Lesbók Morgunblaðsins - 26.08.2000, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 26.08.2000, Blaðsíða 10
Myndlýsing/Andrés NÓTT SMÁSAGA EFTIR EINAR ÖRN STEFÁNSSON AÐ ER tekið að birta af degi. Annað veifið berst mér lágvært hvísl kunnugra radda. Ég reyni að gera vart við mig en líkaminn er ekki lengur á mínu valdi. Nánir ættingjar hafa sameinast inni á sjúkra- stofunni. Ég heyri grát hinna buguðu sem leita fjarlægrar huggunar í faðmi hver annars. Dymar opnast, hratt fótatak bergmálar og hönd snertir fætur mína skamma stund. Alvöruþrunginn karlmannsrómur blandinn hluttekningu berst yfir beðinn: „Talið varlega því það síðasta sem fer er heyrnin." Orðin óma undir dvínandi skóhljóði sem hverfur út við dyrn- ar. Endurminningarnar streyma fram, tært vatn úr kvikri lind, málaðar bláköldum litum sannleikans. Afdrifarík heimsókn á læknastofu stendur ljóslifandi fyrir mér. Mamma og pabbi sitja gegnt snyrtilegum manni í hvítum sloppi með rauða slaufu. Hár hans er grásprengt og svipurinn gæðalegur. Ég hlusta ekki á orðin heldur sit og les grein í gömlu vikuriti. Þegar við komum heim setjumst við í herbergið mitt. Mamma tekur mig í faðm sér og segir nærgætin að framundan sé barátta sem við munum , heyja saman. Pabbi situr þögull og horfir út í loftið eins og hann festi ekki sjónar á neinu. Vikum saman vék hann ekki frá mér, sat við rúmið, rissaði upp myndir, sumar af mér, aðrar úr óþekktum ævintýrum. Oft sagði hann mér draumkenndar sögur sem lifnuðu svo á tungu hans að mér þótti ég vera stödd í veröld handan við þennan heim. Undir frásögninni urðu augu hans kvik og glaðleg, frá þeim stafaði birtu sem lýsti upp himinhvolfið. Mamma var iðulega með okkur og við þrjú drógum upp í milljónum orða fallegan, trúverðugan heim sem hýsti alla fram- tíðardrauma. Pabbi ætlaði að hlaða hús úr íslensku grjóti og krýna það með koparþaki á meðan mamma skrifaði ódauðleg bókmenntaverk. Framtíð mín tók á sig margvíslegar, töfra- bjartar myndir í hugum okkar; var því næst óráðin gáta sem lífsgæfan ein gat ráðið. En draumar ríma sjaldnast við veruleikann og ég vissi innst inni að loftkastalar eru aðeins byggðir úr orðum. Það dró æ meira úr þrótti mínum, ferðum á spítalann fjölgaði óðum og sársaukafull meðferðin var hætt að vekja von. Ég frábaðst að hitta leiksystur mínar því hver saga sem þær sögðu vakti hryggð í hjarta mínu. Hver frásögn staðfesti að ég var ekki lengur þátttakandi í ærslafullu lífi æskunnar. Djúpt í sálinni skynjaði ég að raddir þeirra myndu hljóma löngu eftir að rödd mín var þögnuð. Enginn er bam sem stendur andspænis dauðanum. Lífið fær á sig annan svip er við stöndum við dauðans gátt. Hver stund öðlast merkingu líkt og hún sé töfruð úr glatkistu. Leyndardómar ljúkast upp og kalla á aðra leyndardóma sem verða okkur ævinlega huldir. Hver dagur er opinberun. Þegar við höfum glatað líkamsþróttinum vitum við fyrst hvað er að standa upprétt í köldum strekkingsvindi og bjóða heiminum byrginn. Þegar við getum ekki tekið skrefið skynjum við hve •> gott er að spretta úr spori. 011 eigum við innri rödd sem magnast í nálægð dauðans; gef- ur tungu okkar annan og auðugri róm. Eitt sinn þegar ég var heimaliggjandi slapp Hanna vinkona mín inn í herbergið. Iskaldur hrollur fór um mig, hún var spar- iklædd með ijóðar kinnar, í grænni kápu og bláum kjól. Hanna gat ekki leynt undruninni yfir laslegu útliti mínu og angist staf- aði frá augunum. Hún var með blómavönd í skjannahvítri hönd, rauðar rósir sem vaxið höfðu dauðanum til dýrðar. Bömum er eðlilegt að tína villt blóm af jörðinni og gefa af allri sál en þau eiga aldrei að bera afskomar rósir að sóttarsæng hins deyjandi. Mig langaði til að hrekja hana burtu en eftir andartaks um- hugsun tók ég við vendinum og þakkaði fyrir. Við töluðum um sumarið sem var í vændum, hvert við ætluðum að hjóla saman og hvar við ætluðum að tjalda. Undir orðunum vissum við báðar að við létum okkur hlakka til sumars sem ég myndi aldrei sjá. Þegar hún tók að tala um haustið gat ég ekki