Lesbók Morgunblaðsins - 30.09.1989, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 30.09.1989, Blaðsíða 7
væri kalinn á kné, þegar hann hafði gengið um háskörð Mundíufjalla, enda viðrar þar oft svo illa að jörð er hrímguð um hásum- ar. Og skráin yfir þarfir gesta gætu verið sniðin eftir þeim orðum sem blöstu við far- anda manni þegar hann kom í gististað í klaustri: Gestur, hver sem þú ert. Ef þú vilt snæða hér þá skaltu þvo þér, þurrka þér, tylla þér niður, drekka, greiða fyrir, oghalda brott. Vers af slíku tagi voru mjög algeng fyrr á öldum, og eru til í ótal gerðum, svo sem þessari: Þvoðu þér, þurrkaðu þér, sestu niður, snæddu, drekktu, greiddu fyrir og farðu. 15. í Hávamálum er mikil áhersla lögð á sið- gæði við borðhald, menn áttu ekki einungis að kunna að neyta matar síns og drykkjar eins og kurteisum mönnum sæmir, heldur einnig að kunna þá viðræðulist sem er fólg- in í því að hlýða á aðra og tala ekki nema af skynsemi; maður á að mæla þarft eða þegja. Á miðöldum hljóðuðu varnaðarorð á þessa lund: „Ég ræð að talað sé lítið en ekki alveg þagað.“ „Að tala og hlýða“ eru eins og tveir góðvinir, segir í miðaldariti. Hinn vari gestur er til verðar kemur þunnu hljóði þegir, eyrúm hlýðir en augum skoðar. Svo nýsist fróðra hver fyrir. í klaustrum og öðrum gististöðum komu saman lærðir pílagrímar og ólærðir, vitrir menn og heimskir, og ávallt reyndi á þekk- ingu manna og fróðleik. í slíkum samkvæm- um skipta viðræður engu minna máli en það sem lagt er á borð. Fráfróður maður verður sér til skammar, enda veit hann ekki hvem- ig hann á að bregðast við, ef á hann er leitað: Ósnotur maður þykist allt vita ef hann á sér í vá veru. Hittki hann veit hvað hann skal við kveða, ef hans freista fírar. Að augabragði verður sá er ekki kann og með snotrum situr. Hér gat reynt á hvers konar þekkingu, í öllum fræðum sem þá vom stunduð í skólum og annars staðar. Þeir sem lítið kunnu í latínu urðu að bjargast sem best þeir gátu, enda vom góðir málamenn á borð við Hall Teitsson sem ég nefndi áðan ekki á hverju strái. En hann „mælti alls staðar þeirra máli, sem hann væri þar bamfæddur sem þá kom hann.“ Hann lést í Trekt í Hollandi árið 1150, eins og ég sagði fyrir nokkm. Á hinn bóginn þarf maður ekkert að ótt- ast ef hann kann listina að spyrja og segja frá, að nema fróðleik af öðmm og greina frá honum svo að fólki skiljist. Fróður sá þykist er frepa kann og segja hið sama. Hér verður ærið margt til samanburðar í latnínuritum miðalda, en þá skal látið nægja að drepa á eitt vers í anda Hávamála: Að spyija margs, aðgeyma það sem spurt er, að kenna það sem geymt er. Þetta þrennt gerir lærisvein meistara betri. Tólftu aldar höfundur segir: „Þegar aðrir tala skaltu gjarna leggja stund á að hlýða. En þegar þú hefur fræðst getur þú talað af bragði.“ í Hávamálum bregður fyrir orðalagi sem minnir á fræðslu og nám: • Margur þá fróður þykist, ef hann freginn er-at og nái hann þurrfjallur þruma. Lærisveinar hafa löngum þóst sleppa vel, ef meistari lagði enga spurningu fyrir þá, enda varð fáfræði þeirra ekki uppvís. í ný- legri útgáfu á Hávamálum handa skólafólki er orðið þurrfjallur skýrt á þessa lund: „með þurra húð, í þurmm fötum.