Dagur - 25.10.1985, Síða 9

Dagur - 25.10.1985, Síða 9
8 - DAGUR - 25. október 1985 Pétur Þórarinsson prestur á Möðruvöllum í helgarviðtali restmim Það er komið haust. Þráttfyrirþað er 17 stiga hiti úti. Að því leyti er ófyrirgefanlegt að vera innan dyra, nema menn séu tilneyddir vegna vinnu eða annars álíka. í þetta skiptið var það vinnan sem kallaði. Hugmynd var uppi um að hitta ungan prestsem hefur verið þjónandi að Möðruvöllum í Hörgárdal. Þessi ungi prestur er Pétur Þórarinsson. Þess vegna varþað ekki nein kvöð eða annað álíka semfylgdi því að vera innan dyra að taka viðtal, því Péturþekki ég lítillega frá fyrri tíð. Einnig höfðu menn sem til hans þekktu haft á orði að Pétur væri ör- ugglega góður í svona viðtal, því hann hefði reyntsvo margt í lífinu. Þess vegna var undirrit- aður kominn inn í stofu til hans og fjölskyldunnar á þessum fallega haustdegi þegar hitastig var eins og best gerist^ á íslensku sumri. störfunum. Fyrst og fremst er ég prestur, síðan kemur bónd- Prestur oíj bótuíi Þegar við förum að ræðast við kemur í ljós að Pétur er ekki einungis prestur, heldur er hann bóndi líka. Þá er auðvelt að byrja samtalið með því að spyrja hvernig búskapurinn gangi. Pétur er ekki óhress með útkomuna. Hann segir að þetta hafi gengið mjög vel miðað við hvernig sumarið lék bændur á þessum slóðum. „Að vísu er ég bara með kindur og fáein hross svo það getur varla talist mikill búskapur. Hins vegar skilaði búskapurinn mjög góðum arði. En ekki hagnaði því það þarf að kaupa vélar og verkfæri. Hitt er annað mál að ef menn geta ekki búið á þessari jörð geta menn hvergi búið. Ég hef samanburð, því ég bjó á Hálsi í Fnjóskadal í nokkur ár áður en ég kom hingað. Það var ágætis jörð, en ekki eins góð og þessi, sem telst ein besta jörð á landinu. Það er ekki að ástæðulausu að menn völdu Möðruvelli fyrir amtmann og aðra höfðingja á árum áður. Svo ef menn geta ekki búið hér er eins gott fyrir þá að leggja upp laupana,“ segir Pétur með sinni hljómmiklu, djúpu bassaröddu. - Þú ert prestur fyrst og fremst, er ekki svo? „Jú, ég er það. Meðal annars var það búskapurinn sem dró mig hingað, því ég hef alltaf haft mikinn áhuga á búskap. Bóndinn hefur alltaf verið mjög ofarlega á blaði. Einnig þyk- ir mér að preststörf og búskapur fari mjög vel saman þegar menn eru prestar í sveit. Það er að vísu erfitt að vera með mjólkurbú, því það er mjög bindandi. En bú eins og ég er með fer mjög vel með preststarfinu." - Stórt bú? „Nei, nei. Ég er með 150 kindur og fáein hross. Svo eru strákarnir okkar með endur.“ Þá er ekki eftir neinu að bíða með að fá það upp hver eig- inkonan er. Hún heitir Ingibjörg Svafa Siglaugsdóttir. Þau Ingibjörg og Pétur eiga þrjú börn, synina Þórarin Inga 13 ára, Jón Helga 11 ára og dóttur sem heitir Heiða Björk og er 8 mánaða gömul. - Synirnir rækta endur. Er þar með búið að útvega jóla- steikina? „Já, það er þegar búið að ganga frá því. Þeir eru með þetta hér heima við hús. Við borðum eggin á veturna. Síðan unga endurnar út og þannig fáum við jólasteikina hér heima á hlaði.“ Pétur heldur áfram og segir: „Það er nauðsynlegt að prestar sem búa í sveit nýti jarðirnar að einhverju leyti, fyrir utan að oft eru kirkjujarðir góðar jarðir og þó það væri ekki nema þess vegna, þá er nauðsynlegt að nýta þær. En fyrir mig er meira á bak við. Ég tel nauðsyn að prestur reyni að komast sem mest í tengsl við fólkið í sveitinni. Þess vegna er það að hluta til sem ég er með svolítinn búskap með prest- inn fast á eftir.