Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.1976, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.1976, Blaðsíða 2
/ Agúst frá Svalbarði PYLSUR í KREPPUNNI Þá kostaði pylsan 25 aura og þótti mikið. Hvalreki pylsusalans var þegar Kjarval keypti pylsur á einu bretti fyrir tvær krónur Það eru hugrenningar okkar sem gefa þessa skipun. Minning- ar, myndir sem varða sporaslóð langrar ævi eru kennileiti hér og þar á leiðinni. Áfangarnir hafa verið með ýmsu móti og mennirn- ir í öllum sinum margbreytileik hafr verið sem verðir við gang- stiginn. Orð og athafnir hafa aukið á fjölbreytni ferðarinnar og samtíð hverrar stundar hefur talað til okkar sínu máli. Þeir sem muna árið 1930 eiga margar hugljúfar minningar sem vitna um þrótt og manndóm þjóð- arinnar frá þeim tíma. Hver hefði trúað því að þjóðin yrði þess um- komin að minnast 1000 ára af- mælis Alþingis, að viðstöddum 30 þúsund gestum, með þvflíkum myndarskap og glæsibrag og raun varð á? Og á því sama ári var ráðist í ýmsar aðrar stórfram- kvæmdir sem skipta sköpum í lífi þjóðarinnar: Stærsta hótel landsins tók til starfa í byrjun árs, menntasetrið að Laugarvatni var aö verða fullbyggt, elli- heimilið Grund, húsið sem átti að verða vöggustofa hinna öldnu var vígt. Fyrir landi vögguðu nýir og fríðir farkostir: Súðin og Detti- foss. Áður en árið kvaddi tók Ríkisútvarpið til starfa, meningarstofnun sem hlaut að móta líf og hætti þjóðarinnar um ókomna tima. Það verður jafnan mikil birta í kringum þetta ártal. En þegar skinið er skærast eru skuggarnir oft skammt frá. Svo var einnig í þetta sinn þvi árin sem á eftir komu voru ein þau ömurlegustu sem menn muna: Samdráttur, kreppa, atvinnuleysi, skortur og hörð átök um skipt- ingu lítilla þjóðartekna. Þannig hljóðar textinn sem tilheyrir þeim árum og út af þeim texta urðu verkamennirnir að leggja er þeir héldu árla morguns út í frost- nepjuna i leit að vinnu við höfn- ina en komu aftur, vonsviknir, heim að fáréttuðu matborði sínu um hádegið. Þeir könnuðust líka við textann, mennirnir, sem tóku „trollið" sitt, köstuðu því fram af hafnarbakkanum og drógu það fram og aftur í norðangarranum í von um einn og einn kolamola til þess að geta farið með heim til að ylja upp timburhjallana, þessa umgjörð utan um börnin þeirra. Um þetta leyti kynntist ég yfir- bakaranum í Björnsbakaríi, Júlíusi Kolbeins. Honum hafði hugkvæmst að fá smíðaðan vagn og láta selja úr honum pylsur á götum úti. Málið hafði hann rætt við danskan pylsugeðarmann, Alf Peter Nilsen, sem þá starfaði hjá Sláturfélagi Suðurlands og leist vel á hugmyndina. Pylsur voru þá yfirleitt unnar úr lélegu hráefni eða kjöti úr lægri flokkum og afgöngum. Hér skyldi ööruvísi að farið og aðeins notað fyrsta flokks efni enda átti það að stuðla að meiri sölu og tryggari viðskiptum. Hjólin og öxul undir vagninn smíðaði hinn góökunni vagna- smiður Kristinn á Grettisgötunni en að öðru leyti var vagninn gerður á trésmíðaverkstæði á Skólavörðustíg. Hann var í lögun eins og venjulegur handvagn en ofan á grindinni var allstór kassi sem hólfaður var í sundur fyrir eldamennskuna, geymslur og fleira. Að smíði lokinni var feng- inn málari sem mála skyldi vagninn hvítan en á hiiðina átti að mála orð sem segðu til um fyrirtækið. Þá tókst svo til að annað orðið varð á íslensku en hitt á dönsku. Var það táknrænt fyrir þá sem að framkvæmdinni stóðu. Nú talaðist svo til að ég gerði tilraun með sölu. Pylsurnar voru verðlagðar á 25 aura og fylgdi þar með ein brauðsneið og sinnep til bragðbætis. Kaup mitt var ákveðið 