Morgunblaðið - 05.02.2002, Síða 32

Morgunblaðið - 05.02.2002, Síða 32
32 C ÞRIÐJUDAGUR 5. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐHeimiliFasteignir I NNRÉTTINGARNAR reistu stórt geymsluhús á þessum slóðum, sem líklega hefur verið byggt af torfi og grjóti. Í kring- um 1755 var húsið tekið undir kaðla- gerð og kallað Reipslagarahús. Reipslagarabraut eða Kaðlarabraut lá ef tir sjávarkambinum og dró nafn- ið af húsi Innréttinganna. Í kringum 1795 var húsið rifið og fljótlega eftir það byggðu kaupmenn frá Fanö við Jótland verslunarhús á lóðinni sem kallað var Jóska húsið. Árið 1807 var Adser Knudsen eigandi hússins. Ole Peter Christian Möller eignaðist húsið árið 1810 og verslaði þar í félagi við Andersen og Schmidt. Talið er að húsið hafi verið rifið í kringum 1824. Eftir það voru byggð þrjú hús á lóðinni; verslunar- og pakkhús sem jafnframt var notað til íbúðar, stóð við Hafnarstræti, af sumum talið að það sé endurbygging á húsinu sem var fyrir á lóðinni, krambúðarhús og bökunarhús sem stóðu baka til við húsið sem enn stendur. Upphaflega var húsið í Hafnar- stræti 16 ein hæð með háu risi, byggt af bindingi múruðum í grind, 28 álnir á lengd, 12 álnir að breidd. Krambúð var í austurenda og pakkhús í hinum enda hússins. Í húsinu var einnig skrifstofa og svefnherbergi. Undir húsinu er hlaðinn kjallari sem varla getur talist manngengur. „Mezzaninhæð“ ofan á miðhlutann Nokkur eigendaskipti urðu að hús- inu og er talið að Bjarni riddari Sív- ertsen hafi átt það um tíma. Þor- steinn Jónsson Kúld kaupmaður eignaðist húsið 1843. Þorsteinn var frá Auðkúlu í Húnavatnssýslu. Ætt- arnafnið dró hann af æskuheimili sínu. Í húsinu rak hann bóka- og al- menna verslun. Einnig kostaði Þor- steinn bækur til prentunar. Hann byggði árið 1853 „mezzaninhæð“ (miðjukvist) ofan á miðhluta hússins með mæni sem sneri þvert á húsið. Á efri hæðinni var gerð íbúð. Árið 1860 er eignin skráð dánarbús Þorsteins Jónssonar. Þorsteinn Kúld lést árið 1859. Eftir það var húsið selt á uppboði á „Börsen“ í Kaupmannahöfn þar sem Ole Peter Möller, sonur O.P.Chr. Möller, kaupir verslunina og húsið. Á meðan hann verslaði þar var versl- unin nefnd Möllersbúð. Í húsinu rak hann einnig veitingasölu ásamt bróð- ur sínum Christian L. Möller. Árið 1874 var gerð brunavirðing á húsinu. „Húseign O.P. Möllers kaup- manns, íbúðar- og verslunarhús 22 1⁄4 al á lengd, 14 al á breidd, veggjahæð 4 1⁄4 al, úr bindingi, múruðum með múrsteini, klætt með borðum og með helluþaki á rimlum, gegnum húsið er kvistur, 16 3⁄4 al á lengd, klæddur hellum á suðurhlið, en borðum á norðurhlið. Við suðurhlið hússins er áfastur skúr 6 al á lengd, 4 1⁄2 al á breidd, 3 1⁄4 al á hæð, klæddur borðum með borð- aþaki. 10 herbergi auk eldhúss og búðar eru í húsinu.“ Árið 1879 eignaðist Martin Smith, konsúll og kaupmaður, húsið. Hann gerði á því miklar endurbætur og ár- ið 1880 lét hann hækka það um eina hæð þannig að það varð tvílyft með lágu risi og kvisti í norður. Martin Smith kom á stofn veitinga- og hót- elrekstri í húsinu undir nafninu Hótel Alexandra (eftir dóttur Danakon- ungs). Húsið var í eigu fjölskyldu hans til ársins 1908 en þá kaupir eignina Eyj- ólfur Eiríksson húsgagnasmiður og kona hans Ólína Jónsdóttir og var húsið í eigu þeirra og síðan afkom- enda hátt í öld eða þar til Reykjavík- urborg eignaðist það árið 1999. Á meðan Eyjólfur