“ - Oft er talað um að laun presta séu lág. Er það að ein- hverju leyti ástæðan fyrir því að þú ert með búskap samhliða preststörfunum? „Nei, það er ekki ástæðan," segir Pétur ákveðið. „Ef þú ert prestur í sveit þarftu að geta rætt um fleira en það sem þú lærðir í skólanum. Þú ert hreinlega ekki viðræðuhæfur ef þú getur ekki talað um annað en námið. Það er rétt að launin eru, eða voru sérstaklega hér áður fyrr mjög lág. Ekki síst ef tekið er mið af því langa námi sem að baki liggur. Prestar hafa líka fengið leiðréttingu á launum umfram aðra laun- þega, því má ekki gleyma." - Er presturinn á Möðruvöllum litinn hornauga fyrir að vera í búskap, þar sem hanr. er þá væntanlega að taka af kvóta sóknarbarnanna. Fyrir utan að hann er á fullum laun- um sem prestur? Nú brosir Pétur. „Það er öðru nær. Ég hef orðið var við að mínir sveitungar eru ánægðir yfir því að ég skuli vera með; þó ekki sé meiri búskapur en þetta. Enda er fólkið hér í kring einstaklega hjálpsamt að segja mér til og lána vélar þegar eitthvað vantar í búskapnum." „Þorpari“ - Er ekki góð hugmynd að fá eitthvað að vita um sjálfan þig? „Ég átti heima í Glerárþorpi, eða Þorpinu eins og það var kallað í þá daga. Þangað fluttist ég þriggja ára gamall og bjó í sautján ár. A þessum árum var Þorpið þorp. Þar þekktu all- ir alla og við börnin höfðum það fram yfir marga aðra krakka á Akureyri á þessum tíma að það voru skepnur í kringum okkur. Þorparar áttu kindur, kýr og hesta, þannig að þetta var líkara sveit á þessum árum. Þar sem ég átti heima í Þorp- inu, - sem var mjög ofarlega, - var mjög mikið um búskap og þaðan er vafalaust kominn sá áhugi sem ég hef í dag á bú- skapnum. Það sem einkenndi okkur Þorpara var að við vor- um í fótbolta á sumrin en á skíðum á veturna. Það sem ég man sérstaklega eftir frá þessum árum er að flestir Þorparar voru Þórsarar. Ég ásamt fleiri strákum þekkti ágætan mann sem heitir Baldur Árnason. En hann var mikill og góð- ur knattspyrnumaður á þessum árum og lék með KA. Við vorum sem sagt nokkrir guttar sem fylgdum Baldri að málum og gengum í KA. Sumir sögðu að við hefðum gengið í KA fyrir kók og pylsu. Það má vel vera að Baldur hafi umbunað okkur fyrir þetta, því það var ekki algengt að strákar úr Þorpinu gengju í KA. Ég fór fljótt að spila með KA í fótbolta. Fyrst var ég í marki, en var tekinn þaðan fljótlega því ég var talinn heldur glannafenginn og meiddi mig æði oft. Bæði rotaði ég mig og fleira sem ekki var nógu heppilegt fyrir markmann, þannig að ég var settur í fremstu sóknarlínu og spilaði þar upp yngri flokkana. Aftur á móti tapaði ég af lestinni fljótlega hvað varðaði skíðin. Þarna var ég að renna mér með strákum sem urðu síðar bestu skíðamenn landsins. Þar get ég nefnt tvíburana Árna og Yngva Óðinssyni, Örn Þórsson frænda þeirra, Jónas Sigurbjörnsson og Reyni Brynjólfsson. En ég sem sagt heltist úr lestinni vegna þess að ég var ekki nema níu ára gamall þegar ég fékk sykursýki og hún hindraði mig mikið á þessum árum. Þess vegna var það að ég átti í dálitlu baksi með heils- una þegar þeir fóru á skíði. Það var til þess að ég hætti að æfa, en fór þess í stað á skíði mér til ánægju. Það var ekki laust við að maður horfði öfundaraugum á þessa félaga sína fara í Fjallið hvern dag og síðar verða íslandsmeistara ár eftir ár. Það var heldur ekki hægt að leyna því að maður var stolt- ur af þessum félögum sínum sem nú voru meistarar, en höfðu verið að renna sér með manni í brekkunum í Þorpinu stuttu áður.