Dagur - 07.10.1985, Blaðsíða 2

Dagur - 07.10.1985, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 7. september 1985 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR, 360 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 35 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: GlSLI SIGURGEIRSSON FRÉTTASTJÓRI: GYLFÍ KRISTJÁNSSON BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, BRAGI V. BERGMANN, GESTUR E. JÓNASSON, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík), YNGVI KJARTANSSON, KRISTJÁN G. ARNGRÍMSSON, KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, MARGRÉT Þ. ÞÓRSDÓTTIR, AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. JeiðarL Óheft frelsi - ófrelsi Ein af þeim leiðum sem nefnd hefur verið til að afla ríkissjóði aukinna tekna er söluskatt- ur á blaðaútgáfu í landinu. Til þessa hefur ekki verið greiddur söluskattur af dagblöð- um né héraðsfréttablöðum svokölluðum, heldur eingöngu af hreinræktuðum afþrey- ingarblöðum, hvernig svo sem mönnum hef- ur tekist að draga hreinar línur þarna á milli. En það er önnur saga. Þessi blaðaútgáfa hefur af mörgum verið talin einn af hornsteinum lýðræðisins. Blöðin leggja ótvírætt sitt af mörkum til eflingar hinu frjálsa orði. Þau efla skoðanaskipti í þjóðfélaginu. Því má með rétti segja að verið sé að skattleggja skoðanaskipti og hið frjálsa orð, með skattlagningu á blöðin. Blöðin eru misjafnlega vel í stakk búin til að bregðast við slíkri skattlagningu. Ef að lík- um lætur verða þau flest að hækka áskriftar- gjöld sín og auglýsingaverð. Geri þau það ekki munu tekjur þeirra minnka í samræmi við skattheimtuna. Hækkun áskriftar- og auglýsingaverðs umfram það sem nú er gæti einnig rýrt tekjumöguleikana, ef al- menningur neyðist til að draga úr kaupum sínum á blöðum og auglýsendur á sama hátt að draga úr sínum viðskiptum við blöðin. Það gefur auga leið að stærstu og stöndugustu blöðin munu standa þetta best af sér. Þá stöndum við frammi fyrir því hvort með skattlagningu á blöðin sé verið að tryggja orðfrelsi ákveðinna þjóðfélagshópa umfram aðra. Hér er á ferðinni enn ein atlaga frjálshyggj- unnar að lýðfrelsinu og því verður varla trúað að Friedman hafi orðið það mikil ítök í stjórn- málaflokkum landsins að þetta gangi í gegn. Eða sjá menn e.t.v. ekki hvaða afleiðingar þetta gæti haft í för með sér? Annars er gaman að velta frjálshyggju- hugmyndinni svolítið fyrir sér svona almennt. Hún hljóðar m.a. upp á þetta stór- kostlega frelsi til að velja og hafna. Ef frjáls- hyggjan verður ofan á í þessu máli með skattlagningu blaðanna, þá gæti hin hliðin farið að sýna sig. Það verði e.t.v. ekki nema um tvö frjálshyggjublöð að velja. Fyrir marga þýddi það einfaldlega að það væri ekki um neitt að velja heldur aðeins að hafna. Þannig getur óheft frelsi leitt til ófrelsis. Söluskattur á blöðin gæti leitt til þess. _viðtal dagsins. Hjördís Gunnþórsdóttir og Edda Jensen. „Við viljum engin sérréttindi“ - Edda Jensen og Hjördís Gunnþórsdóttir „Konur þurfa að koma saman öðru hvoru og hlaða batteríin. Yið vonumst til að aðgerðirnar þann 24. október verði til að hleypa kjarki í konur og fá þær til að sýna samstöðu.“ Edda Jensen og Hjördís Gunnþórsdóttir eru í fram- kvæmdanefnd kvenna sem vinnur að undirbúningi kvennafrídags þann 24. októ- ber, auk þess sem unnið er að undirbúningi myndlistarsýn- ingar kvenna og sýningar á handunnum munum eftir konur. „Við erum ekki að endurtaka kvennafrídaginn fræga frá 1975. Hér er um áframhaldandi að- gerðir að ræða. Þetta er áfangi, þó kvennaáratug sé lokið, þá heldur baráttan áfram. Það er sorgleg staðreynd að á þessum tíu árum hafa konur dregist aftur úr körlum launalega. Árið 1975 höfðu konur 70% af launum karla fyrir sambærilega vinnu, en 1985 ekki nema 69%. Þetta er skref aftur á bak. Við verðum að staldra við og athuga stöðuna.