Dagur - 27.05.1989, Blaðsíða 9

Dagur - 27.05.1989, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - Laugardagur 27. maí 1989 Laugardagur 27. maí 1989 - DAGUR - 9 „Ólajur bað mig að gerast miðiU en ég gat ekki litið af síldinni" - Snorri Sigfússon segir frá síldarárunum, áfengismálum og æðri handleiðslu Það var vor í lofti laugardaginn 20. maí þegar blaðamaður sótti Snorra Sigfússon heim í íbúð hans við Gránufélagsgötu á Akur- eyri. Húsið stendur í miðju iðnaðarhverfi og er Snorri raunar bæði með íbúð og vinnustað í húsinu. Þarna er skrifstofa Nótastöðvar- innar Odda og er Snorri með bókhald fyrirtækisins á sinni könnu. Hann bauð upp á kaffi og síðan komum við okkur þægilega fyrir inni í stofu og hófum langt og fróðlegt spjall. Brot af því birtist hér, en lífshlaupi Snorra væri nær að gera skil í bókarformi eins viðburðaríkt og það er. En þrjú atriði úr lífi Snorra koma mest við sögu hér, síldarárin, æðri handleiðsla og áfengismál. - Ég hugsa að það fari best á því að við byrjum á byrjuninni Snorri, hvar og hvenær ert þú fæddur? Snorri fékk sér duglega í nefið, hikaði dálitla stund en hóf síðan frásögnina: „Ég er fæddur 8. nóvember 1920 í Lundargötu 8 á Akureyri. Par ólst ég upp hjá pabba og mömmu og afa og ömmu til 14 ára aidurs. Ég var fermdur í Lundargötu rúmlega 13 ára. Við fluttum síðan í Fjólugötu 10, í hús sem foreldrar mínir byggðu. Faðir minn var Sigfús Baldvins- son útgerðarmaður og móðir mín Ólöf Guðmundsdóttir. Við vor- um fjögur systkinin en það elsta dó frostaveturinn 1918.“ Snorri ólst upp við knattspyrnu og leiki á Eyrinni og hann varð síðar mjög góður knattspyrnu- maður og spilaði í öllum flokkum með liði sínu Pór. En lífið hjá honum byrjaði fljótlega að snúast um síld. „Snorri botn“ og síldarævintýrið - Segðu okkur frá síldarárunum. „Já, ég fór til Siglufjarðar 9 ára gamall en faðir minn var síldar- saltandi og var á Siglufirði á þess- um árum, en hann byrjaði á Höepfnersbryggjunni á Akureyri ívrir Söltunarféiag verkalýðsins. Ég var á Siglufirði yfir sumartím- ann og byrjaði á því að gefa hringi og tómar tunnur. Gegnum árin bætti maður sífellt við sig, fór að keyra frá og sinna erfiðari störfum. Síðan varð ég eftiriits- maður, leit eftir stúlkunum, og þá var ég oft kallaður Snorri botn. Stúlkurnar urðu að leggja neðsta lagið vel og vandlega og kalla síðan „botn“ og þá kom ég og skoðaði botninn. Pær máttu ekki leggja ofan á fyrr en mats- maður var búinn að skoða botn- inn. Ég fékk snemma áhuga á síld- inni en hugur minn stóð einnig til annarra hluta þótt maður sinnti þeim ekki. Síldin varð ofan á. Ég var hjá föður mínum á hinum og þessum söltunarstöðvum á Siglu- firði, bæði niðri á eyrinni og suð- ur á bökkunum. Arið 1935 fór hann á Skaftárbryggju og byggði hana upp að sumu leyti og saltaði þar í mörg ár. f»á var ég kominn meira inn í reksturinn og árið 1939 saltaði ég í fyrsta skipti sjálfstæður á Skaftárbryggjunni en faðir minn var þá á Alfons- bryggjunni. Hann færðist alltaf í aukana sá gamli og ég fylgdi