konan mín er Sigríður Svana Pétursdóttir, Reykvíkingur, en leiðir okkar lágu saman í MA. Við höfðum því bæði taugar til Akureyrar og vor- um tilbúin að reisa okkur þar heimili. Föðurbróðir minn benti mér á að hringja í Hjört Eiríksson og leita þar fyrir mér með vinnu. Mér er það símtal minnisstætt, því þegar ég hafði sagt Hirti deili á’mpr og hvaða menntun ég hefði, sagði hann ekki annað en „komdu“. Síðan mátti hann ekki vera að því að ræða mikið meira við mig. Ég byrjaði síðan í Sjöfn, var þar á tilraunastofu í eina viku við að þróa ákaflega merkilegt lím, sem heitir Rex 55. En það varð stutt í því; ég vildi ekki loka mig inni í rannsóknastofu. Á sama tíma var verið að vinna að því að stækka fyrir- tækið Plasteinangrun hf. Ég var feng- inn til að taka þátt í viðræðum við Norðmenn, sem seldu framleiðslu- leyfi á trollkúlum og netahringjum og vélar til þeirrar framleiðslu. Ég kom inn í þessar viðræður sem tækni- legur ráðgjafi og sem nokkurs konar orðabók, því ég var orðinn vel rútin- eraður í skandinaviskunni. Það varð af þessum samningum og síðan æxl- aðist þetta þannig, að ég var gerður að framkvæmdastjóra Plasteinangr- una, nýorðinn tuttugu og fjögurra ára gamall. En þá, eins og oft síðar, hugsaði ég sem svo; fyrst þeir telja mig geta þetta, þá hlýt ég að vera fær um það.“ - En núna ertu orðinn aðstoðar- framkvæmdastjóri Iðnaðardeildar Sambandsins? „Já, það var kominn tími á mig í Plastverksmiðjunni. Það var búið að byggja verksmiðjuna verulega upp og ég var að hluta til farinn að endur- taka mig. Ég var líka hræddur við að lokast inni í þessu fagi og ákvað því að breyta til. Þess vegna tók ég því starfi sem ég gegni nú, þegar það bauðst.“ - Þú ert alþýðubandalagsmaður þegar þú kemur til Akureyrar 1976, en nú setur þú krossinn við Fram- sókn. Hvenær kúventir þú? ,JEtli ég hafi ekki fyrst sett krossinn við Framsókn í bæjarstjórnarkosningun- um 1978. Þá voru Tryggvi Gíslason og Ingimar Eydal meðal annarra í framboði og ég hreifst af þeirra málflutningi. Síðan átti ég eftir að kjósa Alþýðubandalagið í næstu alþingiskosningum, en eftir það hallaðist ég yfir til Framsóknar og nú er ég flokksbundinn framsókn- armaður." - Hafði það einhver áhrif, að þú varst farinn að vinna hjá Samband- inu; er framabrautin þar greiðari fyr- ir flokksbundna framsóknarmenn? „Nei, menn sem hafa verið í svip- uðum stöðum og ég hef gegnt innan Sambandsins hafa verið af ýmsum pólitískurh litum. Þetta ár sem ég var ráðinn, voru ráðnir átta ungir menn í stjórnunarstöður innan Sambands- ins. Þetta sagði mér gamall sam- bandsmaður og ég man að honum þótti það miður, að þar af voru sex sjálfstæðismenn, einn kommúnisti, það var ég, og einn sem hann vissi ekki um, en það þótti honum verst. Það er þjóðsaga, að það skipti ein- hverju máli í framagöngu innan Sam- bandsins hvaða pólitíska skoðun menn hafa. Það getur verið að þetta viðhorf hafi einhvern tíma ráðið. En vissulega skiptir það máli, þegar ver- ið er að ræða um efstu stjórnendur innan Sambandsins, hvaða lífs- skoðun menn hafa. En mér kemur ekki til hugar að eigna Framsóknar- flokknum samvinnuhreyfinguna, eða flokkinn Sambandinu. Fyrir mig var ekki um annað að ræða en að viður- kenna þær breytingar sem orðið höfðu á mínum viðhorfum. Þar með var ekki um annað að ræða en skipta um flokk.“ - En af hverju í Framsóknarflokk- inn? „Ég kýs Frámsóknar- flokkinn vegna þess að ég tel hann vera félags- hyggjuflokk. Það sem skilur hann frá öðrum flokkum er eindreginn stuðningur hans við sam- vinnu manna, að menn vinni saman að hlutunum. Það er hlutur sem mér hugnast og fellur að mínu lífsviðhorfi. Þar að auki tel ég hann hafa raunhæfar hugmyndir um hvemig á að framkvæma hlutina.