Þjóðviljinn - 30.03.1983, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 30.03.1983, Blaðsíða 10
10 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 30. mars 1983 „Eins og nafnið gefur til kynna fjallar leikurinn fyrsí og fremst um þá heillandi og flóknu kvenpersónu Guðrúnu Ósvífursdóttur, stórláta og tilfinn - ingaríka, kröfuharða og dyntótta, ástheita og óvægna“. Leikfélag Reykjavíkur: GUÐRÚN Höfundur og leikstjóri: Þórunn Sigurðardóttir. Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir. Lýsing: David Walters. Tónlist: Jón Ásgeirsson. Á undanförnum áratugum hafa verið settar hér á svið allmargar leikgerðir öndvegisverka eftir höf- unda á borð við Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Þórberg Þórðarson og nú síðast Guðmund Kamban (Ragnheiður), og var sannarlega orðið tímabært að ein- hver hugkvæmur og hugprúður leikhúsmaður legði til atlögu við fornsögurnar, en Jóhann Sigur- jónsson mun vera síðastur þeirra sem slíks freistuðu (Mörður Val- garðsson, 1917). Nú hefur Þórunn Sigurðardóttir gengið framfyrir skjöldu og ráðist í það stórvirki að leikgera kjarnann úr Laxdæla sögu, þ.e.a.s. feril og farnað Guð- rúnar Ósvífursdóttur í þeirri sögu, og heitið verkið eftir hinni nafntog- uðu kvenhetju. Er skemmst af því að segja, að Þórunni hefur auðnast að koma ótrúlega miklu af sögunni um þrjú fyrstu hjónabönd Guðrúnar fyrir í leikgerðinni, enda er farið ákaflega fljótt yfir sögu framað leikhléi. Held ég megi fullyrða að nálega öllum veigamiklum atriðum í frá- sögn Laxdælu af ferli Guðrúnar framað vígi Bolla sé til skila haldið, sem er útaf fyrir sig ekki lítill gald- ur. Hinsvegar má vera að hinn mikli fjöldi örstuttra atriða verði í fyrstunni svolítið ruglingslegur fyrir þá sem ekki eru kunnugir frá- sögn Laxdælu, en þau eru öll þættir í flóknum vef sem tekur á sig skýrt heildarform þegar framí sækir. Ég er fyrir mína parta sáttur við aðferð Þórunnar, því með þessu móti skilar sagan sér nokkumveg- inn heil á sviðinu, þannig að þeir mörgu íslendingar sem aldrei hafa lesið söguna (þeir eru fleiri en margur hyggur) fá einkar skýra hugmynd um hana. Hefur Þórunn ekki gengið framhjá þeim þáttum sögunnar, sem kannski orka an- kannalega á nútímamenn, svosem draumsýnum, forspám, álögum, fordæðuskap og töfrum, og birtir okkur þannig í hnotskurn þann hugarheim miðalda sem fornsagan greinir frá. Þetta tel ég verulegan kost á leikgerðinni. Hinu er ekki að leyna, að með svo ýtarlegri uppmálun aðdrag- anda og sögulegs baksviðs slakar höfundur á þeirri dramatísku spennu sem eflaust hefði mátt skapa með því að einskorða sig við ástarþríhyrning þeirra Guðrúnar, Kjartans og Bolla. En þá hefðu að sjálfsögðu glatast veigamiklir þætt- ir í þeirri margslungnu kvenlýsingu sem leikgerðin fyrst og fremst miðar að. Það eru skapferli, tilfinn- ingar og félagsleg aðstaða Guðrún- ar sem er þungamiðja leiksins frá upphafi til loka, og mynd kvenhetj- unnar hefði orðið snöggtum grunn- færari án lýsingar á fyrstu tveimur hjónaböndum hennar. Hinn eiginlegi harmleikur hefst ekki fyrren eftir hlé, þegar Kjartan kemur heim frá Noregi og sam- skipti hans við Guðrúnu og Bolla leita í farveg sem óhjákvæmilega leiðir til átaka og ógæfu. Hér fær leikgerðin nauðsynlega dramatíska spennu og nokkur leikræn ris sem lyfta verkinu í veldi raunverulegrar sviðstúlkunar. í þeim harmleik eigast við ást og afbrýði, sæmd og sært stolt, hatur og hefndarhugur, frændrækni og fósturbönd. í túlk- un Þórunnar er undirrót harm- leiksins miklu fremur eigingirni og óheilindi Kjartans en undirferli Bolla, enda verður það varla í tví- mælum hatt að tragisk hetja leiksins er hvorki Guðrún né Kjart- an, heldur Bolli. Áhrifaríkasta at- riði sýningarinnar var víg Kjartans. í því kristallast hin harmsögulegu örlög Bolla: hann er óleysanlega flæktur