hon- um eftir. Við leigðum stöð Hinriks Thorarensen á tanganum 1940-43 en árin 1943-45 var ég matsmað- ur hjá Síld hf. á Oddeyrartanga. Þá saltaði faðir minn með öðrum á Siglufirði, t.d. Óla Ragnars. En ég fór aftur til Siglufjarðar og við feðgarnir keyptum stöð Hinriks." Þeir feðgar voru umsvifamiklir í síldarsöltuninni og voru einnig á Húsavík og teygðu sig raunar allt austur til Eskifjarðar. Rotturnar gengu frá borði - Hafði stríðið einhver áhrif á starfsemi ykkar upp úr 1939? „Já, síldarsaltendur urðu varir við það og raunar er ein hliðin á því máli mjög merkileg. Svíarnir keyptu alltaf af okkur frá fyrstu hendi og við höfðum ekki hugað að neinu öðru, engar niðurlagn- ingarverksmiðjur eða slíkt. Við seldum þeim síld í tunnum, þeir lögðu hana niður í verksmiðjum sínum og við keyptum síðan dós- ir af þeifn í verslunum hér. Þetta fannst mér ansi hart en á þessum tíma var Kristján Jónsson á Akureyri að hugsa sér til hreyfings og byrjaði á sardínunum. Sænskur maður, Gústaf greifi, tók miklu ástfóstri við mig og bauð mér til Svíþjóðar á greifa- setur sitt til þess að vinna eða læra í verksmiðjum sínum. Þetta var árið 1939 og þá skall stríðið á. Siglingaleiðir lokuðust og Svíar áttu hér 35-40 þúsund tunnur af síld. En þeir höfðu yfir kúluleg- um að ráða sem hvorki Bretar né Þjóðverjar gátu verið án og það varð úr að þeir fengu óáreittir að flytja síldina til Svíþjóðar eftir ákveðinni siglingaleið sem Bretar og Þjóðverjar kortlögðu. Þetta skip hét Gautaborg og með þessu skipi átti ég að fara til Svíþjóðar. Ég fer með bíl til Reykjavíkur og kem þangað kl. 3 um nóttina og fer beint niður á hafnarbakka þar sem skipið hafði beðið eftir mér í tvo sólarhringa. Faðir minn var þá á Hótel Vík, en þá var al- gengt að menn færu tii Reykja- víkur á haustin að lokinni vertíð. Þegar ég kem með mínar tvær ferðatöskur að landganginum að Gautaborg horfi ég á skipið, geng upp landgöngustigann, stoppa í honum miðjum og horfi fram eftir. Þá sé ég rottur ganga í land úr skipinu eftir fangalínunni." Gautaborg fórst á Ermasundi - Þá hefur þér ekki orðið um sel, eða hvað? „Nei, það rifjaðist upp fyrir mér sem afi minn, Baldvin Jóhannsson, sagði mér oft á tíðum. Hann hafði verið skip- stjóri lengi og sagði mér að ef að rottur eða dýr færu í land úr skipi þá væri skipið feigt. Alveg örugg- lega. Ég er 19 ára gamall þegar ég stend þarna í landgöngu- stiganum og rifja upp orð afa, lít- ið farinn að þekkja lífið og hugsa hvort þetta hafi ekki bara verið vitleysa í karlinum, ævintýrasög- ur. Nei, ég komst að niðurstöðu, sneri við og fór til föður rníns á Hótel Vík. „Það er mikið að þú ert kom- inn drengur. Skipið bíður eftir þér og Gústaf er alltaf að senda skeyti," sagði hann þegar ég kom. Ég sagðist vera hættur við förina en gat ómögulega stunið ástæðunni upp og hann gat ekki skilið að ég skyldi hafna þessu kostaboði Gústafs. Til að gera langa sögu stutta þá fórst skipið á Ermasundi og spurðist aldrei neitt til þess. Það lenti á tundurdufli sem hafði slitnað upp. Feigum verður ekki frá heli forðað og ófeigum í hel komið. Þessi æðri handleiðsla hefur fylgt mér lengi. Faðir minn tók mig auðvitað í sátt eftir þetta.