Dagur - 28.01.1988, Page 10
10 - DÁGUR-28. 'jánúar 1088
Ólafur Þ. Hallgrímsson:
Bjórfrumvarp
Enn eitt bjórfrumvarp er komið fram
á Alþingi, það er frumvarp til laga
um að leyfa bruggun, innflutning og
sölu á áfengum bjór. Síðasta bjór-
frumvarp var á ferðinni í sölum
Alþingis árið 1984, og þá var fyrsti
flutningsmaður þess núv. fjármála-
ráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson.
Að þessu sinni eru flm. fjórir úr
þremur flokkum. Tveir lögfræðingar
úr Sjálfstæðisflokknum hafa fengið
til liðs við sig barnabókahöfund
Alþýðubandalagsins og einn þing-
mann Borgaraflokksins, sem tengst
hefur íþróttastarfsemi, enda veitir
ekki af að skapa sem mesta breidd í
bjórliðið, þar sem talið er líklegt, að
bjórinn hafi nú meira fylgi á Alþingi
en oftast áður.
Nú eins og fyrir fjórum árum segja
flutningsmenn tilganginn með frum-
varpinu vera fjórþættan.
í fyrsta lagi að draga úr neyslu
sterkra drykkja.
í öðru lagi að breyta drykkjusiðum
þjóðarinnar til batnaðar.
í þriðja lagi að afla ríkissjóði tekna
og efla innlendan öl- og gosdrykkja-
iðnað.
í fjórða lagi og síðast en ekki síst
að skapa „samræmi" í áfengislög-
gjöfinni, þ.e. að allir landsmenn eigi
kost á því að sitja við sama borð,
hvað bjórneyslu snertir, en sem
kunnugt er, þá hafa flugliðar og far-
menn og fólk, sem ferðast til
útlanda, heimild til að kaupa sterkan
bjór að ákveðnu magni.
Ofannefnd rök bjórmanna eru
reyndar ekki ný af nálinni, á þeim
hafa þeir hamrað sí og æ í gegnum
tíðina og í hvert skipti, sem bjór-
frumvarp hefur verið flutt á Alþingi,
og það enda þótt þau hafi margoft
verið hrakin af andstæðingum
bjórsins. Við skulum nú skoða þau
hvert fyrir sig nokkru nánar.
Er þá fyrst fyrir sú röksemda-
færsla, að tilkoma áfengs öls muni
draga úr neyslu sterkari drykkja.
Enn er þessi staðhæfing á borð borin,
þótt bæði rannsóknir Alþjóðaheil-
brigðisstofnunarinnar og reynsla
annarra þjóða sýni hið gagnstæða. í
greinargerð, sem Ingimar Sigurðsson
lögfr. og Hrafn Pálsson félagsráð-
gjafi birtu nýlega í blöðum um áhrif
öldrykkju á heildarneyslu áfengis og
stuðst er við skýrslur Alþjóðaheil-
brigðisstofnunarinnar, kemur fram,
svo ekki verður um villst, að bjór-
neysla hefur aukist mikið í ölíum
heimshlutum síðari árin, ekki síst í
þriðja heiminum, og kemur alls stað-
ar sem viðbót ofan á aðra áfengis-
neyslu.
Reynsla nágrannaþjóða okkar
styður þetta einnig, og er nærtækast
að benda á frændur vora, Dani, þar
sem bjórdrykkja á vinnustöðum og
unglingadrykkja er orðin slíkt vanda-
mál, að jafnvel sjálfur forsætisráð-
herrann, Poul Schluter, sér sig knú-
inn til að lýsa því yfir opinberlega, að
bjórdrykkja sé að eyðileggja dönsku
þjóðina og gera þurfi eitthvað rót-
tækt í þeim málum.
Sé það tilfellið, að einhvers staðar
fyrirfinnist þjóð, sem bætt hefur
drykkjuvandamál sín með því að
innleiða áfengt öl og beina neyslunni
að því, hvers vegna er hún þá ekki
nefnd?
Það er athyglisvert, að bjórmenn
kunna ekki að nefna neina þjóð, sem
bætt hefur ástand áfengismála sinna
með því að innleiða bjór.
Hvers vegna ekki? Svarið er ein-
falt. Hún er engin til, þvert á móti
hefur bjórinn alls staðar valdið
auknu böli.
Þar er nærtæk reynsla Dana, en
þeir gerðu á sínum tíma ákveðnar
aðgerðir í þá átt að beina neyslunni
að bjórnum í stað brenndra drykkja.