í örlagavef sem hann hefur að vísu átt upptök að með því að kvænast Guðrúnu (að því er virðist í góðri trú), en hefur síðan verið spunninn án hans vitundar og gegn vilja hans. Hann á í lokin hið von- lausa val milli þess að glata Guðrúnu og vega fóstbróður sinn, og velur seinni kostinn með fyrir- sjáanlegum afleiðingum. í því er tragísk reisn hans fólgin. í túlkun Þórunnar verður Kjartan enn meiri sveimhugi og sjálfselskur vingull helduren nokkurntíma í sögunni, og leiðir hún það ljósast fram í at- riði sem hún hefur sjálf diktað, þegar þau hittast, Guðrún og Kjartan, fyrir utan Laugar og hún sængar hjá honum, en býður hon- um síðan þann kost að skilja við Bolla gegn því að hann skilji við Hrefnu. Kjártan tekur því fjarri en vill halda áfram að hitta hana með leynd. Þetta atriði er vissulega djarft og á mörkum sennileikans einsog Guðrún er skapi farin, en það lánaðist og hnykkti eftirminni- lega á því sem leikurinn hefur að öðru leyti að segja um lyndis- einkunn Kjartans. Einsog nafnið gefur til kynna fjallar leikurinn samt fyrst og fremst um þá heillandi og flóknu kvenpersónu Guðrúnu Ösvífurs- dóttur, stórláta og tilfinningaríka, kröfuharða og dyntótta, ástheita og óvægna. Hún býr í umhverfi sem er alltof þröngt fyrir upplag hennar og eðlishneigðir, á sam- kvæmt óskráðum lögum að lúta vilja föður síns og bænda, en tekur ráðin í eigin hendur þegar allt snýst öndvert fyrir henni, með þeim af- leiðingum að hörð og óvægin lögmál karlrembusamfélagsins þjarma enn frekar að henni. Hún er kona í sífelldri uppreisn afþví tilfinningum hennar, gáfum og öðru atgervi er látlaust misboðið, og endar ævina í iðrun og uppgjöf frammifyrir hástól Almættisins. Það sem Þórunn Sigurðardóttir hefur afrekað með leikgerð sinni er umtalsvert. Hún hefur í fyrsta lagi ■þrætt atburðarás Laxdælu eins ná- kvæmlega og verða má og þannig skilað sögunni óskertri til okkar. I annan stað hefur hún léð túlkun sinni nýjar áherslur og fundið henni sjónarhorn sem gerir hana fyllilega tímabæra, að ekki sé sagt nærgöngula. Og þá er komið að uppfærslunni. Þórunn hefur sjálf haft leikstjórn á hendi og þannig væntanlega náð fram því sem hún ætlaði sér þegar hún samdi verkið. Hinsvegar hefur naumur fjárhagur Leikfélags Reykjavíkur vísast ráðið því, að rúmlega þrjátíu hlutverk leiksins eru í höndum níu leikara og mátti varla tæpara standa. Þó það ylli ekki beinlínis ruglingi, þá orkaði það truflandi og var með köflum hvimleitt að sjá sömu leikendur koma fram á nýjum og nýjum gervum, sem ekki voru sérlega sundurleit innbyrðis, og þó einkan- lega að heyra sömu raddir íþessum margvíslegu hlutverkum. Eg fellst á að þetta sé til marks um eftir- breytnisverða hagsýni, en það varð sýningunni ekki til framdráttar, nema kannski að því leyti að lítill og samhæfður hópur er meðfæri- legri en stór og sundurleitur hópur. Ég sá ekki betur en leikstjórn færi höfundi vel og fagmannlega úr hendi. Hinar tíðu atriðaskiptingar gengu greiðlega, margar leik- lausnir voru hugkvæmar og sýning- in heilleg og hnökralaus. I því efni var ekki lítill stuðningur í leiktjöld- um Messíönu Tómasdóttur, lýs- ingu Davids Walters og tónlist Jóns Ásgeirssonar. Umgerð Messíönu gat ekki einfaldari verið: hangandi tjöld umhverfis sviðið í ýmsum lit- brigðum frá grásvörtu til silfurs, tveir hallir pallar miðsviðs ásamt nokkrum sessum og kistli sem var til margra hluta nytsamlegur. Sam- ræmið í litasamsetningu var aðdá- unarvert og stóra silfraða tjaldið á vinstra bakgrunni glitraði í allra- handa blæbrigðum eftir því sem ljósin léku um það. Og ekki voru búningar leikenda minna augna- yndi, flestir í ýmsum gráleitum lit- brigðum, en búningar höfuðper- sóna litfagrir og glæsilegir. Við þennan einfalda sviðsbúnað voru ljósin afar mikilvæg til að vekja réttar stemmningar, og var framlag