“ - Þannig að þú hefur ekkert farið til Svíþjóðar. „Nei, en ef ég hefði komist þangað þá hefði ég ekki verið þar í niðursuðufræðum í eitt ár. Ég hefði farið út í aðra hluti oj> óvíst hvort ég hefði komið til Islands aftur. Ég hefði farið í sálarfræði. Þessu tengist annar atburður mörgum árum síðar. Þá fór Guð- laug dóttir mín til Svíþjóðar í hjartaþræðingu, en þangað hefði hún aldrei farið ef ég hefði farið með skipinu. Hún hefði aldrei fæðst og því má segja að hún eigi rottu líf sitt að þakka. En hún fer út í sálarfræði í Svíþjóð, eins og ég hafði ætlað mér. Ég fór hins vegar aldrei út fyrir landssteinana fyrr en í vetur er ég fór til Brynj- ólfs sonar míns í Noregi." Æðri handleiðsla Snorri er tvígiftur. Hann eignað- ist þrjár dætur með fyrri konu sinni, Sigrúnu Bárðardóttur frá Ytri-Búðum í Bolungarvík. Þau gengu í það heilaga á ísafirði á jóladag 1941. Hann skildi við Sig- rúnu 1946. Hún fór þá til ísa- fjarðar ásamt tveimur dætrum þeirra en sú elsta varð eftir og ólst upp í Fjólugötu 10. Með Rósu, seinni konu sinni, eignað- ist hann einn son, Brynjólf Snorrason sem þekktur er fyrir nuddlækningar sínar. Áður en við héldum lengra rifjað Snorri upp sögu af foreldr- um sínum og kynnum þeirra og segist hann sannfærður um að æðri handleiðsla hafi haft þar hönd í bagga. Honum hafi verið ætlað að fæðast rétt eins og æðri handleiðsla réði því að Brynjólf- ur sonur hans fæddist, eins og við víkjum að síðar. Honum var ætl- að að fæðast til að hjálpa öðrum. Foreldrar Snorra kynntust á samkomum hjá Hjálpræðishern- um á Akureyri og var trúhneigð mikil í báðum ættum og Snorra innprentuð kristin trú og guð- rækni í æsku. Sú trú hefur reynst honum vel í erfiðleikum lífsins. Árið 1946 saltaði Snorri allra manna mest á Siglufirði en árið 1947 leigði hann söltunarstöðina á Oddeyrartanga á Akureyri. Hann bauð hærra en margir stór- karlar í söltuninni í opnu útboði og voru ýmsir hvekktir yfir því að „strákurinn“ skyldi yfirbjóða þá, en þarna saltaði Snorri til ársins 1950. Hann var m.a. fyrsti ís- lendingurinn eftir stríð^ ásamt Tryggva Ófeigssyni, sem saltaði togarafisk. Snorri verður ástfanginn af berklasjúklingi - Það hefur komið fram að þú skildir við Sigrúnu, en vildi þú segja okkur hina merkilegu sögu af seinni konu þinni? „Ég skal gera það. Hún hét Rósa Jóna Sumarliðadóttir og ég held að leiðir okkar hafi átt að liggja saman. Við kynntumst á Kristneshæli, en þar lá hún, fon- fallinn berklasjúklingur. Systir mín dvaldi þar um tíma og ég fór í heimsókn til hennar. Þegar ég kom hafði hún skroppið frá og beðið Rósu að taka á móti mér; en ég þekkti hana ekki neitt. Hún bauð mér kaffisopa í dagstofunni og það var upphafið að kynnum okkar. Á þessum tíma var Rósa for- „Að mínum dómi er ekkert yndislegra og guðdómlegra en gagnkvæmur skilningur manns og konu til allra hluta. Hann er því miður mjög fátíður.