Þjóðviljinn - 20.09.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 20.09.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Tilvistarkreppa SÍS Á degi hverjum er lagt út af kaupum Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum. Og smám saman virðast menn vera að færa sig nær þeirri túlkun, að hér sé um sígilt dæmi úr samskiptum lánardrottins og skuldara að ræða sem lýst hefur verið á þessa leið: Ef þú skuldar tíu miljónir þá sefur þú illa á næturnar, en ef þú skuldar hundrað miljónir þá kemur bankastjóranum ekki dúr á auga. I framhaldi af þessum bankakaupum talar hver fjölmið- ill við Guðjón B. Ólafsson forstjóra SÍS um erfiða stöðu Sambandsins: riðar sá mikli risi til falls? Guðjón ver sig fimlega eins og menn hafa orðið varir við: Vandi Sam- bandsins, segir hann, er vandi íslensks efnahagslífs í heild, sá vandi samtengist því að fyrirtæki vöndust á að hleypa sér í skuldir sem á hávaxtatímum verða þeim ofviða. Eins og margir aðrir í svipaðri stöðu leggur Guðjón áherslu á að fyrirtæki hafi ekki getað myndað sér sjóði og styrkt rekstur sinn með eigin fé, en talar minna um það, hve þægilegt það var að safna skuldum á tímum nei- kvæðra vaxta. En eina merka réttlætingu á „glæp“ Sam- bandsins dregur Guðjón fram, sem vert er að minna á pg er tengd því sem sjaldan er á minnst: þeim rótum sem SIS á að rekja til alþýðlegrar sjálfsbjargarhreyfingar. Hann segir í viðtali við Þjóðviljann: „Ef Sambandið hefur framið einhvern glæp á undan- förnum hálfum öðrum áratug eða svo, þá er hann sá að hafa tekið lán til að geta staðið undir atvinnurekstri víðs- vegar út um landið“. Með öðrum orðum: vísað er til þess að samvinnuhreyfingin reki m.a. byggðastefnu og taki þá ýmislega áhættu sem einkageirinn ekki kæri sig um að axla. Morgunblaðið er dálítið undarlegt í umfjöllun sinni um fjárhagsvanda SÍS. Undarlegheitin náðu hámarki í Reykjavíkurbréfi um helgina þar sem látið er að því liggja undir lokin að Sjálfstæðismenn geti ekki komið sér sam- an um það, hvort þeir eigi að fagna því ef erfðafjandinn, Sambandið, verður gjaldþrota eða reyna að koma í veg fyrir það af ótta við að of margir mundu dragast með í því falli. Einn af varaþingmönnum Sjálfstæðisflokksins skrif- arfróðlegagrein íMorgunblaðiðálaugardaginn, þar sem hann viðrar þá von flokksbræðra sinna.að þótt hremm- ingarnar gangi kannski ekki af SÍS frænda dauðum, þá muni þær leiöa til þess að samvinnuhreyfingin eins og gufi upp. Samvinnufélögin breytist í venjuleg hlutafélög: „þá hverfa smám saman skilin milli samvinnufyrirtækja og annarra fyrirtækja í einkarekstri". Hér er komið að fróðlegum hlutum. Það er nefnilega ekki „höfuðglæpur" Sambandsins að reka byggðastefnu, þótt svo hún geti þyngt reksturinn mikið. Tilvistarkreppa Sambandsins er önnur: hún er tengd því að hreyfing sem upphaflega gat treyst á virkan stuðning liðsmanna sem höfðu pólitíska trú á möguleikum samvinnufélaga til að bæta mannlífið, hefur smám saman verið að glutra niður þeim tengslum. Ýmislegt var sjálfsagt óumflýjanlegt í þeirri þróun: allar félagsmálahreyfingar dofna með aldri og stirðna í skrifræði. En ýmsir forystumenn SÍS fyrr og síðar hafa gert illt verra einmitt með því að hundsa í verki þennan arf og þær kröfur sem hann gerir og þá möguleika til að halda sérstökum lit og angan í grasgarði fyrirtækj- anna. Þar undir má telja samkrull rekstrarforma, spillandi aðild að hermangi, hátimbraðforstjóraveldi og fleira, sem leiðir til þess að hver ný kynslóð fer að líta á samvinnufé- . lag sem hvert annað fyrirtæki og ekkert framyfir það. Þar til við stöndum á þeim punkti, að kannski dettur engum í hug að andmæla af sannfæringarkrafti spásögnum eins af varaþingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að senn sé samvinnusagan öll. KLIPPT OG SKORIÐ Farandsýning Klippari brá sér nokkrum sinn- um í kvikmyndahús á dögunum, sem varla er í frásögur færandi, og sá fáeinar myndir í þeirri far- andsýningu Alþjóðasamtaka kvikmyndasafna sem þá stóð yfir. Þessi sýning var hið merkasta framtak, en það vakti athygli klippara og umhugsun, hve fáir færðu sér þetta tækifæri í nyt og sáu þessar myndir, - stundum var varla nokkur hræða í salnum. Flestar myndirnar á þessari farandsýningu voru þöglar og töldust kannske ekki til mestu meistaraverka síns tíma sumar hverjar, heldur voru hér á ferð- inni myndir sem höfðu gleymst eða verið á einhvern hátt illa leiknar og starfsmenn kvik- myndasafna höfðu á bjargað frá glötun eða fært aftur til uppruna- legs búnings, t.d. með því að leita uppi búta sem varðveist höfðu hér og þar og setja þá saman eftir bestu heimildum. Nú eru hér starfandi tvær sjónvarpsstöðvar, sem báðar hafa gert nokkra gangskör að því að sýna gamlar og sígildar myndir, og auk þess eru starfræktir kvikmyndaklúbb- ar með fjölbreytta dagskrá, þannig að vera má að mörgum þeim sem annars eru áhugamenn um kvikmyndir hafi naumast þótt það ómaksins vert að fara nú að sjá enn eina dagskrá með gömlum en misjafnlega merki- legum myndum. Margvíslegur lestur Nú er hægt að sjá kvikmyndir og hafa á þeim áhuga á mörgum ólíkum forsendum og verður það kannske enn augljósara þegar í hlut eiga gamlar myndir. Menn geta haft áhuga á þeirri sögu sem sögð er, efnismeðferðinni og „boðskapnum" (ef einhver er) og reyndar nálgast þetta allt frá ólík- um hliðum, en menn geta einnig beint athyglinni fyrst og fremst að heimildargildi kvikmynda. Þegar kvikmyndir eru orðnar kannske nokkurra áratuga gamlar, fer sagan sjálf oft að koma mönnum allt öðru vísi fyrir sjónir: þeir hætta að geta trúað á hana og lifað sig inn í hana og þeim finnst kannske að hún sé þeim gersam- lega framandi. En þá kann það hins vegar að gerast að heimildar- gildi myndanna vaxi að sama skapi, og getur þetta tvennt hald- ist í hendur. Á sagnfræðingaþingi í Reykjavík fyrir tveimur árum var sýnd dönsk heimildarmynd frá fyrstu árum aldarinnar, sem fjallaði um lífið í stórverslun í Kaupmannahöfn með rómant- ísku ívafi. Þegar myndin var gerð, þótti gagnrýnendum ástar- sagan í myndinni víst einkar hugljúf, - nú þótti hún brosleg, en það sem sýnt var úr Kaupmannahafnarlífinu fannst mönnum hins vegar að sama skapi merkilegt. Ef til væri kvik- mynd frá átjándu öld, svo ekki sé talað um kvikmynd frá dögum Rómaveldis, er nokkurn veginn sama hve léleghún væri: heimild- argildi hennar væri nánast því ómetanlegt. Heimildargildi kvikmynda er miklu víðtækara en margur hygg- ur, og geta leiknar myndir verið miklu athyglisverðari frá þessu sjónarmiði en margar þær kvik- myndir sem eru beinlínis gerðar sem heimildarmyndir, því þær eru stundum ekki annað en kyrr- ar myndir af einhverju sem hefur ekki breyst mikið síðan. í leiknum myndum getur sjálf sag- an þannig sýnt hvað það var sem hreif menn fyrir mörgum ára- tugum, og svo slæðast með henni ótrúlegustu hlutir, úr menning- arsögunni og öðru. Það er t.d. merkilegt að sjá hvernig andlits- stíll manna hefur breyst á rúmum sextíu árum, hvað sem því kann að valda. Fjölbreytt heimildargildi Þær myndir sem klippari sá í þessari farandsýningu reyndust allar hafa harla mikið heimildar- gildi. f þýsku myndinni „Gömlu lögin“ sem gerð var 1923 - sama árið og Hitler gerði fyrstu mis- heppnuðu tilraun sína til valda- ráns - og sagði svipaða sögu og fyrsta talmyndin, „The Jazz Sing- er“, var fjallað um árekstur milli siða og hefðar Gyðinga og um- heimsins. Þar gat að líta hinar merkustu svipmyndir úr lífi Gyð- ingaþorps í Galisíu, af bænahaldi í sýnagogu og öðru slíku, - sem sé úr heimi sem nú er svo gersam- lega horfinn að margir eiga erfitt með að muna að hann