Davids Walters hið markverðasta. Svipað er að segja um tónlist Jóns Ásgeirssonar sem var bæði mjög áheyrileg og skipti miklu máli við tengingu atriða og undirstrikun angurværðar sem er grunntónn leiksins. Sem fyrr segir eru hlutverk ríf- lega þrjátíu talsins og hvfldu á herðum níu leikenda. Mest kvað vitanlega að hlutverkum Guðrún- ar, Kjartans og Bolla. Ragnheiður Arnardóttir er ung leikkona og lítt reynd og gætti þess sumstaðar í túlkun margslungins hlutverks. Hún náði hvorki hæstu né dýpstu tónum í þeim erfiða skala, en skilaði furðu heilsteyptri túlkun svo langt sem hún náði, sýndi til dæmis eftirtektarverð tilþrif í geðshræringaratriðum. Yfirleitt virtist henni láta betur að túlka á - tök en rósamt sálarástand.og kom það hvað skýrast fram í sam- skiptum við Kjartan: ástblíðan milli þeirra var miklu síður sann- færandi en átökin, og má vera að þar sé að einhverju leyti um að kenna ófullnægjandi mótleik. Túlkun Guðrúnar útheimtir mik- inn þorska og djúpt innsæi sem Ragnheiði skorti þarsem mest á reyndi, en margt í túlkun hennar var verulega hugtækt og er hér augsýnilega komin mjög efnileg leikkona. Túlkun Jóhanns Sigurðarsonar á Kjartani var svipuðu marki brennd. Hinn ungi leikari hefur óneitanlega líkamsburði og ytra at- gervi til að túlka hinn nafnfræga kappa, en þegar kom að innri hrær- ingum sem tjáðar eru með hárná- kvæmu látbragði og réttu hljóm- falli orðsvara, þá vantaði talsvert á að hlutverkið skilaði sér. Jóhann var drengilegur og fyrirmannlegur í framgöngu, sómdi sér vel á sviðinu, en ég saknaði þeirrar innri orku og útgeislunar sem gerði ofur- ást Guðrúnar á honum skiljanlega. Að sönnu er Kjartan í eðli sínu dæmigert dekurbarn, úthverf og grunnhyggin manngerð, og þá þætti tókst Jóhanni mætavel að túlka, en hann býr líka yfir öðrum eigindum, svosem hrifnæmi, áhrif- avaldi yfir öðrum og örum skaps- munum, sem síður komu til skila. Siguröur A. Magnusson skrifar um leikhús Harald G. Haraldsson lék Bolla og naut reynslu sinnar framyfir fyrrnefnda leikendur, því hann skilaði heilsteyptastri og viða- mestri túlkun þeirra þriggja. Að vísu er hlutverk Bolla ekki eins flókið og hin tvö, en hefur eigi- aðsíður marga strengi sem flestir hljómuðu í meðförum leikarans. Afrek Haralds var meðal annars í því fólgið að gera Bolla fullkom- lega trúverðugan og mun geðfelld- ari en Kjartan. Túlkun hans ein- kenndist af hófstillingu og næmu skyni á þýðingu þess sem einungis verður tjáð með svipbrigðum og fasi. Valgerður Dan fór með lítið en mikilsvert hlutverk Hrefnu og dró upp nærfærna og sannferðuga lýs- ingu á skapmikilli stúlku sem verð- ur að sætta sig við hlutskipti vara- skeifunnar, en elskar mann sinn heilli og örvæntingarfullri ást. í smærri hlutverkum kvað mest að Soffíu Jakobsdóttur sem lék þær Þuríði systur Kjartans og Ingi- björgu konungssystur af miklum myndugleik, og var síðarnefnda hlutverkið verulega hjartnæmt í meðferð leikkonunnar. Jón Hjatarson lék keimlík hlut- verk þeirra Gests Oddleifssonar og Ósvífurs’ Helgasonar með við- felldnum hætti, en var slakari í gervi Ólafs konungs Tryggvasonar, skorti konunglega reisn og atgervi. Jón Júlíusson fór þekkilega með hlutverk Ólafs páa, Þórðar Ingi- mundarsonar, Brands hins örva og Helga Harðbeinssonar. Önnur minniháttar hlutverk voru í góðum höndum þeirra Hönnu Maríu Karlsdóttur, Aðalsteins Bergdals og ýmissa ofangreindra leikara. Áð endingu skal getið þess sem ekki er síst um vert, að Þórunni Sigurðardóttur hefur lánast af furðumiklum hagleik að semja samtöl leiksins þannig að haldið er að mestu upphaflegu orðafari text- ans í Laxdælu, og það sem frá Þór- unni kemur er samhæft því orða- færi, þannig að óvíða hattar fyrir. Því afreki er líka ástæða til að halda á loft. Sigurður A. Magnússon

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.