Dagur - 08.07.1992, Blaðsíða 4

Dagur - 08.07.1992, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Miðvikudagur 8. júlí 1992 ÚTGEFANDI: DAGSPRENT HF. SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31. PÓSTHÓLF 58. AKUREYRI. SÍMI: 96-24222 ÁSKRIFT KR. 1200 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ KR. 110 GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMNETRA 765 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON BLAÐAMENN: INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavíkvs. 96-41585). JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON. JÓN HAUKUR BRYNJÓLFSSON (iþróttir). ÓLI G. JÓHANNSSON. ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON. SKÚLI BJÖRN GUNNARSSON (Sauöárkróki vs. 95-35960. fax 95-36130). STEFÁN SÆMUNDSSON. ÞÓRÐUR INGIMARSSON LJÓSMYNDARI: KJARTAN ÞORBJÖRNSSON PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON. ÞRÖSTUR HARALDSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR. HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTVINNSLA: DAGSPRENT HF. SÍMFAX: 96-27639 Aftur tíl Kjaradóms Sú ákvörðun ríkisstjómarinnar að setja bráðabirgðalög í Kjaradómsmálinu svo- nefnda kom vægast sagt á óvart eftir þær yfirlýsingar sem ráðherrarnir höfðu áður gefið um málið. Ríkisstjórnin var vissulega í erfiðri stöðu en segja má að hún hafi hafnað bestu leiðinni til lausnar en valið þá næst verstu. Besti kosturinn í stöðunni var tvímæla- laust sá að kalla Alþingi saman án tafar og setja ný lög um Kjaradóm, því Kjaradómur á að sjálfsögðu að heyra undir Alþingi allt en ekki ríkisstjórnina eina. Eftir þær breytingar sem gerðar voru á þingskaparlögunum situr Alþingi nú allt árið um kring og hægt er að kveðja það til reglulegra funda nánast hve- nær sem þurfa þykir. Þess vegna var ekkert því til fyrirstöðu að þing kæmi saman til að taka afstöðu í Kjaradómsmálinu og grípa til viðeigandi ráðstafana. Þessari leið hafnaði ríkisstjórnin engu að síður og hafnaði þar með meginkröfu útifundarins í Reykjavík á dögunum. Versti kosturinn í stöðunni hefði eflaust verið sá að aðhafast ekkert og láta úrskurð Kjaradóms standa óhaggaðan. Reyndar má segja að ríkisstjórnin hafi í fyrstu ætlað að grípa til þess ráðs, eða því sem næst, því hún ætlaði upphaflega að sitja aðgerðalaus fram í lok ágústmánaðar en kanna þá hvort eitthvað væri hægt að gera í málinu. Sú leið hefði vafalaust reynst dýrkeypt og því fagn- aðarefni að ríkisstjórnin kaus að skipta um skoðun. Sem fyrr segir er setning bráðabirgðalaga líklega næst versta úrræðið sem hægt var að hugsa sér. Með setningu bráðabirgðalaga er ekki hægt að tryggja að Kjaradómur komist að annarri niðurstöðu en hann hefur þegar gert. Hætt er við að dómstóllinn muni nota sömu viðmiðanir og áður þegar hann ákvarðar laun umbjóðenda sinna öðru sinni - ef hann þá fæst til þess - og breyti því úrskurði sínum lítt eða ekkert. Þá fyrst væri málið komið í fullkomið óefni. í stað þess að kalla Alþingi saman og höggva á hnútinn og taka þar með pólitíska ábyrgð á lausn málsins á sínar herðar, ákvað ríkisstjórnin að skjóta málinu til Kjaradóms öðru sinni. Enginn veit á þessari stundu hver viðbrögð hans verða og því eru lyktir málsins enn á huldu. Það er afar slæmt með tilliti til þess hve mikhr hagsmunir eru í húfi. BB. Þjóðskólinn á Akureyri Meðal síðustu vorverka Alþingis var að setja Háskólanum á Akur- eyri ný lög. Þetta er í sjálfu sér fagnaðarefni. Það furðulega við þessa afgreiðslu er að mennta- málanefnd Alþingis fékk sam- þykkta þá breytingu á frumvarp- inu, að í burtu falli seta fulltrúa Akureyrar og Fjórðungssambands Norðlendinga í háskólanefnd. Þessu var breytt á þann veg að í staðinn komi