Dagur - 17.07.1990, Side 5
Þriðjudagur 17. júlí 1990 - DAGUR - 5
Kristinn Hugason, hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags íslands, gerir upp umdeilda forskoðun ráðu-
nautanna í vor og Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði. Um háværar gagnrýnisraddir
á störf ráðunautanna segir Kristinn:
„Þeir sem hæst höíðu í óánægjunm
voru í svipuðum sporum og
fallkandidatar í skóla“
Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að
mikil og oft á tíðum snörp umræða varð um for-
skoðun hrossaræktarráðunauta Búnaðarfélags
íslands fyrir Landsmót hestamanna á Vind-
heimamelum í Skagafirði. Menn létu margir
hverjir þung orð falla í garð ráðunautanna Þor-
kels Bjarnasonar og Kristins Hugasonar og
töldu suma dóma þeirra orka tvímælis. Að
afloknu Landsmóti hefur ekki borið eins mikið á
þessum háværu gagnrýnisröddum og almennt
virðast menn vera á þeirri skoðun að á Lands-
móti hafi sjaldan verið fegurri og betri fákar.
Kristinn Hugason, hrossaræktarráðunautur, er
ekki í vafa um að aldrei hafí verið saman komnir
jafn margir framúrskarandi hestar á svo stóru
móti hérlendis. Kristinn er í viðtali í dag.
Kristinn Hugason, hrossaræktarráðunautur.
„Já, ég held ég megi segja að
við hrossaræktarráðunautar
séum mjög ánægðir með okkar
hlut að málinu,“ sagði Kristinn,
þegar hann var inntur eftir því
hvernig honum hafi fundist til
takast á Vindheimamelum. „Því
er ekki að leyna að okkur kom
ákaflega á óvart hversu mikill hiti
og læti voru í mönnum meðan á
forskoðun fyrir Landsmótið stóð.
Við töldum okkur vinna í einu og
öllu í samræmi við samþykkt
Hrossaræktarnefndar, sem gekk
út á að leitast við að teygja á ein-
kunnakvarðanum til beggja átta
þannig að betur yrði gefið fyrir
það sem vel væri gert en lakara
fyrir hitt. Hugsunin á bak við
þetta var að góðu hrossin greind-
ust betur frá hinum lakari.
Önnur breyting sem gekk í
gildi í vor við samþykkt Hrossa-
ræktarnefndar var sú að breytt
var vægjum á nokkrum eiginleik-
um. Vægi á hálsi, herðum og
bógum var aukið um 2, en lækk-
að að sama skapi á samræmi.
Einnig var breytt vægjum á fóta-
einkunnunum, lækkað um 2 á
réttleika en hækkað um 1 á fóta-
gerð og 1 á hófum. Á árinu 1986
gekk í gildi hækkað vægi á tölti,
vægið var hækkað úr 10 í 20 og
heildarvægi kosta varð þá 70 en
var áður 60. Núna var vægi á eigin-
leikanum fegurð í reið aukið um
2 en lækkað á geðslagi að sama
skapi. Þannig var heildarsumma
vægja ekki breytt og bygging og
hæfileikar vega jafnt sem fyrr.
Ætlunin er að þessar breyting-
ar verði til þess að aukin áhersla
verði lögð á þá þætti er helst
marka myndugleik og þokka
hestsins. Einnig að meiri athygli
verði beint að þeim þáttum í
fótabyggingu hestins er helst ráða
endingunni. Nú þarf ekki skemur
en 5 til að festa fáist og árangur-
inn komi í ljós. Eftir þann tíma
er hægt að framkvæma tölfræði-
legt uppgjör á gögnunum og
meta árangurinn.
Þessi breyting á eflaust þátt í
því að margur á erfitt með að
bera dóma ársins saman við fyrri
ár og hefur áhrif á uppgjör og
afkvæmadóma. Við afkvæma-
dómana þarf vitaskuld að gera
dóminn allan upp með núgild-
andi vægjum, að öðrum kosti eru
hrossin ekki samanburðarhæf.
Fram skal tekið að við endur-
reikning eldri dóma vegna
afkvæmasýninga virðist algeng-
ara að hrossin hækki fremur en
lækki.
Fyrirfram gat enginn séð
hvernig teygja á einkunnakvarð-
anum kæmi í smáatriðum út, því
hér var um að ræða það mikla
breytingu á vinnubrögðum lið-
inna áratuga við dóma. Það var
orðið löngu ljóst að nauðsynlega
þurftu að koma til breytingar.