“ - í nýlegri blaðagrein segir að þú sért hallur undir frjálshyggju; er það rétt? „Já, það var hann Baldur ruglu- dallur Hermannsson. Hann misskilur nú flesta hluti sá maður. Hann á nú reyndar heiður skilið fyrir að þora að segja það sem margir hugsa. Þar með fækkar nú kostum hans. En mér hef- ur reynst það best, gegn honum og hans líkum, að ofbjóða þeim með eigin rökum. Það er hægt að skilgreina byggða- stefnuna með mun skynsamlegri rök- um heldur en gert hefur verið. Ég benti Baldri á það, að landsbyggðin aflaði mun meiri gjaldeyris heldur en Reykjavíkursvæðið. Og ef hans frjálshyggja ætti að ráða ríkjum, þá væri réttast að landsbyggðin tæki sinn gjaldeyri og seldi hann á frjáls- um markaði. Þannig myndum við draga til okkar meiri peninga á kostnað Reykjavíkurvaldsins. Þetta skildi Baldur og vill þess vegna gera mig að einhverjum frjálshyggju- postula. Reyndar er ég það ef til vill innan vissra marka, því ég trúi því að það sé margt í okkar kerfí, þar sem má losa um böndin. Frjálsræðiskerfi er mér að skapi. Slíkt kerfi er enginn andstæðingur þess að menn vinni saman; það er af og frá. Ymiss konar haftastefna hefur verið landsbyggð- inni erfið. En frjálshyggjan, eins og stuttbuxnungar Sj álfstæðisflokksins boða hana, er mér ekki að skapi. Hún gengur einfaldlega ekki upp í okkar þjóðfélagi." - Haftastefna sem hefur skaðað landsbyggðina. Hvað áttu við með því? „Ég held að stjórnmálamenn okk- ar landsbyggðarmanna hafi misskilið mjög hvað okkur er fyrir bestu. Þetta kerfi sem nú er í gangi tekur af okkur peninga og hefur gert það ár eftir ár. Menn hafa verið að berjast við verð- bólguna. Það hafa menn gert með því að haldi niðri genginu, þ.e.a.s. með því að halda innfluttri vöru í lágu verði en jafnframt rýrt tekjur út- flutningsatvinnuveganna. í gegnum þetta hefur orðið mikill fjármuna- flutningur til höfuðborgarsvæðisins. Síðan skilja þingmennirnir okkar ekki efnahagssamhengið í þjóðfélag- inu. Þeir hafa tekið þessa peninga, sett þá inn í sjóðastofnanir og skammtað okkur þá síðan þaðan. Jafnvel hefur legið við að þeir hafi verið að kaupa atkvæði með því. Þeir hafa meira að segja viljað mæla getu sína í því, hvernig þeir hafi skammt- að okkur aftur okkar eigin peninga. Það er mál til komið að við förum að skilgreina byggðastefnuna rétt. Við þurfum ekki að betla. Við þurfum ekki annað en að sækja það sem við eigum.“ - í bæjarstjórnarkosningunum 1982 varst þú í 5. sæti hjá Framsókn- arflokknum, sem fékk þrjá menn kjörna. En eftir fráhvarf tveggja manna, sem voru ofar þér á listan- um, ertu orðinn aðalmaður í bæjar- stjórn. Er bæjarstjórn eins og þú hafðir gert þér í hugarlund? „Nei, það er hún ekki; fyrir það fyrsta hélt ég að hún væri valdameiri heldur en hún er. Ég hélt líka, að hún væri fljótvirkari heldur en hún er og ég átti þar von á meiri pólitískum flokkadráttum heldur en raun er á.“ - Þú kemur inn í bæjarstjórn Ak- ureyrar á þeim tíma, sem á henni standa mörg spjót. Hún er sökuð um aðgerðarleysi á stöðnunartímum í bænum, svo eitthvað sé nefnt. Er það réttmæt gagnrýni? „Ég held að bæjarbúar hafi sömu tilfinningu og ég hafði; að bæjar- stjórn sé valdameiri heldur en hún í rauninni er. Menn halda að bæjar- stjórn hafi afgerandi völd í atvinnu- málum, en svo er ekki. Hún getur haft þar áhrif, en ekki afgerandi völd þau hefur ríkisstjórn og þorskurinn. Bæjarstjórnin hefur ekki staðið í vegi fyrir framförum. En ég er ekki sáttur við allt sem við höfum verið að gera; það er langur vegur frá því. Hitt er 19. apríl 1985 - DAGUR — 9 annað mál, að ég tel mig vera með í því að finna leiðir til að bæta bæinn. Og reyndin er sú, að það er samstaða um flest mál í bæjarstjórn Akureyr- ar. Þannig getur enginn þeirra sem þar situr skotið sér undan ábyrgð á því sem þar er að gerast núna. En það er mikill barnaskapur að saka núverandi bæjarstjórn um það sam- dráttarskeið sem hefst 1982. Það er frekar að sakfella þá sem ræddu um iðnaðaruppbyggingu á áttunda ára- tugnum, án þess að gera nokkuð í því að koma þeim í hugmyndum í framkvæmd.