Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.1991, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.1991, Blaðsíða 2
Frá hunangsljósinu handan hyldýpisins Um þessar mundir er staddur hér á landi Paal- Helge Haugen, eitt helsta ljóðskáld í norskum samtímabókmenntum. Ljóðakver hans Med- itasjonar over Georges de la Tour (íhuganir um Georges da la Tour, 1990) var tilnefnt ! Um norska skáldið PAAL-HELGE HAUGEN og ljóðakver hans, íhuganir um Georges de la Tour, sem var framlag Noregs vegna Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Eftir ÓSKAR VISTDAL af Noregs hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Hér á eftir kynnum við þetta ágæta skáldverk, sem hefur verið kallað «lágmælt stríðsyfirlýsing» á hendur yfirborðskennd og kæruleysi sem einkennir bæði hugsunarhátt, listir og mannleg sam- skipti á okkar dögum. «Ljóðlist er andóf gegn hinu viðtekna», fullyrðir Paal-Helge Haugen. Höfundurinn sækir í þessari bók innblástur í málverk franska listmálarans Georges de la Tour, sem var uppi á barokktímabilinu á 17. öld, til þess að lýsa eilífum átökum ljóss og myrkurs í samþjöppuðum og orðfáum ljóð- um eða «orðamálverkum». í kverinu eru 34 ljóð eða «íhuganir». Inn- gangsljóðin eru einkum myndlýsingar, en smám saman gera þau sig óháð málverkunum og stíga fram sem bókmenntalegt framhald af þemum sem Georges de la Tour drepur á í verkum sínum. Bókin fjallar í stuttu máli sagt um grundvallarkjör mannkynsins, um sameiginlega þjáningu og ábyrgð okkar, og um glötun og miskunn. Georges de la Tour túlkaði einkum hið dulúðuga ljós, skrifar Paal-Helge Haugen í eftirmála bókarinnar. «Hjá honum mætast nótt og myrkur og titrandi en þó öflugt ljós frá einstæðum kyndli eða tólgarkerti sem kemur andlitunum í málverkum hans að glóa með uppljómandi mannlegum krafti.» Mynd- heimur hans er tvíræður, segir Paal-Helge Haugen, jarðneskur og tímabundinn um leið og hann er himneskur og eilífur. T.d. í nætur- myndum hans breytast myndefni úr Bibl- íunni í áþreifanlegar lýsingar á mannlegum hverfulleika — «í skurðpunktinum á milli þjáningar og hrifningarvímu», eins og hann kemst að orði. Birtan í málverkum Georges de la Tour er bæði miskunnarlaus og misk- unnsöm, og þessi dulúðugi leikur hans með ljósaskiptin endurspeglast einnig í ljóðum Paal-Helge Haugen. Hann býr til myndir úr orðum um eilífa baráttuna milli ljóss og myrkurs og milli endalausrar þjáningar og þrár eftir endurlausn. Bókin byrjar með því að lýsa myrkri og bölsýni, en henni lýkur með endurfæðingu í ljómandi vorbirtu: / miðju lí£ þessi skógur í miáju lífi þessar urrandi kverkar þessi stamandi sorg Þetta minnir óneitanlega á fyrstu kviðu Vítisljóðanna í Gleðileiknum guðdómlega eft- ir Dante Alighieri. Hún hljóðar svona í þýð- ingu Guðmundar Böðvarssonar: Georges de la Tour, f,1593—d.l653: Nýfætt barn. Paal-Helge Haugen tekur mið af þessum löngu liðna málara í síðustu ljóðum sínum. Við háifnað skeiðið, einn og engum nærri, ég áttavilltur stóð, í myrkum viði, þeim stíg, er skyldi ég fara, órafjarri. Ýmislegt annað í bók Paal-Helge Haugen minnir einnig á þetta sígilda verk. Hann seg- ir í