Miðlægni einkunna var orðin svo
alvarleg að hún kom í veg fyrir að
dómarnir væru nægilega upplýs-
andi fyrir ræktendur, auk þess
sem að dómi kynbótafræðinga og
margra annarra nýttist tölvuupp-
gjörið ekki sem skyldi. Mér hefur
verið bent á úr röðum hesta-
manna að þessa áherslubreytingu
hafi þurft að kynna fyrirfram bet-
ur fyrir fólki og hvernig hún
myndi koma út. Undir þetta
sjónarmið má taka, en því verður
ekki á móti mælt að við hrossa-
ræktarráðunautarnir höfum verið
mjög störfum hlaðnir allt frá því í
vetur og því ekki haft líkt því
eins mikinn tíma til fundarhalda
og æskilegast hefði verið.“
Tekist hefur að auka dreif-
ingu eiginleikanna verulega
Kristinn sagði langt síðan að
menn hafi byrjað að ræða um að
einkunnir væru of miðlægar, t.d.
hafi dr. Þorvaldur Árnason, sem
mikið hafi unnið að þessum
málum, fyrir löngu vakið máls á
því. „Einkunnirnar lágu flestar á
bilinu 7, 7,5, 8, 8,5. Hestur sem
fékk 7 gat af þeim sökum verið
mjög lélegur. Hestur sem fékk
8,5 gat að sama skapi verið
afburða góður. Af þessu leiddi að
skilin milli góðra hesta og þeirra
lakari voru ekki nægilega skörp,“
sagði Kristinn.
Tölfræðilegar niðurstöður
dómanna í vor liggja nú fyrir og
segir Kristinn að tölfræðingar
telji tvímælalaust að þeim Þor-
keli hafi tekist vel með breytingu
á einkunnagjöfinni í átt til
normaldreifingar. „Tölfræðingur
Búnaðarfélags íslands lagði í það
mikla vinnu með mér að aflok-
inni forskoðun að ganga frá töl-
fræðilegum gögnum um hana fyr-
ir Landsmótið. Vegna mikils
óþols ákveðinna manna innan
Hrossaræktarnefndarinnar að fá
gögnin í hendur höfðum við
tæpast verkfrið. En þessar niður-
stöður gera það að verkum að við
berum engan kvíðboga fyrir
framhaldinu. Útkoman er eins
jákvæð og til er hægt að ætlast í
fyrsta áfanga. Okkur hefur tekist
að auka dreifingu eiginleikanna
stórlega. Sem dæmi má nefna að
dreifing á samræmi hefur aukist
um allt að 60% frá árinu 1989,
dreifing á fótagerð um 40%, rétt-
leika og hófa um 30%, baki og
lend um 40%, hálsi, herðum og
bógum um 35%, höfði um 31%,
tölti um 27%, brokki um 7%,
skeiði um 10%, stökki um 35%,
vilja um 21%, geðslagi um 16%
og fegurð í reið um 29%. Á þessu
sést að dreifingin hefur aukist
umtalsvert á flestöllum eigin-
leikunum. Dreifing á skeiði og
brokki hefur aukist hvað minnst,
sem kemur til af því að áður var
dreifingin á skeiðinu mikil. Það
var í raun eini eiginleikinn sem
var með viðunandi dreifingu. Það
gerði það og að verkum að skeið
vóg ákaflega þungt inn í kynbóta-
einkunnina. Hvað brokkið varð-
ar höfðum við hrossaræktarráðu-
nautar fullan hug á því í vor að
dæma það á dómkvarðanum öll-
um, en vegna sérstöðu gangteg-
undarinnar að hafa heimild til að
gefa góða einkunn þó brokkið
væri einungis sýnt í taumi ef það
væri gert vel. Þetta heimilaði
Hrossaræktarnefndin ekki, en
samþykkt var að hafa þá reglu
áfram í gildi að gefa 7,5 fyrir
brokk ef hrossið rétt tæpti á
gangtegundinni. Þessi mál á svo
öll að skoða þegar heildarsamn-
ing stigakvarðans fer fram í
haust. Þrátt fyrir þetta tókst okk-
ur að auka dreifingu á brokki um
7%.
Með því að aðrir eiginleikar en
skeið dreifast betur en áður á ein-
kunnaskalann vega þeir þyngra
en áður og um leið verður kyn-
bótaeinkunnin enn notadrýgra
tæki en áður.“
Verkið tókst vel
í fyrsta áfanga
„Menn hafa talað um að dreifing-
in hafi verið aukin niður á við, en
ekki til beggja átta. Það er fjarri
öllum sannleika. Dreifingin er
víðast hvar skekkt upp á við,
m.ö.o. er meiri þungi í kúrfunum
ofanverðum en neðanverðum.