1/5 af verði eða 5 aurar af hverri pylsu sem i vagninn kom. Nokkuð var liðið á vetur 1932 er vagninn var tilbúinn en þá var heldur ekki til setu boðið. Ég gekk upp á trésmíðaverkstæði, bjó vagninn til höndlunar og fór með hann niður á Lækjartorg en þar og við Útvegsbankann hafði ég hugsað honum stað. Strax og vagninn kom út streymdu að gest- ir og þeim fjölgaði því meir sem neðar dró í Bakarabrekkuna. Það var orðið vel messufært hefði mig ekki skort vígsluna. Til að byrja með gekk pylsusalan nokkuð vel. Vagninum hélt ég úti frá því klukkan 3 eða 4 á daginn og fram- eftir nóttum. Margur staldraði við sem leið átti framhjá og ýmsir sérkennilegir einstaklingar urðu þar borðgestir og mörg spaugileg atvik áttu sér stað. Stuttu eftir að ég kom út með vagninn var það um stjörnubjarta nótt að eftir Austurstræti kom vel búið par. Þar var gamanvísna- söngvarinn Bjarni Björnsson á ferð ásamt frú. Þau báðu um fjór- ar pylsur og bjó ég þær strax f pakka, rétti hann að Bjarna og sagði: „Þetta er ein króna,“ „Ein króna,“ sagði Bjarni, „ég á enga peninga." Ég þagði en úr svip mínum hefur hann ráðið van- þóknun á viðskiptunum því hann flýtti sér að segja: „Það gerir ekkert til því ég læt konuna í veð.“ Svo leiddust þau brosandi suður Lækjargötuna. Ég veit að þetta hefur verið dýrasta veð sem ég hef fengið um ævina. En næstu nótt komu þau aftur, báðu um sama skammt og losuðu veð- böndin. Þegar ég hafði verið með vagn- inn þarna um tíma gerði mikla froststillu og pylsusalan minnkaði þvi meir sem lengur leið. Ég komst að raun um að þetta stafaði af því að fólkið var farið að skemmta sér á skautum á hverju kvöldi suður á Tjörn. Lýsing var þá öll önnur í bænum en nú er. Á Brunastöðinni sem kölluð var, vestan við Törnina, voru menn jafnan á vakt. Hafði þeim hug- kvæmst að setja út ljóskastara sem varpaði geisla austur yfir Törnina norðanverða og auk þess léku þeir háværa hljómlist skautafólkinu til ánægju. Ég sá að svona mætti þetta ekki ganga. Fyrst fólkið sniðgengi mig yrði ég að koma til þess. Ég bjó vagninn til ferðar og hélt suður á Tjörn. Valdi ég mér stað i geislanum á miðri Tjörninni. Og nú stóð ekki á að viðskipti hæfust. Ég hafði ekki dvalið þar lengi þegar fríður flokkur kom á mikilli ferð út úr rökkrinu við suðurenda Tjarnar- innar. Þeir fóru geyst og stefndu á vagninn. Fyrir þeim fór foringi. Ég kenndi manninn. Þetta var iþróttafrömuðurinn Sigurjón á Alafossi. Hann bað um tvær pylsur og borðaði þær við vagninn en drengirnir sem fylgdu honum fast eftir leituðu að 25 aurunum sínum til þess að geta í einu og öllu líkt eftir sfnum læriföður. Að máltíð lokinni sneri Sigurjón frá vagninum. Það var mikill þróttur i spyrnunni og um leið og hann tók flugið sagði hann: „Þetta gefur nú gott í kroppinn." Svo renndi hann sér í víðan hálfhring kringum vagninn. Þá tók hann strikið út úr geislanum og inn í næturhúmið og litlu lærisvein- arnir fylgdu fast á eftir. Vorið kom að vetri liðnum. Suð- lægir hlývindar blésu og ómur vorfuglanna bragaði. Þá kom góð- kunningi minn að vagninum. Það var Einar Sæmundsen skógfræð- ingur. Ég hafði kynnst honum nokkuð og mér fannst alltaf sem góðleikinn geislaði út frá þeim manni. Ef til vill hefur það verið meðfram af því að ég skynjaði hann sem einstakan dýravin. Ég hafði séð samskipti hans við góð- hesta sína. Þar var enginn leyni- þráður, eins og segir í visunni, að hangi milli manns og hests og hunds, heldur sterk og greinileg vinabönd og gagnkvæmt traust eins og best verður milli vina. Einar hafði veitt mér þá einstöku ánægju að taka mig með í stutt ferðalag og ljá mér fararskjóta. Það var óviðjafnanlegt Nú var hann kominn til mín að vagninum við bankahornið og mitt fyrsta verk var að bjóða honum pylsu. Þá svaraði Einar: „Þó að bankans þrjóti gjöld og þverri margra geta á þó Gústi öll um kvöld eitthvað til að éta.