tveir fulltrúar nemenda háskólans, sem þeir kjósa árlega á almennum fundi sínum. Rök menntamálanefndar eru athyglisverð, en í nefndaráliti segir: „Það er skoðun nefndarinnar að Háskólinn á Akureyri sé líkt og Háskóli íslands skóli allra landsmanna og því sé ekki eðli- legt að í stjórn hans sitji fulltrúar staðbundinna samtaka." Þetta eru ekki hlýjar kveðjur til Akureyrarbæjar og Fjórðungs- sambands Norðlendinga, sem hafa haft frumkvæði um stuðning íbúa Norðurlands og ekki síst velvild landsbyggðarmanna almennt við skólann. Þetta er þó verjandi, ef Háskólinn á Akur- eyri axlar það hlutverk að vera alhliða þjóðskóli í þeim anda sem Jón Sigurðsson forseti stefndi að með stofnun háskóla á íslandi. Kannski vakti bara fyrir nefnd- inni sú einfalda túlkun, að skól- inn sé ætlaður öllum landsmönn- um, Ii'kt og Háskóli íslands í Reykjavík hefur verið frá upp- hafi. Það er fjarri því að Háskólinn á Akureyri sé viðurkendur af kol- lega sínum í Reykjavík. Þeir sem eru djarfastir á þeim bæ telja að efla megi Háskóla íslands með því að hætta starfsemi Háskólans á Akureyri. Þeir ræða um dýrasta háskóla í norðanverðri Evrópu, en gleyma að geta þess að Há- skóli Islands býr að sjálfstæðri tekjulind, utan fjárlaga, sem er Happdrætti Háskóla lslands. Til þeirra fjármuna er oftast leitað, þegar Háskóli íslands eflir búnað sinn og húsakost. Áskell Einarsson. Hér norðan heiða hafa okkar vísu háskólafeður ekki fundið upp hliðstæða tekjulind. Hins vegar fann norðanstúdentinn, Ólafur G. Einarsson, mennta- málaráðherra, hvöt hjá sér að vekja athygli á þessu. Því er vænst að heimamenn háskólans á Akureyri láti ekki sitt eftir liggja. Ekki er vafamál að ekki stendur á stuðningi Fjórðungssambands Norðlendinga og margra annarra víðsvegar í byggðum landsins. Háskólinn á Akureyri býr að liðsinni hinna mörgu, er eiga menntun sína og framgöngu að þakka Menntaskólanum á Akur- eyri, þegar það þóttu forréttindi að sækja menntaskólanám. Þetta kom greinilega í ljós, þegar safn- að var liði til undirbúnings háskóla á Akureyri. Hér kom einnig til frumkvæði Norðlend- inga sjálfra, í öllum byggðum Norðurlands, sem ásamt lands- byggðarmönnum víða um land, sameinuðust um málið, sem byggðamál. Útslagið var þó ákvörðun tveggja ágætra norðan- stúdenta, sem skipuðu stól menntamálaráðherra á sinni tíð. Það verður að vara alvarlega við því að þrengja vinahóp Háskólans á Akureyri, og tengja starf hans sérstaklega við eflingu byggðar hér við fjörðinn. Há- skólinn á Akureyri verður að treysta landsbyggðartengsl sín, hvar sem er í landinu. Þessi sömu tengsl dugðu Menntaskólanum á Akureyri, þegar hann barðist fyr- ir lífi sínu. Akureyrarskólinn hef- ur mótað nýja hópa mennta- manna í þessu landi, til fremstu áhrifa í þjóðfélaginu. Eins og gefur að skilja er Háskólinn í Reykjavík arftaki hinna gömlu embættismanna- skóla á sviði guðfræði, læknis- fræði og lögfræði. Háskóli íslands mun að sjálfsögðu halda áfram því hlutverki, að fullnuma háskólamenntaða embættismenn handa þjóðinni. Hér hefur Háskólinn á Akureyri hins vegar frítt spil, þar sem hann tekur ekki við sögulegu hlutverki embættis- mannaskólanna. Ef til vill á hann hægara með, frekar en Reykja- víkurskólinn, að verða í raun þjóðskóli, þar sem áhersla er lögð á þau fræði, sem næst eru atvinnulífi og daglegu striti þjóð- arinnar. Á þessu sviði hefur brautin verið rudd. Ljóst er af afgreiðslu Alþingis, að á næsta leiti er kennaranám við Háskólann á Akureyri, og vonandi eflist rekstrarfræðinámið t.d. með auk- inni kennslu í markaðsfræðum. Þrátt fyrir það að fulltrúar „staðbundinna samtaka“, þ.m.t. Akureyrarbæjar, séu ekki nægi- lega fínir til að vera í akademískri stjórnarnefnd, verður