Dagur - 06.07.1991, Blaðsíða 9

Dagur - 06.07.1991, Blaðsíða 9
Laugardagur 6. júlí 1991 - DAGUR - 9- SÖGUBROT „Giþt mgur gáh hm“ - frásögn af hinum sérkennilega Níelsi skálda Hann var kötturinn sem fór sínar eigin leiðir, oft styggur og viðskotaillur og lét engan eiga neitt inni hjá sér. Gumaði mik- ið af eigin skáldskap en þótti lítt til flestra annarra skálda koma. Níels Jónsson hét hann og kallaði sig skálda. Níels skáldi var fæddur á Flugumýri í Skagafirði árið 1782, að því er flestir telja, en þó eru til heimild- ir sem herma að hann hafi flust vetur- gamall með foreldrum sínum til Skaga- fjarðar. Hvað sem uppruna hans líður þá fyllir hann flokk norðlenskra alþýðuskálda og skulum við nú líta á nokkur sögubrot. Foreldrar Níelsar voru óbreytt alþýðu- fólk en þau Jón Jónsson og Furíður Gísla- dóttir gátu rakið ættir sínar til stórmenna á borð við Hrólf sterka, Guðmund ríka Ara- son og síra Einar skáld í Heydölum. Níels ólst upp við vinnuhörku og átti ekki kost á neinni menntun nema þeirri sem hann gat aflað sér af sjálfsdáðum. Hann fylgdi föður sínum suður til sjóróðra þegar hann hafði aldur og þrek til, en talið er að þeir feðgar hafi ekki átt skap saman. í manntalinu 1801 er fjölskyldan til heimilis að Frostastöðum í Skagafirði, Níels þá tæplega tvítugur. Hann mun hafa unað illa harðstjórn föður síns en ekki tók betra við þegar hann kvæntist. Þá var hann kominn fast að þrítugu en kona hans, Sól- veig Ólafsdóttir, var tíu árum eldri. Ber heimildum saman um að Sólveig hafi verið „svarri mikill" og „geðvargur-1 sem hann hafi verið feginn að sleppa frá eftir tiltölu- lega skammar samvistir. Um varg þennan segir Símon Dalaskáld í erfiljóði um Níels skálda: Giftist ungur gribbu hann, grimmur hófst þá vandi, tólf og árin vera vann vondu í hjónabandi. Fjandskapur feðganna Árið 1816 bjuggu Níels og Sólveig að Brekkukoti hjá Dýrfinnustöðum og hjá þeim tveir synir Níelsar, sem hann hafði eignast áður en hann kvæntist, Sumarliði, 10 ára, og Hálfdan, 8 ára. Sumarliði mun hafa andast um tvítugt en Hálfdan kemur nokkuð við sögu í lífi Níelsar, en samband þeirra feðga endaði með fullum fjandskap. Eftir að Níels og Sólveig slitu samvist- um, sennilega 1817, kom mikið rót á líf skáldsins. Sólveig mun hafa andast skömmu eftir þetta en Níels fór á flakk til æviloka og hafðist við hér og þar í Skaga- firði og Húnaþingi. Framan af réðst hann í kaupavinnu og vann að húsagerð en á síð- ari árum tók hann að fara með lækningar og sitja yfir konum og er talið að hann hafi unnið þessi verk allvel. Níelsi tókst að skrapa saman einhverjum aurum eftir að hann fór að fást við lækn- ingar og yfirsetu og keypti hann þá Selhóla í Gönguskörðum handa Hálfdani syni sínum. Þar hugðist hann eiga athvarf í ell- inni en þeim feðgum samdi svo illa að úr varð fjandskapur. Lauk þeirri viðureign með því að Hálfdan fór burt og annar maður tók við jörðinni. Sat Níels á Selhól- um eftir það og andaðist þar 12. ágúst 1857, hálfáttræður að aldri. Frá þessu stutta æviágripi skulum við víkja að nánari persónulýsingu og koma síðan inn á skáldskapinn. Stökk vel hæö sína í loft upp Níels var meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og vöðvamikill, með mikið enni og kinn- bein en smá augu, munnstór með mikið skegg sem hann lét vaxa niður á efri árum. Hann var liðugur