raun og veru frá svipaðri ferð frá myrkri til dögunar og Dante í Helheimi. T.a.m. «ur- randi kverkar» minna á «deplótt pardusdýrið» hjá Dante, sem lýsir Helvíti í 34 köflum. í ljóðasafni Paal-Helge Haugen eru einmitt 34 kvæði, og það er varla tilviljun. Skáldið hvetur lesandann til að kanna myrkrið; vonin og lausnin felst í því að «þú ert ófullgerður/hluti hinnar ávallt ófullgerðu sköpunar». Þú verður að viðurkenna allt sem er ófullkomið og formlaust, «andhverfu/ þess sem gæti verið» og «halda -út und myndin opnast/ og hleypir fram, innst inni, örlítilli birtu, dvergljósi.» Þjáning mannkynsins stíg- ur fram í fjölmörgum blæbrigðum í vonlaus- um heimi og minnir á takmörk sem þrá okk- ar eru sett, en hún er eins og «hyldýpi, gljúf- ur, bæn um uppfyllingu», «þorsti eins og Atlantshafíð/fjóra kílómetra fyrir ofan Titanic». Okkur stendur ótti af valdinu og illmennskunni og af þeim viðhorfum sem leiða þau hjá sér. Afskiptaleysi og vanmáttur móta nútímamanninn og gera okkur samsek í einþykkni og eigingirni okkar. Við getum ekki séð og við viljum ekki sjá, við erum «blindingjar/sem höldum höndum fyrir aúg- um/í myrkrinu.» Kvæði númer XVII hljóðar svona í þýðingu Siguijóns Guðjónssonar: Það er langt milli okkar. Við höldum bilinu, rennum undan, þannig er það bezt. Við förum okkar eigin götur, viljum ekki sjá, vera séð. Það ber við að einhver æpir í myrkrinu, að hálfu úlfur, að hálfu óþekktur fugl. Stutt óp, ekki meira. Ýmist glampi frá beygðri veru undir beru tré, getur borið fyrir ðskýrt far eftir fót í feitri leðjunni kring um haugana. Eða heitur andblær í koldimmri nótt, snerting arms eða handar, kippur frá einhverjum sem lætur sig sökkva aftur í myrkrið sem við öll erum komin frá. Myrkrið umlykur okkur, grípur okkur, þrengir sér inn í okkur. Verður þar unz morguninn rennur upp. í aftureldingu geta birzt fljótandi leifar Ijarlægra radda týndrar tungu, myndbrot af andliti, tónlist, sorg, víðáttur, borgir, lauslegir hlutir, villuljós. Allt löngu liðið. Molnaðar meiningarlausar minningar. Langt síðan við söfnuðumst saman utan við járnvarið borgarhliðið, tíndum upp úrkast, matarsorp, kjöttægjur, dýraleifar; snerum und- an skömmustuleg og fylltum munninn, lokuðum augum, kyngdum. Síðar muldruðum við lágt hvert við annað, við líkþráar sálir okkar. Bak við dökkar myndir af mannlegum kvölum eygjum við eigi að síður samúðar- fullt leiftur, von um náð. Skáldið særir fram «hunangsljósið» eða skin miskunnarinnar, í byijun ekki nema örlítið «dvergljós», en það brýst síðan fram að fullu eins og guðdómleg gjöf í augljósri andstöðu við skógarmyrkrið í inngangskvæðinu. Þegar allt kemur til alls snýst skáldskapur- inn um tungumálið. í ljóðum Paal-Helge Haugen er það hvorki meira né minna en uppsprettulind ljóssins, þó að tungumálið leiði einnig af sér myrkrið sem færist yfír einstakl- inginn og heiminn. Einn gagnrýnendanna hefur jafnvel haldið því fram að bókin — eins og málverg Georges de la Tour — fjalli eiginlega um fæðingu tungumálsins. Sam- kvæmt Paal-Helge Haugen mun hlutverk skáldsins einmitt vera að rækta tungumálið sem verkfæri í því skyni að segja frá