“ fallinn berklasjúklingur, einn elsti sjúklingurinn á hælinu, og hún var ekki talin eiga neina batavon. Ég hét því að Rósa skyldi fá heilsu. En hvernig gat ég ákveðið það? Ég tók hana af hælinu því það var ekki einleikið að í hvert sinn sem hún átti að útskrifast fékk hún óhreinindi í skoðun. Einhvers staðar hlaut að vera sár sem opnaðist og ég lét flytja hana suður að Vífilsstöðum þar sem sárið var greint. Það kostaði átta rifja höggningu hjá Guðmundi Karli Péturssyni á Akureyri, sem var mikil aðgerð, en búið var að plúmba hana hin- um megin og var Rósa því búin að ganga í gegnum margt. Samt sem áður eignaðist hún barn og þótt ætla mætti að barn sem alið er í móðurkviði berklasjúklings myndi smitast þá gerðist það ekki.“ Snorri sagði afar merkilega sögu af þessari meðgöngu, þar sem æðri handleiðsla kemur enn til skjalanna. Þessi frásögn fylgir hér á eftir: Forsjónin greip tvívegis í taumana „Það gekk á ýmsu meðan á með- göngunni stóð. Á afmæli mínu 8. nóvember fékk Rósa hríðir en hún átti ekki von á sér fyrr en í febrúar. Hún var flutt upp á sjúkrahús en ég þurfti að fara til Siglufjarðar í síldina. Rósa kvaldist mikið og varð að fá deyfilyf. Guðmundur Karl var hrifinn af henni sem sjúklingi og vildi henni vel. Hann ráðlagði keisaraskurð til að lina kvalir hennar en það hefði jafngilt fóst- ureyðingu á þessum tíma því barnið hefði ekki getað lifað enda engir súrefniskassar til. Rósa neitaði og Guðmundur Karl hringdi í mig og sagðist ekki geta horft upp á hana kveljast lengur. Hann gæti ekki gefið henni meira af deyfilyfjum og hann yrði að lima barnið frá. Ég gaf ekki samþykki mitt heldur dreif mig til Akureyrar með Drangi. í millitíðinni hafði það gerst að hann hafði tvívegis verið kominn með Rósu í stól á leið til skurð- stofunnar en í bæði skiptin komu upp bráðatilfelli sem hann þurfti að sinna. Forsjónin greip tvívegis í taumana. Ég hitti Rósu og hún sagðist fullviss um að hún gengi með dreng. St'ðan sagði hún: „Ég ætla að biðja þig að fara með kveðju til Ólafs Tryggvasonar á Hamra- borgum." Ólaf þekkti ég ekki en ég gerði bón Rósu og fór til hans. Þau hjónin stóðu í fjósdyrunum þegar ég kom og ég spurði eftir Ólafi. Hann gaf sig fram og heils- aði mér með nafni. Hvernig vissi hann hver ég var? Hann bauð mér inn og gaf mér kaffi. Þá sótti að mér svefn og í svefninum mun ég hafa sagt hvernig Rósu leið og hvernig væri hægt að hjálpa henni. Þegar ég vaknaði sagði Ólafur: „Þetta er búið. Það er búið að lækna hana og Guð- mundur Karl þarf ekki að hafa áhyggjur. Hún fæðir sitt barn á eðlilegum tíma.“ Ég hváði í for- undran en Ólafur sagði að ég hefði í svefni sagt hvernig hægt væri að lækna hana. Þannig kynntumst við Ólafur. Seinna bað hann mig að gerast miðill en ég sagðist ekki geta litið af síldinni. En frá Ólafi fór ég á sjúkrahús- ið og þá var Rósu batnað og hún mátti fara heim. Hún fæddi síðan Brynjólf á eðlilegum tíma, 7. febrúar. Brynjólfur er gæddur sérstökum hæfileikum og hann hefur hjálpað mörgum með höndum sínum.