og manna léttastur á fæti og hljóp jafnan á ferðum sínum allt fram á gamals aldur. Sjaldan sást hann ganga hægt. Á yngri árum æfði hann stökk af krafti og þá einatt yfir ár og læki. Hann stökk vel hæð sína í loft upp (í fullum her- klæðum!?) og við hann er kennt svokallað Níelsarhlaup yfir Þverá í Blönduhlíð, en það er afar óárennilegt stökk milli kletta. Níels stamaði og var lestur hans því óáheyrilegur en hann var söngmaður góð- ur og lagviss. Þótt líf hans væri beiskjufullt var hann lengi vel glaðbeittur út á við og hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Hann hélt fast við barnatrú sína en honum fannst heimurinn vondur, sérstaklega við hann sjálfan. Samtíðarmenn hans vissu að þar átti hann m.a. við föður sinn, eigin- konuskassið og vini sem brugðust honum en í þeim hópi var stúlka er hann unni mjög. Þannig yrkir Níels um hagi sína: Sjálfs afhögum flyt eg fátt, fjörs á dögum leikinn grátt, síður að lögum hef það hátt í hróðrarslögum daufum þrátt. Vinalaus var hann þó ekki og má nefna að Jón Espólín, sýslumaður, og Bjarni amtmaður Thorarensen voru báðir vinir hans til dauðadags. Fyrir Espólín orti hann Fransrímur og að beiðni Bjarna orti hann rímuna Urðarmýsnar í Ódáðahrauni, sem lýsa skyldu trúarhálfvelgju, skálkamisk- unn og stjórnleysi 19. aldarinnar. Meö sjálfsálitið í lagi Sérvitur og sjálfhælinn, fljúgandi gáfaður, trúmaður, skemmtinn en beiskur, fúllynd- ur á efri árum. Eitthvað á þessa lund má lýsa Níelsi skálda. Þótt býsna erfitt sé að átta sig á persónunni má ímynda sér að Níels hafi verið blanda af Bólu-Hjálmari og Látra-Björgu, bragðbætt með síra Jóni á Bægisá, en þetta er aðeins mín skoðun. Níels hafði líkt og Bólu-Hjálmar skammarkviðlinga á reiðum höndum og eftir hann liggur mýgrútur af tækifærisvís- um. Þessir tveir alþýðumenn voru víst aldrei neinir vinir. Eitt sinn áttu Hjálmar og Níels skáldi að bera vitni í sakamáli fyr- ir rétti hjá Espólín sýslumanni. Níels bar fyrr. Síðan kvað Hjálmar er hann kom fyr- ir réttinn: Víst er skárra það en þögn þessi rakki gelti, kannske sannleiks úr því ögn eiðurinn síðar smelti. Réttvísinnar guða gögn get ég aldrei svelti, þó haturs veiði í lastalögn lygarinn í sér melti. Níels hafði töluvert álit á gáfum sínum og kvæðum en var fljótur að fordæma önn- ur skáld. Kona ein var eitt sinn að hæla Sigurði Breiðfjörð við hann og reiddist þá Níels og sagði: „Þess vil eg biðja þá, er þykir vænt um kvæði Sigurðar, að þeir snerti ekki við mínum kvæðum.“ Raunar var hann engu skáldi eins óvinveittur og Níels Jónsson skáldi. Sigurði Breiðfjörð, enda voru þeir mjög ólíkir. Sigurður lipur, léttur og ljúfur, sá sólskinið alls staðar, en Níels stirður og þunglamalegur í kveðskap sínum með skugga lífsins fyrir sjónum. Eitt skáld kunni Níels öðrum fremur að meta og var það Eggert Ólafsson. „Hátt hreykir heimskur sér“ segir máls- hátturinn en sjálfsálit Níelsar má frekar skrifa á sérkennilegan persónleika en heimsku. Sagt er að hann hafi stundum hlegið afskaplega og einkennilega skrækt þegar hann var að hafa yfir kvæði eftir sig og eitthvað kom fyrir sem honum þótti fyndið. En hann hló víst einnig þegar hann fór með gamansöm kvæði eftir aðra þannig að ekki er rétt að dæma hann of harkalega. Afkastamikið skáld Grobbinn og góður með sig, jú, jú, sjálf- sagt hefur almannarómur ekki logið