Þetta heppnaðist að því leyti, að
bjórinn varð þeirra áfengi, heildar-
neyslan jókst og afleiðingarnar þær,
sem öllum eru kunnar, en engan hef
ég heyrt halda því fram, að þangað
ættum við að sækja fyrirmynd.
Sannleikurinn er nefnilega sá, sem
kannski hefur ekki komið nógu skýrt
fram í öllum umræðunum, að bjór-
inn er lúmskt áfengi, sem hjá
mörgum, ekki síst unglingum, reyn-
ist einmitt upphaf neyslu á sterkari
drykkjum og virkar örvandi í þá átt,
og heyrt hef ég, að auðvelt sé að
verða alkóhólisti af bjórdrykkju
einni saman, þótt sumir vilji annað
vera láta og telji hana dæmalaust
meinlausa.
Fyrir nokkru skýrðu fjölmiðlar frá
áskorun 16 prófessora við læknadeild
Háskóla íslands til þingmanna, þar
sem þeir vara við afleiðingum af sam-
þykkt bjórfrumvarpsins.
Síðan gerist það núna um áramót-
in, að hvorki meira né minna en 133
læknar senda frá sér yfirlýsingu, þar
sem mælt er með sölu áfengs öls hér
á landi, eða eins og þeir segja sjálfir
í yfirlýsingunni, að „ekki sé ástæða
til að ætla, að íslenska þjóðin missi
fótfestuna í áfengismálum (leturbr.
mín), þótt leyfð verði sala bjórs.“
Væntanlega hafa fleiri en ég orðið
hissa að heyra slíka yfirlýsingu frá
þeim, sem eðli málsins samkvæmt
ættu að láta sér heilbrigði og ham-
ingju landsmanna varða flestum öðr-
um fremur. Má segja, að þar heggur
sá, er hlífa skyldi.
í það fyrsta verður manni á að
spyrja, hvað vaki fyrir blessuðum
læknunum, umhyggja fyrir velferð
landsins barna, eða hvað?
Og í öðru lagi vaknar sú spurning,
hvort umræddir læknar telji, að ísl.
þjóðin hafi öðlast svo örugga „fót-
festu“ í áfengismálum, að nokkuð
þurfi til að koma, að hún missi hana.
Og við sem höfum haldið í ein-
feldni okkar, að við byggjum við
áfengisböl í þessu landi.
Kannski það sé allt saman mis-
skilningur og við búum bara við
nokkuð örugga fótfestu í áfengismál-
um.
Vita læknarnir, sem skrifuðu undir
þessa yfirlýsingu, virkilega ekki af
áfengisbölinu, um eyðilögð heimili
og brostin fjölskyldubönd þúsunda,
glæpi og voðaverk, sem í flestum til-
fellum eru afleiðingar áfengisneyslu
eða annarra vímuefna, eða vilja þeir
bara ekki vita af því? Telja þeir raun-
verulega, að þjóðin hafi náð svo
góðri fótfestu í áfengismálum, að vel
sé hættandi á að stíga skref, sem að
öllum líkindum mun leiða til versn-
andi ástands? Því vil ég ekki trúa fyrr
en í lengstu lög, heldur hljóti ein-
hvers konar fljótræði að hafa ráðið
ferðinni.
Ég hef því miður ekki séð nöfn
þessara umræddu 133ja lækna, en
mér er tjáð, að í þeirra hópi sé eng-
inn læknir, sem fengist hefur sérstak-
lega við meðferð áfengissjúklinga
(og skal reyndar engan furða).
Segir það ekki sína sögu, að þeir,
sem gerst þekkja til ástands þessara
mála, skuli ekki leggja nafn sitt við
slíka undirskrift.
Og hvorum skyldi ísi. þjóðin
treysta betur til að leggja raunsætt
mat á ástand áfengismála, læknunum
Tómasi Helgasyni og Jóhannesi
Bergsveinssyni eða einhverjum ung-
um lækni, sem gjarnan vill sjálfur
eiga þess kost að fá sér bjórglas, þeg-
ar hann kemur þreyttur heim úr
vinnunni?
Ég eftirlæt lesendum að svara því.
Það eru ekki persónulegar langan-
ir mínar eða einhvers læknis, sem
skipta máli í þessu sambandi, heldur
sú staðreynd, sem fram kemur í fyrr-
nefndri álitsgerð Ingimars Sigurðs-
sonar og Hrafns Pálssonar „að hvaða
skoðanir sem menn kunna að hafa á
sölu áfengs öls hér á landi, verða
menn að horfast í augu við þá stað-
reynd, að heildarneysla áfengis muni
aukast, líklega stóraukast, verði
heimilað að selja hér áfengt öl.“
Það er mergurinn málsins, sú
staðreynd sem menn verða að þora
að horfast í augu við.