“ Þó þykir mér rétt að taka það fram að skáldið er ekki að gefa í skyn að slíkur maður þurfi að fara til húðsjúkdómalæknis, heldur merk- ir orðtakið að þruma þurrfjallur „að vera með heilli há,“ eins og sagt er eða „óhýdd- ur“. Skussar við nám urðu að þola húð- stroku og jafnvel húðlát hvenær sem þeir stóðu á gati. Meistarinn sem orti Hávamál ólst upp við þann sið sem tíðkaðist hér og annars staðar að piltar voru barðir til bók- ar, eins og Guðmundur Arason minnir frænda sinn á þegar norðlenskir höfðingjar þröngvuðu honum til að verða eirin af eftir- vemm Jóns helga á Hólum, enda þótt sann- ast á Guðmundi orðskviður einn: Enginn verður óbarinn biskup.. Ósnotur maður hyggur sér alla vera viðhlæjendur vini. Hittki hann finnur þótt þeir um hann fár lesi ef hann með snotrum situr. Fyrri helmingur þessarar vísu virðist vera bergmál af latneskum orðskvið sem bregður fyrir í ýmsum myndum, en ein þeirra er á þessa lund: Ekki er hver maður vinur sem hlær við okkur. Síðari hlutinn minnir hins vegar á mjög algengt vers sem kemur raunar fyrir bæði á latínu og íslensku í Augustinusar sögu. Augustinus geymdi jafnan að taka blíðlega við gestum en með því að hann var siðvand- ur hafði hann svo ritað á sínu borði: hver sá er elskar að gnaga meður um- lestri lifnað fráverandi manna viti þetta borð sér ómaklegt. Og því minnti hann á alla þá er að mat- borði sitja að halda sig skyldulega frá skað- samlegum og þarflausum orðum. Hér skýtur enn upp hugmyndinni „mæli þarft eða þegi“ sem ég drap á áðan. Munurinn á versi bisk- ups og Hávamálum er sá að í öðru eru vik- ið að illmælum um fráverandi menn en í hinu er um heimskan mann að ræða sem er að vísu viðstaddur en þó ofmikill auli til að átta sig á umlestrinum. Merkileg er samúð skáldsins með snauðu fólki og þurfamönnum. Lítil þörf er að minna hér á pílagríma sem urðu að lifa á bón- björgum þegar peninga þraut. Margir urðu að taka upp stafkarlsstíg þegar fé gekk upp, eins og raunar er lýst í Auðunar þætti vestfirska. Oft hefur hvarflað að mér að skáldið rilji upp bitra reynslu á suðurgöngu í 37. vísu: Blóðugt er hjarta þeira er biðja skal sér í máli hvert matar. Ef slíkt er rétt til getið, þá kemur engum á óvart þótt skáldið ráði mönnum að hrekja ekki gest né gangandi á grind, enda minnt- ust pílagrímar slíkrar reynslu með svofeld- um orðskvið: „þegar buddan mín er tóm, vísar bóndi mér á dyr.“ Hungrið var helsti óvinur pílagríma; auð- veldara var um húsaskjól: Nótt verður feginn sá er nesti trúir. Þess er oft getið að Rómferlar lifðu aðal- lega á brauði og víni, og það kemur engúm á óvart með hveiju móti einmanna braut- ingp eignast förunaut á suðurvegum: Með hálfum hleif og höllu keri fékk ég mér félaga. Suðurgöngur þóttu mikil þraut þeim mönnum sem fóru einir, en á hinn bóginn segir í gömlum orðskvið að skemmtilegur félagi stytti leiðina um helming, og má það kallast vel sloppið að fá sér föruneyti og þurfa þó ekki að gjalda meira fyrir en hálf- an brauðhleif og lögg af víni. 16. Hér verður ærið margt sem hægt er að tína til í því skyni að styðja þá tilgátu um sköpun Hávamála sem brátt verður leidd í ljós, en þó er enginn tími til að rökstyðja hana til neinnar hlítar. Þegar ég hugsa um það skáld sem kallaði sig Oðinn og fór einn saman