Dagur - 22.09.1990, Blaðsíða 10

Dagur - 22.09.1990, Blaðsíða 10
10 - DAGUR - Laugardagur 22. september 1990 Laugardagur 22. september 1990 - DAGUR - 11 Láttu drauminn rætast Þessa setningu er helst að heyra í auglýsingatímum útvarps og sjónvarps en þó verða sennilegast ansi margir að viðurkenna að þeir ganga með drauma í maganum, drauma sem margir hverjir fá ekki að rætast á æviskeiðinu. Elín Antonsdóttir heitir hún húsmóðirin, kvennalistakonan og kennarinn á Akureyri sem lét drauminn rætast. Hún reif sig upp mitt í barnauppeldinu og settist á skólabekk í öldungadeild Menntaskólans á Akureyri og eftir nær 10 ára hlé að loknu stúdentsprófí tók hún sig upp með mann og börn og flutti til Bandaríkjanna þar sem hún réðst til atlögu við nám í stjórnunar- og markaðsfræðum. Margir ganga með drauminn um nám í maganum alla ævi án þess að láta hann nokkurn tímann rætast og vildu því líkast til margir standa í sporum Elínar. Skrefíð var að hennar mati lærdómsríkt, skemmtilegt og krefjandi. En þeir eru fleiri draumarnir sem þessi kona gengur með og einn þeirra, draumurinn um jafnrétti, segir hún að muni rætast, einhvern tíma. Þrátt fyrir hlé frá starfínu í Kvennalistanum er Elín mætt aftur til leiks, þess albúin að leggjast á árarnar með stallsystrum sínum í pólitíska róðrinum. Já, mörgum finnst eflaust alveg furðu- legt að kona á þessum aldri skuli leggja út í langskólanám," segir Elín um nám sitt í Bandaríkjunum. „Ég held hins vegar að þegar kona drífur sig af stað í svona lagað, komin á þennan aldur, þá þumbist hún meira við enda komin í þetta vegna þess að áhug- inn er fyrir hendi. Ánægjan verður meiri í náminu og vinnan markvissari. í gegnum námið var ég alltaf með ísland í huga á þann hátt að allt sem ég lærði í hinu bandaríska umhverfi reyndi ég að heimfæra upp á íslenskar aðstæður þannig að fræðin gætu nýst mér hér heima. En ég neita því ekki að ég var hálf skelkuð þegar ég var komin með bókastaflann fyrir framan mig, þykkar og þungar skruddur sem ég þurfti að ráðast á með minni menntaskólaensku," segir Elín og hlær dátt. Tekin í samfélag trillukarla Elín er Eyfirðingur, borin og barnfædd á Dalvík og flutti þaðan til Akureyrar árið 1972 þar sem hún hefur búið síðan, ef frá eru talin námsárin þrjú vestra. Elín er næst elst í hópi sex systkina, fædd árið 1948. „Þegar ég lít til baka þá finnst mér sem ég hafi átt alveg yndislega æsku. Auðvitað gekk á ýmsu eins og gengur en í minningunni finnst mér sem það hafi verið mjög gott að alast upp heima á Dalvík. Annars þótti hon- um föður mínum ég vera ansi mikill galgopi þegar ég var að alast upp,“ segir Elín glott- andi. Ekki var nú stúlkan þó meiri galgopi en svo að hún fór á sjóinn með föður sínum og skipaði sér þar með í flokk trillusjómanna í bænum. „Ja, sonurinn var nefnilega svo ungur að það varð því að taka einhverja af okkur stelpunum með. Guðbjörg systir var svo sjóveik að það dæmdist því á mig að fara með pabba. Það var nú ekki algengt þá að hafa kvenmann til sjós á trillu og er kannski ekki enn í dag en ég var tekin strax inn í þetta samfélag og þeir voru mér afskaplega góðir kallarnir. Ég held að ég hafi nú alveg staðið þeim á sporði jafnöldr- um mínum strákunum sem þarna voru til sjós. “ Mæddur íslenskukennari Lífsmynstur Elínar fram til tvítugsaldurs var mjög svipað því sem gerist og gengur í mörgum sjávarplássum eins og Dalvík. Líf- ið var fiskur og vinna og hæfilegur skamrnt- ur af kryddi í tilveruna. Skyldunámið drakk hún í sig í Dalvíkurskóla og þar kveikti íslenskukennarinn Jón Bö, eins og hann var oftast kallaður, áhugann á íslensku sem æ síðan hefur blundað í henni. „Jóni tókst að koma inn hjá manni ákveðnum metnaði og var mjög sanngjarn þó að oft gæti hann orðið ansi mæddur yfir villununr hjá okkur." Þar kom að Elín setti saman heimili á Dalvík og fór að búa með manni sínum Skapta Hannessyni, málarameistara. Árið 1972 flutti ljölskyldan til Akureyrar en þá voru þau Elín og Skapti komin nreð tvær dætur. Ekki var líflegt yfir málarastarfinu á Dalvík og því ákváðu þau að flytja til Akur- eyrar, ekki endilega til langdvalar en sú dvöl stendur þó enn. „Við söknuðum Dalvíkur alveg óskap- lega, bæði tvö. Að fara þaðan var mjög erf- itt og ég man alltaf þessi snöggu katlaskipti sem þarna urðu í lífi okkar. Við vorum allt- af nreð hugann við aö flytja aftur heim en einhvern veginn festumst viö hér og í dag höfum við ekki neinn sérstakan áhuga á að flytja til baka þótt alltaf sé jafn gaman að koma heim til Dalvíkur," hcldur Elín áfrarn frásögninni. Barnauppeldið var mín vinna Elín var 18 ára þegar hún átti sitt fyrsta barn og 26 ára var hún orðin fjögurra barna móöir. Vinnan á heimilinu var því ærin á þessum árum en til að létta undir í heimilis- rekstrinum fór hún í íhlaupavinnu utan heimilisins. Elín segist ekki líta þannig á að hún hafi verið bundin yfir börnunum. „Nei, ég gekk að þessu eins og ég geng yfirleitt að hlutunum. Ég fleygði mér bara út í þetta eins og hvað annað,“ segir Elín og fær um Elín ásamt dóttur sinni og dótturdóttur, þeim Lovísu Björk (lengst ti! vinstri) og Örnu Bryndísi. Heimiliskötturinn Lúlli kann aldeilis ekki illa við félagsskapinn. leið þá spurningu hvort henni hafi fundist sem hún missti af einhverjum köflum ungl- ingsáranna með því að vera komin í stöðu uppalandans aðeins 18 ára gömul. „Nei, ég held ekki. Þá var tíðarandinn svona, stúlkur byrjuðu að eiga börn tiltölulega ungar þann- ig að þetta var ósköp eðlilegt. Að vísu gekk ég alltaf með þann draum í maganum að fara í meira skólanám en hafði svo sem ekki neinar vonir um að hann rættist." Með barn á brjósti og skólabók í hendi Auglýsing um öldungadeild við Mennta- skólann á Akureyri árið 1974 ýtti við Elínu. Skellt var á fjölskyldufundi, eins og hún orðar það, og farið út á Dalvík þar sern hug- myndin var borin undir foreldrana. „Eg man eftir því að eitthvert gjald þurfti að borga til að innritast og ég náttúrlega pen- ingalaus en þá sagði pabbi við mig að ef ég færi í námið þá skyldi hann lána mér fyrir þessu. Þetta varö úr og þessir peningar eru enn á vöxtum. Systkini mín tvö voru þá enn í Menntaskólanum og buðust til að passa börnin seinni partinn á daginn á meðan ég væri í skólanum. Svo sögðu þau við mig að þetta væri ekkert einasta mál og með það lagði ég upp. Þá var hægt að ljúka náminu á þremur árum en hjá mér kom babb í bátinn þar sem ég varð ófrísk strax á fyrsta vetri cn þráaðist sanrt við og lauk náminu á fimm vetrum. Ég er