“ - Þú kemur inn í meirihluta í bæjarstjórn, sem Framsókn stendur að með Alþýðubandalagi og Kvennaframboði. Nú hefur Kvenna- framboðið státað sig af því að hafa breytt um áherslur í bæjarstjóm, því nú sé lagt allt kapp á „mjúku“ mál- efnin. Er þetta meirihlutasamstarf þér að skapi? „Hingað til hef ég sætt mig við þetta samstarf, vegna þess að það hefur ekki brotnað í neinum þeirn málum sem ég hef borið fyrir brjósti.“ - Sérðu fyrir þér eitthvert heppi- legra munstur? „Nú gengurðu allt of nœrri mér. Ég get þó sagt þér það, að ég er efins um að það sé rétt að mynda ákveðna meirihluta í bæjarstjórn. Ég held að það sé réttara, að menn skipi sér í fylkingar eftir því hvaða málefni eru uppi hverju sinni. Þar með er ég ekki að kasta rýrð á þennan meiri- hluta og það er hollt fyrir mig að vinna með þessu ágæta fólki, sem ber mjúku málefnin meira fyrir brjósti heldur en ég geri.“ - Þú sagðist ekki þekkja dæmi þess að bæjarstjórn Akureyrar hefði staðið í vegi fyrir framfaramálum. En hefði hún nú ekki samt sem áður þurft að gera meira af því að hafa frumkvæðið að framfaramálum? „Jú, það má til sanns vegar færa, hún hefði fyrr mátt fara inn a þær brautir sem hún er að þreifa sig inn á núna. Ég get fallist á það. Menn hefðu átt að taka meira mark á þeim röddum sem heyrðust 1982, og jafn- vel fyrr, sem vöruðu við hættuástandi framundan. - Núna erum við að auglýsa eftir hugmyndum um nýjar atvinnugreinar. Undirtektir lofa góðu, en menn verða að athuga það, að fyrirtæki eiga ekki að vera á bæjarframfæri og bæjarsjóður á ekki að vera lánastofnun. Það er annarra að sjá um þá hluti. En veiðimanna- náttúran er rík í okkur íslendingum. Við viljum bara róa þegar það er hægt og þegar fiskast, en hugsum minna um langtímaáætlanir.“ - Sérðu fram á bjartari tíð fyrir Akureyri? „Já, við erum búnir að finna fyrir botninum á lægðinni, við erum á leiðinni upp núna. Ég trúi ekki öðru. Hitt er svo annað mál, að það væri afskaplega æskilegt að fá hingað stærri fyrirtæki til þess að koma okk- ur hressilega af stað.“ - Stærri fyrirtæki, stóriðja, álver. Gamlir sveitungar þínir austan úr sýslum hafa gagnrýnt þig harðlega fyrir stuðning þinn við að skoða ál- verskostinn grannt. Þeir segja það ekki í samræmi við hugsjónir Ysta- Fellsættarinnar, að beina erlendu fjármagni inn í landið og ógna nátt- úrunni. „Því miður eru þetta menn sem eru fastir í for- tíðinni og komast ekki út úr henni. Annað hvort hafa þeir ekki skilning til þess, ellegar að þá vantar hugrekki, nema hvort tveggja sé. Staða okkar er sú, að við verðum að fá fjármagn að til þess að geta byggt nógu kröftuglega upp. Meginhluti af fjár- magni Iðnaðardeildarinnar t.d. er er- lendur. Þessir menn sjá ekkert at- hugavert við það. Eini munurinn er sá, að við berum áhættuna af þessu erlenda fjármagni. Það er komið svo, að nánast allt fjárfestingafé og meginhluti rekstrarfjár í landinu eru erlendir peningar. Þessu verða menn bara að kyngja, nema menn vilji fella seglin, fleygja út þessum fjármunum og flytja inn í torfkofana. Menn verða að vera svolítið raunsæir í þessum málum. Það eina sem mér hefur sárnað, eftir að ég fór að hafa afskipti af pólit- ík, var þegar andstæðingar álvers fóru að útmála mig sem einhvern náttúrudjöful. Það er mikill misskiln- ingur, því ég hef alla tíð verið mikill náttúruunnandi, var m.a. virkur þátttakandi í Laxárdeilunni á sínum tíma. Þess vegna hef ég haft ákveðna fyrirvara um hugsanlega mengun frá álveri, en eftir að hafa kynnt mér þessi mál, m.a. með því að heim- sækja álver í Kanada, hef ég ekki svo miklar áhyggjur af þessu.