Þjóðviljinn - 10.02.1988, Page 4

Þjóðviljinn - 10.02.1988, Page 4
LEIÐARI bera ábyrgðina? Hverjir Alþingi fjallar nú um tillögu til þingsályktunar um að fram fari sérstök rannsókn á umfram- kostnaði við byggingu flugstöðvarinnar á Kefla- víkurflugvelli. Eins og menn rekur minni til var í byrjun desembermánaðar lögð fram skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem sýndi að farið hafði ver- ið 870 miljónir króna fram úr áætluðum bygg- ingarkostnaði, og var þá enn ótalinn síðasti hluti byggingarkostnaðar. Reiknað var með að þeg- ar öll kurl væru komin til grafar yrði byggingin, sem átti á framreiknuðu verðlagi að kosta um 2,1 miljarð króna, komin yfir 3 miljarða og er sem betur fer ekki mjög algengt að áætlanir um byggingarkostnað standist svona herfilega illa. Það er ekki óalgengt hér á landi að einhver ákveðin mál séu blásin upp og látin um hríð skyggja á öll önnur umræðuefni, en dragist síð- an saman og verði öllum gleymd og grafin að skömmum tíma liðnum. Settar hafa verið fram kenningar um að þessi fyrirgangsmikli en enda- sleppi háttur við að kryfja mál sé aðferð íslend- inga við að þreyja skammdegismyrkrið. I desemberbyrjun var byggingarkostnaður við flugstöðina það mál sem átti hug og hjarta allra fréttamanna. Þær fréttir frá alþingi, sem þá vöktu mesta athygli, voru af tilfinningaheitri utandagskrárumræðu um flugstöðvarmálið. En brátt fóru að berast önnur tíðindi frá alþingi sem drógu að sér athygli landsmanna. Bægsla- gangur ráðherra við að koma í gegnum þingið málum á borð við fjárlög og matarskatt yfir- skyggðu umræður um flugstöðina. Ákveðið var að umræðu um þingsályktunartillögu alþýðu- bandalagsmanna um rannsókn á flugstöðvar- málinu yrði frestað þar til eftir jólaleyfi. Ef til vill hefur það verið von einhverra að þar með væri málið grafið og gleymt, að þjóðinni nægði nokkurra daga upphlaup á alþingi og í fjölmiðlum, og að aldrei þyrfti að gera á vitræn- an hátt grein fyrir umframbyggingarkostnaði upp á hátt í 1000 miljónir króna. En nú er tillaga Alþýðubandalagsins komin til afgreiðslu. Fyrri umræðu er lokið og var henni vísað til utanríkismálanefndar. Tillagan mun því innan tíðar koma til síðari umræðu og afgreiðslu ef málið verður ekki látið sofna í nefndinni. Því verður þó ekki að óreyndu trúað upp á þá þing- menn, sem skipa utanríkismálanefnd, að þeir hyggist svæfa málið og formaður nefndarinnar, Eyjólfur Konráð Jónsson, mun tæpast hlusta á þær raddir félaga sinna í Sjálfstæðisflokknum sem telja að umfram allt beri að hætta allri umræðu um flugstöðina. Verði tillagan samþykkt, mun alþingi kjósa 9 manna rannsóknarnefnd sem á að athuga hverjir hafi borið ábyrgð á því að kostnaður við bygginguna og ákvarðanir um einstaka fram- kvæmdaþætti fóru langt fram úr áætlun og jDeim heimildum sem alþingi hafði veitt. Nefndinni ber að athuga ábyrgð þáverandi utanríkisráðherra að þessu leyti og einnig ábyrgð þáverandi fjár- málaráðherra á því að fjárveitingar til bygging- arinnar fóru langt fram úr áætlun. Þá er nefndinni ætlað að skera úr um hver hafi verið ábyrgð formanna byggingarnefndar, byggingarstjóra, einstakra byggingarnefndar- manna, hönnuða og framkvæmdafyrirtækja á því að ráðist var í ýmiss konar framkvæmdir, stækkanir, viðbætur og breytingar. Rannsókn- arnefndinni er samkvæmt tillögunni ætlað að gefa alþingi skýrslu um niðurstöður sínar og störf fyrir lok næsta mánaðar en ekki er ólíklegt að sá frestur verði lengdur úr því að alþingi er ekki enn búið að afgreiða tillöguna. Breska þingið, sem að mörgu leyti hefur verið fyrirmynd borgaralegra þinga í Evrópu, hefur löngum beitt þeirri aðferð að láta tímabundnar þingnefndir rannsaka tiltekin mál og slík nefndaskipun er býsna algeng hjá bandaríska þinginu. Hér á landi hefur þetta sjaldan verið gert. Okkar aðferð hefur gjarnan verið sú að hætta að tala um óþægileg mál í þeirri von að þau gleymdust. En þegar fokdýr, opinber bygging fer hátt í miljarð króna fram úr áætlun, má ekki reikna með að almenningur, sem látinn er borga brúsann, láti sér fátt um finnast. Fólk heimtar skýringar og fólk vill tryggingu fyrir að slíkir hlutir gerist ekki aftur. KUPPT OG SKORIÐ Hvar er Palestína? Fyrst nokkur orð um pólitíska landafræði. Víkverji Morgunblaðsins bítur í skjaldarrendur með einkenni- legum hætti á dögunum, vegna þess að hann hefur komist að þeirri einkennilegu niðurstöðu að Palestína sé ekki til. Hann segir: „Fréttamenn eru haldnir sér- stakri áráttu að uppnefna lönd á stundum, svo hlustendur rekur í rogastanz. Á dögunum var einu sinni sem oftar rætt um ófriðinn fyrir botni Miðjarðarhafs og ræddi fréttamaðurinn ávallt um Palestínu, rétt eins og eitthvert land héti það. Hvað myndu ís- lendingar segja, ef erlendir fréttamenn ræddu ávallt um ís- land sem Garðarshólma? Víst er að íslendingar yrðu ekki ýkja hrifnir". Petta er náttúrlega ekki annað en rugl á rugl ofan. Svo að byrjað sé á því sem meinlausast er: sam- anburðurinn á heitunum Pale- stína og Garðarshólmi er svo ór- alangt út í hött að hann sést ekki í besta kíki. Hitt er svo lakara þeg- ar Víkverji ruglar af ásettu ráði saman hugtökunum land og ríki: Palestínuríki er ekki til og því er landið ekki til heldur. Auðvitað veit hann betur. Kúrdistan, Bret- agne, Wales og Úkraína eru allt lönd þótt ekki séu til ríki með þessum nöfnum. Lönd sem þung- uð eru bæði sögulegum veruleika og lifandi fólki af tilteknu þjóð- erni. Rétt eins og Palestína. Eða við hvað heldur Víkverji að Pal- estínumenn þeir, sem gera vart við sig í dagsfréttum meira að segja i hans eigin blaði á hverjum degi, séu kenndir? Tengdamóður Múhameðs kannski? í ergi sínu slær Víkverji sig háskalegri blindu í ætt við þá sem réði orðum Goldu Meir, forsætis- ráðherra ísraels um skeið, þegar hún sagði: „Það eru engir Palest- ínumenn til“. Það er skammgóður vermir að pissa skó sinn fullan af óskhyggju. Eins og við sjáum í fréttum upp á hvern dag nú um þessar mundir. Kjarmál og reiknivélar Meira um Víkverja. Degi síðar en hann þurrkaði Palestínu út af hnettinum hefur hann áhyggjur þungar af kjara- málum. Það er að segja: af því karpi sem honum finnst að fylgi kjarasamningum. Tilefnið var þáttur í sjónvarpi þar sem þeir Guðmundur J., formaður Verka- mannasambandsins, og Þórarinn V. Þórarinsson, oddviti atvinnu- rekenda, komu fram. Um þetta segir Víkverji á þessa Ieið: „Það virðist lögmál hér á landi að kjarasamningum fylgi einhver leiðinda andblær. Menn breyta um tóntegund og svara hver öðr- um með upphrópunum og út- úrsnúningum. Og ekki virðist mögulegt að fá sömu niðurstöðu báðum megin við borðið þótt eins reiknivélar séu notaðar“. Það er sitt af hverju á floti í setningu af þessu tagi. Meðal annars sú algenga fjölmiðlakrafa að lífið eigi að vera þægilegt og skemmtilegt. Það má ekki vera „Ieiðinda andblær" af kjaramál- aumræðunni. Menn mega ekki reiðast, ekki vera með út- úrsnúninga. Og vegna þess að skemmtunar- og þægindaþörf Víkverja er ekki sinnt sem skyldi, þá lætur hann sem hann viti ekki af því, að það væri í meira lagi skrýtið ef ekki færu skeyti miður vinsamleg á milli manna sem standa í glímu um kaup og kjör. Meira en skrýtið náttúrlega - ef allir settu upp sæta munna og vís- uðu á elskulegt samræmi reikni- vélanna, þá er eins