Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.1996, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.1996, Blaðsíða 9
Smasaga Skömmin eftir JÓRUNNITÓMASDÓTTUR NÁTTÚRAN var stirðnuð og hvít. Það marraði í snjónum undan þungu fótatakinu. Óskammfeilið hljóð í froststilltri kvöldkyrrð- inni. Hjarnið breiddi úr sér, óendanlegt, hvítt og ósnortið. Það sindraði á það í gul- blárri tunglskímunni. Trén stóðu nakin, hrímuð og beinfrosin. Þau voru álút og kræklóttar greinarnar teygðu sig fram, afskræmdar og ógnandi. Það var enginn á ferli nema hún. Frostkaldur andvarinn beit hana í kinnarnar og þrengdi sér leið inn í nasir hennar og munn. Þó var hún sjóðheit í framan, eins og hún væri með sótthita. Og svitataumar runnu hægt niður eftir síð- unum á ísköldu hörundinu. Hún var sveitt í lófunum. Það fóru um hana skjálftakippir. Bláar, þurrar varirnar titruðu og tár runnu úr augum hennar. Hún leit upp í stjörnu- bjartan, fjólubiáan vetrarhimininn og hélt áfram göngu sinni, þungum, hægum skref- um. — Þegar hún rauk á dyr í ofboði hafði hún ætlað til Hildar vinkonu sinnar og ræða þetta við hana, gráta við öxl hennar, fá útrás fyrir reiðina, skömmina. Henni fannst hún ekki geta borið þetta ein. En hún hafði gengið framhjá upplýstu, grænmáluðu hús- inu hennar Hildar og áður en hún vissi af var hún komin í skemmtigarðinn. Hún gekk meðfram ísilögðu vatninu. Svanirnir og end- urnar voru hvergi sjáanleg. Þau höfðu lík- lega leitað sér hlýlegri bólstaðar. Það var enginn úti á ísnum. Bara að hún gæti lægt öldurnar sem risu hið innar með henni. Það var eins og öll innyfli líkamans væru í upp- námi. Blóðið rann svo hratt og straumþungt um æðarnar að þær voru að því komnar að bresta. Hver hugsun sem reyndi að skjót- ast fram í huga hennar var andvana fædd. Hún hefði átt að fara inn til Hildar. Það hefði verið betra að ræða þetta við einhvern sem maður treystir og þekkir vel. Hún reyndi að anda djúpt ofan í rauðan ullartref- ilinn sinn til að koma örlítilli ró á líkams- starfsemina. En um leið og hún tók að nálg- ast hugsanir sínar spratt út á henni svitinn, kinnarnar urðu funheitar, maginn herptist saman og varð að þungum hnullungi og slátturinn í höfðinu varð óbærilegur. — Hún settist á hrímaðan trébekk við ísilagt vatn- ið. í ijarska sá hún ljósin í gluggum hús- anna í lilíðinni. Henni fannst að frá þeim streymdi öryggi, hamingja og hlýja. Það jók enn á einsemd hennar og eymd. Hún greindi einnig ljós í stofuglugganum þeirra. Skyldi hann vera að gefa krökkunum að borða? — Allt í einu sá hún hann fyrir sér, ljóslif- andi, þar sem hann stökk í takmarkalausri bræði. Hælarnir námu við rassinn, hnefarn- ir krepptir, hnúarnir náhvítir, andlitið af- skræmt af illsku. Myndin af honum í lausu lofti varð að kyrralífsmynd fyrir hugskots- sjónum hennar. Þrátt fyrir undrunina hafði henni fundist hann hlægilegur í þessum stellingum fyrir framan eldhúsvaskinn. Jafnvel afkáralegur. Hún hafði verið að því komin að skella upp úr. Hugsýnin læddi brosi fram á varir hennar þar sem hún sat á hvítflosuðum bekknum við vatnið. Hann hafði komið svo þungt niður að skjálfti hafði farið um gólfið undir fótum þeirra og bollar og diskar tekið að glamra í skápunum. Hann hafði gengið að henni hatursfullur á svip og með náhvítum hnúum hafði hann danglað í vinstri upphandlegg hennar, sveifl- að fimlega hægra fæti og slengt honum í afturendann á henni. Hún hafði staðið fyrir framan ísskápinn, opinmynnt og stóreyg. Var þetta virkilega að henda hana? Var hann að leggja á hana hendur? Hún hafði ekki fundið til líkamlegs