Morgunblaðið - 02.02.2001, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 02.02.2001, Blaðsíða 7
sitja saman til borðs við morgunverð, hádegisverð og eftirmiðdagskaffi alla virka daga. Að loknum málsverði stóðu allir upp, tókust í hendur og mynduðu hring í matsalnum og frú Margrét sagði: „Verði ykkur að góðu“ og stúlkurnar þökkuðu fyrir matinn í einum kór. Þetta er samkvæmt gam- alli hefð og kvaðst skólastjórinn leggja áherslu á að halda í gamlar hefðir eftir því sem mögulegt væri. Auðvitað breyttist tíðarandinn og ein- hverju væri hnikað til í samræmi við það, en borðsiðirnir væru enn í fullu gildi. Þegar stelpurnar í matreiðslu- hópnum höfðu gengið frá í eldhúsinu og matsalnum eftir hádegisverðinn fóru þær í prjónatíma og sátu við þá iðju það sem eftir lifði skóladagsins. Fyrr um morguninn höfðu þær verið í tíma í vörufræði hjá Margréti skóla- stjóra, en hún kennir einnig næring- arfræði, neytendafræði og ræstingu. Auk hennar og Benediktu matreiðslu- kennara kennir Helga K. Friðriks- dóttir handavinnu og Edda Guð- mundsdóttir kennir vefnað. Skólareglur eru skýrar og byggjast sumar á gömlum hefðum. Lögð er áhersla á góða umgengni og virðingu fyrir eigum skólans innan dyra sem utan. Nemendur eiga einnig að vera hirðusamir um eigur sínar og ekki láta þær liggja á glámbekk um allt hús. Reykingar eru ekki leyfðar í skólanum og áfengisneysla er bönnuð bæði innan dyra og á lóð skólans. Og húsið skal ávallt vera læst. Það er líka hefð fyrir því að halda veislur fyrir foreldra nemenda og eru „foreldraboðin“ tvö á hverri önn. Hið fyrra er haldið um það leyti sem mat- reiðsluhópur og handavinnuhópur skipta um hlutverk í lok febrúar, en hið seinna er haldið undir lok annar- innar. Ekki þarf að taka það fram að hússtjórnarnemarnir annast sjálfir matseldina og allan undirbúning fyrir þessar veislur. Ekki síður fyrir stráka Upp úr 1970 áttu sér stað miklar breytingar á skólakerfinu og mögu- leikar til náms urðu meiri. Tíðarand- inn var orðinn annar og viðhorf breytt. Húsmæðraskólar duttu úr tísku, ef svo má að orði komast. Það var því við ramman reip að draga hjá Húsmæðraskóla Reykjavíkur á þess- um árum. Árið 1975 voru sett ný lög um hússtjórnarskóla sem kváðu á um að þeir skyldu vera ríkisskólar og kostaðir að fullu af ríkissjóði, að því tilskildu að 36–40 nemendur stund- uðu þar nám. Í framhaldi af þessari lagasetningu var nafni Húsmæðra- skóla Reykjavíkur breytt í Hússtjórn- arskóla Reykjavíkur. Ákveðið var að breyta kennslufyrirkomulaginu, sem meðal annars fól í sér að námið var stytt úr einum vetri í hálfan, auk þess sem efnt var til styttri námskeiða. Eftir að hafa kynnt sér starfsemi skólans er greinarhöfundur sann- færður um að hér sé um hagnýtt nám að ræða sem geti komið sér vel í fram- tíðinni fyrir alla, hvar svo sem þeir hyggjast hasla sér völl í atvinnulífinu. Og það er deginum ljósara að þetta nám er ekki síður fyrir karlpeninginn. Þarna læra menn til dæmis að pressa buxur, strauja skyrtur og bursta skó, sem er hverjum karlmanni nauðsyn- legt að kunna, svo ekki sé talað um að fægja silfur, sem í rauninni er ekki síður karlmannsverk eins og þeir vita