Þjóðviljinn - 05.08.1987, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 05.08.1987, Blaðsíða 5
MINNING Ásgeir Blöndal Magnússon, vinur minn og samstarfsmaður um þriggja áratuga skeið, kvaddi þennan heim 25. júlí. Fundum okkar bar fyrst saman fyrir rétt- um 40 árum, þegar við vorum ráðnir til starfa við Orðabók Há- skólans, en upp frá því unnum við saman í 30 ár, og Ásgeir varð síð- an forstöðumaður Orðabókar- innar í tvö ár, þangað til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir í árs- lok 1979. Það var Orðabókinni mikið lán að fá þangað þegar í upphafi slík- an starfsmann sem Asgeir var. Hann var þá þegar einn lærðasti málfræðingur íslenskur, hafði allt frá æskuárum aflað sér furðulega mikillar þekkingar, þrátt fyrir skammvinna skólagöngu og erf- iðar ytri aðstæður. Eins og mörg- um eldri mönnum er kunnugt var honum vísað úr skóla á Akureyri veturinn 1930-31 vegna afskipta hans af stjórnmálum, en hann var snemma róttækur í betra lagi og lengi ötull baráttumaður á þeim vettvangi. En ekki varð þó sú starfsemi til þess að fræðaáhugi hans bilaði. Stúdentsprófi lauk hann utan skóla 1942, og eftir aðeins þriggja ára setu í Háskóla íslands varð hann cand.mag. í íslenskum fræðum 1945. Svo hafa námsfé- lagar hans sagt mér að hann hafi verið betur að sér í málfræði þeg- ar hann kom í Háskólann en flest- ir kandídatar. Eftir að samstarf okkar hófst komst ég fljótt að raun um að þekking hans í málfræði og máls- sögu var með ólíkindum. Engan mann hef ég vitað jafn orðfróðan um íslenskt mál, enda var hann einn þeirra fágætu manna sem lesa orðabækur sér til lærdóms og þekkingarauka. Minni hans á orð, gömul og ný, var óbilandi, og áhugi hans á orðsifjum og orð- sögu hélst óbreyttur til æviloka. Ekki þarf orðum að því að eyða hvflíkur fengur Orðabókinni var að þvflíkum starfsmanni. En þekking Ásgeirs kom fleirum að gagni. Hann birti fjölda ritgerða um áhugamál sín í tímaritum og safnritum. Fyrstu ritgerðir hans af því tagi voru rit- dómar um norrænar orðsifjabæk- ur og orðabækur eftir erlenda höfunda. Honum óx ekki í augum að gagnrýna kunna lær- dómsmenn og leggja fram aðrar og betri skýringar en þeir. Svo gerði hann til dæmis í merki- legum ritdómum um fornnor- ræna orðsifjabók eftir Jan de Vri- es. Hún kom út í heftum sem Ás- geir ritdæmdi jafnharðan. Um gæði ritdóma hans er sá vottur órækastur að í viðbótum og Ieiðréttingum við síðasta hefti bókarinnar vitnar Jan de Vries í engan höfund eins oft og Ásgeir. Þegar við orðabókarmenn tókum til við útvarpsþættina um íslenskt mál urðu þeir Ásgeiri kjörinn vettvangur til að afla sér fræðslu um íslenskan orðaforða. Enda hélt hann áfram að flytja þessa þætti allt fram á síðastliðið vor. Efni úr þessum þáttum not- aði hann í fjölda ritgerða um ein- stök orð og sýndi þá margoft fram á að sækja má skýringar á tor- ráðnum orðum fornum í mælt mál nú á dögum, en í þeim rann- sóknum var hann brautryðjandi. Áratugir eru síðan Ásgeir tók að viða að sér efni í íslenska orð- sifjabók, og má líta á margt af því sem hér var minnst á sem undir- búning að þvflíku verki. Eftir að hann lét af embætti vann hann sleitulaust að þessari bók, og svo gæfulega tókst til að hún var full- búin í handriti á síðasta vetri, og standa vonir til að hún komi út á næsta ári. En þó að Ásgeiri auðnaðist ekki að sjá þetta afrek sitt á prenti hefur hann með