Þessi orð eru raunar nægjanlegt
svar við röksemd bjórvina nr. 2, að
bjórinn muni bæta drykkjusiði
landsmanna. Það væri í fyrsta lagi
aðeins hugsanlegt, ef bjór yrði
almennt drukkinn í stað sterku vín-
anna, en reynslan bendir ekki til, að
svo verði, og hún er ólygnust. Bjór-
inn mun ekki bæta drykkjusiðina,
heldur mun hann auka drykkjuskap-
inn og hafa í för með sér ný drykkju-
munstur hér á landi sem annars
staðar, svo sem vaxandi unglinga-
drykkju og drykkjuskap á vinnustöð-
um, sem við höfum verið tiltölulega
laus við fram að þessu. Vart mun
nokkrum þykja það horfa til fram-
fara.
Engin ástæða er til að ætla, að við
Islendingar bregðumst öðruvísi við
bjórnum en aðrar þjóðir.
Niðurstaða þeirra félaga, Ingimars
og Hrafns, er einnig bestu rökin gegn
tilgangi bjórfrumv. nr. 3 að afla ríkis-
sjóði aukinna tekna, sem manni virð-
ist að vegi þungt á metunum í huga
flutningsmanna, og þó kannski öllu
fremur að afla einstaklingum tekna
af bjórsölunni.
Eða hvernig í ósköpunum eiga
tekjur að aukast með tilkomu bjórs,
ef sala á öðrum og sterkari tegundum
áfengis á að minnka að sama skapi,
eins og flutningsmenn láta í veðri
vaka. Ríkissjóður fær ekki auknar
tekjur nema með nýjum tekjustofn-
um. Fæ ég ekki betur séð en hér séu
bjórmenn búnir að viðurkenna í orði
kveðnu, að bjórsala muni koma til
viðbótar við aðra áfengissölu, hverju
svo sem þeir halda fram.
Hvað snertir innlendan bjóriðnað,
er hins vegar ljóst, að þar eru ýmsir
farnir að hugsa sér gott til glóðarinn-
ar, og sjá hilla undir skjótfenginn
gróða. Það sýnir m.a. viðtal við
framkv.stjóra Sanitas hf. í Rvík, sem
birtist í Degi á Akureyri 30. des. sl.,
en þar segir hann, að verði leyfð
framleiðsla og sala áfengs öls „muni
það breyta öllum markaðnum ...
þannig að þar sem gosdrykkir eru
aðalbúgrein í dag, verður aukabú-
grein, þegar bjórinn kemur".
Spurningin er þá aðeins, hverjir
tapa á bjórdrykkjunni
Þá erum við að lokum komin að
margyfirlýstum tilgangi bjórmanna
og því, sem einna hæst hefur borið í
þeirra málflutningi, að „samræma“
áfengislöggjöfina.
Við búum við kolvitlausa áfengis-
löggjöf, segja bjórmenn, eða hvaða
vit er í því, að hægt sé að kaupa allar
tegundir áfengis nema þá veikustu,
og venjulega klykkja þeir út með því
að segja, að þar að auki sé allt fljót-
andi í bjór í landinu hvort eð er.
Hvers vegna ekki að leyfa öllum
landsmönnum að sitja við sama
borð, hvað bjórneyslu snertir?
Hvers á það aumingja fólk að
gjalda, sem sjaldan eða aldrei fer til
útlanda og getur þar af leiðandi ekki
keypt sér bjór í Fríhöfninni? „Hverj-
ir ráða því, að svona andsk... vit-
leysa, sem allir hlæja að, innan lands
og utan, er enn við lýði á því herrans
ári 1987?“ spyr Þorsteinn Úlfar
Björnsson í Mbl. 29. des.
Og hann bætir við: „Það hljóta að
vera pólitíkusar.“
Líklega er það rétt til getið hjá
honum. Hingað til höfum við átt
nógu marga þingmenn til að hafna
bjórnum, en hver veit nema Eyjólfur
hressist fyrir Þorstein og skoðana-
bræður hans.
En úr því að spurningar eru bornar
fram, er ekki úr vegi að bæta við
einni spurningu: Hvers vegna stöð-
ugt að vera að vitna í flugliða, far-
menn og ferðafólk?
í fyrsta lagi er þar aðeins um að
ræða hluta þjóðarinnar, og jafnvel
þótt við verðum að reikna með, að
talsverðu magni bjórs sé smyglað
ólöglega inn í landið, þá verður
aldrei um að ræða nema brot af því
magni, sem annars kæmi í umferð,
verði bjórinn gefinn frjáls.
