Dagur - 24.01.1986, Blaðsíða 9

Dagur - 24.01.1986, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - 24. janúar 1986 24. janúar 1986 - DAGUR - 9 „Það hefur verið gaman að vera á Akureyri; ég sé ekki eftir því að hafa komið hingað, því hér er gott að vera. Sú ákvörðun að koma hingað er einhver sú besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir manneskjuna í sjálfri mér í mörg ár. Þetta er eins og að koma til annars lands. Hér er ekki eins mikill hraði og í Reykjavík. Þar er hrað- inn í rauninni miklu meiri heldur en stærð borgarinnar gefur tilefni til; rétt eins og í stóru borgunum úti í heimi. “ Það er Vilborg Halldórs- dóttir, leikari, sem er komin í viðtal til okkar. Hún verður í eldlínunni í kvöld á $viði gamla Samkomuhússins und- ir brekkunni á Akureyri. Það er verið að frumsýna Silfur- túnglið hans Halldórs í Gljúfrasteini. Vilborg leikur Lóu; konuna, móðurina, semfór út í heim til að verða fræg. En hvers virði er frægðin, „ef engin jurt vex í þinni krús“, svo ég vitni í hendingu Nóbelsskáldsins. Vilborg býr í gömlu timb- urhúsi undir brekkunni. Ég heimsótti hana í norðannæð- ingnum í vikunni. Hún bar mér uppáhelling á ítalska vísu og kexkökur. Að því fengnu spurði ég nánar um norðurför. 0 Skipti um skoðun „Signý hringdi til mín í fyrrasum- ar og bað mig að koma norður til að leika Bellu í Jólaævintýrinu. Ég tók mér umhugsunarfrest. Og ég hugsaði og hugsaði. Loks ákvað ég að afþakka gott boð, því mér fannst norðurferð full- mikið umstang fyrir ekki stærra verkefni. Það er nefniiega meira en bara að segja það, fyrir konu með heimili, mann og tvö börn, að taka sig upp. Svo talaði ég við Signýju og Maríu Kristjánsdótt- ur, sagði nei, og taldi upp allar ástæðurnar. Þær sögðust skilja mig ósköp vel, þetta væri erfitt fyrir tveggja barna móður og allt það. Þegar ég heyrði þær telja upp allar mínar ástæður fyrir að koma ekki og leika þá söðlaði ég um á augabragði og sagði: Ég kem. Og ekki sé ég eftir þeirri ákvörðun. Ég lét þetta eftir manneskjunni í mér, því ég er fyrst og fremst manneskja; ég sjálf. Og ég held að mæður mættu oftar láta það eftir sér, að leyfa manneskjunni í sjálfri sér að blómstra, jafnvel þó það sé á kostnað barnanna. Ég held að þær verði betri mæður á eftir.“ - Borgarbarn? „Já, ég er fædd og uppalin fyrir sunnan; í Kópavoginum. En ég flutti mig inn að hjarta borgar- innar þegar ég var 17 ára. Og mín skólaganga var ekki löng í land- fræðilegum skilningi, því ég fór í Kvennaskólann, Menntaskólann í Reykjavík og síðan Leiklistar- skólann, en allir þessir ágætu skólar eru ekki nema steinsnar hver frá öðrum, við Tjörnina í Reykjavík.“ - Af hverju Leiklisatarskólinn og síðan leikkona? „Það er eitthvað í mér, eitt- hvað skrýtið, sem ég skil ekki fullkomlega; einhver þörf fyrir að skapa. Mannleg samskipti full- nægja ekki þeirri þörf. Ég þarf að ná dýpra. Ég þarf að geta sýnt heiminum, að ég geti verið öðru- vísi en hann ætlast til. Ég vil ekki lokast inni í einhverjum rammá, sem umhverfið vill setja mig í. Á tímabili skrifaði ég ljóð. Það var ekki nóg. Ég dansaði líka. Það dugði ekki heldur. En þarna var kominn texti og hreyfing og þá er ekki langt í leiklistina. Það er ekki þar með sagt að ég ætli að vera leikkona allt mitt líf. Lífið er eins og hvert annað ferðalag; eins og sigling eftir á. Þú veist aldrei hvenær þú steytir á skerjum, hvenær þú lendir í straumkasti, eða hvenær þú siglir lygnan sjó. Þú veist aldrei hvað bíður þín á bak við næsta leiti - Löngu útskrifuð? „Nei, það var 1983. Fyrsta stóra hlutverkið mitt var að ganga með og eiga barn. Það var drengur og þegar hann var sjö vikna tók ég til við að leika í sjónvarpsgerðinni af „Stalín er ekki hér“. Þar lék ég Svandísi, þá ófrísku, en gaf drengnum mínum brjóst í pásum. Síðan var ég með hlutverk í „Petru Von Kant“ hjá Alþýðuleikhúsinu í fyrra. Sýningar voru á Kjarvals- stöðum og við lékum alveg ofan í áhorfendum. Það var erfitt, en dýrmæt reynsla." 