nú eiginlega hissa á því hvað ég gat því ég var að reyna að grípa í bókina meö barnið á brjósti og taka síðan skorpur fyrir prófin. En þetta hafðist á endanum." segir Elín og segir aðspurð að ekki hafi þessi skólaganga endilega verið hugsuð sem milli- þrep fyrir meira nám heldur hafi hún fyrst og fremst verið að þessu fyrir sjálfa sig og líka til þess að geta betur litið til með börn- ununr sínum í námi. „Ég hef jú alltaf litið fyrst og fremst á mig sem uppalanda og hcld að þetta hafi nýst mér vel í því skyni. En námið jók líka með mér sjálfstraust." Fangavarsla í kvennafangelsi Eftir stúdentsprófið hélt Elín áfram í sinni kvöld- og helgarvinnu jafnframt því að hugsa um heimilið. Stuttu eftir að skólagöngunni lauk var sett á stofn kvennafangelsi á Akur- eyri og sótti þá Elín um starf fangavarðar, ásamt fleiri konum. Hún var ráðin í starfiö og gegndi því þau tvö ár sem kvennafangels- ið starfaði. Ekki leynir það sér að þetta starf þótti Elínu lærdómsríkt enda tengdist hún þeim konum sem sátu af sér dóma sterkum böndum. „Já, okkur varð vel til vina. Þessar konur hafa síðan haldið tryggð við mig og nú síðast í sumar kom ein þeirra í heimsókn til mín. Ég veit svo sem ekki hvort ég var neinn sérstakur sálusorgari þeirra, ég talaði bara við þær um lífið og tilveruna." Elín samsinnir því glaðlega að starf fangavarðarins sé kannski ekki það sem allir gætu hugsað sér að fást við en þetta sé mikil lífsreynsla eins og allt annað í lífinu. „Blcss- aður vertu. Það er ábyggilega eitthvert fyrir- hyggjuleysi í mér að geta hellt mér út í svona lagað án þess að hugsa mig um. Kannski er þetta ævintýralöngun og kannski er þetta bara vegna þess að ég er fædd í svo einkennilegu stjörnumerki," og enn er kitl- andi hláturinn skammt undan. „Lærðu nú að selja lambakjötið“ Eftir að starfinu við kvennafangelsið lauk var Elín eitt sinn stödd á skrifstofu skóla- stjóra Glerárskóla í erindagjörðum fyrir foreldrafélag skólans og þá bauð Vilberg skólastjóri henni að koma inn í forfalla- kennslu í skólanum. Hún sló til, hugsaði sér að hún hlyti að lifa af til vors en kennslan entist lengur en til stóð. Eftir fjóra vetur í kennslunni tók hún ákvörðun um að setjast sjálf á skólabekkinn til að nema stjórnunar- og markaðsfræði. „Af hverju ég valdi þetta nám? Ja, senni- legast vegna þess að hér var búin að vera mikil umræða um að við íslendingar þyrft- um á fólki með þessa menntun að halda. Palli föðurbróðir minn sagði við mig þegar ég fór, að heim skyldi ég ekki koma fyrr en ég væri búin að læra að selja lambakjötið okkar. Ekki er það nú selt enn. En talandi um lambakjötið þá held ég að við íslending- ar séum haldnir dálítilli vantrú á því sem við höfum.“ Námið var þrotlaus vinna en uppskeran góð Elín segir að vissulega hafi þeirri hugsun skotið niður hjá sér að hún þyrfti að keppa við sér yngra fólk á vinnumarkaðinum. „Komin á þennan aldur og orðin tvöföld amma þarf varla að óttast að ég fari um leið í barnsburðarleyfi,“ segir hún og skellihlær. „Nei, í alvöru talað þá held ég að um þetta atriði hafi ég bara ekki hugsað mjög mikið. Við fórum út hjónin með tvö yngri börnin, komum okkur fyrir og fljótlega byrjaði ég í skólanum, nreð ónotaða menntaskóla- enskuna í farteskinu. Þetta var þrotlaus vinna og aftur vinna. Komin á þennan aldur þá er markmiðið að fá sem mest út úr þessu. Þarna var reyndar fólk á öllum aldri frá öll- um heimshornum og þessir erlendu krakkar voru oft á tíðum eins og fósturbörnin mín.