Morgunblaðið - 06.02.2001, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 06.02.2001, Blaðsíða 5
HANDKNATTLEIKUR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. FEBRÚAR 2001 B 5 Valsstúlkur halda áfram að klifraupp töfluna og nálgast nú liðin fyrir miðju deildarinnar eftir naum- an sigur á KA/Þór á Akureyri í gær í hörkuspennandi leik. Lokatölur urðu 19:18. Stúlkurnar í KA/Þór sitja því enn í næstneðsta sæti með 4 stig en Valur hefur verið á spretti í síðustu leikjum, rifið sig frá botninum og er liðið komið með 10 stig. Leikurinn var harður og afar spennandi. Heimastúlkur byrjuðu betur og leiddu fram í stöðuna 5:4. Þá hafði Ásdís Sigurðardóttir skorað 4 mörk og gripu Valsstúlkur þá til þess ráðs að taka hana úr umferð og þær komust smám saman fram úr. Staðan í leikhléi var 10:11. Athygli vakti að Valur fékk 7 vítaskot dæmd í hálfleiknum, skoraði úr 4 en Sig- urbjörg Hjartardóttir varði þrjú. KA/Þór fékk eitt víti. Valsstúlkur mættu öflugar til seinni hálfleiks og skoruðu fjögur mörk í röð; staðan 10:15. Þessi mun- ur hélst fram á 20. mín. er staðan var 13:18 en þá kom frábær leikkafli hjá heimaliðinu, sérstaklega Ásdísi sem bæði braust í gegn og skoraði og opnaði fyrir Guðrúnu Lindu í horn- inu. KA/Þór jafnaði í 18:18 þegar 4 mín. voru eftir. Eivor Pála Blöndal skoraði svo loks fyrir Val af vítalín- unni og Berglind Hansdóttir mark- vörður bjargaði liðinu síðan í tví- gang, fyrst með því að verja frá Þórhildi Björnsdóttur eftir gegnum- brot og síðan vítaskot frá Ásdísi þeg- ar rúm mínúta var eftir. Raunar töldu flestir, nema dómararnir, að brotið hefði verið á Þórhildi þegar hún prjónaði sig í gegn. ,,Ásdís sagði mér einu sinni hvar hún myndi skjóta ef hún þyrfti að taka víti undir pressu. Hún hefði ekki átt að gera það,“ sagði Berglind Hansdóttir, hetja Vals. ,,Ég var ekki ánægð með frammistöðu mína í fyrri hálfleik og var ákveðin að gera betur í þeim seinni. Við höfum spilað mjög vel eftir jól og það er allt á uppleið hjá okkur.“ Auk Berglindar lék Árný Ísberg skínandi vel hjá Val. Ásdís var afar kraftmikil í liði heimastúlkna og skoraði 8 mörk þrátt fyrir að vera lengstum tekin úr umferð, auk þess sem hún fékk oft óblíðar móttökur. Sigurbjörg varði stórvel, m.a. 4 víta- skot og Guðrún Linda átti mjög góð- an leik. Hörkuleikur á Akureyri Stefán Þór Sæmundsson skrifar Leikur Fram og ÍBV var baráttaallt frá upphafi til enda. Liðin skiptust á um að hafa forystuna og jafnt var með liðun- um í leikhléi 11:11. Það var í raun ótrú- legt að sú skyldi vera raunin því tví- vegis í fyrri hálfleiknum voru Fram- arar tveimur leikmönnum fleiri og í rúma mínútu voru þremur fleiri Framarar inni á heldur en Eyja- stúlkur. Hið leikreynda lið Fram náði þó ekki að nýta sér það enda sýndi liðið mikið agaleysi í sóknar- leiknum og gerði ekki meira en að halda í horfinu. ÍBV sýndi á sama tíma mikinn styrk. Í liðinu eru sam- an komnir mjög sterkir leikmenn sem á tíma tóku þrír á móti sex óhræddir á móti Frömurum og héldu jöfnu. Seinni hálfleikurinn var svipaður hinum fyrri, liðin skiptust á um að hafa forystuna en um miðjan hálf- leikinn lentu Framarar í sömu vandræðunum og Eyjastúlkur í fyrri hálfleiknum. Þá missti Fram tvo leikmenn út af á sama tíma og það tækifæri nýttu Eyjastúlkur sér vel, breyttu stöðunni úr 15:14 í 15:18 og lögðu grunninn að góðum bar- áttusigri. Af þessum fjórum mörk- um sem ÍBV skoraði í röð gerði Tamara Mandzec þrjú en hún var best í sterku Eyjaliði. „Það vantaði baráttu og það vant- aði vilja til að sigra. ÍBV vann þenn- an leik vegna þess að þær höfðu meiri sigurvilja en við,“ sagði Haf- dís Guðjónsdóttir, leikmaður Fram, í leikslok. „Það er alveg hrikalega niðurdrepandi að fá svona dóm- gæslu eins og í þessum leik en við getum samt ekki skellt skuldinni á dómarana, hversu lélegir sem þeir voru, tapið skrifast á okkur sjálfar.