forðum ungur að árum, áður en hann fékk sér félaga, þá dettur mér í einatt í hug pílagrímur sem fer með staf sinn og skreppu í suðurátt og leggur undir fót hvert landið eftir annað. Í skreppu sinni hefur hann eitthvað af silfri til suðurgöngu, en það nesti hans sem er öllum auði betra er fólgið í mannviti hans og þekkingu; honum er tiltækur fróðleikur forn um Óðin, eitt af þessum skáldum sem voru goð á sínum tíma og mannkyninu gengur svo illa að losna við. Hávamál bergmála ekki einungis kynni hins forna brautingja af Manvélum Óvíðs og öðrum bókum, heldur einnig þeirri reynslu sem er kjarninn í tilveru pílagríms. Hávamál í heild eru því fléttuð þrem þáttum og eru þó öll lögð Óðni í munn. Einn þáttur- inn veit að þeim fornu minnum af Óðni sem skáldið hafði heiman frá sér sér að veg- nesti. Annar þáttur er spunninn af þeim fróðleik um mannleg örlög sem skáldið hafði numið af lærðum bókum. Og þriðji þátturinn er um reynslu hins víðförla skálds á suður- vegum, enda beitir hinn farandi maður ýmsum spakmælum sem pílagrímar tautuðu löngum fyrir munni sér. Vel má vera að skáldið hafi ort kvæðið eftir að heim kom og löng för til ókunnra staða er orðin að fjarlægri minningu rétt eins -og níu nótta reynsla Óðins á vindgum meiði. En hvar sem skáldið hefur verið statt á sköpunardægrum Hávamála, þá draga þau svo mikinn dám að súðurferð að hiklaust má telja þau til þeirra bóþmennta álfunnar sem kenndar eru við pílagríma og aðra farandi menn. Eins og ég gat um áðan, þá hafa menn löngum talið að Hávamál séu sprottin upp með hundheiðnum sveitamönnum í Noregi eða á íslandi, en þó er sá galli á slíkri til- gátu að í Hávamálum er fólgin meiri og sérstæðari hugsun en nokkurn tíma hefur átt sér stað í uppdölum Þrændafylkis eða jafnvel á bökkum Skjálfandafljóts. Hug- . myndir kvæðisins eru svo þroskaðar og magnaðar, að ef það hefði verið ort á ensku, frönsku eða þýsku á tólftu eða þrettándu öld myndi það vera talið merkur áfangi í hugmyndasögu álfunnar í heild. En með því að kenna Hávamál við víkinga eða þröngva þeim inn í þann heim lítilla sæva og lítilla sanda sem ól norska og íslenska kotunga er verið að ræna skáldið því afreki að sam- eina fornan menningararf álfunnar og göm- ul minni úr heimahögum. Eins og aðrar sígildar ritningar þá sýna Hávamál glöggan skyldleika við ýmis andans verk, og ekki er unnt að botna í þessu stórkostlega kvæði nema í ljósi annarra Ijóða. Að lokum ætla ég að fara nokkrum orðum um 133. erindi Hávamála, en það er svo auðugt að hugmyndum að það myndi end- ast í heilan fyrirlestur, ef um það væri fjall- að til hlítar. Oft vitu ógerla þeir-er sitja inni fyrir hvers þeir eru kyns er koma. Er-at maður svo góður að galli né fylgi, né svo illur að einungi dugi. Þessi vísa lætur ekki mikið yfir sér, og þó birtir hún á eftirminnilegan hátt mikil- vægt atriði í kenningum miðalda um mann- leg örlög. og mannlegt eðli. Síðari hlutinn segir berum orðum að enginn maður sé gallalaus og einnig að enginn sé svo illur að hann sé gagnlaus. Enginn er algóður. Enginn er alvondur. Hver einstaklingur er sem sagt blanda af góðu og illu. Hér er um hugmyndir að ræða sem gætir víða í þeim letrum okkar að fornu sem var snarað úr latínu á tólftu og þrettándu