því reist sér óbrotgjarnan minnis- varða og skipað sér við hlið okkar merkustu orðabókarmanna. Með íslenskuþáttum sínum og málfræðikennslu í Háskóla ís- lands aflaði Ásgeir sér mikilla vinsælda langt út yfir þröngan hóp málfræðinga; og ótalin er þá greiðasemi hans við allan þann fjölda sem til hans leitaði um að- stoð og fræðslu, en hana var hann alltaf reiðubúinn að veita. Fyrir ritsmíðar sínar hlaut hann verð- skuldaða virðingu fræðimanna, enda var hann kosinn félagi í Vís- indafélagi íslendinga og heiðurs- doktor við Háskóla íslands. Því fór víðs fjarri að Ásgeir væri eintrjáningslegur málfræð- ingur. Hann hafði mikinn og sí- vakandi áhuga á þjóðfélagsmál- um, var hertur í skóla kreppuá- ranna og gleymdi aldrei þeim lær- dómi. I fræðum sínum var hann nákvæmur og rökvís, gagnrýninn á illa grundaðar kenningar, gat hneykslast gríðarlega á öllum hundavaðshætti á hvaða sviði sem var. Áhugasvið hans var framar öllu söguleg samanburð- armálfræði, enda var hann ekki ginkeyptur fyrir ýmsum nýstár- legum kenningum yngri málfræð- inga, þó að hann gerði sér vel ljóst að í þeim fræðum dugir ekki heldur að standa í stað. Fræði- legar ritdeilur leiddi hann hjá sér, enda hlédrægur að eðlisfari; skarpa dóma gat hann þó kveðið upp í kunningjahópi. Á samstarf okkar Ásgeirs og vináttu bar aldrei skugga. Ég á honum meira að þakka en hér verði rakið, ekki aðeins lærdóms- manninum sem var mér miklu fróðari um margvísleg efni, held- ur engu síður þeim trausta vini sem hann reyndist mér fyrr og síðar. Margar ánægjustundir átt- um við saman, bæði við kaffi- borðið á vinnustað og annarstað- ar, því að húmor átti Ásgeir ágæt- an og gat verið manna glaðastur í góðum hópi. Ólík viðfangsefni okkar síð- ustu árin ollu því að við hittumst ekki svo oft sem skyldi. En hve- nær sem fundum okkar bar sam- an var allt eins og áður, sá þráður sem bundinn var í þrjátíu ára samstarfi slitnaði aldrei. Ekkju Ásgeirs, Njólu Jóns- dóttur, og sonum hans votta ég innilegustu samúð mína og konu minnar. Jakob Benediktsson Pegar ég kom að Orðabók Há- skólans árið 1955, voru þeir þar fyrir, Jakob Benediktsson og Ás- geir Blöndal Magnússon. Unnum við svo saman þrír hin margvís- legustu orðabókarstörf um nær aldarfjórðungsskeið. Nú er hinn fyrsti okkar fallinn frá. Ekki verður því neitað, að það vakti sérstaka tilfinningu hjá mér, þeg- ar mér barst frétt um andlát Ás- geirs Blöndals norður í land, þar sem ég er á ferð. Þó var mér vel ljóst að hverju stefndi, þegar ég kvaddi hann á Borgarspítalanum fáum dögum áður. Minningar um samvinnu okkar Ásgeirs Blöndals hrönnuðust upp, þótt segja megi, að náinn kunnings- skapur hafi aldrei myndazt milli okkar. Fyrstu kynni okkar Ásgeirs Blöndals Magnússonar urðu ann- ars haustið 1942, er við settumst báðir í heimspekideild Háskóla íslands og tókum að leggja stund á íslenzk fræði. Ásgeir Blöndal var þá töluvert eldri en aðrir ný- stúdentar. K.om það lika þegar t ljós, að hann stóð öðrum nýstúd- entum langtum framar í þessum fræðum og var óvenjuvel lesinn í öllum greinum þeirra. Svo fór einnig, að hann lauk prófi frá Háskólanum vorið 1945 með lof- legum vitnisburði. Árið 1947 gerðist Ásgeir Blöndal starfsmaður Orðabókar Háskólans og var það óslitið, þar til hann varð að láta af störfum sjötugur í árslok 1979. Síðustu tvö ár starfsferils síns var hann forstöðumaður Orðabókarinnar eftir