Þjóðviljinn - 28.02.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 28.02.1989, Blaðsíða 4
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Enginn veit hvað átt hefur... Markaðshyggjumönnum sem undanfarin ár hafa einblínt á „breska efnahagsundrið" agndofa af hrifningu væri hollt að velta því fyrir sér núna hvernig Margaret Thatcher er að eyðileggja heilbrigðisþjónustuna í landi sínu. í janúar voru lagðir fram lagabálkar um viðamiklar breytingar á heilbrigð- iskerfinu, og þó að heilbrigðisráðherra Breta, Kenneth Clarke, gefi nú í óða önn út skýringar við lagabálkana til að róa almenning og heilbrigðisstéttirnar þá finnst gagnrýn- endum breytinganna fátt um svör í skýringunum. Umfram allt spyrja menn: Hvað kostar þessi breyting - í fasteignum, landi og lausum aurum? Þótt breska heilbrigðisþjónustan hafi verið góð hefur hún verið tiltölulega ódýr fyrir ríkið vegna þess að skriffinnska hefur verið í lágmarki. Ríkið hefur veitt fé til landsvæða og miðað framlagið við áætlaða þörf, svo komu sjúklingarnir þegar þeir urðu veikir og fengu sína meðhöndlun. Reikninga- og kvittanafargan hefur verið með minnsta móti og peningar ekki á óþarfa þvælingi á milli manna. Nú breytist þetta. Pappírsbunkarnir koma til með að fljúga um landið þvert og endilangt þegar menn ýmist bjóða öðrum þjónustu eða rukka hver annan fyrir veitta aðstoð. Pað á eftir að fjölga hrikalega í öllu skrifstofubákni sjúkrahúsa og jafnvel heimilislæknar verða að ráða viðskiptafræðinga til að annast fyrir sig rekstur eftir að þeir verða ábyrgir fyrir fjárveitingum hins opinbera, eins og fram kom í viðtali við breskan lækni í blaðinu á föstudaginn. Þó nýtast ekki kostir markaðskerfisins vegna þess að neytandinn, það er að segja sjúklingurinn, hefur sáralítið að segja, það er ekki hans að velja hvaða þjónustu hann vill og hvar hann vill fá hana, heldur læknisins. Það alvarlegasta við aðgerðir Thatcherstjórnarinnar í heilbrigðismálum er hversu óafturkræfar þær eru. Það hefur tekið marga áratugi að kaupa land undir sjúkrastofnanir, kaupa eða byggja hús fyrir starfsfólk sjúkrahúsa, rækta landsvæði kringum spítala og svo framvegis. Nú neyða stjórnvöld sjúkrastofnanirtil að selja frá sér land og bygging- ar til að fjármagna daglegan rekstur, og það gefur auga leið að þó að ný stjórn vildi snúa dæminu við þá verða seint til fjármunir til að kaupa aftur landið og húsin sem seld hafa verið. Að vísu hafa þessar fasteignir iðulega farið fyrir lítið, en nærri má geta að þær fást ekki keyptar aftur fyrir neina skiptimynt. Þá sitja voldugri og séðari aðilar þeim megin við borðið. Það er átakanlegt að einni ríkisstjórn skuli líðast að eyði- leggja verk margra kynslóða á þennan hátt. Og ætti að vera víti til varnaðar. Aldrei Natóflugvöll í Aðaldal Landeigendur við Laxá og Mývatn hafa sent frá sér harð- orða ályktun gegn öllum ráðagerðum um varaflugvöll á vegum NATO í Suður-Þingeyjarsýslu og leyfaekki einu sinni forkönnun á framkvæmdinni. Það einfaldlega kemur ekki til mála frá þeirra sjónarhóli að nein mannvirki af þessu tagi rísi þarna, til þess eru landið og náttúran of dýrmæt og þarf ekki að ræða það frekar. Landsmenn vita að í Þingeyjarsýslum slá heit hjörtu. Þar hafa lengi búið bestu skæruliðar landsins þegar að sjálf- stæði okkar og frelsi er vegið. Þjóðviljinn sendir þeim ein- lægar baráttukveðjur og veit að þeir hafa erindi sem erfiði af því að gæfan gengur með þeim. SA KLIPPT OG SKORIÐ Hrokadeild Morgunblaðsins Morgunblaðið er stórt blað og ekki eru allir samstiga í andanum sem í það skrifa. Þar má til að mynda koma auga á skynsemdar- deild, sem svo mætti kalla, sem reynir að efla blaðinu ímynd þeirrar borgaralegrar málefna víðsýni sem gerir af einlægni ráð fyrir mismunandi skoðunum í samfélaginu og rétti þeirra. Þar er líka öflug hrokadeild sem svo má vel heita, sem lætur einatt eins og Morgunblaðið sé eini marktæki fjölmiðillinn í landinu og óhæfa og ókurteisi ef aðrir taka ekki nótís af því. Frekju- deildarmenn láta að sér kveða á ýmsum sviðum, en þeir hafa ekki síst hug á því að stjórna að sínu höfði bæði íslandssögunni og mannkynssögunni. Skotið á ríkisfjölmiðla Þetta kemur, eins og menn hafa margoft orðið varir við, ekki síst fram í samfelldri skothríð hrokadeildarmanna á ríkis- fjölmiðlana. Ríkisútvarpsmenn fá með reglulegu millibili orð í eyra til dæmis fyrir að skilja ekki sögu kalda stríðsins sama skiln- ingi og hrokadeildin vill. Eða þá fyrir að nefna ekki stríðandi aðila í Afganistan réttum nöfnum - svo annað dæmi sé nefnt. í þessum efnum verður hrokadeildin ka- þólskari en páfinn: hún getur geisað mikið út af því að einhver beri saman Vietnamsögu Banda- ríkjanna og Afganistansögu Rússa, slíkt athæfi finnst henni háskalegur stofukommúnismi - og þó er það einmitt