“ Ekki segist Elín geta séð sjálfa sig tvítuga í þeim sporum að hefja framhaldsnám í framandi landi. „Harkan var mikil og ég þurfti mikið að leggja á mig til að sanna mig. En ég uppskar og það ekki síst vegna þess að ég var búin að kynnast ólíkum þátt- um vinnumarkaðarins. Á því er enginn ein- asti vafi. Miðað við margt yngra fólk sem ekkert hlé gerir á námsferlinum þá kallast það sem ég gerði að byrja á öfugum enda. En eins og ég segi þá held ég að það hafi verið ávinningur, ég hefði ekki tvítug haft þroska til að nýta mér þetta eins og ég gerði." íslenskan bíður ellinnar Háskólinn á Akureyri var konrinn á fóstur- stigið þegar Elín pakkaði ofan í tösku og hélt til náms í Bandaríkjunum en hún segist ekki viss unr að hún hefði nokkurn tímann farið þar í framhaldsnám þó að skólinn hefði verið kominn á legg. „Nei, það held ég ekki. Ég var mikið ein og það hjálpaði mér þannig að ég gat betur einbeitt mér að náminu. Ef ég hefði hins vegar verið hér heima þá hefði verið erfið- ara að áætla sér tíma fyrir námið. Ef Háskóli íslands hefði orðið fyrir valinu þá væri ég að ljúka íslenskunámi en hver veit nema ég eigi hana eftir þegar fram á elliárin kemur. Það gæti ég alveg hugsað mér.“ Auðvitað ekkert gleypt við fólki með prófgráður „Mig langaði til að fara út í atvinnulífið þeg- ar ég kom heirn í sumar. Ég vildi komast í snertingu við það sem við erum að fram- leiða og leggja mitt af mörkum til að koma þeirri framleiðslu á framfæri. Þetta hefur ekki ekki gengið enn, ég hef verið að láta vita af mér og verð bara bíða eftir tækifær- unum. Ég er ekkert ósátt við það þótt ég þurfi að bíða um sinn og að ekki sé gleypt við fólki þó að það komi heim frá útlöndum með einhverja prófgráðu. En það væri nú súrt í broti að fá ekki eitthvað til að spreyta sig á. Á meðan fer ég á ný í kennsluna í Stóð upp úr kennarastólnum á Akureyri og settist á skólabekk í Bandaríkjunum með sér langtum yngrafólki: gl ímu við fræðin með rykuga menntaskólaensku að vopm Elín Antonsdóttir nýútskrifaður stjórnunar- og markaðsfræðingur í helgarviðtali um uppvöxtinn, námiðog jafnréttisbaráttuna Glerárskólanum, auk þess að kenna mark- aðsfræði á Dalvík," segir Elín um heim- konruna eftir námið og bætir við að auðvit- að hefði hún getað snúið sér að vinnu- markaðinum í Reykjavík og hugsanlega fengið eitthvað frekar við sitt hæfi þar. „Það stóð hins vegar ekki til. Ég er dreifbýlis- manneskja og verð það hvað sem á dynur." Jafnréttisdraumar og pólitík Draunrur Elínar um námið rættist, sá sem snýr að jafnrétti kynjanna á að hennar mati eftir að rætast. Hér er komið að hjartans máli Elínar sem er kvennabaráttan. Hún var í liópi þeirra kvenna sem stóð að fram- boði Kvennaframboðsins til bæjarstjórnar- kosninga árið 1982 og síðan þá hefur hún mikið starfað að þessum málurn og tekið þátt í starfi Kvennalistans. „Ég hafði svo sem ekki mikið verið í þess- ari umræðu en sem ósköp venjuieg kona fann ég hve mikið vantaði á að við stæðum jafnfætis körlum. Sú