Þjóðviljinn - 17.12.1985, Qupperneq 4
LEIÐARI
óttast rannsókn
íhaldið
Mikill ótti hefur nú gripið um sig innan Sjálf-
stæðisflokksins útaf Hafskipshneykslinu. Ekk-
ert mál annað hefur fært jafn sterkar sönnur á
þá spillingu sem þrífst í skjóli Sjálfstæðisflokks-
ins. Ekkert mál hefur heldur notið jafn mikillar
athygli hjá fjölmiðlum og almenningi og sukkið
kringum Hafskip, ekki síst sá þáttur sem snýr að
tengslum Sjálfstæðisflokksins og Hafskips.
Þess vegna hræðist nú forysta Sjálfstæðis-
flokksins, vegna þess að hún finnur að dómur
fólksins í landinu ersá, að Sjálfstæðisflokkurinn
sé líka sekur.
Ótti Sjálfstæðisflokksins varð tæpast minni
við það, að um helgina komu fram ásakanir í
einu dagblaðanna um að stærstu lánin til Haf-
skips hafi einmitt verið veitt í tíð Alberts Guð-
mundssonar stjórnarformanns Hafskips.
Ásakanir af þessu tæi og margar aðrar sem
tengjast fjárstreyminu milli Hafskips og Útvegs-
bankans er auðvitað nauðsynlegt að rannsaka
ofan í kjölinn. Ekki síst til að hreinsa nöfn þeirra
manna sem hafa dregist inn í Hafskipsmálið.
Alþýðubandalagið, sem hefur haft uppi lang-
hörðustu gagnrýnina í málinu, hefur sett fram
skelegga tillögu um að Neðri deild Alþingis kjósi
sjö manna rannsóknarnefnd, samkvæmt 39.
grein stjórnarskrárinnar, sem rannsaki alla
þættina, sem á einhvern hátt tengjast við-
skiptum Hafskips og Útvegsbankans.
Það er afskaplega fróðlegt að sjá, hvernig
einmitt þessi tillaga slær miklu felmtri á Sjált-
stæðisflokkinn, og af hverju:
Um helgina tekur ritstjóri Morgunblaðsins að
vísu í fyrstunni undir tillögu Alþýðubandalagsins
um þingnefnd. Hann tekur undir þau rök, að
miklar grunsemdir hafi vaknað með þjóðinni í
garð þeirra manna sem sitja í háum stöðum og
spjót hafa beinst að. Hér á hann að sjálfsögðu
fyrst og fremst við Albert Guðmundsson. Jafn-
framt fellst hann á, að það sé alfarið nauðsyn-
legt fyrir lýðræðislega stjórnarhætti í landinu, að
rannsókn fari því fram, með þeim hætti að fólk
trúi og treysti niðurstöðum hennar.
í framhaldi af þessu tekur ritstjóri Morgun-
blaðsins svo beinlínis undir með tillögumönnum
Alþýðubandalagsins og segir, að „ýmis rök má
færa fyrir því, að einungis rannsókn Alþingis
sjálfs, með tilvísun til 39. greinar stjórnarskrár-
innar, geti skapað þetta traust hjá þjóðinni".
En þar með er rökskilningur hans búinn. Því
eftir að hafa tekið undir með tillögunni um
rannsóknarnefnd á vegum þingsins, þá leggst
ritstjóri Morgunblaðsins - sem auðvitað er að
boða kenningu Sjálfstæðisflokksins - gegn til-
lögunni! Og ástæðan - hver er hún?
Ástæðan fyrir ótta hans og annarra Sjálf-
stæðismanna er einungis sú, að Alþýðubanda-
lagið myndi hafa fulltrúa í slíkri nefnd og þarmeð
yrði ekki hægt að þagga niður óþægilega hluti
sem kynnu að dragast í dagsijós fram við
rannsóknina. Eða meðorðum Morgunblaðsins:
„Þótt þeirri nefnd sé ætlað að starfa fyrir lokuð-
um dyrum, má ganga út frá því sem vísu að
upplýsingalekar úr nefndinni yrðu daglegt
brauð með fulltrúa Alþýðubandalagsins innan-
borðs“.
Þurfa menn frekari vitna við? Fólkið má fá
rannsókn, en það má ekki fá að vita allt sem
kemur fram. Og Alþýðubandalagið má ekki
vera með í slíkri nefnd, því þá fær fólkið að vita
sannleikann! Það er engu líkara en ritstjóri
Morgunblaðsins sé gæddur ófreskigáfu og sjái
fyrir ýmislegt sem á eftir að koma fram í tengs-
lum við Hafskipsmálið.