0 Lóa kemur til skjalanna - Svo kom Lóa í Silfurtúnglinu? „Já, Lóa hefur breytt miklu varðandi veru mína hér. Ég hafði ekki lesið leikritið áður, en við fyrstu kynni virkaði hún á mig sem opin og tær persóna. Hún er sakleysið í manni og sem slík höfðar hún ekki síst til mín sem leikara. Leikaralífið er ekki alltaf dans á rósum; stundum gengur vel, en stundum gengur illa. Þá kemur sér vel að vera brynjaður harðri skel, til að geta borið von- brigðin. Þetta á við um alla, en samt sem áður má maður ekki byrgja sakleysið svo gersamlega inni í sér, að það rykfalli og týnist. Slíkt kemur fyrir allt of marga. En Lóa er alltaf ærleg og hún er ekki einföld. Hún er sakleysið og kann því ekki að brynja sig. Og hún átti sér draum, því hún segir á einum stað; - Ó, hvað ég held að það sé yndislegt að vera svona frægur, fara land úr landi og syngja fyrir allan heiminn. En Lóa gerði sér ekki grein fyrir hvað fylgir slíku. Enda þekkti hún ekki orð Steins Steinars: - í draumi sérhvers manns, er fall hans falið. Lóa fór frá eiginmanni, heimili og barni í vöggu, til að sigra heiminn. Ég á líka fjölskyldu, sem ég veit að saknar mín og ég sakna hennar. Ég veit að aðskiln- aðurinn grætir strákana mína stundum. Þessi reynsla gerir mér auðveldara að skilja Lóu. Allir leikarar hljóta að nýta eigin reynsluheim. Mínar móðurtil- finningar hafa hjálpað mér mikið við að skapa mína Lóu og ég held að það yrði erfitt fyrir barnlausa leikkonu, að glíma við þessa persónu." 9 Skrifar vel um konur - Heillandi verk? „Já, svo sannarlega, enda er það sérstaklega vel skrifað. Kvenlýsing Halldórs á Lóu er skrifuð af næmni og ég tek undir það, að enginn hefur skrifað bet- ur um konur heldur en Laxness. En þetta er krefjandi verk. Á meðan það hefur verið að brjót- ast í mér hef ég notið þess að vera í þessu gamla húsi, hérna / undir brekkunni, með sjóinn fyr- ir framan gluggann.... Er hægt að hugsa sér meirí sælu en eiga góðan mann, í lágu húsi við lygnan fjörð, ískjóli bak við heiminn....“ - Nú gerist Silfurtúnglið árið 1954; hvernig gekk að vinna sig svona aftur á bak í tímanum? „Það var svolítil yfirlega, en það gekk vel. Ég er fædd 1957 og man fyrst eftir mér um 1960. Þá bjó ég í stóru húsi í Kópavogin- um og allar konurnar unnu heima. Ég man þær á töfflum, í Hagkaupsslopp og með skýluklút á höfði, jafnvel við að skúra. Þannig hef ég reynt að hugsa aft- ur á bak til að skapa mér þá lífsmynd, sem var hér þegar Silf- urtúnglið gerist. Fatnaður frá þessum tíma hefur líka komið að góðum notum, því klæðnaður- inn, ekki síst undirfötin, hefur sitt að segja í allri framgöngu. Ég hef líka lesið mikið af blöðum frá þessum tíma. Þá höfðuðu auglýs- ingar mikið til kvenna og allar gengu þær út á að ná sér í góðan mann. Og það sem skrifað var um stjörnurnar var stórkostlegt. Það er hægt að finna heilu lyga- greinarnar um kvikmyndadísirn- ar, sem hlupu frá kvikmyndavél- unum til að gefa börnum sínum og eiginmönnum að borða. Allt var þetta gert til að skapa þeim fal- legri ímynd meðal fólksins. Það sem stingur mann mest, er að þetta er ekki óáþekkt í dag. Um- búðirnar eru að vísu aðrar. Og það má mikið vera, ef við erum ekki á hraðri leið inn í þennan tíma aftur. En Lóa las ekki svona blöð; hún las ekki einu sinni dagblöðin. Hún var eðlisgreind, enda verður enginn greindari á þvf einu að ganga í marga skóla. En hún læt- ur greindina ekki stjórna gerðum sínum; hún lætur eðlið ráða þeim. Hún er íslenski draumur- inn.