sársauka. Hann hafði hvorki slegið né sparkað fast. Bara slegið og sparkað. En orðin sem hann lét fylgja barsmíðunum skildu eftir blæðandi sár og áður óþekktan sársauka. Hún vissi ekki hvernig hún átti að bregðast við þess- um nýja sársauka. — Aftur fann hún hvern- ig svitinn spratt fram undan handakrikunum og blóðið þau fram í kinnarnar. Hún leit órólega í kringum sig og faldi andlitið í köldum höndunum. Hún mundi hvert orð, tónfallið, svipbrigðin. Voðalega gat Kann verið svipljótur. Það hafði komið henni á óvart. Og hatrið sem skein úr augunum. Hún þrýsti ísköldum, dofnum fmgrunum að sjóðheitum kinnunum og starði út,á ísinn á vatninu. Hann var helblár í tunglskininu. „Hypjaðu þig burtu frá augum mér. Ég hef viðbjóð á þér!“ hafði hann öskrað ankanna- lega. „Ég hef viðbjóð á þér!“ Orðin glumdu í höfðinu á henni. Hún var farin að skjálfa og nötra á hrímköldum bekknum. Andlitið var eins og vígahnöttur. „Ég hef viðbjóð á þér!“ Hvílík fyrirlitning hafði ekki falist í þessum orðum. — Hún leit í kringum sig yfir glitrandi hjarðbreiðuna sem teygði úr sér svo langt sem augað eygði. Það var enginn á ferli. Bara hún. Hún horfði á upp- lýsta glugga húsanna í fjarska. Hún greindi ljós í stofuglugganum þeirra. Ætli hann sé búinn að hátta krakkana? Hún reis þung- lamalega á fætur. Líkami hennar var stirð- ur, beinfrosinn eins og trén. Allt í einu skynj- aði hún að hún fann ekki fyrir tánum í skónum og að fingurnir voru loppnir. Hún leit snöggt upp í fjólubláan himininn þar sem stjömurnar glóðu og blikuðu. Síðan hélt hún af stað. Það marraði í snjónum undan þungu fótataki hennar. Hljóðið hafði róandi áhrif á hana í froststilltri kvöldkyrrð- inni. Höfundur býr í Svárdsjö í Svíþjóð. TED HUGHES Þrjú kvædi Hallberg Hallmundsson þýddi Þistlar Til varnar gegn togleðurstungum kúa og lúandi höndum manna reka þistlarnir brodda út í sumarloftið eða bresta opnir undan svarbláum þrýstingi, hver og einn hefndþrungin tilraun til upprisu, hrifsuð handfylli af hjörvabrotum og íslenskum gaddi gróin upp úr neðanjarðardillu af úldnum víkingi. Þeir eru eins og bleikt hár og kokhljóð í mállýskum. Hver og einn veldur skúfi blóðs. Síðan grána þeir eins og menn. Slegnir valda þeir gagnvígum. Synir þeirra spretta upp stjarfir af alvæpni og berjast um sama blettinn. Guðfræði Nei, höggormurinn tældi Evu aldrei til að bíta í eplið. Það er ekki annað en afbökun á staðreyndum. Adam át eplið. Eva át Adam. Höggormurinn át Evu. Sá er nú dapur sannleikurinn. Höggormurinn liggur nú á meltunni í Paradís og brosir þegar hann heyrir nöldrið í guði. Fyrsta lexía Kráku Guð var að reyna að kenna Kráku að tala. „Ást,“ sagði hann. „Segðu ást.“ Kráka gapti, og hvítur hákarl hlussaðist út í sjó, veltist áfram niður á við og fann sína eigin dýpt. „Nei nei,“ sagði guð. „Segðu ást. Reyndu nú: ÁST.“ Kráka gapti, og bláfluga, tsetse og moskító þeyttust út og niður í sína margháttuðu kjötkatla. „LokatiIraun,“ sagði guð. „Svona: ÁST.“ Kráka fékk flog, gapti, kúgaðist og gríðarstórt mannshöfuð, líkamslaust, eins og laukur spratt út á jörðina, ranghvolfdi augum og rövlaði mótmæli sín - Og Kráka kúgaðist enn á ný áður en guð fékk varnað því. Og yfrum háls mannsins herptist kvenmannsfuð. Það tókust með þeim stympingar í grasinu meðan guð grátandi og bölvandi streittist við að skilja þau að. En Kráka flaug skömmustuleg á brott. Höfundur er lárviöarskáld hennar. hátignar, Bretadrottningar. Þýðandinn býr í New York. i. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS . 20. JANÚAR 1996 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.