“ Eins og fram kom í upphafi, þá er unnið að undirbúningi kvenna- frídags á Akureyri þann 24. októ- ber. „Undirbúningur hefur staðið frá því í janúar, að haldinn var fundur á Hótel KEA. Þar voru stofnaðir nokkrir hópar og þeir hafa unnið að undirbúningi. Trjáplöntuhópur hefur þegar skilað sínu hlutverki með giæsi- brag. Konur víða um Eyjafjörð unnu mjög gott átak, er þær gróðursettu fjölmargar plöntur og unnu þar með að fegrun um- hverfisins. Vonandi verður þetta til að framhald verði á trjáplönt- un kvenna og það benda allar lík- ur til að svo verði. Bókmenntahópur hefur lagt á sig óhemju mikla vinnu, konur í þeim hópi hafa leitað að verkum eftir eyfirskar konur. Reyndar eru þær ekki nógu hressar með árangurinn, því konur höfðu ekki skrifað eins mikið og þær bjugg- ust við í upphafi. Það eru helst ferðasögur og minningargreinar sem konur hafa skrifað. Þrátt fyr- ir það er til mikið efni, en óvíst er hvað verður gert við það. Hópurinn efndi einnig til ljóða- og smásagnasamkeppni meðal kvenna og verða úrslitin birt þann 24. október. Þessa dag- ana er verið að vinna úr því efni sem barst. Heimilisiðnaður verður til sýn- is í anddyri íþróttahallarinnar helgina 19. og 20. október. Þetta er sýning á handunnum munum eftir eyfirskar konur. Þegar hefur safnast mikið efni og við vonumst eftir að meira bætist við. Við vonum að konur dragi úr fórum sínum alla þá muni sem þær eiga og telja að erindi eigi á sýning- una. Þetta verður fjölbreytt sýn- ing á vinnu kvenna frá aldamót- um til vorra daga. Það verður mikið um að vera á myndlistarsviðinu. Norðlenskar konur efna til myndlistarsýningar á þremur stöðum í bænum, í Gamla Lundi, Dynheimum og Lóni. Á vegum hópsins verða einnig tvær einkasýningar, Þóra Sigurðardóttir sýnir í Dynheim- um og Rut Hansen í Lundi. Myndlistarhópurinn hefur einnig útbúið kort, plakat og merki. Mikið og óeigingjarnt starf hefur verið unnið á vegum hópsins og án efa verður um stórglæsilegar sýningar að ræða. í samsýningunum taka um eða yfir 30 konur þátt. 24. október verður helgaður launa- og kjaramálum kvenna og mun launamálahópur sjá um að- gerðir sem tengjast því. Hópur- inn hefur kannað launamismun karla og kvenna og það er degin- um ljósara að munurinn er mikill. Margt hefur breyst til batnaðar konum í hag, en betur má ef duga skal. Sumir myndu kannski segja að það eina sem áunnist hefur í jafnréttismálum á þessum tíu árum er að augu okkar hafa opnast fyrir launamisréttinu. Konur eru almennt betur menntaðar í dag, en samt skortir mikið á að þær fái stöður við hæfi. Að þeim málum verður að vinna með lagni og lipurð. Við verðum að sækja um stöður á jafnréttisgrundvelli. Það er mikill og því miður útbreiddur mis- skilningur að við viljum fá ein- hver sérréttindi. Sæki kona um ákveðna stöðu og fær bara vegna þess að hún er kona, þá er það niðurlægjandi fyrir hana. Um- sóknir verður að vega og meta, við viljum standa jafnfætis körl- um og vinnum að því. En enn eigum við langt í land, kannski erum við ekki nógu sjálfstæðar. Oft treysta konur sér ekki til að sækja um stöður sem einhver ábyrgð fylgir, jafnvel þó að hvaða karl sem er treysti sér til þess. Eflaust tekur það langan tíma að breyta þessu viðhorfi okkar en það miðar þó í áttina." -mþþ

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.