í öðru lagi, eigum við að taka mið
af litlum hóp manna, sem jafnvel
kemst upp með að brjóta landslög í
skjóli ófullnægjandi eftirlits og gera
það að kröfugerð allrar þjóðarinnar.
Væri ekki rökréttara að þrengja
fremur eða jafnvel taka fyrir heimild-
ir þeirra, sem nú mega kaupa áfeng-
an bjór og draga þar með úr bjór-
streymi inn í landið, heldur en opna
allar flóðgáttir upp á gátt.
Hefur þingmönnum aldrei dottið
það í hug?
Sá grunur læðist að manni, að
bjórmenn vilji gjarnan notfæra sér
heimildirnar, sem fyrir hendi eru, til
rökstuðnings fyrir frjálsri sölu sterks
bjórs, til þess síðan að geta vitnað til
vilja „yfirgnæfandi meirihluta þjóð-
arinnar", eins og það er kallað, fyrir
því að sala áfengs öls verði leyfð hér
á landi.
Vissulega get ég verið sammála
bjórmönnum í því, að áfengislöggjöf
þjóðarinnar sé gölluð, en við bætum
hana ekki með því að auka við áfeng-
ismagn í umferð, því það er fyrst og
fremst heildarmagnið í umferð, sem
skiptir máli í sambandi við drykkju-
skapinn en síður einstakar vínteg-
undir, hvort þær eru veikar eða
sterkar. Því meira áfengi í umferð og
því auðveldara sem er að nálgast
það, þeim mun meiri drykkjuskapur.
Það er staðreynd, sem eigi verður
hrakin.
Hið versta við áfengislöggjöf okk-
ar er líklega tvískinnungurinn. Hið
opinbera bannar í öðru orðinu, en
leyfir með hinu.
Á aðra hlið er áfengisvarnastarf á
vegum hins opinbera, en á hinn bóg-
inn reynir ríkið að selja þegnunum
sem mest af áfengum drykkjum og
með sem mestum hagnaði. Við þurf-
um að bæta áfengislöggjöfina, en
fyrst og fremst þurfum við að bæta
okkur sjálf. Það er mikið talað um
drykkjuskap unglinga, en við hverju
er að búast? Þurfum við ekki að tala
um vímuefnalausa foreldra alveg
eins og vímuefnalausa æsku?
Áfengisneysla er sjaldnast einka-
mál, hún er mál, sem snertir næstum
hvern einasta landsmann með einum
eða öðrum hætti, fjölskyldur og
heimili, fólkið í umferðinni, heil-
brigðisþjónustuna, löggæslu og
dómskerfi og þannig mætti lengi
telja.
Hún er sjúkdómur, sem þeir líða
oft á tíðum hvað mest fyrir, sem ekki
hafa sjúkdóminn.
Áfengisneysla er samfélagslegt böl
og sem slíkt ber löggjafanum að
fjalla um hana.
Við íslendingar þurfum ekki á
áfengum bjór að halda, hvorki vegna
okkar sjálfra eða erlendra ferða-
manna, eins og stundum er haft á
orði, þeim höfum við nóg annað að
bjóða svo sem besta vatn í heimi og
vonandi óspillta náttúru. Eftir henni
eru þeir að leita, en af bjór hafa þeir
nóg í.sínu heimalandi.
Flestar þjóðir reyna nú að draga úr
áfengisneyslu með ýmsum aðgerð-
um. Skyti það ekki skökku við ef við
á sama tíma færum að auka hana?
Þjóðin hefur kjörið ykkur þing-
menn til að leysa vandamál, ekki til
að skapa þau.
Ábyrgð ykkar er mikil, skoðið því
hug ykkar vel, áður en þið samþykk-
ið það frumvarp, sem nú liggur fyrir
þinginu.
Minnumst hinna fornu sanninda,
að hverjum og einum ber að gæta
bróður síns.
Þjóðin mun fylgjast vel með störf-
um ykkar og hvernig atkvæði falla í
þessu máli, eftir því verður tekið og
munað.
Megi störf ykkar verða til heilla
fyrir land og lýð, en í Guðs bænum
takið þennan kaleik frá okkur.
Olafur Þ. Hallgrímsson,
Mælifelli.
Árshátíð
framsóknarfélaganna
á Akureyri
verður haldin laugardaginn 30.
janúar að Hótel KEA.
Húsið verður opnað kl. 19.30. Borðhald hefst
kl. 20.00.
Miðasala fer fram á skrifstofunni að Hafnar-
strœti 90 á morgun föstudag frá kl. 17.00-19.00.
Miðaverð kr. 1.900.-.
Félagar fjölmennið og
takið með ykkur gesti.
Skemmtinefndin.