sem reynt hafa. Og í ræstingatímun- um læra nemendur ekki bara að sópa gólf og þurrka af, heldur einnig að þvo glugga og þrífa salerni svo fátt eitt sé nefnt. Aðeins þrír karlmenn hafa lokið námi frá skólanum á seinni árum og allir voru þeir með stúdentspróf þeg- ar þeir hófu hússtjórnarnámið. Einn þeirra stundar nú myndlistarnám, annar er líffræðingur og sá þriðji fór í Hústjórnarskólann á meðan hann var að bíða eftir því að komast í atvinnu- flugmannsnám. Að sögn kennaranna stóðu þessir piltar sig allir með mikl- um ágætum og gáfu stelpunum ekk- ert eftir, hvort heldur um var að ræða matreiðslu, vefnað, útsaum eða ræst- ingu. Námsmeyjar í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur eru líka afar ánægðar með dvöl sína þar. „Mig langaði til að fara í þetta nám og sé ekki eftir því. Þetta er rosalega gaman,“ sagði Elsa Sigurðardóttir úr Reykjavík. Hún stefnir á framhaldsskólanám í haust. Katrín Dröfn Guðmundsdóttir úr Reykjavík kvaðst hafa farið í Hús- stjórnarskólann af því hún taldi nám- ið áhugavert og skemmtilegt. „Það á örugglega eftir að koma sér vel í framtíðinni,“ sagði hún. Hún ætlar líka að halda áfram framhaldsskóla- náminu næsta haust og þá reynslunni ríkari á sviði heimilisstarfa. Agnes Hilmarsdóttir er stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og ákvað að fara í Hússtjórnarskólann á meðan hún er að hugsa sig um hvað hún ætlar að taka sér fyrir hendur að því loknu. Hún er líka mjög ánægð í skólanum. Æsa Bjarnadóttir frá Reykjavík var húsmóðir á daginn og í vinnu á kvöldin áður en hún hóf nám í Hús- stjórnarskólanum. „Ég ákvað bara að læra heimilisstörfin almennilega. Í náminu er farið yfir allt sem viðkemur húsverkum og það hefur komið í ljós að ýmislegt sem ég taldi mig kunna á því sviði er hægt að gera betur,“ sagði hún og lætur vel af dvöl sinni í skól- anum. Drífa Björk Kristjánsdóttir frá Sel- fossi sagði að sig hefði lengi langað til að fara í þennan skóla og hún hringdi á miðvikudegi til að leita upplýsinga. Daginn eftir var hún komin suður og byrjuð í skólanum. „Margrét var svo sannfærandi í símanum að ég pakkaði bara niður samdægurs. Svo er ég ófrísk þannig að það kemur sér vel að vera hérna á meðan ég bíð eftir barninu. Það er alveg meiriháttar að vera hérna, góður andi í hópnum og ég er viss um að hópurinn á eftir að halda saman lengi eftir að náminu lýkur.“ Guðrún Sigurlín Ólafsdóttir frá Reykjavík sagði að námið í Hús- stjórnarskólanum væri mjög skemmtilegt. „Ég mun aldrei sjá eftir að hafa farið út í þetta. Ég hlakka allt- af til að koma í skólann á morgnana og vil helst ekki hætta þegar skólan- um lýkur á daginn. Öll fögin eru skemmtileg og ég held að allir hefðu gott af því að læra þetta. Ég á örugg- lega eftir að sakna skólans þegar ég fer héðan.