“ „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri alkóhólisti“ í ljósi áðurnefndra atburða fór Snorri að snúa sér meira að and- legum málum og hann aðstoðaði Ólaf Tryggvason við að hjálpa öðrum, sérstaklega áfengissjúkl- ingum. „Ólafur hjálpaði mörgum drykkjumönnum við að hætta að drekka, en ég fór aldrei sjálfur í stólinn hjá honum þótt vissulega hefði ég haft þörf fyrir það. Ég hef drukkið meira og minna frá því um 1940. Þetta var ekkert vandamál í fyrstu og oft drakk ég ekki í 1-2 mánuði, sérstaklega ekki í síldinni á sumrin, en hellti síðan í mig heima yfir veturinn.“ - Hvenær var áfengisneyslan orðin vandamál hjá þér? „Sannleikurinn er sá að ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri alkóhólisti. Ég viður- kenndi það ekki fyrr en nú í vetur. Samt hafði ég kynnst AA- samtökunum snemma, hjálpað^ öðrum alkóhólistum með Ólafi, en ég viðurkenndi aldrei vanda- mál mitt og drakk meira að segja ofan í antabus. Sem betur fer fór ég samt aldrei í eiturlyf því þau eru ábyggilega enn verri en vínið þótt það sé nú nógu bölvað. Ég gafst upp í vetur og hringdi í séra Birgi Snæbjörnsson, en þá höfðu margir óskað eftir því að ég færi í meðferð. Ég vildi það ekki. Birgir kom til mín hingað í þessa stofu seinnipart laugardags og þá opnuðust augu mín. Hann ráðlagði mér að fara í meðferð en ég sagðist ekki hafa trú á því formi. Þá benti hann mér á ráð- gjafastöð SÁÁ-N og þangað fór ég og þar opnuðust strax fyrir mér duldir töfraheimar. Þetta var fyrir tæpum þremur mánuðum og síðan hef ég verið edrú og ánægð- ur með hjálp SÁÁ og AA-sam- takanna. „Ekkert yndislegra en gagnkvæmur skilningur manns og konu“ Það er ekki nóg að setja tappann í flöskuna en það er upphafið. Maður þarf að gjörbreyta hugs- unarhættinum og smáatriðin skipta mjög miklu máli. Ég þarf að hugsa um sjálfan mig en þegar ég var að hjálpa öðrum með því að veita og gefa sjálfur þá öðlað- ist ég aldrei fyllingu fyrir sjálfan mig. Það vantaði þetta nýja við- horf sem ég hef nú meðtekið. Trúin hefur líka hjálpað mér. Ég trúi á Guð í hjarta, Guð í stafni og Guð í sjálfum mér. Hún hefur hins vegar farið meira til annarra en mín. Ég held að þetta sé skýringin, að það hafi ekki verið nóg að hjálpa öðrum, gefa kraft, en fá ekkert í staðinn. Samt vildi Ólafur allt fyrir mig gera og bauð mér að fara í stólinn. Kraftur hans og styrkur kom í gegnum bænina og ég hef líka fengið styrk í gegnum hana.“ Við fengum okkur meira kaffi og Snorri rjátlaði við neftóbaks- dósina. Hann hefur búið einn í íbúðinni við Gránufélagsgötu í tæp 20 ár því árið 1969 dó Rósa. „Faðir minn dó 3. júní 1969 og 12. júlí sama ár dó konan mín. Þetta var mikill missir. Það eru mikil viðbrigði að vera einn því allir vita að tveir geta gert miklu meira en einn. Að mínum dómi er ekkert yndislegra og guðdóm- legra til í jarðnesku lífi en gagn- kvæmur skilningur manns og konu til allra hluta. Hann er því miður mjög fátíður. En þetta hefur bjargast furðanlega hjá mér einum þrátt fyrir drykkj- una.