hafi yfir- leitt verið til - en þótt fjallað væri um Gyðinga af samúð, endaði myndin ekki á málamiðlun, eins og „The Jazz Singer“, heldur urðu Gyðingasiðir undan að láta, og er það eflaust heldur nöturlegt tákn um það sem þá var að gerj- ast í þýsku þjóðlífi, þótt hæpið væri að nokkur gæti þá séð fyrir þær hörmungar sem áttu eftir að gerast. Sænska myndin „Erotikon“ frá 1920 er þekkt í kvikmyndasögu- nni sem vel gerð, rómantísk gam- anmynd. En fyrir nútímamenn er gildi hennar ekki síst fólgið í þeim atriðum sem þar eru sýnd úr líf- inu á þessum tíma. Einu sinni fara aðalpersónurnar t.d. í leikhús og sjá þar íburðarmikla skrautsýningu á ballett um austrænt efni. Slíkir ballettar voru mjög í tísku á þessum tíma og hafa látið eftir sig mikil spor í tónlistarsögunni, og því er harla forvitnilegt að sjá hvernig dansin- um var háttað og sviðsetning- unni. Kanadíska myndin „Aftur til lands guðs“ frá 1919 var gerð eftir sögu og handriti eftir þann sama mann sem skrifaði söguna um „Björninn“, enda ein aðalp- ersónan í myndinni hundur af grimmari sortinni og hápunktur- inn þegar hann stöðvaði hunda- sleða meðþvf að gera hundana óvíga hvern eftir annan og bjar- gaði þannig kvenhetjunni undan hinum skelfilegustu legorðsmál- um norðan heimskautsbaugs. Fyrir áhorfendur í lok 20. aldar er sagan öll hin fáránlegasta, og veitir þeim kannske þess vegna óvænt innsæi í rómantískan hug- arheim afa þeirra eða langafa í byrjun aldarinnar. Að rjúfa sjálfvirknina Ef menn nálguðust myndirnar með réttu hugarfari var því nóg að sjá á þessari farandsýningu Al- þjóðasamtaka kvikmyndasafna. Það er líka rétt að benda á, að þó menn geti stundum séð gamlar myndir í sjónvarpi, njóta þær sín engan veginn í þeim miðli, - þeim hættir til að fletjast út í einhvers konar gráma, og svo verða þær alltaf fjarlægari þegar þær eru komnar beint inn í nýmóðins um- hverfi. Allt öðru máli gegnir þeg- ar þær eru komnar á stórt tjald í myrkum sal: þá hafa þær sams konar veruleika og undarlegur og framandi draumur. Sá mikli straumur af lifandi myndum sem berst til manna nú á dögum í sjónvarpi, á myndbönd- um og í kvikmyndahúsum getur auðveldlega haft í för með sér, að hver mynd um sig verði merking- arlítil: menn eru alltaf að sjá mis- munandi tilbrigði við sömu hlut- ina og það skapar svo aftur ein- hvers konar sjálfvirkni sem veld- ur því að menn leita eftir hinu sama. Þessa sjálfvirkni má ein- mitt rjúfa með því að horfa á eitthvað sem er óvenjulegt og vekur til umhugsunar, - og menn verða kannske að „læra að lesa“. Þess vegna finnst klippara dapur- legt, að menn skuli ekki í meira mæli hafa notfært sér þau tæki- færi sem farandsýningin bauð upp á. e.m.j. Þjóðviljinn Síðumúla 6 • 108 Reykjavík Sími: 681333 Kvöldsími: 681348 Símfax: 681935 Utgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjór i: Arni Bergmann. Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson. Aðrlr blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Ólafur Gíslason. Sigurður Á. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þorfinnur ómarsson (íþr.), ÞrösturHar- aldsson. Framkvœmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglýsingastjóri: OlgaClausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsia: Sigríður Kristjánsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Ería Lárusdóttir Útbreiðslu-ogafgreiðslustjórhGuðrúnGísladóttir. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Ðárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 68 13 33 & 68 16 63. Simfax:68 19 35 Augiýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. yerðílausasölu:90kr. NýttHelgarblað: 140kr. Áskriftarverð á mánuði: 1000 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 20. september 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.