og fjölskylda hans bjuggu þar var heimilið rómað fyrir gestrisni og höfðingsskap. Þar var mjög gestkvæmt enda húsið mið- svæðis og leið varla sá dagur að gest bæri ekki að garði. Sagt var að húsbændurnir gerðu sér ekki manna mun og höfðu sér- stakt lag á að láta fólk finna að það væri velkomið. Eyjólfur rak hús- gagnaverkstæði og verslun á fyrstu hæð, en íbúð fjölskyldunnar var á efri hæðinni og í risinu. Margs konar starfsemi Í gegnum árin hefur húsið hýst margs konar starfsemi. Talið er að fyrsta tannlæknastofa á Íslandi hafi verið starfrækt þar, einnig fór þar fram undirbúningur að stofnun Eim- skipafélags Íslands, en það var stofn- að 17. janúar árið 1914. Skrifstofur félagsins voru þarna til húsa til ársins 1921. Um tíma var þar matvöruverslun og í mörg ár var veit- ingasala í vesturendanum. Fatabúðin var í húsinu þar til hún flutti upp á Skólavörðustíg, einnig verslunin Gler og postulín. Í þessu húsi hafa margir þjóðkunn- ir menn átt heima og má þar nefna Lárus Blöndal, sýslumann Húnvetn- inga, Jón Jónsson landshöfðingjarit- ara og Jón Árnason þjóðsagnaritara. Húsið hefur lengst af verið notað bæði til íbúðar og atvinnurekstrar en ógerlegt er í einni blaðagrein að telja upp alla sem hafa verið þar með starfsemi. Síðustu fyrirtækin voru Hárgreiðslustofan Íris, minjagripa- verslunin Lesprjón og Týndi hlekk- urinn sem verslar með hjólabretti. Reykjavíkurborg hefur látið end- urbyggja húsið og er því mikla verki að ljúka. Núna er verið að leggja síð- ustu hönd á frágang í risi. Við end- urbygginguna var farið að mestu leyti eftir þeirri gerð sem húsið fékk eftir að byggt var ofan á það. Þakið var lagt skífum og húsið klætt utan með láréttri borðaklæðn- ingu á götuhlið, listaklæðningu á vestur- og austurgafli og á suðurhlið á neðri hæð, þar fyrir ofan er skífu- klætt eins og áður var. Endurgera þurfti sökkulhleðslu undir húsinu og styrkja fótstykki og stærstan hluta bindings. Stigahús var rifið og end- urbyggt. Allt sem hægt var að nota var unn- ið upp, þar á meðal stiginn á milli hæða og handriðið á honum. Ekki er vitað annað en stiginn sé frá því að byggt var ofan á húsið. Þrepin í stig- anum voru mjög slitin og þurfti að skipta um þau og nokkrar rimar voru smíðaðar í handriðið. Nýr stigi var smíðaður í risið en þann stiga var ekki hægt að gera upp. Á efri hæðinni eru skrifstofur, gestaíbúð, fundaherbergi og vinnu- stofa í vestari enda. Í tveimur her- bergjum eru upprunalegar gólffjalir en önnur gólf eru endurnýjuð, ýmist dúklögð eða settar nýjar fjalir. Í nokkrum herbergjanna eru gamlir skrautlistar í loftum, líklega frá því að hæðin var byggð. Undir nýjum gifsklæðningum eru gömlu þiljurnar. Nokkrar millihurðir og umbúnað- ur eru upphaflegt og hefur viðgerð á þeim tekist með ágætum. Fundar- herbergi er með brjóstþiljum og á einum vegg fannst innsta lagið af fal- lega rauðri málningu og var herberg- ið málað eins. Í risi er vinnuherbergi og geymslurými. Á efri hæð var gert við fjóra glugga sem vísa að Hafnarstræti, aðrir gluggar í húsinu eru allir end- urnýjaðir og einnig útihurðir. Gluggar með upprunalegu lagi Gluggar eru með upprunalegu lagi sex faga og í kringum aðalinngang er skrautlegur búnaður, súlur með bjór yfir með sama lagi og bjórar yfir gluggum efri hæðar. Útskurður er á vindskeiðum á kvisti og lítill hring- laga gluggi. Á neðri hæð hússins var gert við