myrkr- inu. Aðeins með þeim hætti öðlumst við skiln- ing sem getur haft jákvæðar breytingar í för með sér. í lok ferðarinnar um Helheim nær Dante að óminniselfunni Letu, sem afþvær allar minningar um synd og sekt. Loksins bjarmar af degi þegar hann stendur fyrir framan fjall Hreinsunareldsins. Bók Paal-Helge Haugen endar í svipuðum vongóðum anda, en hvetur okkur til að vera viðbúin, því að ekkert er sjálfgefíð í lífsbaráttunni: Skola af sér sorgina, rykið hornhúð, vetrarleifar hleypa því út Vera viðbúinn þegar jörðin lyftist undir þér, sem einstakur svartur vængur Vita að það er kannski enn til að enn er mögulegt að teyga varma hins mögulega þess ófædda opnum munni Hendumar þreifa á yfírborði myrkursins þekkja það aftur: ósýnilegu grópin slitmerkin, árituðu nöfnin frostsprungumar, vegi regnsins og þína Það er ekki sjálfsagt að við séum sýnileg Það er ekki alltaf að ég fmni andlit þitt Éghefreynt það hvem einasta dag ótraustri hendi að elska þig út úr myrkrinu (Þýðing: Siguijón Guðjónsson) Paal-Helge Haugen þorir að tala um sann- leika sem nútímamaðurinn forðast að taka til umræðu. íhuganir um Georges de Ia Tour er magnað listaverk með dökkan hljómbotn, sinfónía sem gefur angistinni og sársaukan- um tón og rödd. Aðaleinkenni Paal-Helge Haugen sem skálds er e.t.v. samkennd við alheiminn í tíma og rúmi. í verkum hans renna hugsun og skynjun, hið lifandi og hið dauða, fortíð og nútíð saman í eina heild. Þetta á hann sameiginlegt með öðrum norsk- um skáldum sem yrkja í ófreskum anda um tilveruna, t.a.m. Henrik Wergeland, Claes Gill og Stein Mehren. Síðasta kvæðið í íhugunum boðar samein- ingu og endurfæðingu og hljóðar svona í þýðingu Trausta Ólafssonar: 1 Renn yfir mig sem regn. Ég lyfti augliti mínu til þín, þín streymandi yfir lokuð augun, yfir vanga yfir háls, á vormorgni sem enginn á kröfu til. Vot blæja leggst yfir mig, lætur mig dafna rakan og nýfæddan. Hið græna rís upp í líkamanum. Ég opna munninn og læt það koma yfir mig sem regn. 'Paal-Helge Haugen fæddist árið 1945 og er geðlæknir að mennt, en hefur nú sest að sem atvinnurithöfundur á heimaslóðum sín- um í Setesdal á Ögðum. Hann er afkastamik- ill rithöfundur sem vinnur með flestar grein- ar bókmennta. Auk ljóða hefur hann skrifað skáldsögur, smásögur, leikrit og kvikmynda- handrit. Um þessar mundir er hann að semja óperu um ævi og örlög norska listmálarans Lars Hertervig (1830-1902) í samvinnu við Atla Heimi Sveinsson tónskáld. íhuganir um Georges de la Tour er 20. bók Paal-Helge Haugen síðan hann kvaddi sér hljóðs fyrir tæplega aldarfjórðungi. Þekktasta verkið, Anne, sendi hann frá sér þegar árið 1968. Það er svokölluð «punkt- skáldsaga» sem segir í samþjöppuðum heim- ildarbrotum án skýringa höfundarins frá uppvaxtarárum, sjúkdómi og dauða ungrar stúlku. Anne er bæði áhrifaríkt skáldverk og bókmenntaleg nýjung í Noregi, og bókin er enn víða lesin, ekki síst í skólum. í Ihugun- um um Georges de la Tour notar höfundur- inn svipuð stílbrögð, en hefur nú náð enn betri tökum á þeim en í Önnu. Höfundur er norskur sendikennari við Háskóla Islands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.