öld. Staðhæfing- in að enginn maður sé gallalaus kemur heim við þá kenningu að allt fólk, hver ein- asti maður og kona, að Kristi einum undan- skildum, sé syndugt. Jafnvel María mær var ekki algerlega meinalaus, en „hún misgerði eigi nema hinar smæstu afgerðir, þær er eigi eru í sjálfræði mannsins," segir í fornu riti. Í þessa átt hníga ýmis spakmæli í göml- um bókum, svo sem „Engi jarðlegur maður lifir syndlaus“, „Engi maður er svo réttlátur á jörðu að eigi misgeri", „Engi lifir án ámælis og saka“. „Fár er vamma vanur“. Fár er svo með baugi borinn að eigi sé nokkurs áfátt“. Margt annað mætti nefna. Hin hugmyndin að enginn sé svo illur að einugi dugi minnir á Alexanders sögu: „Fátt er svo jllt að einugi dugi“. Og þegar báðar staðhæfingar eru athugaðar saman þá getur engum dulist að þær fela í sér sömu kenn- ingu og spakmæli eitt sem einhver íslend- ingur á þrettándu öld snaraði úr latnínu: Engum er alls léð ella alls varnað. Slíkt kemur heim við þá mannúðarstefnu sem er kölluð „húmanismi miðalda" og er meginþáttur í andlegu lífi Evrópu á tólftu öld. Breski sagnfræðingurinn William Sout- hern nefnir fjögur atriði sem greina þessa stefnu frá fyrri öldum. I fyrsta lagi er um að ræða vaxandi virðingu fyrir eðli manns- ins sem nú verður miðdepill alheimsins, en áður var það guð. í öðru lagi er um að ræða aukna virðingu fyrir náttúrunni, og með því að maðurinn var hluti af henni var honum talið skylt að kynnst henni eftir föng- um. í þriðja lagi var lögð miklu meiri áhersla en áður á mannlega skynsemi; áhersla sú sem lögð var á sjálfsþekkingu kemur heim við Hávamál: „Svinnur skal um sig vera.“ Og í fjórða lagi skipar vinátta miklu æðra sess en tíðkast hafði með kristnum mönnum allt fram á elleftu öld. Það er eng- in tilviljun að sum helstu handritin af bók Cicerós um vináttu voru skrifuð á tólftu öld. Vel má vera að Klaus von See hafi rétt fyrir sér þegar hann telur Hávamál hafa verið ort á þrettándu öld. Á hinu getur enginn vafi leikið að hugmyndir kvæðisins koma prýðilega heim við þær kenningar sem döfnuðu á vesturlöndum á tólftu öld. Húm- anismi Hávamála er sprottinn úr sama jarð- vegi og þær. ELÍN SVAVARSDÓTTIR Um sinn Um sinn hefur enginn komið. Ég býst ekki við neinum. Einsemdin gefur frelsi. Ég get farið án þess að nokkur eigi von mér. Án tilgangs An takmarks vafrandi um í veröld, bara áhorfandi að Ijósum og skuggum sem. bifast í tilverunni. Strá sem enginn veitir athygli í stóru túni fær að vera í friði þar til kýrin kemur og étur það. Höfundur býr í Reykjavik. ÁSDÍS JENNA ÁSTRÁÐSDÓTTIR Mynd í sjónvarpi Lítið fallegt andlit stór saklaus augu sem trúa á lífið. Ógnandi byssukjaftar og lítill líkami liggur á götunni í blóði sínu. Ó, systir mín, er heimurinn svona hræðilegur? Ég græt í hjarta mínu. Höfundur er nemi í Menntaskólanum í Hamrahlíð. SVEINBJÖRN ÞORKELSSON Öræfa- draumur Sjáðu sjáðu Agnarögn Dögg þarna er hvítur veggur botnfrosið lækjarhjal kýprusviður öræfakuldi dimmutré í suðurhlíðum blóð - berg á himni heiðskírt fjall sumarský vindlétt laufgað sumarský. Höfundur hefur gefið út fjórar Ijóðabæk- ur. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 30. SEPTEMBER 1989 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.