“ - Ertu með þingmanninn f magan- um? „Nei, ég hef mikinn áhuga á pólit- ík og þannig þekkir almenningur mig eflaust best, en ég hef hins vegar mun meiri áhuga á rekstri fyrirtækja. Ég er því ekki í framboði til þing- mennsku." - En hugsanlega eftirlátur ef um yrði beðið? „Nei, ég held ekki, í það minnsta ekki eins og málin standa í dag. Rekstur þess iðnaðar sem ég starfa við er númer eitt og störfin í bæjar- stjórn Akureyrar eru skemmtileg. Hinu neita ég ekki, að pólitískur áhugi er í blóðinu, það er hlutur sem ég get ekki lokað inni í mér. Ég er þannig gerður. Framtíðin verður því að svara þessari spurningu." - Hvaða myndir þú byrja á að gera ef þú yrðir einvaldur á íslandi? „Ég myndi byrja á því að hreinsa ögn til í kerfinu okkar. Ég ætla nú ekkert að segja þér hverja ég myndi reka. Ég myndi létta ýmsum höftum af atvinnulífinu. Ég myndi jafna launin og kjörin í þessu landi. Ég held ég myndi stöðva framrás banda- ríska hersins á Islandi. Já, þetta yrði bara mjög gaman.“ - Þú hefur víða farið og á undan- förnum árum hefur þú klifrað hratt upp metorðastigann. Geturðu aldrei verið kyrr, er þetta eitthvað sem er í eðlinu? Já, mamma segir að þetta hafi einkennt mig frá því að ég var lítill. Ég á ákaflega erfitt með að vera mikið kyrr. Ég hef gaman af nýjum viðfangsefnum, en reyni samt alltaf að passa upp á að skila þeim í höfn. Það er alltaf gaman af verkefnum til framfara, enda er ég framsóknar- maður." - Frekur? „Já ég býst við því að einhverjir segi þetta um mig. Ég verð stundum fyrir aðkasti, t.d. vatt sér eitt sinn að mér kona í Sjallanum, sem sagði að ég væri montinn. Ég sagði henni að það væri ekki rétt, því ég væri hreyk- inn eins og Þingeyingar eru. Ég reyndi sem sé að slá á léttari strengi. Þá sagði hún að ég væri leiðinlegur. Ég sagði henni að það væri heldur ekki rétt. Að vísu vissi ég af því að sumum þætti ég leiðinlegur, en ég væri ekki á sömu skoðun og þetta væri bara álitamál. Þá horfði hún á mig smástund, en sagði síðan, - Og svo ertu ekki einu sinni Akureyring- ur. Þar með sló hún mig alveg út af laginu.“ - Þú hefur verið mikið í sviðsljós- inu að undanförnu. Kanntu því vel? „Mér líður ekki illa í sviðsljósinu ég hef bara nokkuð gaman af því að vera þar. En það er ekki af neinni nauðsyn fyrir mig sjálfan. Ég hef mjög gaman af því að umgangast fólk, vinna með öðrum að einhverj- um spennandi verkefnum. Það eru stærstu kostirnir við að vera í sviðs- Ijósinu." - Þú ert nokkuð opinskár og til- búinn að segja þína meiningu. Ertu aldrei hræddur um að þurfa að éta eitthvað af því sem þú segir ofan í þig aftur? „Jú, jú, það getur alveg komið fyr- ir mig, en þá bara ét ég það. Mér gætu eflaust orðið á þau mistök. að setja fram hluti sem eru rangir. Þá er bara að viðurkenna það. Það eru til svo margir menn, sem taka sig allt of hátíðlega, að þeir geta ekkert sagt. Þeir þurfa að hugsa sig þessi ósköp um, að þeir geta engu komið frá sér. Ég kýs þá frekar, að láta móðan mása og segja það sem mér býr í brjósti. Vissulega tekur maður vissa áhættu með því. Það hefur svo sem komið fyrir, að menn hafa hringt f mig og skammað mig eins og hund. Ég hef þá yfirleitt haft þann sið, að hitta þessa menn og ræða málin. Menn verða að þora að segja sína meiningu. Orð eru til alls fyrst.“ - Jón Sigurðarson, Þingeyingur, fyrrverandi Alþýðubandalagsmaður, núverandi Framsóknarmaður, bæjarfulltrúi og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Iðnaðardeildinni í opinskáu helgarviðtali

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.