Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.1971, Blaðsíða 1
Tómas Guðmundsson, skáld varð sjötugur
6. janúar s.l. Lesbókin minnist þessara tímamóta
í lífi skáldsins með því að birta eitt af hinum
ástsælu ljóðum hans. í»etta Ijóð rúmar þrennt,
sem er Tómasi hugstætt: Borgina, vorið í ríki
náttúrunnar og síðast en ekki sízt hverfulleikann
og söknuð yfir því liðna.
Tómas Guðmundsson
VIÐ
VATNSMÝRINA
Ástfanginn blær í grænum garði svæfir
grösin, sem hljóðlát biðu sólarlagsins.
En niðri í mýri Jitla lóan æfir
lögin sín undir konsert morgundagsins.
Og úti fyrir hvíla höf og grandar,
og hljóðar öldur smáum bárum rugga.
Sem barn í djúpum blundi jörðin andar,
og borgin sefur rótt við opna glugga.
Og þögnin, þögnin hvíslar hálfum orðum. —
Hugurinn minnist söngs, sem löngu er dáinn.
Ó, sál mín, sál mín! Svona komu forðum
sumurin öll, sem horfin eru í bláinn. —
Ó blóm, sem deyið! Björtu vökunætur,
sem bráðum hverfið inn í vetrarskuggann!
Hvers er að bíða? Hægt ég rís á fætur,
og hljóður dreg ég tjöldin fyrir gluggann.
■>
k