Dagur - 18.07.1989, Blaðsíða 14

Dagur - 18.07.1989, Blaðsíða 14
14 - BöQOB - Mtr&IudflgöY 18' ‘/0111989 Viðskiptavinir Dags og Dagsprents hf. athugið! Fyrirtækin verða lokuð í dag, þriðjudag, frá kl. 13.00 til 17.00 vegna jarðar- farar. Bridgefélag Akureyrar Bridge í Dynheimum Opið verður í Dynheimum næstu þriðjudaga til spilamennsku sem hefst kl. 19.30. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Tilvalið að grípa í spil eitt og eitt kvöld. «t Litlu dætur okkar og systur, HULDA OG MARGRÉT HAUKSDÆTUR, verða jarðsungnar frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 18. júlí kl. 14.00. Þeim sem vildu minnast þeirra er bent á björgunarsveitirnar. Ólöf Tryggvadóttir, Haukur ívarsson, og systkini hinna látnu. Eiginkona mln og dóttir - dóttir okkar og dótturdóttir, ÁSTA JÓNA RAGNARSDÓTTIR OG HANNA MARÍA ÁSGEIRSDÓTTIR, verða jarðsungnar frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 18. júlí kl. 14.00. Þeim sem vildu minnast þeirra er bent á björgunarsveitirnar. Ásgeir Vilhelm Bragason, Erla ívarsdóttir, Ragnar Elinórsson. Þökkum af alhug, auðsýnda samúð, vináttu og ómælda hjálp við andlát og útför ástkærs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður og afa. ÞÓRODDARINGVARSJÓHANNSSONAR, Eikarlundi 22, Akureyri, sem lést 2. júlí sl. Guð blessi ykkur öll. Margrét Magnúsdóttir, Ingvar Þóroddsson, Sigríður Vilhjálmsdóttir, Svandís Þóroddsdóttir, Gretar Örlygsson, Berghildur Þóroddsdóttir, Vignir Már Þormóðsson, Eydís Ingvarsdóttir, Birkir Örn Gretarsson. Fædd 24. maí 1963 - Dáin 9. júlí 1989 Vinarkveðja „Mamma, það varð slys uppi á Sprengisandi og Ásta Jóna og dóttir hennar dóu.“ Með þessum orðum var tekið á móti mér þegar ég kom heim í hádeginu þriðjudaginn 11. júlí sl. Mín fyrstu viðbrögð voru vantrú. Þetta gat ekki verið satt. Ásta og Ásgeir alvön fjallaferð- um, á vel útbúnum bíl og einstak- lega gætin. En því miður, sann- leikurinn er bitur og söknuðurinn sár. Það er erfitt að sjá á eftir vini og félaga sem maður hefur átt í fjölda ára. Ásta var bara fimm ára þegar ég sá hana fyrst, lítill fjörkálfur sem aldrei var til friðs. En á bak við grallaraspóann var heilsteyptur persónuleiki, sem öllum vildi vel. Þeim eiginleika Ástu verður best lýst með smádæmi. Síðast- liðinn vetur lést móðir mín eftir erfið veikindi. Um kvöldið var bankað hjá mér. Þar var Ásta komin með konfekt og kók til að reyna að hressa mig upp. Söknuður vinanna er sár en sorg ættingjanna, sem sjá á eftir ástvinum sínum, óbærileg. Þó að nú syrti að, vil ég tileinka þeim orðin sem voru á síðasta jóla- kortinu mínu frá Ástu Jónu: Snúðu augliti þínu alltaf að sólar- bjarmanum, þá munu skuggarnir falla að baki þér. Megi algóður Guð veita ykkur öllum styrk og sálarþrek. Áslaug Magnúsdóttir Fyrir hönd starfsfólks Dags og Dagsprents langar mig að minn- ast vinkonu okkar og vinnufé- laga, Ástu Jónu Ragnarsdóttur, í örfáum orðum. Fyrir mér megna orð ekki að tjá allar þær tilfinn- ingar sem bærst hafa eftir að Ijóst var hvaða harmleikur hafði átt sér stað. Þetta er sárt, óbærilega sárt fyrir alla þá sem kynntust þessari indælu stúlku. Ég kynntist Ástu Jónu er ég hóf störf á Degi haustið 1986 og rifjaðist þá fljótlega upp að hún var frænka mín. Höfðum við síð- an lúmskt gaman af því að stríða hvort öðru með þessum skyld- leika við ýmsar aðstæður sem komu upp í vinnunni. Gaman- semin var einkennandi fyrir Ástu Jónu og ég efast um að ég hafi kynnst skapbetri og geðþekkari stúlku. Hún brosti, hló, söng og trallaði í vinnunni, tók erfiðum verkefnum með einstöku jafnað- argeði og lét ekki streitu eftir- miðdagsins hafa áhrif á sig. Hún smitaði út frá sér og það var ómetanlegt að vinna við hlið Ástu Jónu þegar streitan og hrað- inn voru þrúgandi. Hún veitti manni styrk, feykti burt