tilfinning varð hvatinn að því að ég lagði af stað í þessa vinnu," segir Elín. „Ég held að sú skoöun sé ekki uppi innan Kvennalistans að við getum staðið, bent á karlana og skammað þá. Núnrer eitt vantar okkur konur samstöð- una. Það eru söntu málin senr brenna á okk- ur öllum og mér finnst ég finna eftir því sem árin líða að þaö eru alitaf sömu málin sem rætt er unt. Einhverra hluta vegna tekst okkur ekki enn að sameinast en það kemur að því." - Ug hvað þarf tið gerast til þess aö konur sameinist? „Ja, það er nú stóra spurningin." svarar Elín hugsi. „Mér finnst ungu stúlkurnar í dag vera að byrja á nákvæmlega sama punkti og við gerðum. Umræðan um jafn- rétti er jú vissulega orðin meiri og sífellt fleiri ungir menn orðnir meðvitaðir um það en ég held satt að segja að það sé stundum meira í orði en á borði. Kannski er þetta bara uppeldinu okkar að kenna." „Attum að bjóða fram á Akureyri árið 1986“ Kosningasigur kvennaframboðs á Akureyri árið 1982 gaf tóninn fyrir starfscmi Kvenna- listans á síðari árum. Meðbyrinn var með konunum og þær fóru í meirihlutasamstarf í bæjarstjórn. Samt sem áöur fór svo aö í kosningununt árið 1986 buöu konur ekki fram á Akureyri og það segir Elín aö verði að viðurkennast sem mistök. „Viö veltum því að sjálfsögðu fyrir okkur hvort þetta yrði ekki túlkað sem uppgjöf af okkar hálfu. Hins vegar ákváðum viö að beina kröftunr okkar að alþingiskosningun- um 1987 og höföum erindi sem erfiði. kotn- um konu að. Ég er ekkert að segja að við hefðum komið konu inn í kosningununr 1986 þó að við hefðum boðið fram en fram- boð þá hefði að mínu mati gert róðurinn léttari í kosningunum í vor." Aftur í slaginn Á meðan á náminu vestra stóö segist Elín hafa velt því mikið fyrir sér hvort hún ætti nokkuö að koma nálægt þessari vinnu á ný eftir að heim kærni. „Ég fylgdist með í gegn- um vinkonur mínar hér heima og vissi hvernig málin þróuðust og þegar ég heyrði kosningaúrslitin hér í vor þá fann ég hve rnér varð þetta mikið áfall. Þá hugsaöi ég sem svo að greinilcga væri ég ekki búin að renna mitt skeið á enda og þvt' væri ekki ástæða til að hætta. Kvennalistinn verður að horfast í augu við það að nú er niðursveifla og þá er spurn- ingin sú hvort taka eigi upp aðra starfshætti. Pólitík er ekkert öðruvísi en hver önnur markaðssetning og hún tekur breytingum eins og annað, Við viðurkennum mistök ef við gerum þau, ólíkt flestum öðrunt flokkum. En nú held ég að sé að verða lag fyrir okkur að takast á við ríkisstjórnarsam- starf, þingkonur okkar hafa gengið í gegn- um ákveðinn skóla og eru orðnar undir það búnar að starfa í ríkisstjórn." „Megum ekki gefast upp nú“ Saga jafnréttisbaráttunnar gerist ekki á ein- um degi og henni er ekki lokið. Elín brosir og um leið og hún segir að líkast til muni hún sjálf ekki upplifa þann dag að fullu jafn- rétti verði náð. Mikilvægast sé að ná konum til samstöðu enda sé engin gagnrýni á störf þeirra sem að kvennaframboðum standa eins sár eins og gagnrýni frá konum sjálfum. „Ég held hins vegar að við megum ekki gefast upp nú því þá færi allt í sarna farið aftur. Og það er engin ástæða til að leggja árar í bát því við eigum talsvert langt í land enn." JÓH

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.