“ Slíkur vitnisburður nemenda er vissulega ekki amalegur fyrir Hús- stjórnarskóla Reykjavíkur og segir í rauninni allt sem segja þarf. 5 6 DAGLEGT LÍF MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. FEBRÚAR 2001 D 7 Nýju vörurnar komnar Í einu orði sagt yndislegar! og Laugavegi 4 HÉR á árum áður voru allir nem- endur Hússtjórnarskólans, sem þá hét reyndar Húsmæðraskólinn í Reykjavík, á heimavist hvort sem þeir voru Reykvíkingar eða utan af landi. Það þótti sjálfsagður hluti af náminu og hafði í för með sér að nemendur þurftu að temja sér ákveðinn sjálfsaga. Ennfremur ríkti jafnan sérstakur andi á heimavistinni, sem talið var að nemendur hefðu gott af að kynn- ast. Í Hússtjórnarskólanum er enn boðið upp á heimavist, en það er ekki skylda og aðeins fyrir þá sem þess óska, sem eru oftast nem- endur utan af landi. Soffía Anna Sveinsdóttir og Gunnhildur Árna- dóttir eru í hópi námsmeyja sem búa á heimavistinni. Þær eru báð- ar búsettar úti á landi, Soffía Anna er frá Egilsstöðum og býr á Sel- fossi og Gunnhildur er frá Hvera- gerði. Þeim finnst vistin góð í Hús- stjórnarskólanum og kunna vel við sig þarna á efstu hæðinni á Sól- vallagötunni. Soffía Anna var í Fjölbrautaskóla Suðurlands og ákvað að taka hlé á náminu þar en byrja jafnvel aftur í haust. Hið sama má segja um Gunnhildi sem er í Kvennaskólanum og ætlar að halda þar áfram í haust. „Ég ætl- aði hvort sem er að fara í þetta hússtjórnarnám eftir stúdentspróf, en ákvað að gera það bara núna út af kennaraverkfallinu,“ sagði hún. Þeim bar saman um að það væri „æðislega gaman á heimavistinni“, eins og þær orðuðu það, og töldu það af hinu góða að læra að sjá um sig sjálfar. Þær sögðu að ákveðnar reglur giltu á heimavist- inni. Til dæmis á að vera komin á kyrrð og ró í húsinu klukkan 23 á hverju kvöldi, jafnt um helgar sem virka daga. „Við erum allar með lykla og megum vera úti lengur, en þá þurfum við að gera grein fyrir því í sérstakri bók sem er niðri í anddyri,“ sögðu þær. Gestir eiga ennfremur að vera farnir úr húsinu klukkan 23:00 á kvöldin og engir gestir mega dvelja á heima- vistinni meðan á kennslu stendur. Að vísu er hægt að fá undanþágu frá þessari reglu, til dæmis ef um eiginmann eða fastan kærasta er að ræða, en þá verða vistmenn líka að færa sönnur á að svo sé. Soffía Anna og Gunnhildur sögðu að ekki hefði reynt á þetta í þeirra tilfelli. Reykingar og áfengisneysla er að sjálfsögðu bannað og eins meðferð eldfæra, þar á meðal notkun kerta. Vistmenn á heimavistinni mega því ekki halda „partý“ á nóttunni, eins og tíðkast víða í heimahúsum hér á landi um helgar. Þær Soffía Anna og Gunnhildur voru sammála um að samvinnan við „Heiðu húsvörð“ væri góð, en hún býr í húsinu og hefur vakandi auga með því að öllum reglum sé hlítt. Morgunblaðið/Jim Smart Soffía Anna og Gunnhildur eru hæstánægðar á heimavistinni. Sjálfsagi á heimavist 1. Matreiðsla er snar þáttur í náminu. Hér er verið að setja aðalrétt dagsins í ofn. 2. Í vefstofunni. 3. Kartöfluflysjun í fullum gangi. 4. Haldið í gamlar hefðir. Námsmeyjar, ásamt frú Margréti, þakka fyrir matinn í lok borðhalds- ins. 5. Benedikta G. Waage, matreiðslukennari, gefur góð ráð. Námsmeyjarnar eru frá vinstri: Katrín Dröfn Guðmundsdóttir, Drífa Björk Kristjáns- dóttir, Elsa Sigurð- ardóttir og Guðrún Sig- urlín Ólafsdóttir. 6. Í vistlegri setustofunni og víðar í húsinu má sjá málverk eftir marga þekktustu listamenn þjóðarinnar á veggjum. Eins og eitt stórt heimili

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.