áhyggj- um og fyrir það vil ég þakka. Fyr- ir hennar hlýja viðmót viljum við öll þakka. Ásta Jóna er okkur öllum minnisstæð í leik og starfi fyrir góða skapið og geislandi kátín- una. f huga mér eru ofarlega þær stundir sem við áttum saman í kaffitímunum. Hún hafði fengið mikinn áhuga á skák og síðustu vikurnar tefldum við oft snarpar skákir, okkur til óblandinnar ánægju, enda taflmennskan fjörleg. Hún beið lægri hlut en litlu munaði á stundum. Því mið- ur er skák lífsins óvægnari leikur og í slíku manntafli getur enginn séð úrslitin fyrir. Ásta Jóna er dáin. Dóttir hennar er dáin. Stórt skarð hefur verið höggvið í hamingjusama fjölskyldu. Elsku Ásgeir, Guð veiti þér styrk. Af öllu hjarta biðjum við Guð að veita for- eldrum og öðrum ættingjum styrk á þessari sorgarstundu. Það I er erfitt að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt. Vanmátt- urinn er gífurlegur. Þakka þér fyrir allt, elsku Ásta Jóna. F.h. starfsfólks Dags og Dagsprents; Stefán Sæmundsson Minningarorð um kæra vinkonu „Dauðinn er sólarupprás, uppstigning geislandi sólar úr djúpi Iífsins“ (Ragnhildur Ófeigsdóttir) Margt kemur upp í hugann þegar við minnumst með fátæklegum orðum elskulegrar og ljúfrar manneskju sem Ástu Jónu. Ánægjustundir með henni voru margar en dauðinn sem grípur óvænt í taumana verður okkur lifendum illskiljanleg gáta. Ásta Jóna var mikill persónu- leiki og hugur hennar beindist að tilgangi lífsins, ódauðleika sálar- innar og að leitun þekkingar á kjarna sinnar eigin tilveru. Trú hennar var einlæg og hennar leiðarljós. Lítil stúlka, Hanna María fylg- ir nú móður sinni til hins eilífa Ijóss, þar sem friður Guðs og kærleikur umvefur þær. „Sál barnsins var lítið blátt blóm sem bærðist fyrir blænum á íslenskri heiði miðnætursólin kyssti dögg þess sál þess rós sem óx í garði móður sinnar hvítar hendur hlúðu að henni tár móðurinnar vökvuðu hana bros móðurinnar var sólin. “ (Ragnhildur Ófeigsdóttir) Að leiðarlokum kveðjum við Ástu Jónu og litlu dóttur hennar með söknuði og biðjum algóðan Guð að veita ástvinum hennar, sem misst hafa svo mikið, styrk til að horfa fram á við. Elsku Ásgeir, góði vinur, „Snúðu augliti þínu alltaf að sólarbjarmanum, þá munu skuggamir falla að baki þér. “ (Indverskt orðtak) Freyja, Baldur, Unnur Huld og Þórður. t Minning: Hanna María Asgeirsdóttir Fædd 30. maí 1984 - Dáin 9. júlí 1989 Það er sárt að frétta andlát svo ungra manneskja sem eiga svo margt ógert, en þeim mæðgum Hönnu Maríu og Astu kynntumst við er Hanna María kom til okk- ar á Iðavöll aðeins 2ja ára gömul og kvaddi okkur síðast föstudag- inn sem við fórum í sumarfrí, þann 7. júlí sl. Hún skilpr eftir sig góðar minningar um rólega stelpu, sjálfstæða og örugga, sem lét umhverfi ekki hafa truflandi áhrif á sig. Hanna María hafði alltaf nóg fyrir stafni, átti ætíð nóga félaga og eignaðist mjög góðar vinkon- ur sem við vitum að ásamt okkur sakna hennar mikið. Hún mun áfram eiga sitt sæti í hugum okkar, við erum þakklát- ar fyrir þær stundir sem við áttum með henni. Kæri Ásgeir, við vottum þér og öðrum aðstandendum dýpstu samúð okkar. Starfsfólk á leikskólanum Iðavelli. Birting afmælis- og minn ingargreina Dagur tekur afmælis- og minningargreinar til birtingar endurgjalds- laust. Tekið er við greinunum á ritstjórn blaðsins að Strandgötu 31, Akureyri svo og á skrifstofum blaðsins á Blönduósi, Húsavík, Reykjavík og Sauðárkróki. Athygli skal vakin á því að greinar verða að berast með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í fimmtudagsblaði, að berast síðdegis á þriðjudegi og hliðstætt er með greinar aðra daga. Þá eru minningargreinar ekki birtar í laugardagsblaði. Meginreglan er sú að minningargreinar birtist undir fullu nafni höfundar.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.