Það er líka athyglisvert að Sjálfstæðisflokkur-
inn óttast einungis Alþýðubandalagið. Hann ótt-
ast ekki BJ, Alþýðuflokkinn, Framsóknarflokk-
inn eða Kvennalistann. Hann telur sig greini-
lega geta treysta á samtryggingu þagnarinnar
með þessum flokkum. Það er bara Alþýðu-
bandalagið, sem Sjálfstæðisflokkurinn treystir
ekki til að þegja yfir spillingunni og sóðahættin-
um.
Sá ótti er auðvitað réttmætur, Alþýðubanda-
lagið mun ekki taka þátt í þeirri samtryggingu
þagnarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn telur sig
geta fengið frá hinum flokkunum.
Það er líka alveg Ijóst, að Alþýðubandalagið
hefur haft uppi hörðustu málafylgjuna í þessu
máli og rannsóknarnefnd, hvernig sem hún
verður, hlýtur að verða ómarktæk án þess að
fulltrúi þess sé í slíkri nefnd. Fólkið mun einfald-
lega ekki treysta niðurstöðum slíkrar nefndar.
Það skulu menn hafa í huga.
-OS.
KUPPT OG SKORIÐ
Hagsmuna-
árekstur
Albert Guðmundsson, fyrrver-
andi fjármálaráðherra og núver-
andi iðnaðarráðherra, hefur ver-
ið áberandi í umræðunni um Haf-
skipshneykslið og Útvegsbank-
ann. Það er auðvitað ofur skiljan-
legt, þar sem ráðherrann var um
skeið bæði formaður bankaráðs
Útvegsbankans og stjórnarfor-
maður Hafskips, fyrirtækisins
sem nú hefur valdið því að bank-
inn tapar að líkindum 400 miljón-
um.
Sá hagsmunaárekstur sem
hlýtur að verða, þegar einn og
sami maðurinn gegnir tveimur
slíkum embættum, hefur auðvit-
að orðið mörgum að umtalsefni. í
grein í DV í gær segir þannig
Kristín Kvaran, alþingismaður:
„Sami maðurinn getur ekki
(hver sem hann er) samtímis ver-
ið hagsmunagæsluaðili fyrirtækis
og hagsmunagæsluaðili banka -
hvors gegn öðrum. Einn og sami
maðurinn. Það fer ekki saman að
Albert né hver sem er annar, gæti
hagsmuna Útvegsbankans
gagnvart Hafskip sem formaður
bankaráðs um leið og hann gætir
hagsmuna Hafskips gagnvart Út-
vegsbankanum".
Reykjavíkur-
bréf
Styrmir Gunnarsson, ritstjóri
Morgunblaðsins, skrifar um helg-
ina Reykjavíkurbréf sem fjallar
einvörðungu um Hafskipsmálið.
Þó málsmeðferð ritstjórans sé
heldur loðin, þá virðist eigi að
síður að hann sé á sama máJi og
margir fleiri: með setu Alberts í
báðum stofnunum sé árekstur
hagsmuna illumflýjanlegur. Orð-
rétt segir í Reykjavíkurbréfinu:
„Albert Guðmundsson, iðnað-
arráðherra, hefur legið undir
ámæli í framhaldi af gjaldþroti
Hafskips vegna þess, að hann var
stjórnarformaður félagsins á
sama tíma og hann var formaður
bankaráðs Utvegsbankans. Þessi
nástaða er auðvitað mjög óþægi-
leg fyrir ráðherrann einsog nú er
kcmið málum. Sjálfsagt má finna
allmörg dæmi þess úr síðari tíma
sögu okkar, að stjórnmálamenn,
sem átt hafa hagsmuna að gæta í
atvinnufyrirtækjum hafa jafn-
framt setið í bankaráðum við-
skiptabanka þessara fyrirtækja.
En tímarnir hafa breyst. Fyrir
nokkrum áratugum þótti ekki til-
tökumál, þótt bankastjóri væri
jafnframt þingmaður. Nú þykir
það ekki koma til greina, vegna
þess að sami maður er ekki talinn
geta gegnt tveimur störfum svo
vel fari samtímis. Með sama hætti
leggja menn annað siðferðilegt
mat á það í dag, að einstaklingur
sitji í bankaráði viðskiptabanka,
þar sem fyrirtæki honum tengt
hefur viðskipti sín“.