“ Svo leið langur tími að Einar kom ekki aftur. alltof langur að mér fannst. En kvöld nokkurt birtist hann með tvo góðvini sína í taumi. Hann bað um pylsu og leyfði mér að renna nokkrum brauðsneiðum inn fyrir flipana. Það voru lítil laun fyrir liðnar ánægjulegar samverustundir. Svo sneri ég mér að Einari og spurði: „Hvar hefur þú annars alltaf verið?“ Þá hló Einar og sagði: „Ég hef verið allsstaðar ort og kveðið til skemmtunar. En þrjóti vín og þverri bar þá eru Gústa pylsurnar." Það var liðið á vorið. Ég var enn á sama stað. Veður var kyrrt en örlítill suddaúði, loftið öskugrátt. Það var eins og þessari litlausu hettu væri fest niður allt i kring á bæjarmörkin. Steinhúsin við strætið og rakar gangbrautar- hellurnar gerðu ekki ágreining við myndina. 1 hlaðvarpa Lands- bankans stendur maður svo nauðalíkur umhverfinu. Hattur- ■inn slútir yfir andlitið og frakk- inn er eins og á tveimur hæðum, samantekinn með snæri um mitt- ið: Meistari Kjarval. Þarna stend- ur hann stundarkorn, svo tekur hann strikið til mín. Hann gengur föstum, jöfnum, allstórum skref- um og þegar hann kemur á móts við vagninn nemur hann staðar, lyftir litið eitt hægri hendinni og segir: „Átta stykki, takk.“ Já það munaði um minna. Maður fær ekki alltaf pöntun fyrir tvær krónur. Ég sveiflaði pylsunum i pappírinn. Þá segir Kjarval: „Sér- pökkun". Ég varð að leysa upp og pakka hverri pylsu fyrir sig. Mér þótti þetta hátterni skrítið svo ég sneri mér að Kjarval og sagði: „Eru listamenn sérvitrir?" Kjar- val þagði við og ég sá ekki betur en nokkrir hörkudrættir kæmu á andlitið. Svo svaraði hann allt að því hranalega: „Hvað er list?“ Mér vafðist tunga um tönn. Loks svaraði ég í vandræðum: „Það hef ég ekki hugmynd um.“ Ég hafði enga þekkingu á að útskýra orðið „list“ og sist af öllu fyrir þessum manni. En nú var eins og svipur Kjarvals yrði mýkri og hlýrri og hann fór að ræða við mig, fávísan, um myndir, landslag og fleira. Þá kom í hug minn staður norður i Húnavatnssýslu. Það var fjallið Bani á Vatnsnesi. Ég leitaðist við að lýsa því með þess þverhníptu klettabeltum og hinni grófgerðu grjóturð sem liggur að rótum fjallsins. Þá vildi ég vekja athygli hans á litla, græna og hlýlega vatninu sem speglaði mynd hins hrikalega fjalls. Margar urðu ferðir listamannsins framhjá vagninum en þó ennþá fleiri spurningarnar sem hann beindi til min í sambandi við þessa frá- sögn mína og þá hugmynd sem hann gerði sér um staðinn. Það var orðinn fastur ásetningur hans að fara norður og kanna þar stað- hætti. Ég hygg að af þeim ásetingi hans hafi þó aldrei orðið. Nú er þessi konungur listanna fallinn frá en fjallið bíður enn þeirra sem vilja reyna. íslensk þjóð á enn listræna menn og hver vill verða til þess að sækja myndina sem snillingurinn Kjarval hafði mótað að meira eða minna leyti í huga sínum en vannst ekki tími til að festa á léreft? Við erum öll farfuglar á leik- sviði ævinnar. En hver ræður því hvar við nemum staðar eða hvort álaga- blettir draga okkur til sín? Viðtalið við Kjarval var eitt af þvi sem vakti nýjar kenndir i hug minum. Mér fannst sem húnvetnsku ættarbólin kölluðu til min og segðu: Hvar er þitt kjörsvið? Örlögin réðust. Ég fór norður. ©

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.