“ Barátta við „Brekkusnig(a“ Nú kemur Ingibjörg með kaffi og góðgæti með til að gefa okkur. En spjallið dettur ekki niður fyrir það. - Þorpið? „Þorpið var hálfgerð sveit á þessum tíma eins og ég sagði. Enda var það svo að við vorum alltaf teknir sem slíkir og átt- um stundum í mikilli baráttu við bæjarbúa, ef segja má svo. Ég man vel eftir baráttunni sem oft varð þegar fór að nálgast áramót. Þá reyndi oft á samheldni Þorpara. Brekkusniglar eins og strákarnir á Brekkunni voru oft kallaðir, reistu sér brennu á stað sem kallast í Lallabrekku. Við Þorparar vorum aftur á móti með okkar brennu beint á móti, handan árinnar við Sambandsverksmiðjurnar. Það kvað svo rammt að, vegna þjófnaðar úr brennunni okkar að við vorum komnir með skýli inni í henni og vöktuðum hana. Eitt sinn komu Brekkusniglar nokkrir saman að brennunni og ætluðu að ná sér í eitthvað gott í sína brennu. Ég man að það var ís á Glerá á þessum tíma og þar fór fram heljarbardagi, þar sem menn börðust með lurkum og öðru lauslegu. Einnig man ég að ýmsir urðu sárir eftir þessi átök og blæddi talsvert. Það var ekkert gefið eftir og hvorki látin spýta eða dekk í brennu Brekkusnigla. Að vísu er ekki hægt að neita því að við vor- um ekki alsaklausir af því að skreppa í brennuna þeirra og ná okkur í eitthvað eldfimt. Til dæmis rúlluðu dekkin vel undan brekkunni og niður að okkar brennu." - Breyting á Þorpinu? „Það hefur orðið ansi mikil breyting á Þorpinu frá því ég var strákur. Ég get nefnt þér dæmi. Fyrsta haustið eftir að ég flutti hingað í Möðruvelli þurfti ég að fara í göngur austur í Fnjóskadal. Þá fór ég á hestunum mínum héðan frá Möðru- völlum og ætlaði austur yfir Bíldsárskarð. Þurfti ég að fara í gegnum bæinn og þar af leiðandi í gegnum Þorpið. Ég ætlaði að stytta mér leið eins og kostur var. Það fór ekki betur en svo að ég snarvilltist í Þorpinu og vissi ekki hvar ég var fyrr en ég sá gamalt hús sem heitir Viðarholt. Þá áttaði ég mig fyrst á því hvar ég var. Áður var ég búinn að þvælast þarna á milli húsa og yfir lóðir. Var sem sagt rammvilltur á þeim stað þar sem ég var uppalinn. Þetta sýnir hvað breyting hefur orðið mikil á ekki lengri tíma.“ Var mest í iþróttum, lcerði stundum Nú er gert stutt hlé meðan hellt er aftur í bollana. - Þurfa prestar ekki að drekka mikið kaffi? Þau hlæja bæði Ingibjörg og Pétur. „Jú,“ segir Pétur, „prestar þurfa að gera það. Hins vegar er maginn í prestum ekkert öðruvísi en í öðru fólkki. Hann þyrfti að vera sterkari og líka teygjanlegri en hjá öðru fólki. Það er því hálfgerð kvöð sem fylgir starfinu að drekka mikið kaffi,“ segir Pétur. ; - Skólinn og námið? „Það er margt sem hægt er að minnast á í sambandi við það allt saman. Ég tók þennan venjulega skóla eins og aðrir krakkar á mínum aldri, nema ég hafði þennan draug á bak- inu sem var þessi sjúkdómur. í menntaskóla var ég í fjögur ár og stundaði þar mest íþróttir. Lærði svolítið inn á milli. Ég stundaði að staðaldri fimm íþróttagreinar sem voru sund, handbolti, fótbolti, skíði og blak sem ég var mikið í. Þannig að það fór afskaplega mikill tími í íþróttir. Ég sé ekki eftir neinum tíma sem ég eyddi í íþróttir á þessum árum. Þetta fór vel með tímann og fyrir vikið vafraði ég ekki eins mikið um Miðbæinn.“ - Stúdentsprófið? „Ég náði því. Þótt tölurnar séu ekki til þess að flagga fram- an í alþjóð, þá hafa þær ekki staðið í vegi hjá mér. Dvölin í guðfræðideildinni var eðlileg og gekk mjög vel. Við urðum því fegin er við komumst aftur norður. Með þessu er ég ekki að segja að dvölin syðra hafa verið nein kvöl og pína. Hún átti bara ekki við okkur. Borgarlífið var ekki það sem við sóttumst eftir.