Þjóðviljinn - 17.05.1989, Side 6

Þjóðviljinn - 17.05.1989, Side 6
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Panamaklípa Bandaríkja- manna Bandaríkjamenn eru þessa dagana að bæta við herstyrk sinn á Panamaeiði. Þeir segjast gera það til að vernda öryggi bandarískra borgara í landinu, þar hafi skapast mjög tvísýnt ástand eftir að valdamesti maður Panama, Noriega hershöfðingi, hefur bætt fölsuðum kosningum á langa syndaskrá sína. Kosningafalsið hefur vakið upp talsverða reiði í Washing- ton, en þaðan var send nefnd manna til að fylgjast með kosningunum. Ráðamenn hafa verið að velta fyrir sér ýms- um aðferðum til að bregðast við svindlinu. Þær sveiflast á milli aukins diplómatísks þrýstings á Noriega, frystingar á hans illa fengna auði í erlendum bönkum og til beinnar bandarískrar hernaðaríhlutunar í Panama. í þeim efnum hafa Bandaríkjamenn ekki úr háum söðíi að detta. Þeir sköpuðu þetta ríki, skáru það frá Kolumbíu á sínum tíma, í þeirri von að þeir gætu alltaf haft í vasanum stjórn þess kotríkis sem hið bandaríska mannvirki, Panamaskurðurinn, skæri í tvennt. Noriega hefur verið ráðamönnum í Washington mikill þyrnir í augum nú um skeið. Óspart hafa verið dregnar fram herfilegar lýsingar á ferli hans.Hann er nauðgari.pyntinga- meistari, hóruhúsahaldari, eiturlyfjabarón, fyrir utan það, að hann er sá sem hefur rækilegast gengið fram í því undan- farin misseri að setja leikreglur lýðræðisins úr sambandi í sínu landi. Vandinn er hinsvegar sá, að Noriega er með ýmsum hætti sköpunarverk Bandaríkjanna og þess sam- skiptamynsturs sem þau hafa komið sér upp við smærri ríki Rómönsku Ameríku. Noriega var skjólstæðingur Banda- ríkjamanna og um langt skeið á launaskrá hjá CIA, banda- rísku leyniþjónustunni, og gerði henni margan myrkfælinn greiða. En hann gerði fleira en hagkvæmt þótti, hann brá stundum á pólitískan einleik, jafnvel með erkifjanda Banda- ríkjanna, Fidel Castro. Og glæpaverk hans og eiturlyfja- brask heima fyrir voru orðin stórfelldari og herfilegri en svo að hægt væri að loka augum fyrir þeim lengur. Bandarísk stjórnvöld eru í erfiðri klemmu í þessu máli. Þau geta eiginlega hvorki steypt Noriega né látið hann sitja óáreittan. Það gengur illa upp í almenningsálitinu að gera út gagnbyltingarsveitir gegn stjórn Nicaragua, en láta pólitísk- an bófaforingja eins og Noriega komast upp með hvað sem er. Á hinn bóginn er vopnuð íhlutun stórveldis um pólitísk örlög manna í smáríki ekki beinlínis ofarlega á vinsældalist- anum í alþjóðapólitík dagsins. Gleymum því heldur ekki að saga Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku er svo herfileg, hatur á þeim svo rótgróið, að jafnvel maður á borð við Noriega hershöfðingja getur krækt sér í ögn af píslarvætti ef bandarískir landgönguliðar verða gerðirútaf örkinnitil að binda enda á hans valdaferil. Panamabúar vildu helst losna við Noriega án utanaðkom- andi afskipta. En í fortíðinni hafa margir þeir hnútar verið hnýttir sem gera það þarfaverk erfitt. Hvernig sem fram- vinda mála verður næstu daga er eitt Ijóst: Vandi Banda- ríkjamanna í Panama er dæmigert sjálfskaparvíti, sem eng- um mótaðila í heimstaflinu verður kennt um. ÁB Svikarar við Nató í Reykjavíkurbréfi Morgun- blaðsins um helgina er fjallað vítt og breitt um lýðræðið og ófrelsið eins og gengur. Þar er ýmiskonar samanburðarfræði iðkuð út og suður: til dæmis er Framsóknar- flokkur Steingríms Hermanns- sonar borinn saman við Frjálsan demókrataflokk Genschers utan- ríkisráðherra Vestur-Þýska- lands. Báðir eru, segir Reykja- víkurbréf, miðjuflokkar, báðir eru meistarar í því að tolla í stjórn - og báðir eru, að dómi hins trygga liðsmanns bandarískra viðhorfa í Nató sem Morgunblað- ið jafnan er, helst til ábyrgðarlitl- ir í varnarmálum. Nú síðast fær Genscher orð í eyra fyrir að hafa aðra skoðun en Bush og Thatcher um eldflaugarnar skammdrægu í Evrópu. Segir þar um þennan höfuðpaur flokks sem „á sam- starf til hægri og vinstri eins og Framsóknarflokkurinn hér“ á þessa leið: „Hafa þær raddir heyrst, hvort ekki sé næsta undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að smáflokkur sem þessi og þaulsætinn utan- ríkisráðherra hans geti þannig stofnað til milliríkjadeilna meðal bandamanna." Vilji fólksins Þetta er nú oftúlkun hjá Morg- unblaðinu, eins og oft vill verða þegar slettist á heilagar kýr Atl- antshafsbandalagsins. Genscher er ekki einn í sínu landi um að vilja notfæra sér batnandi sambúð austurs og vestur til að losna við jafn leiðinlega og háskalega nágranna og skamm- drægar eldflaugar, búnar kjarn- oddum. Kohl kanslari, einskonar flokksbróðir Þorsteins Pálssonar, er reyndar sama sinnis. Genscher