“ Lið ÍBV náði ágætlega að vinna úr vandræðum þeim sem það lenti í en alls máttu Eyjastúlkur hvíla í 18 mínútur í leiknum. Liðið sýndi það í þessum leik að það ætlar sér ekki að láta Íslandsmeistaratitilinn bar- áttulaust af hendi. Eftir erfiða byrj- un hefur leiðin legið jafnt og þétt upp á við og miðað við baráttuand- ann sem ríkti hjá Eyjastúlkum á laugardag verða þær mjög erfiðar heim að sækja í úrslitakeppninni. Framstúlkur voru sjálfum sér verstar í þessum leik. Í seinni hálf- leiknum létu þær og Gústaf Adolf Björnsson, þjálfari þeirra, dómara leikins fara illa í taugarnar á sér og fékk Gústaf Adolf að líta rauða spjaldið hjá þeim fyrir mótmæli. Vissulega voru dómararnir ekki bestu menn vallarins, síður en svo, en afar slök dómgæsla þeirra Ing- vars Reynissonar og Einars Hjalta- sonar, bitnaði ekki síður á liði ÍBV og Framarar geta engum nema sjálfum sér um kennt að hafa ekki nýtt sér þau fjölmörgu tækifæri sem liðið fékk til að hafa sigur í leiknum. Marina Zoueva lék best Framara, sem geta gert mikið betur en það sem útúr liðinu kom á laug- ardag. Öruggt í Ásgarði og á Ásvöllum Það var allt eftir bókinni í Ásgarði í Garðabæ þegar Stjarnan tók á móti neðsta liði deildarinnar ÍR. Stjarnan, sem er í öðru sæti deild- arinnar, hafði ekki mikið fyrir 18 marka sigri 31:13. Inga Lára Þór- isdóttir lék einn sinn besta leik í langan tíma og virðist ætla að koma sterk inn í lokakeppnina. Helga Dóra Magnúsdóttir, hinn 16 ára gamli markvörður ÍR, lék best í ungu og efnilegu liði, varði 15 skot og forðaði því frá enn stærra tapi. Haukar lögðu grunn að sigri sínum í fyrri hálfleik Á Ásvöllum héldu Haukarnir enn eina sýninguna fyrir mótherja sína sem að þessu sinni voru Víkingar. Haukar, sem hafa leikið allra liða best í vetur lögðu grunninn að sigri sínum í fyrri hálfleiknum og höfðu 9 marka forskot í leikhléi, 16:7. Hauk- arnir slökuðu á í seinni hálfleiknum og höfðu sjö marka sigur, 27:20. Haukarnir hafa verið að sýna mjög jafnan leik í allan vetur, ef undan er skilinn eini leikurinn sem liðið hefur tapað, gegn Gróttu/KR í 11. umferð og þessi stöðugleiki er helsti styrkleiki liðsins. Víkingar mættu ofjörlum sínum í þessum leik en það var ýmislegt já- kvætt í leik þeirra. Ein besta skytta deildarinnar, Kristín Guðmunds- dóttir, átti mjög góðan leik og Guð- rún Hólmgeirsdóttir átti sömuleiðis fínan leik í hægra horninu. Línurnar að skýrast Nú þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir í deildinni eru línurnar um það hvaða lið fara í úrslitakeppnina farnar að skýrast. KA á ennþá möguleika á að fara áfram, en þarf að treysta því að Valur tapi þeim leikjum sem eftir eru og á sama tíma þarf KA að sigra í sínum leikj- um, gegn Gróttu/KR, ÍR, Stjörn- unni og FH. Haukarnir hafa óneit- anlega góða stöðu til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en liðið á erfiða leiki framundan, Stjörnuna, ÍBV, FH og Val en forystan í dag er sex stig og þurfa Haukarnir aðeins einn sigur til að tryggja sér titilinn. Stjarnan og ÍBV berjast um það hvort liðið endar í 2. sætinu á eftir Haukum. Bæði þessi lið eiga enn möguleika á að taka deildarmeist- aratitilinn en þá þurfa þau að treysta því að Haukarnir tapi þeim leikjum sem eftir eru, markatala Haukanna er slík að það dugar hvorki Fram né ÍBV að Haukarnir tapi aðeins öðrum leiknum gegn FH eða Val, nái annaðhvort liðanna Haukum að stigum munu Haukarn- ir alltaf hafa betur á markatölu enda hefur liðið 101 mark í plús nú þegar 14 umferðir eru búnar. Það er sennilega lítil löngun hjá liðunum að þurfa að fara til Eyja í úrslitakeppn- inni og nú fara stigin sem Víkingur, Grótta/KR og FH næla sér í að telja fyrir alvöru en þessi þrjú lið eru lík- legust til þess að lenda gegn ÍBV. Jafnvel eru líkur til þess að það verði markahlutfall sem ráði um það hverjir fari til Eyja en þó aðeins fjórar umferðir séu eftir af deildinni er ennþá fullsnemmt að spá um það. Morgunblaðið/Ásdís Framstúlkur ná hér að stöðva Gunnley Berg, leikmann ÍBV. Meistaralið ÍBV er komið á góða siglingu og til alls líklegt. Meistarar sýndu styrk HAUKAR halda föstu taki á forystu sinni í 1. deild kvenna í hand- knattleik eftir 14. umferðina sem fram fór um helgina. Þá tóku Haukastúlkur á móti Víkingum og unnu næsta auðveldan sigur, 27:20. Í Ásgarði í Garðabæ tóku Stjörnustúlkur ÍR-inga í kennslu- stund og unnu 31:13, en aðalleikur helgarinnar fór fram í Fram- heimilinu þar sem Íslandsmeistarar ÍBV fikruðu sig upp að hlið Stjörnunnar í 2.–3. sæti í deildinni með góðum sigri á Fram 21:20. Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.