“ - Hvenær kemur presturinn inn í myndina? Pétur hugsar sig um örstutta stund. „Ég var ósköp rótlaus á mínum skólaárum. Var lengi vel að hugsa um að verða bóndi og fara í bændaskóla. Þar næst kom upp áhugi á lyfja- fræði. Það var eingöngu vegna þess hversu mikið ég þurfti að dvelja á sjúkrahúsum. Læknirinn minn á þessum tíma var Baldur Jónsson. Hann leyfði mér að vera með sér á rann- sóknarstofu Fjórðungssjúkrahússins, en þar vann hann mikið og þar kynntist ég lauslega allri vinnu við rannsóknir og lyf. Þetta heillaði mig og mér virtist þetta áhugavekjandi. Þess vegna fór ég í stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri með það að markmiði að verða lyfjafræðingur. Þetta breyttist, því ég hafði kynnst starfi Æskulýðsfélags- ins á Akureyri og var orðinn innsti koppur í búri þar er ég var kominn í 5. bekk MA. Þá var nú auðséð að hverju stefndi. Einnig kynntist ég starfi presta meira en almennt gerist, því ég var kominn í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Hóla- stifti og fór um kirkjur hér norðanlands og predikaði. Auk þess vann ég við sumarbúðir kirkjunnar að Vestmannsvatni. Eftir þetta var ég ekki í neinum vafa um hvað ég ætlaði að læra.“ - Á þessum árum þínum í menntaskóla voru miklar stúd- entaóeirðir víða um Evrópu og fór ekki hjá því að áhrifa gætti á okkar landi. Þá voru allir ungir menn með axlasítt hár og voru róttækir í skoðunum. Hvað þótti skólafélögum um að einn úr hópnum ætlaði að verða prestur? „Þeir voru vissir á þessu líka, því þeir störfuðu á allt öðr- um sviðum en ég. Þeir tengdust kirkjunni ekki mikið, en ég var sér á báti með það. Enda var ég teiknaður í Carminu (skólabók 6. bekkjar MA) með prestakraga. Það er öruggt að ég sé ekki eftir því að hafa farið þessa leið. Því með því að gerast prestur í sveit gat ég sameinað þetta tvennt sem blundaði í mér að verða prestur og bóndi.“ - Þurfa menn sem eru prestar í sveit að vera öðruvísi en kollegar þeirra í þéttbýli? Pétur brosir. „Ég held að menn þurfi að hugsa svipað og bóndinn. Ef menn geta ekki komið niður á jörðina og talað íslenskt bændamál, þá geti þeir alveg eins sent þetta í bréfi. Vegna þess að guðsorð er ekki það flókið að þurfi að setja það í einhvern sérstakan búning.“ Gaííakwcnaprestur á Háísi - Prestsímyndin? „Það er rétt að í gegnum árin er búið að koma inn hjá fólki sérstakri prestsímynd. Prestar hafa vafalaust átt sinn þátt í því að skapa þessa ímynd og fólkið líka. Þegar ég hóf störf sem prestur á Hálsi varð ég var við að fólk hafði ákveðna ímynd um það hvernig presturinn átti að vera. Það gekk svo langt að það var búið að hræða ýmsa aðila á þessum galla- buxnapresti sem var að koma til starfa. Hann væri ekki prest- ur í hvítri skyrtu með bindi. Að vissu marki skil ég það fólk sem hefur verið alið upp við þetta frá barnæsku að presturinn sé ekki af almúgafólki. Fólk horfði upp til þessara manna, börnin óttuðust þá því þeir létu þau lesa. Ég varð mjög fljótt var við þetta á Hálsi að ég fyllti ekki upp í þessa mynd sem fólk hafði um prestinn. Ég var hálfgerður stráklingur og þess vegna vildu sumir gera úr mér hinn rétta prest í tilheyrandi klæðnaði. En flestir tóku mér eins og ég var. Dæmi um þetta get ég sagt þér. Ég kom á heimili þar sem var afskaplega notalegt að koma. Allir á heimilinu tóku prestinn qins og hann var, nema ein fullorðin kona sem sá að ég settist á koll. Hún kom bröltandi með þungan stól og sagði: „Má ekki bjóða prestinum betra sæti?" og ætlaðist til þess að ég settist í góða stólinn en hún sæti á kollinum. Það merkilega við þetta var að þessi kona var eina manneskjan á bænum sem ég þekkti frá fyrri tíð. Hún breyttist svona við að ég tók vígslu. Ég var sjálfur búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti að breyta mér til samræmis við þessa prestsímynd. Mér fannst það rangt, því þá var ég ekki ég sjálfur. Einnig held ég, að ég hefði ekki þjónað fólkinu á neinn hátt betur þó ég væri að leika, með því að