skólinn að treysta á þessar sömu baksveitir áfram í hvert sinn, þegar draga á nýjungar að landi. Þetta er kjarni þessa máls. Það pýramídasjálfstjórnar- kerfi, sem einkennir háskóla- starfið, er starfseminni fjötur um fót. Þetta sýnir reynslan, hve háskólamönnum gengur illa að fá þjóðarfylgi við nýmæli í rekstri stofnana sinna. Áskell Einarsson. Höfundur er framkvæmdastjóri Fjórð- ungssambands Norðlendinga. Tónlist_______________ Suniartónleikar 2. júlí hélt Tónlistarhópur Akur- eyrarkirkju tónleika á Dalvík á vegum Sumartónleikanna á Norðurlandi. Það voru fyrstu tónleikar sumarsins og upphaf fimmta starfsárs sumartónleik- anna. Tónlistarhópurinn flutti sömu efnisskrá á tónleikum í Raufarhafnarkirkju, 3. júlí, í Reykjahlíðarkirkju, 4. júlí og í Akureyrarkirkju, 5. júlí. Tónlistarhópur Akureyrar- kirkju var skipaður Margréti Bóasdóttur, sópransöngkonu, Lilju Hjaltadóttur, fiðluleikara, Hólmfríði Þóroddsdóttur, óbó- leikara, Dagbjörtu Ingólfsdóttur, fagottleikara og Birni Steinari Sólbergssyni, organista Akureyr- arkirkju. Margrét Bóasdóttir flutti Til Maríu eftir Gunnar Reyni Sveinsson, þar sem hún naut dyggrar aðstoðar Björns Steinars Sólbergssonar. Einnig fluttu þau tvö þrjú trúarverk eftir Jón Leifs, Upp, upp mín sál, Allt eins og blómstrið eina og Faðir vor. Loks flutti Margrét Flammende Rose, Zierde der Erden eftir G. F. Hándel og naut undirleiks hljóð- færaleikaranna allra. Til Maríu er dálítið sundur- laust verk, þar sem höfundur fer talsvert á milli stílbragða. Það er þó alláhrifamikið og naut sín vel í flutningi Margrétar og Björns Steinars. Upp, upp mín sál er svolítið þvingað verk; gleði hinn- ar trúuðu sálar kemur ekki svo fram sem eðlilegt hefði mátt teljast. Allt eins og blómstrið eina er hins vegar innileg tón- smíð og var flutt af mikilli innlif- un. Eins var um flutning hins eftirtektarverða verks, Faðir vor, en þar hefði heldur meiri radd- styrkur en Margrét hefur yfir að ráða verið æskilegur. Hið sama gilti að hluta til um Flammende Rose, Zierde der Erden eftir Handel, en þar naut sín aftur til fullnustu mikið vald Margrétar Bóasdóttur á flutningi þess tóna- flúrs, sem einkennir tónlist sam- tíma tónskáldsins. Hljóðfæraleikararnir fluttu tvö verk eftir A. Corelli: Tríósónötur op. 2 nr. 1 og op. 3 nr. 1. Einnig fluttu þeir Tríó í g-moll eftir A. Vivaldi. Flutningur var í heildina góður. Sérlega vel tókst að skila anda hinna ýmsu kafla verkanna þannig að þeir nutu sín hver um sig og skildu sig vel að. Marker- ing var einnig góð og samstilling tónstyrks í góðu lagi. Gallar voru fáir. Einna helst þeir, að fyrir kom að óbó og fiðla voru ekki ætíð svo samstíga í hröðum nóta- leik sem hefði mátt vera, og einnig henti, að tónn fiðlunnar náði ekki alveg réttri hæð einkum í sólóinnkomu í tríói Vivaldis. Tónleikarnir í Akureyrar- kirkju voru vel sóttir, en aðsókn á sumartónleikana hefur farið vaxandi ár af ári, sem sýnir, að þessi starfsemi á góðan hljóm- grunn. Hún hefur líka verið auk- in verulega á þessu starfsári. Nokkrar kirkjur hafa bæst í flokk þeirra, sem leikið er í. Þær eru Dalvíkurkirkja, Lundarbrekku- kirkja, Raufarhafnarkirkja og Dómkirkjan á Hólum í Hjalta- dal. Það fólk, sem staðið hefur að þessari starfsemi, á miklar þakkir skyldar fyrir ötula framgöngu sína. Þar eiga Björn Steinar Sól- bergsson, organisti, og Margrét Bóasdóttir, söngkona, stærstan hlut. Því miður er Margrét Bóas- dóttir væntanlega á förum suður í Skálholt á þessu ári. Hún hefur verið mikil stoð og driffjöður í tónlistarlífi fjórðungsins undan- farin ár og skilur eftir sig skarð, sem torvelt er að sjá hver muni fylla. Haukur Ágústsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.