miklu þar um. En ef við iítum nánar á skáldskap Níelsar er reyndar erfitt að koma auga á hvers vegna hann hreykti sér svo mjög af eigin verkum. Vissulega var hann afkasta- mikill en magn og gæði fara ekki alltaf saman. Eftir Níels eru til miklar kvæða- syrpur í handritum, einnig frásagnir og hugleiðingar og skáldsagan Eiríkur Loftsson. Níels samdi átta rímnaflokka svo vitað sé með vissu en fleiri hafa verið eignaðir honum. Ef prentuð væri heildar- útgáfa á verkum hans sem til eru í eigin- handarriti mundu þau fylla nokkur væn bindi, en fátt hefur verið prentað fyrir utan rímur. Yrkisefni sótti Níels skáldi í þjóðfélag- ið, bæði menn og málefni. Þar var af nógu að taka á 19. öld, kúgun Dana, örbirgð, þverrandi trúaráhugi. Yfirmenn, sem eigum hlýða, eftir sínum höfðum sníða til ávinnings sjálfum sér álögur, sem dikta Danir, dönsku þrælabandi vanir, en vitlausir í háttum hér. (Mittisband 19. aldar) Óáran og skorti á guðrækni lýsir Níels kröftuglega í hinni táknrænu rímu Urðar- mýsnar í Ódáðahrauni. Þar má m.a. sjá þessi erindi: Furðar mig þá lygum lýðir lærðir una og binda sig við biblíuna, beygða á svig, en hitt misgruna. Áfram sést þó ýmsir prestar álpa þannin, þenking brestur, sjá ei sanninn, sviknir verst og margur glanninn. Lausavísurnar eru rnargar og margvísleg tilefni sem kallað hafa á þær. Eitt sinn var Níels að sulla með nokkrum mönnum á Akureyri og voru orðaskipti þeirra háfleyg. Þá sönglaði Níels: Skuli eg nokkru skeipa hyggju og mál, því sem fær vor þrúðga móðir gefið,- það telst ei að fá sér korn í nefíð,- þá veri það sannleiks vina skál. Annars mun Níels skáldi ekki hafa verið ölkær úr hófi, kvaðst stundum hafa drukk- ið af þörf en ekki fýsn. Við mann sem kvartaði yfir því að fá sjaldan hressingu sagði hann þetta: Finnirðu slá þig löngun er lá til lystinga hárra, en lukkan oft flá kann nægt af þér ná, svo njótirðu fárra, þörfin sjálfsmá vill þýtt yndi Ijá og þrek andar knárra, ven þig strax á að vera þeim frá, það verður þér skárra. Þegar Níels heyrði að Sigurður Breið- fjörð væri farinn að bauna á kveðskap hans og beindi spjótum sínum helst að Fransrímum þá kvað hann: Penkjurum einum þægð er í þankaverkum mínum, eg þeim trautt að öðru sný aldrei hnugginn fyrir því, Frans rímur þó fóttroðist af svínum. Níels staðhæfir jafnvel að tómleikinn í kvæðum Breiðfjörðs hafi kennt sér að „þekkja í sundur forblómaða mælgi mein- ingarlausa og þankaverk, sem sýndu nokk- urt sálarafl." En menn voru ekki sammála um hvað til þyrfti til að vera réttkallað skáld. Sjálfur hefur Níels skáldi kannski frekar verið þokkalegur hagyrðingur en skáld, a.m.k. ristir skáldskapur hans ekki djúpt og oft er hann æði stirður. Ég ætla ekki að fella neina dóma hér en Níels skáldi hefur þó eflaust verið hinn merki- legasti maður. Að lokum þetta: Fyrðar harðir forðum sverði vörðu flest eð bezta mest oss sést nú bresta auðsæld þjóð hér eðaldáð og prýði arður hjarðar varð og jarðar svarða, stálsett heilsa, hjals og stíls alfrelsi hagnaði bragna gagni og sagna magrú, en sæld um þulda þoldi ei öld sem skyldi, þjóðar móðfullt blóð á lóð svo flóði. Segir þá ekki meira af þessu sérkenni- lega alþýðuskáldi, áhugalækni og yfirsetu- manni. (Helsta heimild: Menn og minjar V. -Níels skáldi, Leiftur, Rvík. 1948).

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.