haldið blekkingar- leiknum áfram. Allir órar eiga sín landamæri. Stundum er veg- f ur sannleikans sá eini sem orð okkar rata. „Þá verð ég dáin“ sagði ég blákalt. Hún brast í grát. I ráðaleysi hnýtti ég tóbaksklútinn betur um höfuðið rétt eins og ég gæti með einu handtaki breytt að- stæðum, snúið þeim okkur báðum í hag. Hún féll í faðm minn grátandi uns hún sleit sig frá mér og rauk á dyr. Mamma setti rósimar í hvítan postulínsvasa. Ilmurinn vakti gleði en þegar blöðin tóku að falla fylltist ég óhug. Ég tók vönd- inn, opnaði glugga og lét hveija rós um sig falla niður hæðimar níu beint inn í iðandi mannlíf götunnar. Fólk leit upp og ég ím- yndaði mér að það undraðist hví himinninn væri tekinn að rigna rósum. Ég gerði mér í hugarlund upplitið á ókunnugum mann- eskjum. Frískur vindur lék um herbergið. Þegar síðasta rósin var fallin tók ég að plokka fjaðrir af svörtum uppstoppuðum hrafni sem stóð í gluggakistunni. Ég tíndi hverja fjöðrina af **- annarri, lét vindinn bera þær á hjara veraldar. Að endingu stóð aðeins grár gifsklumpur eftir með gogg, eitthvað sem minnti alls ekki á fugl. En þannig er ásýnd heimsins, ekkert er sem sýnist og útlitið til þess eins ætlað að villa okkur sýn. Ég kveið þess að pabbi kæmi heim en þegar hann steig inn úr dyrunum var hann frekar undrandi en reiður. Hann tók klump- inn upp, horfði á gogginn og spurði hvort ég vissi um fjaðrirnar. Fyrst átti ég erfitt með að svara en sagði síðan hiklaust að ég hefði stytt mér stundimar við að plokka þær af og að hver fjöð- ur sem horfið hefði með vindinum væri óður til lífsins. „Fannst þér það gaman?“ spurði hann. „Já“ svaraði ég. Þá þagnaði hann um stund en sagði síðan lágum rómi: „Verst að eiga ekki fleiri fugla.“ Hann settist á rúmið, tók mig í faðminn og sagði mér að vind- urinn væri kraftur framliðinna sálna. Veik gola þytur af vængjaslætti mjallhvítra engla sem flögra inn í guðdómlega birtu. Pabbi færði mér oft í rúmið kraftasteina sem hann fann í fjöruborðinu. Hann sagði mér að strjúka þá því með þeim hætti öðlaðist ég aftur heilbrigði og allir framtíðardraumar myndu rætast. Þetta voru óskasteinamir okkar. Þegar ég var innlögð á sjúkrahúsið til langrar dvalar byrjaði pabbi allt í einu að tala látlaust um paradís. Orð hans lutu að för minni til fjarlægs lands þar sem ég skyldi bíða komu þeirra. Mér hraus hugur við ferðinni en mamma taldi í mig kjark og sagði að við værum þegar stödd í eilífðarlandinu. „Við sjáum ekki nema brot af guðsríkinu í birtu sólarinnar því hún varpar frá sér geislum næturinnar í paradís," sagði hún. Draumórar em drifkraftur lífsins, blekkingin sem gefur okk- ur kraft til að þreyja daginn. Engum em draumarnir nauðsyn- legri en þeim sem bíður dauðans. Mig dreymir oft í vöku sem í svefni. í gær dreymdi mig að ég væri að hlaupa á grænu engi undir bláum himni í rjómalogni líkt og ég hefði dottið inn í mynd mál- ara sem alltaf er heppinn með veður. En skyndilega vaknaði ég. Um lágnættið heyrðist ískra í svörtum hjólum beinhvítrar járnkistu með svörtum krossi. Þá vissi ég að einhver hafði feng- ið hvíldina fyrr um kvöldið. Kistan er oft á ferð. Iðulega sé ég tvo vaktmenn í bláum sloppum ganga kæmleysislega með hana sér við hlið og annar þeirra raular gjarnan lágt fyrir munni sér. Tíminn líður hratt í minningunni; hægt inni á sjúkrastofunni. Pabbi kyssir mig, ég finn tár drjúpa á ennið og þó hjartað gráti vöknar mér ekki um augu. Röddunum fjölgar inni á herberginu. Læknirinn kemur æ oftar, snertir fætur mína og hendur. Ég reyni að gera vart við mig en mátturinn er þrotinn. Deyjandi sál er á milli himins og jarðar, á milli dags og nætur. Sá einn sem deyr sér hina sönnu birtu. Ég finn nálægð ástvina við dánarbeð mitt. Veik gola leikur um herbergið líkust vængjaþyt mjallhvítra engla. Nú er orðið bjart af degi og ég veit að lífið var aðeins nótt í paradís. Höfundurinn er rithöfundur. 4 1 O LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 26. ÁGÚST 2000

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.