“ „Rósa er ekki heilsulaus aumingi“ Snorri var að salta síld á Eskifirði 1966-69 en settist alkominn að á Akureyri er hann hafði misst konu sína og föður. Þá kom hann inn í rekstur Nótastöðvarinnar Odda að fullu, hafði sinnt fyrir- tækinu í ígripum, og frá 1970 hef- ur hann unnið á skrifstofu fyrir- tækisins. Þegar hið örlagaríka ár, 1969, bar á góma rifjaði Snorri upp sögu af Sigfúsi Baldvinssyni föð- ur sínum og Rósu, þá verðandi eiginkonu. „Þegar við opinberuðum trú- lofun okkar var faðir minn á fyll- eríi með tveimur félögum sínum og þeir komu í Fjólugötuna þennan dag, vel við skál. Þá hafði mamma breitt út faðminn á móti Rósu og óskað henni hjartanlega til hamingju. Stuttu seinna komu félagarnir og mamma sagði að Snorri hefði verið að draga upp hringinn. „Með hverri," spurði félagi föður míns og mamma svaraði: „Með Rósu.“ Pabbi kallaði þá á mig niður í kjallara og hellti yfir mig óbótum og skömmum. „Hvað ertu að hugsa drengur, að taka að þér heilsulausan aumingja þegar kvenfólk bíður eftir þér alls stað- ar í kringum þig.“ Hann sló mig á vangann en ég gerði slíkt hið sama og sagði: „Nei, faðir minn. Rósa er ekki heilsulaus aumingi, þaö áttu einhvern tíma eftir að sjá.“ Þannig voru móttökurnar en skömmu síðar skall á lömunar- veiki á Akureyri. Margirfóru illa út úr henni. Systir mín fékk hana og mamma snert af henni líka en þá var Rósa, þessi heilsulausa kona, að stumra yfir sjúklingun- um. En það er skemmst frá því að segja að Rósa og faðir minn urðu mestu mátar þrátt fyrir mót- tökurnar í fyrstu." „Það hættir enginn að drekka nema hann vilji það sjálfur“ Ég hef stiklað á stóru í þessu spjalli okkar Snorra. Hann er mjög hress og ánægður að sjá, sextíu og átta ára gamall maður sem vinnur fullan vinnudag og sem fyrir þremur mánuðum hóf nýtt skeið í lífi sínu. Viðburða- ríku lífi. „Af lífinu lærir maður og þroskast," sagði Snorri. „Sann- leikurinn er sá að ef engir erfið- leikar væru þá væri ekkert varið í að lifa. Erfiðleikarnir verða að vera til þess að maður fái tækifæri til að spreyta sig og sigra þá. Það er sama hvort erfiðleikarnir eru á sviði áfengis eða einvers annars.“ - Að lokum Snorri. Það geisl- ar af þér, ertu ánægður með þessa nýju stefnu í lífi þínu? ><Ég er meira en ánægður,. Stefán. Mér finnst þetta dýrðlegt og ég hefði aldrei trúað því að slíkt væri til. Þótt ég hafi hætt að drekka, tíma og tíma, og sprottið upp eins og fleygur fugl til eins og annars þá féll ég alltaf aftur. Núna eru það allt aðrir hlutir sem ríkja í minni sál, sem ég get ekki gefið fullkomna skýringu á. Það merkilegasta er hvað smáhlutirn- ir skipta miklu máli, en maður hafði ekki gert sér grein fyrir því. Ég er sannfærður um að þetta spor sem ég tók hjá SÁÁ á Akur- eyri hafi markað ný tímamót f lífi mínu, en þetta kostar mikinn sjálfs- aga. Það hættir enginn að drekka vín nema hann vilji það sjálfur.“ Að þessum orðum sögðum kvaddi ég Snorra og þakkaði honum fyrir ánægjulega stund og hreinskilni hans. SS

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.