Samt sem áður lít ég svo á að við
séum alls ekki búnir að finna
hinn eina rétta tón í þessu starfi.
Nú er framundan að skoða ná-
kvæmlega fyrirliggj andi gögn um
forskoðunina og Landsmótið og
það sem kemur til með að gerast
á síðsumarsýningum. í framhaldi
af því þurfum við að semja stig-
unarkvarða til að vinna eftir. En
umfram allt verðum við að halda
því striki að hafa dreifingu í ein-
kunnunum.
Ég er síður en svo upptekinn af
þeirri skoðun að allt hafi heppn-
ast í fyrstu tilraun. Það væri hinn
mesti barnaskapur að halda því
fram. Það er álíka vitlaust að
segja að allt hafi heppnast eins og
að halda því fram að allt hafi ver-
ið unnið af illvilja og bágindum,
eins og sumir í hrossaræktar-
nefndinni hafa haldið fram og
fengið ýmsa menn til að skrifa
upp á. Okkur tókst þetta verk
eins vel og til er hægt að ætlast í
fyrsta áfanga. Síðan er að halda
hiklaust áfram á þessari braut og
fá þannig út stigunarkvarða sem
hægt er að miða við.
Það er ánægjulegt að geta sagt
frá því að á Landsmótinu á Vind-
heimamelum urðum við varir við
góðar undirtektir áhorfenda við
sýningunum. Margir komu að
máli við okkur á mótstað og
kváðust vera hrifnir af þessari
nýju stefnu í dómum. Þeir sem
tjáðu hug sinn í þessa veru vilja
framvindu í hestamennskunni.
Þetta voru m.a. fagmennirnir í
hestamennskunni, mennirnir sem
best hafa unnið að því að kynna
íslenska hestinn innanlands sem
utan.“
Gríðarlega mörg
hross léleg
Kristinn lagði, þegar hér var
komið við sögu í viðtalinu, þunga
áherslu á orð sín. Hann svaraði
þeirri spurningu afdráttarlaust
játandi hvort hann teldi að þeir
menn sem hæst hefðu gagnrýnt
störf hrossaræktarráðunautanna
fyrir Landsmótið hefðu almennt
lent undir í dómum. „Þeir sem
hæst höfðu í óánægjunni voru í
svipuðum sporum og fallkandi-
datar í skóla,“ sagði Kristinn.
„Ég held að æði margur maður-
inn hafi ekki áttað sig á því að
dreifing einkunna er ekki það
sama og að hliðra einkunna-
kvarðanum upp á við. Ég sagði
margoft að meðaltalið ætti að
haldast nokkuð óbreytt. Þó hef
ég alltaf verið þeirrar skoðunar
að fleiri hross mættu fara í fyrstu
verðlaun og það gerðist í ár, mun
fleiri hross fóru í fyrstu verðlaun
en undanfarin ár. En það sem
gerir það að verkum að meðaltöl-
in koma svona út er að í vor feng-
um við gríðarlega mikið af lökum
hrossum til dóms. Hrossafjöldinn
sem kom til sýninga í ár var mun
meiri en gerst hefur áður. Heild-
arfjöldi hrossa sem einhver dóm-
ur var lagður á var um 1200. í
raun og veru læðist að manni sá
grunur að stofninn sé kannski
ekki með þá stöðu í dag að hann
ráði við meira en um 800 hross.
Þorkell Bjarnason hefur bent á
það í blaðaviðtali að hann telji að
um fjórðungur hrossanna hafi
verið hreint rusl og ég get ekki
annað en tekið heilshugar undir
þau orð.“
En hvaða skýring er þá tiltæk á
öllu „ruslinu“? „Ég held að meg-
in skýringin sé sú að fyrir nokkr-
um árum, þegar tók að bera á
samdrætti í hinum hefðbundnu
búgreinum, fóru margir að leggja
meiri áherslu á hrossaræktina,
jafnvel sem kjötframleiðslugrein.
Fljótlega eftir þetta varð hrun á
kjötmarkaðinum. Bæði var það
að hrossakjötsverðið var spennt
upp og hitt það að matarskattur-
inn lagðist á hækkað verð af full-
um þunga, þannig að hrossakjöt-
ið varð ekki samkeppnishæft í
verði við annað kjöt. Þetta er ein
af skýringum á dótinu í vor. Þeg-
ar kjötmarkaðurinn hrundi færðu
menn sig yfir á lífhrossamarkað-
inn og hryssum, sem sumum
hverjum stendur engin ræktun að
baki, var haldið undir hesta sem
kannski voru álitnir hinir mestu