koma öðruvísi fram, eða vera öðruvísi klæddur. Þess vegna má vera að presturinn á Hálsi og próf- asturinn á Möðruvöllum hafi fengið orð fyrir það að vera öðruvísi en aðrir prestar og jafnvel verið með einhvern gal- gopahátt á stundum. Hins vegar er ég sannfærður um að þetta hefur orðið til þess að ég hef kynnst fleira fólki, sem annars hefði staðið í fjarlægð. Einnig fann ég að búskapurinn hjálpaði mér til að kynnast fólkinu fyrr en ella hefði verið. Ég get sagt þér skondna sögu af því er við vorum rétt komin að Hálsi. Þá stóð til að halda hrútasýningu í fjárhúsunum á Hálsi. Ég brá mér á þessa samkomu, þekkti fáa og horfði á menn er þeir gerðu sig tilbúna til að þukla og þreifa. Þarna var að sjálfsögðu góður ráðunautur og hann var að leíta að ritara fyrir sig. hann sá mig þarna í hópnum og kallaði: „Heyrðu strákur, geturðu ekki skrifað?" Ég sá andlitið detta af nokkrum mektarbændum sveitarinnar sem vissu hver ég var. Menn roðnuðu og blánuðu og misstu andlitin niður í króna. Ég tók þessu að sjálfsögðu vel og var fastráðinn ritari á hrútasýningum í Hálshreppi þau 6 ár sem ég bjó þar. Seinna sagði kunningi minn mér að hann hefði hitt þennan ágæta ráðunaut og sagt honum að presturinn væri að flytja. Þá sagði ráðunauturinn að það væri slæmt að presturinn væri að fara frá Hálsi. Ekki fyrir það að hann væri góður prestur. heldur fyrir það að hann væri svo fjandi góður ritari á hrúta- sýningum." Margt fleira skemmtilegt segir Pétur, því hann á auðvelt með að vera skemmtilegur. Hann hefur heldur ekki verið lat- ur að taka þátt í félagslífi sem í kringum hann er. Meðal ann- ars hefur hann verið mikill áhugamaður um knattspyrnu frá því hann var ungur drengur. eins og kemur fram fyrr í viðtal- inu. „Er ekki prestsandskotinn með“ „Ég spilað með Ungmennafélaginu Bjarma í meistaraflokki. Þá fann ég að umframþunginn var farinn að gera það að verkum að ég gat ekki hlaupið uppi unga og sprettharða stráka. Þá notaði ég þungann frekar til að stjaka við þeim er við lentum í návígi. Þeir voru því farnir að þekkja mig strák- arnir úr þeim liðum sem við spiluðum við og voru kannski ekki par hrifnir að lenda í samstuði við mig. Áttu þeir það til að taka það óstinnt upp ef þeir lentu á móti mér. Ég tók eft- ir því að þeir skimuðu inn á völlinn fyrir leiki. svo kom löng stuna og þeir sögðu: „Nei, prestsandskotinn er með." Þetta gekk yfirleitt stórslysalaust fyrir sig. En í eitt skiptið lenti mér saman við ágætan strák austan úr Mývatnssveit og fékk að sjá gult spjald fyrir hjá dómaranum. Eg meðtók það eins og gefur að skilja. Daginn eftir skrapp ég austur í Fosshól til að versla. Þá segir verslunarstjórinn við mig: „Þú varst bara rekinn út af." „Ha." segi ég. „Já. fyrir að segja dómaranum að halda kjafti." Þá var sagan komin út um allar sveitir að ég hefði verið rekinn út af fyrir að segja dómaranum að halda kjafti. Þetta þótti góður matur þarna austur frá og mikið kjamsað á þessu." Nú er viðtalið orðið nokkuð langt og auk þess er ég búinn að taka ærinn ti'ma frá Pétri presti. svo það er tími til kominn að þakka fyrir góðgerðir og kveðja. Á leiðinni út mætum við tveimur fallegum hundum, alíslenskum. Kemur þá upp úr dúrnum að Pétur ræktar hreint, íslenskt hundakyn. Ætli hann selji hvolpana? „Yfirleitt ekki. Ég gef þá vinum mínurn og nágrönnum. Það eru þó nokkrir hundar hér í sveitinni sem eru komnir út af mínum hundum. Þetta eru svo góðar skepnur að það er ótækt að halda ekki við þessum hreina, íslenska stofni," segir Pétur Þórarinsson, prestur. bóndi. hrútasýningaritari. íþróttamaður og leikari með meiru.

x

Dagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.