“ 0 Þá myndi ég deyja - Þú minntist áðan á heimavinn- andi konur í þinni bernsku, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og margar konur yfirgefið heimili til að „vinna úti“. Er sú þróun þér að skapi? „Já, að flestu leyti. Ég myndi deyja ef ég ætti að vera heima- vinnandi húsmóðir. Ég hef reynt það, með tvö börn í lítilli íbúð á annað ár. Ég var að kafna. Hitt er svo annað mál, að allt of marg- ir foreldrar vinna ógeðslega mikið. Fyrir vikið hefur enginn tíma til að sinna börnunum. Ég held að feðurnir mættu gera meira af því að fylla að einhverju leyti upp í það tómarúm, sem konur skildu eftir sig á heimilun- um. Þeir geta bakað með börn- unum, teiknað með þeim og sagt þeim sögur. Það er reynsluheim- ur út af fyrir sig. Og það þarf að segja börnunum betri sögur en af stjörnum og stríði. Ég segi mín- um börnum gjarnan sögur af trítlum, sem eru rólyndir, reykja gjarnan pípu, baka, eru góðir og hafa alltaf tíma til að sinna náunganum.“ - Hver er þinn maður? „Hann heitir Helgi Björnsson og hann er líka leikari. Við eig- um tvo stráka. Sá yngri hefur ver- ið hér hjá mér, en þegar loka- spretturinn fyrir frumsýninguna hófst fór hann suður til pabba síns. Hann kemur aftur þegar hægist um.“ - Engir hagsmunaárekstrar á milli ykkar Helga í leiklistinni? „Jú, vissulega kemur það fyrir, en við leysum það. Við erum ekki bara par; við erum einnig kollegar, félagar og vinir í list- inni. Það er okkur dýrmætt, því það gefur okkur betri skilning á þörfum hvors annars. Við höfum líka notið dyggrar aðstoðar foreldra okkar beggja, enda hefði þetta varla verið ger- legt án þeirra. Og ég held að það hafi gefið strákunum mikið að umgangast afa og ömmu í ríkum mæli. Hjá þeim læra þeir margt, sem við Helgi hefðum aldrei get- að kennt þeim. Verða ekki börn barna hamingjusömust?" 0 Tekið opnum örmum - Þú kannt vel við þig á Akur- eyri, en hvernig líkar þér að vinna í leikhúsinu okkar? „Ofsalega vel. Mér var tekið opnum örmum og hér er gott að vinna; með fólki sem hefur barist fyrir tilveru þessa leikhúss. Og hér er enginn stofnanabragur. Þessi vera mín hér hefur einnig orðið til þess að opna augu mín fyrir þeirri nauðsyn fyrir leiklist í landinu, að atvinnuleikhús sé starfandi utan Reykjavíkur- svæðisins. Okkur Reykvíkingum er gjarnt að hugsa sem svo, að Reykjavík sé ísland. Vonandi á það ekki eftir að koma fyrir mig.“ - Senn líður að frumsýningu; hvernig er heilsan? „Hún er góð í dag, en hún hef- ur verið ansi slæm að undan- förnu. Ég vona bara að góða heilsan haidist, enda er ég í því að siaka á - minnug tilbúins spak- mælis úr leikhúsinu: Slakur leik- ari er góður leikari!!“ Þar með var kaffið búið og kexið líka. Er það ekki klassískur endir á viðtölum sem þessum?! Ég þakkaði Vilborgu fyrir spjall- ið og kvaddi. Ef hún skyldi lesa þessar línur fyrir frumsýninguna í kvöld, þá óska ég henni og kollegum hennar í leikhúsinu vel- gengni. - GS

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.