víst að búið væri að farga fyrir fullt og allt frelsi launafólks til að hafa áhrif á afkomu sína með samtakamætti. Vel á minnst: reiknivélar. Hún er merkilega lífseig þessi bernska tæknitrú, að það sé hægt að af- nema hagsmunaárekstra og þá um leið meiriháttar pólitískan ágreining í þjóðfélaginu með því að vísa á sérfræðinga og tækni- galdur. En það er einmitt gert með þeim orðum sem síðast fara í fyrrgreindri klausu, sem gera ráð fyrir því að hægt sé að fá einskon- ar fræðilega rétta niðurstöðu um kaup í landinu ef menn koma sér saman um réttar „reiknivélar". Hagfróðir geta vitanlega reiknað út hvað sem er - en sem betur fer verður í sæmilega frjálsu landi aldrei fundinn kórréttur sann- leiki um það, hvernig fengnar eru og handtéraðar þær tölur sem brúkaðar eru í kjaradæmum. Áhyggjur af leikritum Dagblaðið Tíminn hefur einatt mjög sérstæðar áhyggjur af ís- lenskri menningu. Fyrir nokkru birtist þar helgarbréf þar sem m.a. var vikið að íslenskri leikrit- un. Höfundur þess var eitthvað að agnúast út í opinbera styrki við leikhús, enda væru þeir ríflegri en svaraði til niðurgreiðslna á kind- akjöti „og öðrum nauðsynjum". Honum fannst líka að „íslenskt leikritaval" væri fyrir neðan allar hellur og segir um það: „Mikið er byggt á sjálfsævi- sögulegum vandamálum og næstu viðfangsefni verða væntan- lega kaup og kjör fóstra og erfið- leikar hjúkrunarfólks á að stunda vinnu sína fyrir launafundum á vinnustað. Þetta eru verðug við- fangsefni leikhúsa, sem fyrir löngu hafa losnað við áhyggjur af rekstri sínum. Geðveiki í fjöl- skyldum er líka talin til efniviða sem þjóna nýju tímatali". Það er náttúrlega meira en óþarft að hafa mörg orð um hjal af þessu tagi. En til huggunar Tímaritstj óranum í hans reyk- víksku leikhúsraunum á þessu misseri er rétt að minna hann á leikritstetur gamalt, sem kennt er við Hamlet Danaprins. Við mun- um ekki betur en það sé um geð- veiki og það meira að segja í tveim fjölskyldum. ÁB þJOÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandl: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, Mörður Árnason, óttar Proppé. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Ingibjörg Hinriksdóttir (íþr.), HjörleifurSveinbjörnsson, KristóferSvavarsson, Magnfríður Júlíusdóttir, Magnús H. Gíslason, LiljaGunnarsdóttir, ólafurGíslason, Ragnar Karlsson, SigurðurÁ. Friðþjófsson, Stefán Stefánsson(íþr.), Sævar Guðbjörnsson. Handrlta-og prófarkalestur: Elías Mar, HildurFinnsdóttir. Ljósmyndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson. Útlltstelknarar: GarðarSigvaldason, Margrét Magnúsdóttir. Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifatofu8t|órl: Jóhannes Harðarson. Skrlf8tofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýslngastjórl: Siaríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglýslngar: Unnur Ágústsdóttir, Olga Clausen, Guðmunda Krist- insdóttir. Símavarsla: Hanna Ólafsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Utbrelðslu-og afgrelðslustjóri: HörðurOddfríðarson. Utbrelðsla: G. Margrét Óskarsdóttir. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir. Innhelmtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ÓlafurBjörnsson. Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Sfðumúla 6, Reykjavík, sími 681333. Auglýalngar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setnlng: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verðílausasölu:55kr. Helgarblöð:65 kr. Askriftarverð á mánuði: 600 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 10. febrúar 1988

x

Þjóðviljinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.