Þetta eru auðvitað orð að
sönnu. Ritstjóri Morgunblaðsins
er hér á sinn óskýra hátt að segja
lesendum blaðsins, að það sé
rangt af Albert Guðmundssyni
að hafa setið á sama tíma í stól
formanns Útvegsbankaráðs og
stjórnarformanns Hafskips. Hins
vegar er það dæmigert fyrir með-
ferð Morgunblaðsins á Albert í
málinu öllu, að Styrmir þorir ekki
að segja þetta skýrt og skorinort.
Hann hvíslar í skjóli rósa. Albert
hlýtur að hafa opin sár eftir stöð-
ug og dagleg hælbit vina hans á
Morgunblaðinu.
Mogginn vill
Albert út
Hörð og vel rökstudd gagnrýni
Alþýðubandalagsins á þingi, og
raunar stjórnarandstöðunnar
allrar, varð til þess að ríkisstjórn-
in neyddist til að láta í minni pok-
ann og fallast á að setja rannsókn
í Hafskipsmálið. Að vísu miðast
tilhögun rannsóknarinnar af
hálfu þingmeirihlutans öll við
það að koma í veg fyrir að Al-
þýðubandalagið fái þar nærri
komið, og raunar var merkilegt
að finna í Reykjavíkurbréfi,
hversu mjög höfundur þess óttast
afskipti Alþýðubandalagsins af
rannsókninni.
Engum dettur annað til hugar
en slík rannsókn hljóti meðal
annars að taka til Alberts Guð-
mundssonar. Af þeim sökum
hafa ungir Framsóknarmenn
krafist þess að Albert Guð-
mundsson segi af sér ráðherra-
embætti meðan slík rannsókn fer
fram. Hann og raunar aðrir hafa
bent á, að í flestum siðuðum
löndum geri menn í stöðu Alberts
slíkt undir þeim kringumstæðum
sem hann er í núna. I því felst að
sjálfsögðu engin viðurkenning á
sekt.
Nú virðist ritstjóri Morgun-
blaðsins hafa gengið til liðs við
unga Framsóknarmenn því í fyrr-
nefndu Reykjavíkurbréfi er ekki
annað hægt að skilja en að Morg-
unblaðið telji einnig rétt að Al-
bert segi af sér ráðherraembætti
meðan á rannsók stendur. Orð-
rétt segir Morgunblaðið:
„En það er fullt tilefni til að
íhuga stöðu ráðherra, sem sér sig
knúinn til að óska eftir því við
saksóknara að fram fari opinber
rannsókn á störfum sínum. Á
hann að sitja sem fastast meðan á
rannsókn stendur eða á hann að
óska eftir lausn frá störfum með-
an rannsókn fer fram? ...
Um leið og rannsókn hefði leitt
í ljós sakleysi þess manns, mundi
hann taka við ráðherrastarfi á ný
og verða margfalt sterkari
stjórnmálamaður á eftir.“ - ÖS.
DJOÐVILJINN
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis
og verkalýðshreyfingar
i Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans.
Ritstjórar: Árni Bergman, össur Skarphóðinsson.
Ritstjórnarfulltrúi: Oskar Guðmundsson.
Fróttastjóri: Valþór Hlöðversson.
Blaðamenn: Aðalbjörg Óskarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Garðar
Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Lúðvík Geirsson, Magnús H. Gísla-
son, Mörður Árnason, Sigurdór Sigurdórsson, Víðir Sigurðsson, Þór-
unn Sigurðardóttir, Þröstur Haraldsson.
Handrita- og prófarkaiestur: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar.
Ljósmyndir: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson.
Útlit: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason.
Símvarsla: Sigríður Kristjánsdóttir.
Húsmæöur: Agústa Þórisdóttir, Olöf Húnfjörð.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Framkvæmdastjórl: Guðrún Guðmundsdóttir.
Skrlfstofustjóri: Jóhannes Harðarson.
Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson.
ÚtbrelÖ8lu8tjóri: Sigríður Pétursdóttir.
Auglýsingastjóri: Ragnheiður Óladóttir.
Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson,
Olga Clausen.
Afgreiðslustjóri: Baldur Jónasson.
Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, Ólafur Bjömsson.
Útkeyrsla, afgreiðsla, auglýsingar, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasölu: 35 kr.
Sunnudagsblað: 40 kr.
Áskrlft á mánuði: 400 kr.
4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 17. desember 1985