dr. Jakob Benediktsson. Ég sagði hér framar, að Ásgeir Blöndal hefði verið óvenjuvel undir háskólanám búinn haustið 1942. Ég varð þess líka fljótt áskynja, þegar við urðum sam- verkamenn við Orðabók Há- skólans, að þar fór frábærlega vel menntaður maður sem Ásgeir var og fjölfróður um flesta hluti. Ekki bar samt mikið á, enda var honum sízt í huga að láta mikið yfir þekkingu sinni. Hann var og hlédrægur alla þá tíð, sem ég hafði af honum kynni, og flíkaði aldrei lærdómi sínum að fyrra bragði. Vafalaust hefur mörgum fund- izt Ásgeir Blöndal fáskiptinn við fyrstu kynni, og þannig var mín reynsla í upphafi samstarfs okk- ar. Aftur á móti varð mér fljót- lega vel ljóst, að hann var allra manna hjálpfúsastur, þegar leitað var til hans, og um það get ég borið glöggt vitni. Það var nær aldrei komið að tómum kofun- um, og þekking hans á íslenzkum orðabókum og íslenzkum orða- forða var með ólíkindum. Ég held t.d., að það hafi tæplega komið fyrir, að Ásgeir færi skakkt með eða misminnti, hvort eitthvert orð eða orðasamband kæmi fyrir í orðabók Sigfúsar Blöndals eða ekki. Þeir voru fleiri en ég, sem undruðust þetta minni hans. Það var bess vegna ekki ófyrir- synju, að Ásgeiri Blöndal var fal- in endurskoðun nýrrar útgáfu orðabókar Menningarsjóðs á sín- um tíma með frumhöfundi henn- ar. Sú útgáfa ber víða merki hins fjölfróða orðabókarmanns. Haustið 1956 tókum við áður- nefndir þremenningar við Orða- bók Háskólans að okkur þáttinn íslenzkt mál í Ríkisútvarpinu. Eins og alþjóð veit hefur hann síðan verið í höndum okkar orða- bókarmanna. í upphafi kom hér einnig fram mikil þekking Ás- geirs Blöndals á íslenzku talmáli. Tengdi hann manna bezt þætti sína við sögulegan uppruna orða og merkingu þeirra og aftur nú- tímanotkun. Undraðist ég oft, hversu vel honum fór þetta úr hendi og þá ekki sízt að gera fræðilega hluti ljósa öllum hlust- endum sínum. Þeir muna þetta vafalaust og sakna nú örugglega þess, að hann er horfinn frá hljóðnemanum með sinn lipra stfl og notalega tungutak. Eitt er það verk, sem lengst mun halda minningu Ásgeirs Blöndals Magnússonar á lofti, en það er mikil orðsifjabók yfir ís- lenzka tungu. Að þessu verki vann hann um mörg ár í hjáverk- um með störfum sínum við Orða- bók Háskólans, en af miklum krafti, er hann hafði látið af emb- ætti. Lauk hann við þetta verk og hafði næstum lesið fyrstu próf- örk, er hann féll frá. Því miður auðnaðist Ásgeiri ekki að sjá verk sitt koma út fullfrágengið. Hins vegar varð honum það ör- ugglega mikið ánægjuefni, að Orðabók Háskólans, sú stofnun, sem hann helgaði beztu starfsár sín, gefur þetta verk út. Ekki er þetta okkur, sem eftir stöndum, minna gleðiefni, því að hér hefur Ásgeir Blöndal leyst af hendi hið gagnmerkasta verk í sögu ís- lenzks orðaforða. Þó að ekki væri fyrir annað, ber forráðamönnum Orðabókarinnar að þakka þann heiður og þá velvild, sem hinn látni starfsmaður hennar sýndi henni með þessu. Hér hefur ekki verið rakinn æviferill Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Þessi orð mín eru einungis sett saman til þess að þakka honum áratuga samvinnu. Enda þótt hann léti af störfum í árslok 1979, hélt hann sambandi sínu við Orðabókina til hinzta dags og var nær daglegur gestur á stofnuninni. Þannig fylgdist hann með vexti og viðgangi hennar, þótt hann yrði lögum samkvæmt að víkja úr sæti sínu. Að endingu sendi