burðarvirki, þar eru allar klæðningar nýjar og gólf með nýjum fjölum. Endurgerður var inngangur á aust- urhorni með útskurðinum og tveimur verslunargluggum. Í austurendanum er sýningasalur sem hægt er að ganga inn í frá dyrunum. Í vestari hlutanum er bókasafn og skrifstofur. Á fyrstu hæð verður lítil kaffistofa og aðsetur fyrir listamenn og aðra sem áhuga hafa á því að skoða málverk og listmuni á Netinu. Fornleifastofnun Íslands fylgdist með þegar grafið var í kringum húsið en styrkja þurfti undirstöður þess. Á tveimur stöðum meðfram suðurhlið þess og í norðvesturhorni komu mannvistarleifar í ljós. Arkitekt að endurbyggingu utan- húss var Teiknistofan, Skólavörðu- stíg 28 sf., Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson; arkitekt inn- anhúss var Dagný Helgadóttir. Teiknistofan Óðinsgötu sf. sá um burðarþol, Rafteikni hf. var með raf - og fjarskiptalagnir, Verkfræðiskrif- stofa Guðmundar og Kristjáns ehf. sá um að endurgera aðrar lagnir. Bygg- ingastjórn annaðist Byggingadeild borgarverkfræðings, aðalverktaki að endurbótum innanhúss var Tré- smiðja Reykjavíkurborgar og um endurbyggingu utanhúss annaðist Ístak hf. Aðgengi fyrir fatlaða er á fyrstu hæð hússins. Eftir endurbygginguna, 29. októ- ber 2001, afhenti borgarstjórinn sambandi Íslenskra myndlistar- manna húsið til afnota en Reykjavík- urborg er eigandi þess. Miðstöð myndlistar á Íslandi Í húsinu fer fram mjög merkileg starfsemi, miðstöð myndlistar á Ís- landi. Langt er síðan þörf var á slíku húsi og rekur SÍM þar skrifstofu sína og skrifstofu aðildarfélaganna. Í hús- inu er skrifstofa Listskreytingasjóðs ríkisins og salur fyrir fundi og sýn- ingar. Þar er einnig gestavinnustofa á vegum SÍM í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur. Myndstef hefur skrif- stofu í húsinu og upplýsingamiðstöð myndlistar verður með skrifstofu og gagnabanka um íslenska myndlista- menn og myndlist. Pétur Stefánsson er formaður SÍM, en formaður Myndstefs er Knútur Bruun. Ingibjörg Gunnlaugs- dóttir er framkvæmdastjóri íslensk- ar myndlistamanna, Katla Lárus- dóttir er framkvæmdastjóri Myndstefs, formaður upplýsingamið- stöðvar er Jónmundur Guðmarsson og Katrín Guðmundsdóttir er for- stöðumaður upplýsingamiðstöðvar. Margar rausnarlegar gjafir hafa borist og má af þeim nefna fundar- borð og stóla sem Eimskip gaf og eru stólarnir hannaðir af Erlu Sólveigu Óskarsdóttur, Epal gaf lampana sem eru í fundarherberginu. Félagar í SÍM gáfu málverk og höggmyndir og ekkja Svavars Guðnasonar gaf mál- verk eftir hann. Hótel Alexandra, Hafnarstræti 16 Borgin hefur látið endurbyggja húsið og er því mikla verki að ljúka, segir Freyja Jónsdóttir. Við endurbygginguna var farið að mestu leyti eftir þeirri gerð, sem húsið fékk eftir að byggt var ofan á það. Morgunblaðið/Þorkell Hótel Alexandra eftir að húsið var gert upp. Allt sem hægt var að nota var unnið upp, þar á meðal stiginn á milli hæða og handriðið á honum, en ekki er vitað annað en stiginn sé frá því að byggt var ofan á húsið. Burðarvirkið í salnum var unnið upp. Eimskip gaf fundarborð og stóla í fundarherbergið, en Erla Sólveig hannaði stól- ana. Epal gaf lampana. Helstu heimildir: Húsadeild Árbæjarsafns, B-skjöl, brunavirð- ingar, íbúaskrá, Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur og Kaupstaður í hálfa öld.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.