slíkur sam- anburður sem allir fréttaskýrend- ur í Bandaríkjunum sjálfum eru nú á bólakafi í. Víkverji og Varið land Fróðlegt dæmi um þennan yfir- gang í sögulegri stjórnsemi er að finna í Víkverja Morgunblaðsins nú um helgina. Þar er lagt út af sjónvarpsþætti sem sýndur var fyrir skömmu og fjallaði um at- burði ársins 1974. Og höfundar þessa þáttar fá heldur betur orð í eyra: þeir hafa brotið gegn sögu- skilningi Morgunblaðsins. Þeirra höfuðsynd er sú að hafa ekki gef- ið nóg pláss í yfirlitsþætti sínum því tiltæki hóps manna, sem kall- aði sig Varið land, að efna til undirskriftasöfnunar undir á- skorun til vinstristjórnar sem þá sat um að hún léti amríska herinn ekki fara. Víkverji segir: „Undirskriftasöfnunin Varið land fékk hvergi nærri það rúm í annál Ríkissjónvarpsins, hvorki að því er varðar tímaröð atburða ársins né aðra umfjöllun, sem verðugt var.“ Talað við ranga menn Ekki nóg með það. Þáttarhöf- undar bættu gráu ofan á svart: þeir brutu gegn hinni opinberu Morgunblaðssögu með því að spyrja ranga menn rangra spurn- inga. Víkverji segir: „í þessum þáttum er og oftlega rætt við einstaklinga sem lifðu hina fréttnæmu atburði viðkom- andi ára og er ekki nema gott um það að segja. Ekki sáu umsjónar- menn þáttarins þó ástæðu til að tala við neinn aðstandenda Var- ins lands. Hinsvegar þótti það við hæfi að fá Árna Bergmann, rit- stjóra Þjóðviljans, til að leggja pólitískt mat á framvindu mála í samfélaginu. Nú er í sjálfu sér ekkert við því að segja þótt Árni Bergmann fái að „miðvikudagast í Moskvu“, ef svo má að orði komast, á sjónvarpsskjánum. En gjarna hefði mátt fá einstaklinga til að horfa á málin frá öðrum sjónarhóli, ekki síst þá sem í eld- línu atburða stóðu.“ Þessi klausa er dæmigerð um aðferð og málflutning hroka- deildarinnar. í fyrsta lagi er hér allt úr réttum skorðum fært. Rit- stjóri Þjóðviljans var ekki beðinn um að leggja „pólitískt mat á framvindu mála í samfélaginu" - hann var blátt áfram beðinn um að svara spurningu um það, hvaða áhrif hann teldi að Kana- sjónvarpið (sem lokað var inni á Vallarsvæðinu 1974) hefði haft á íslenska menningu. Og það voru líka með hafðir einstaklingar sem horfðu á það mál frá „öðrum sjónarhóli" - einn prestur og svo blaðamaður á Morgunblaðinu! (en kannski ekki úr réttri deild?). Þetta er þá mikilvægast: það skiptir engu HVAÐ það var sem ÁB sagði í þættinum, hinsvegar skulu sjónvarpsmenn hræddir á því að það er ekki við hæfi að spyrja ritstjóra Þjóðviljans um neitt það sem máli skiptir, enda gefið í skyn með dylgjutilvísun í bókarheiti, að það sem hann kunni að segja sé hvort sem er hannað í Moskvu eða svo gott sem. Heilagt mál? Ekki þar fyrir: það má enda- laust rifja upp stórmál eins og Varið land. Þá gerðist margt stór- fróðlegt: Þórarinn Eldjárn orti vel heppnað níð um þá sem stóðu „með stjarfa hönd á pung“- og vörðu með því landið. Þjóðvilj- inn var dæmdur fyrir ókurteislegt umtal um VL-menn, sem kom m.a. fram í kvæði Þórarins og ívitnun í Þorstein Erlingsson. Eftir á að hyggja: það er nú ekki víst að sá sómakæri Hæstaréttar- forseti Þór Vilhjálmsson og aðrir aðstandendur Varins lands væru svo afskaplega áfjáðir í að rifja upp sína framgöngu eins og Vík- verji bersýnilega heldur. En þeir um það. Hitt er víst að hroka- deildin lítur á Varið land sem heilagt mál: undir lokin er Vík- verji farinn að líkja bónarbréfi um að amrískur her verði hér áfram við „landvernd“ við bar- áttu við uppblástur og gróður- eyðingu. Gjafir eru yður gefnar: herinn á Miðnesheiði fær að vera í sama hlutverki og Landgræðsl - an og Skógræktin. Þetta getur ekki farið nema á einn veg: hrok- adeildin mun vafalaust krefjast þess fyrr en síðar að VL-ingar verði skipaðir opinberir arftakar Jóns Sigurðssonar í öllum ríkis- fjölmiðlum. Tímans tönn gerir sig líklega til að sjá til þess að það verði einmitt hrokadeildarmenn sem taki við forystu Morgunblaðsins þegar þar að kemur. Þá mega land, þjóð og saga fara að vara sigv Þjóðviljinn Síðumúla 6 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, Möröur Árnason, Silja Aöalsteinsdóttir. Fróttastjóri: LúðvíkGeirsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Elísabet Brekkan, GuðmundurRúnarHeiöarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, Olafur Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnur Ómarsson (íþr.), ÞrösturHaraldsson. Framkvæmda8tjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Erla Lárusdóttir Útbreiðslu- og afgroiðslustjórl: Ðjörn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 &681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 70 kr. Nýtt Helgarblað: 100kr. Áskriftarverð á mánuði: 800 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 28. febrúar 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.