ég konu hans, sonum og öðru skylduliði samúðarkveðjur stjórnar og starfsliðs Orðabókar Háskólans. Jón Aðalsteinn Jónsson Ásgeir var fæddur 2. nóv. 1909 að Tungu í Auðkúluhreppi í Arn- arfirði og andaðist á Borgarspít- alanum 25. júlí sl. Foreldrar hans voru Magnús Sigurðsson verka- maður og kona hans Lovísa Hall- dóra Friðriksdóttir ljósmóðir. Ég veit ekki hvort æskuum- hverfi Ásgeirs hefur verið hvetj- andi til langskólanáms. En móðir hans gerði hvað hún gat til að mennta sig í starfi og hann mun hafa lesið vandlega tiltækar bækur, hvers efnis sem þær voru. Uppvaxtarár hans voru tímar mikilla framfara víða um land, og um þær mundir breiddist út vonin um að með rússnesku byltingunni væri komið óbrigðult fordæmi fyrir bættu mannfélagi. f þeirri stefnu sáu hann og margir fleiri betri tíma fyrir íslenska alþýðu. Hann aflaði sér fjár til að setj- ast í Menntaskólann á Akureyri og var kominn þar á síðasta námsár fyrir stúdentspróf þegar honum var vísað úr skóla vetur- inn 1930-31 fyrir að skrifa grein í tímaritið Rétt um „hreyfingu ís- lenskrar öreigaæsku“. En nem- endum hafði þá með ráðherra- bréfi verið bönnuð stjórnmála- starfsemi. Nú fóru í hönd ár sjálfsnáms og vinnu hjá Ásgeiri. Hann vann ýmis störf, einkum í sfld, og tók þátt í stjórnmálum fyrir Komm- únistaflokk fslands og síðar Sósí- alistaflokkinn eftir skipulags- breytingu flokksins, notaði þá málakunnáttu sem hann hafði fengið í skóla til að afla sér fróð- leiks af ýmsu tagi, meðal annars um heimspeki og félagsvísindi. Bók hans um það efni, „Marx- isminn, nokkur frumdrög", kom út 1937, og þýðing hans á bók F. Engels, „Uppruna fjölskyldunn- ar, einkaeignarinnar og ríkisins", 1951. Eflaust hefur hann ritað greinar um þvílík efni í blöð og tímarit á þessum árum þótt ekki kunni ég á því skil. Stúdentsprófi lauk Ásgeir síð- an utanskóla frá Menntaskólan- um á Akureyri 1942. Þá var hann orðinn fjölskyldumaður. En hann hóf háskólanám í íslenskum fræðum og lauk prófi 1945. Tveim árum síðar gerðist hann starfsmaður Orðabókar Háskóla íslands og vann henni til ársloka 1980. Þá lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, en síðustu tvö árin var hann forstöðumaður Orða- bókarinnar. Samhliða skrifaði hann fjölda greina um íslenska orðfræði, einkum í tímarit og af- mælisrit, enda var hann kunnur meðal íslenskufræðinga langt út fyrir landsteinana. Þá kenndi hann mörg ár ýmsa þætti íslenskr- ar málfræði og skyldar greinar við Háskóla íslands, svo sem gotn- esku. Annars verða þessi störf hans eigi rakin frekar í þessum minningarorðum. Ásgeir var einn þeirra orða- bókarmanna sem annast hafa út- varpsþætti um íslenskt mál á hverjum vetri eftir að þeir hófust fyrir rúmum þrjátíu árum. Með þeim hefur miklum og mikilvæg- um fróðleik um íslenska tungu verið haldið til haga, og verður það starf ekki metið til fulls. Því veldur bæði gott samband orða- bókarmanna við hlustendur og sérstaða íslenskrar tungu sem rannsóknarefnis vegna góðrar vitneskju manna um hana öldum saman. Eftir að Ásgeir hætti störfum við Orðabók Háskólans vann hann að rannsóknum á skyldleika íslenskra orða meðan heilsa ent- ist, síðasta sprettinn beinlínis í kapp við örlögin í mynd ólækn- andi sjúkdóms. Honum entist aldur til að lesa próförk orðasifjá- bókarinnar, sem er hin fyrsta Miðvikudagur 5. ágúst 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.