Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.1964, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.1964, Blaðsíða 14
Kvöld í Rom Eftir Einar Benediktsson Tíber sígur seint og hægt í ægi, seint og þungt — með tímans göngulagi. Loft er kyrrt. Ei kvikar grein á baðmi. — Kvöld með rauðri skikkju og bláum faldi. — Sál mín berst til hafs í fljótsins faðmi. Fyrir hug mér sveima liðnar tíðir: Svífa á borði elfar aldir, lýðir, eins og sýning skuggamynda á tjaldi. — Sjónir hugar sjá þá dauðu og horfnu, sigurfólkið, ættarmerkin fornu. Brennur þrá til frama af enni og augum, ást til náms og tignar, fíkn til gjaldsins. Ver með hreysti og viljans eld í taugum, víf með kærleik, stolt sem torgsins gyðja, byggja lund og líkam sterkra niðja, leggja saman hornstein Rómavaldsins. Beinleit fljóð og brúnaþrungnir halir bekkjast síðar fast við hóglífskvalir. Línur andlits lúðar eru og sjúkar, limir mýkri en dýnan, sem þá hvílir. Styrk og fríðleik hniginn hjúpa dúkar. Hjartað ástalaust í munuð veilist. Uppgert f jör í eitur nautnar seilist, ofláts-mælgi hrörnun þankans skýlir. Dómsins lúður hærra, hærra dynur, hauður undir flóttasveitum stynur. Orpnir gröfum undir rós og baðmi armlög tengja f jandmaður og vinur. ----Skuggamyndir sökkva í fljótsins faðmi, fer um staðinn hrollur dauðakaldur. - Lækkar, dökknar loftsins blái faldur. Lýsist kvöldsins rauða skikkja — og hrynur. Caesars borg! Skal stríð þitt, dáð og draumur drukkna í geimsins sjó sem hljóðlaus straumur? Skulu verk þín afgrunns unnum vafin, ævispor þín heims af brautum skafin? Eða er líking þín til hæða hafin, hærri steinsins rún og köldu myndum, grafir þínar taldar lífs hjá lindum, ljós þíns anda í himins spegla grafin? Hugann grunar, hjartað finnur lögin. Heilinn greinir skemmra en nemur taugin. Heimsins vél er knúð af einu afli, einum segulvilja, er kerfin bindur. Sama vald, sem veldur sólna tafli, , veitir sér í gegnum mannsins æðar. Milli lægsta djúps og hæstu hæðar heimssál ein af þáttum strengi vindur. Eins og mannleg ást tvo svipi jafnar, öllu í samheild guðdómshjartað safnar. Eins og tindrar auga af manndóms vilja, alheimsviljinn skín í geislans líki. Eins og heili manns má skynja og skilja, skrá og geyma í minning jarðarheimsins, man um eilífð heili hnattageimsins hljóm hvers sálarstrengs í lífsins ríki. Söguborg, með kaldra múra minning, merkt af hruni og reisn, af tjóni og vinning, goð þín, rústir, hof og styttur hverfa, hjaðna eins og bólstrar skýjaeimsins. Þú vaiðst til, svo eilífð mætti erfa anda þann, sem beindi þínu stáli, stýrði afli þínu í mynd og máli, meitlaði þinn svip í ásýnd heimsins. — Neisti af heift í ösku þrælaóttans, ormstönn dauðabeygs í gervi þóttans, vígð til falls og hels í bræðrabyltu, bera af sér fræ í nýjar sálir. Upp af brunarúst og vígi villtu vex hið unga og háborðssalinn tjaldar, þar sem dróttir drottni og þýi aldar drekka saman tímans banaskálir. Mást skal lína og litur, steinn skal eyðast, listarneistinn í þeim skal ei deyðast. Perlan ódauðlega í hugans hafi hefjast skal af rústum þjóða og landa. Komi hel og kasti mold og grafi, kvistist lífsins tré á dauðans arin, sökkvi jarðarknörr í myrkva marinn, myndasmíðar andans skulu standa. Frægðarþjóðin frelsið af sér kúgar, fórnast sjálf við altar nýrrar trúar, glatar eigin heiðri í hörgaspilling, hrapar sjálf til dauðs í goðsins falli. Ellisturiuð bernska í blindni og trylling blóði þj óða sér til ólífs heliir, — milli tveggja siða í fálmi fellir f jöregg' sinnar eigin gæfu af stalli. — Eilífð, eilífð, orð á mannsins tungu, andans bæn við dauðasporin þungu, þrá til lífs, til lífs í lægsta ormi, ljósblik himnadags á kvöldsins hvarmi! Rís þú, friðland, stjörnudjúps af stormi, ströndin, þar sem sál vor allra bíður. — Tími er svipstund ein, sem aldrei líður, algeims rúm, ein sjón, einn dýrðarbjarmL 14 LESBOK MORGUNBLAÐSIMS 33. tW. 1964

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.