er ekki að láta undan þrýstingi frá einhverjum skelfilegum vinstri- krötum eins og Oskar Lafontaine í sinni stefnumótun, hann er í samfloti til hægri. Og reyndar ber mönnum saman um að svotil öll pólitísk öfl í Þýskalandi séu sam- mála um að standa uppi í hárinu á Bretum og Bandaríkjamönnum í þessu máli. Það er því nokkuð langsótt þegar höfundi Reykjavíkurbréfs finnst að framganga Genschers í afvopnunarmálum sé meiriháttar hundsbit fyrir lýðræðið: Gensc- her er að gera það sem fólk hans vill. En hjá Morgunblaðinu er dæmið sett upp þannig að menn verði víst að þreyja kjörtímabilin þolinmóðir til að geta losað sig við Genscher (og þá náunga eins og Steingrím eða Olaf Ragnar og Jón Baldvin). Það sé altént betra en að búa við harðstjórn eins og Rúmenar gera, sem hafa setið uppi með Ceaucescu lengi og mátt flest illt af honum þola. Ceaucescu hinn illi Síðan kemur þessi klausa hér sem rétt er að rýna svolítið í: „Við eygjum að minnsta kosti von í næstu kosningum. Hið sama verður ekki sagt um þá, sem berj- ast fyrir sannfæringu sinni í ein- ræðisríkjunum austan tjalds. Nú eygja þeir að vísu von um ein- hverja breytingu til dæmis í Ung- verjalandi og Póllandi. Ekki eru mörg ár síðan litið var til Rúmen- íu sem þess lands í Austur- Evrópu, þar sem helst væru líkur á breytingum til batnaðar, taldi Alþýðubandalagið sér það meðal annars til sérstaks gildis að hafa náið bræðraflokka-samband við Rúmeníu. Það er ekki haft í há- mæli núna af skiljanlegum ástæð- um. Nicolae Ceaucescu, einræð- isherra í Rúmeníu, er dæmi um valdsmann sem valdið hefur gjör- spillt, en hann varð aðalritari kommúnistaflokksins 1965 og var þá látið með hann á Vestur- löndum næstum eins og Míkhaíl Gorbatsjov núna.“ Rangur samanburður Það er ekki rétt hjá Morgun- blaðinu, að jafn ólíkir aðilar og Alþýðubandalagið og Nixon Bandaríkjaforseti hafi brosað lítillega til Rúmeníu Ceaucescus vegna þess að hann hafi gert sig líklegan til að breyta þjóðfé- laginu umfram aðra ráðamenn austur þar. Hann fékk samúð (og bestukjaraviðskipti við Banda- ríkin) blátt áfram út á það að hann var nógu klókur til að vera ekki með í innrásinni í Tékkósló- vakíu 1968 - og fleira gerði hann sem var Brézhnév, þáverandi So- vétleiðtoga, lítt að skapi. Hann flaut á þeirri arfleifð kalda stríðs- ins, að menn voru alltaf að reikna dæmin í hverju þjóðfélagi út frá því, hvort Rússar eða Kanar væru að tapa þar eða græða - raun- verulegar aðstæður á hverjum stað létu menn sér sjást yfir. Grýlulaus vanlíðan En þetta skiptir ekki mestu í því dæmi sem Morgunblaðið tekur. Heldur hitt, að blaðið eins og lætur að því liggja, að það sé kannski ekkert að marka hvorki lögfest athafnafrelsi stjórnar- andstöðu í Ungverjalandi né. heldurglasnost Gorbatsjovs. Sjá- ið þið bara, segir Morgunblaðið, hvernig fór fyrir Rúmenum! Dæmið er villandi vegna þess sem fyrr segir: Ceaucescu fór aldrei af stað með neinar breytingar sem líkjast því sem orðið hafa í Ungverjalandi og So- vétríkjunum. Þar er ekkert við að jafna. En málatilbúnaður Morg- unblaðsins er ekki ófróðlegri fyrir það. Hann segir fyrst og fremst frá því, að Morgunblaðið á það sammerkt með mörgum þeim sem þykja sveima til hægri við Bush Bandaríkjaforseta. Því líður illa á tímum verulegra þjóð- félagsbreytinga í amk. þrem ríkj- um Austur-Evrópu og stórbatn- andi sambúð austurs og vesturs. Það saknar sárt óvinarins, grýl- unnar ferlegu, sem sameinar vill- uráfandi sauði í Nató. Og þess vegna hengir blaðið sig í örvænt- ingu á illvirki Ceaucescus, sem nú ræður ríkjum á þeim slóðum þar sem Drakúla greifi fór með völd fyrir margt löngu: Kannski dugir hann til að blása lifi í þá tor- tryggni sem blaðið vill hafa í álf- unni til að allt sé eins og það var. ÁB KLIPPT OG SKORIÐ Þjóðviljinn Síðumúla 6 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Utgefandl: Utgáfufólag Þjóðviljans. RltstjórarrÁrni Bergmann, MörðurÁrnason, SiljaAðalsteinsdóttir. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Elísabet Brekkan, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Ólafur Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þor- finnurómarsson (íþr.), ÞrösturHaraldsson. (Framkvœmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. AuglýsingastjórhOlgaClausen. ' Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Erla Lárusdóttir Utbreiðslu-og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Sfðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 80 kr. Nýtt Helgarblað: 110 kr. Áskriftarverð á mónuði: 900 kr. 6 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 17. maí 1989

x

Þjóðviljinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.