Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.1957, Blaðsíða 2
238
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
um vér þörfina á nýrri birtu og
nýjum stefnumiðum. Oss er ljóst,
að efnishyggjan og sundrungin í
Evrópu hafa stuðlað að því að færa
heiminn fram á brún glötunar. Að-
eins siðgæðisleg og andleg endur-
reisn í hjörtum þjóða vorra getur
skapað einingu.
Vér þörfnumst fyrirgefningar og
hjálpar frá þjóðum, sem hafa svo
tíðum mátt fórna blóði sínu, sveita
og eigum fyrir síngirni vora. Vér
vonum, að fulltrúar þjóðanna í
Austurlöndum nær og einnig í Af-
ríku og Asíu vilji innan skamms
koma til fundar við oss á nýjum
grundvelli, svo að vér getum sam-
an gert áætlun um, hvemig ein-
ingu verði til vegar komið, ný
stefna tekin og það lagfært, sem
aflaga hefur farið ....
í auðmýkt en vongóðir strengj-
um vér þess heit að vinna að sið-
gæðislegri og andlegri endurfæð-
ingu Evrópu. Þetta er raunveruleg
köllun vor. Vér bjóðum mönnum
frá öllum þjóðum, sem eru sama
sinnis, að slást í lið með oss“.
Af þessari samþykkt er Ijóst, að
hér er eitthvað á ferðinni, sem vert
er að gefa gaum. Ýmislegt, sem
kom fram í umræðum þessarar ráð-
stefnu, er einnig athyglisvert. Til
að mynda þetta: „Vér viljum læra
að leita ekki eftir hylli fólks né
veiða atkvæði, heldur að reyna að
veita fólki í hvívetna heiðarleg
svör. Hér er ekki um það að ræða,
hvort þetta sé mögulegt, heldur
hitt, hvort það sé rétt.“
Hvað er hér á ferð? Ný stjóm-
málastefna? Ný trúarstefna? Hvor-
ugt. Hér er hreyfing á ferð, sem
er ópólitísk en telur sig eiga erindi
við alla stjórnmálaflokka jafnt og
vill snúa stjómmálum samtíðarinn-
ar frá siðgæðislegu hlutleysi, sem
hlýtur að verða siðleysi í reynd, til
jákvæðrar og róttækrar siðgæðis-
stefnu. Og hún er í rauninni líka
utan allra trúarbragða, þótt hún
sé vaxin upp úr kristnum jarðvegi
og hafi þaðan boðskap sinn. En
hún telur, að fáein mikilvæg
grundvallaratriði siðgæðislegrar
lífsafstöðu séu eða megi verða öll-
um mönnum augljós sannindi, er
mæli fram með sér við samvizku
sérhvers manns, hverrar trúar sem
hann er.
n.
Upphafsmaður þessarar hreyf-
ingar og leiðtogi hennar til þessa
dags heitir Frank Buchman. Hann
er Bandaríkjamaður, svissneskur
að kyni, evangelísk-lútherskrar
trúar, nú kominn fast að áttræðu.
Hann gerðist ungur prestur og
gat sér mikið orð sem ósérhlífinn,
einbeittur áhugamaður og farsæll
æskulýðsleiðtogi. Þegar hann var
þrítugur að aldri, varð hann fyrir
nýrri, gagntækri trúarreynslu.
Hann var þá á ferðalagi á Englandi.
Virtist honum hann fá köllun til
þess að hverfa frá prestsstarfi sínu
og háskólakennslu, sem hann hafði
einnig á hendi, og helga krafta sína
næstu árin stúdentum eingöngu og
leitast við að verða þeim til and-
legrar hjálpar. Út í þetta lagði hann
félaus og án allrar umhugsunar um
það, hvemig hann mætti sjá sér
farborða. Heimsstyrjöldinni fyrri
var þá rétt lokið og ungir há-
skólamenn, sem komu heim frá
vígvöllunum, höfðu margir beðið
andlegt tjón, voru vonsviknir, böl-
sýnir, tortryggnir á allt og alla,
trúlausir. Eftir fá ár voru áhrifin
af starfi Buchmans, sem hann hafði
unnið algerlega í kyrrþey, orðin
að hreyfingu, sem vakti athygli um
allan heim.
Árið 1928 voru nokkrir Buch-
man-stúdentar á ferð í Suður-Af-
ríku og voru kallaðir þar Oxford-
hópurinn. Það nafn festist síðan við
hreyfingu Buchmans og gekk hún
undir því um áratugar skeið (Ox-
ford Group Movement).
Veigur þeirra áhrifa, sem borizt
hafa frá Frank Buchman, er fólg-
inn í fáeinum einföldum sannind-
um, engan veginn nýjum, en hann
hefur lifað þau á ferskan hátt og
með tilstyrk óvenjulega sprungu-
lausra heilinda tekizt að gera þau
persónulega sönn og djúptæk í lífi
fjölda manna.
Fyrirgefning er frumstaðreynd
kristinnar trúar, fyrirgefning Guðs
og friður við hann, sem Guð
býður að fyrra bragði sakir Krists.
En þú getur ekki þegið þetta né
átt það upp á það að vera ósáttur
við aðra menn. Missætti við menn
er merki þess, að þú ert ósáttur við
Guð.
Buchman lagði nýja áherzlu á
þessi atriði. Hann rifjaði með fersk-
um hætti upp það, sem gamla, ís-
lenzka vísan segir:
Hnossin geymum þessi þrenn,
það ríður á að muna,
frið við Guð og frið við menn,
frið við samvizkuna.
Fyrsta skilyrði innri friðar og
andlegrar heilsu yfirleitt er, að
skoðun Buchmans, að — segja
sjálfum sér stríð á hendur. Horf-
ast hispurslaust í augu við bresti
sína og brot og segja upp griðum
við slíkt í eitt skipti fyrir öll. En
það þýðir, að menn verða að hætta
að reyna að dyljast fyrir öðrum.
Hafir þú gert á hluta einhvers
manns, þá skaltu viðurkenna það
fyrir honum undanbragðalaust.
Hafi annar gert á hluta þinn, skaltu
leita að því tilefni, sem þú kannt
að hafa gefið til þess og biðja fyrir-
gefningar á því. Finnir þú ekkert
tilefni hjá sjálfum þér, þá skaltu
eigi að síður leita sambands við
manninn, tjá honum kalann, sem
þú berð í brjósti til hans og reyna
ekki að fegra þig né gera þig betri
en þú ert.
Buchman hefir bjargfasta trú á
því, að þessi háttur leiði ævinlega