Morgunblaðið - 16.06.2002, Page 22
22 SUNNUDAGUR 16. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Eyðimerkurvofan ógnar núlífsafkomu um 1.200 millj-óna manna víða um heim,en verst er ástandið í Afr-íku, Asíu og fyrrum Sovét-
ríkjunum. Talið er að um 20 milljarð-
ar tonna af jarðvegi glatist á ári
hverju. Frjósemi jarðvegsins, sem er
undirstaða fæðuöflunar fyrir jarðar-
búa, hnignar ört og vatnsmiðlun
hrakar á stórum svæðum. Sú stað-
reynd að meira en 100 þjóðir eru nú
að endurskipuleggja jarðvegsvernd-
arstarf sitt vekur þó von um að unnt
sé að snúa vörn í sókn. Mörg þeirra
174 landa, sem eiga aðild að Eyði-
merkursáttmálanum, nota þetta
tækifæri til ítarlegrar kynningar á
jarðvegsvanda sínum, hvað verið sé
að gera til úrbóta og þeirri miklu ógn
sem stafar af áframhaldandi eyði-
leggingu á vistkerfum heimsins.
Óvenju góðar aðstæður
Að sögn Andrésar Arnalds, fag-
málastjóra Landgræðslu ríkisins, á
Ísland margt að gefa í alþjóðlegu
jarðvegsverndarstarfi. Hér starfar
elsta jarðvegsverndarstofnun heims,
Landgræðslan, sem stofnuð var árið
1907, og mikil þrekvirki hafa einnig
verið unnin með skógrækt. Mikil
þekking hefur aflast með rannsókn-
um og starfi. Aðstæður eru hér jafn-
framt óvenju góðar til að sýna bæði
afleiðingar langvarandi landhnignun-
ar og hvernig unnt sé að takast á við
þennan vanda.
Hnignun landgæða er gríðarlegt
vandamál í heiminum. Þessi vandi vex
stöðugt og mun hafa mikil áhrif á
ástand heimsmála næstu árin ef ekki
tekst að efla varnir gegn eyðingaröfl-
unum og vinna af meiri krafti að land-
bótum. Vandamálin eru erfiðust þar
sem hagur íbúanna er bágastur. Ís-
land staðfesti sáttmálann um varnir
gegn myndun eyðimarka, sem var eitt
afsprengi Ríó-ráðstefnunnar, árið
1997. Íslendingar hafa samt sem áður
ekki tekið nægjanlega virkan þátt í
slíku starfi á alþjóðavettvangi sem er
þversögn við okkar miklu þekkingu á
þessu sviði, að sögn Andrésar.
Bein áhrif á afkomu
– Er jarðvegur mikilvægasta auð-
lind jarðarbúa?
„Án hans væri jörðin óbyggileg, að-
eins klappir, hraun eða nakin urð. Líf-
rænn hluti jarðvegsins er undirstaða
vistkerfa heimsins og fæðu fyrir
meira en 95% mannkyns. Stöðugt
gengur hins vegar á þessa auðlind og
hefur eyðimerkurmyndun áhrif á
fjórðung alls lands í heiminum. Talið
er að þrefalda þurfi matvælafram-
leiðslu heimsins á næstu 50 árum ef
tryggja á vaxandi fólksfjölda næga
fæðu. Staðan er hins vegar uggvæn-
leg því ræktunarbyltingin er að nálg-
ast endimörk víða um heim vegna
jarðvegshnignunar. Árið 1990 var
ræktanlegt land, sem hver íbúi jarðar
hafði til umráða, um þriðjungur úr
hektara en var komið niður í fjórðung
úr hektara um aldamótin. Haldi sam-
spil jarðvegseyðingar og fólksfjölgun-
ar áfram í sama mæli verður sam-
svarandi tala komin niður í 0,15
hektara um miðja næstu öld. Áhrif
landhnignunar og eyðimerkurmynd-
unar eru víðtæk. Frjósemi lands
minnkar, líffræðilegur fjölbreytileiki
skerðist og vatnsmiðlun og þar með
rennsli í ám og lækjum breytist. Skjól
við yfirborð jarðar minnkar. Hagræn
áhrif eru mikil og birtast í mörgum
myndum, ekki síst í ljósi þess hve
tengdir matvælamarkaðir heimsins
eru orðnir. Það er því ljóst að jarð-
vegseyðingin mun hafa bein áhrif á
afkomu okkar Íslendinga í framtíð-
inni, enda erum við órofa hluti af sam-
félagi þjóðanna.
Eyðimerkursáttmálinn skuldbind-
ur aðildarþjóðir sínar til að gera
markvissar áætlanir um stöðvun jarð-
vegseyðingar. „Margir sigrar hafa
unnist, en þótt vandamálin séu ólík
frá einu landi til annars eiga þau eitt
sameiginlegt. Það er að meginhluti
landhnignunar í heiminum er mann-
inum að kenna. Meginorsakir má
rekja til ósjálfbærrar landnýtingar.
Skógarhögg er stundað í of miklum
mæli og skógar eru ruddir á við-
kvæmu landi til að rýma fyrir ræktun
og beit. Ofbeit er einnig víðtæk og al-
varleg. Veðurfarssveiflur eru einnig
stór orsakavaldur, en hin mikla land-
hnignun stigmagnar hins vegar áhrif
þeirra. Bætt landnýting er alls staðar
forsenda þess að snúa megi vörn í
sókn. Setja þarf reglur um skógrækt
og verndun skóga, bæta ræktunar-
tækni á viðkvæmu landi og draga úr
ofbeit,“ segir Andrés.
Fokmold á stjórnarherra
Andrés sat ráðstefnu alþjóðlegu
jarðvegsverndarsamtakanna í Kína
um síðustu mánaðamót og segir hann
hana hafa verið um margt mjög
áhugaverða, en meginþemað hafi ver-
ið sjálfbær nýting jarðvegs og vatns á
jörðinni. „Athyglisvert var hvað Kín-
verjarnir gerðu mikið úr ráðstefn-
unni, ekki síst pólitískt, því bæði vara-
forseti landsins og borgarstjórinn í
Peking fluttu opnunarerindi. Þeir
tóku báðir sterkt til orða um nauðsyn
þess að takast á við eyðingarvandann.
Í megindráttum endurspeglaði ráð-
stefnan tvennt, annars vegar hve
skelfilegur þessi jarðvegsvandi er í
mörgum löndum og hins vegar hinn
stóraukna þunga sem lagður er á
jarðvegsvernd víða um heim. Kínverj-
ar eiga sjálfir við ærinn vanda að etja
í þessum efnum og hefur kínverski
forsetinn meðal annars lýst því op-
inberlega yfir að jarðvegseyðing sé
alvarlegasti umhverfisvandinn í Kína.
Þar var frekar seint tekið á málum og
ekki sett löggjöf um þetta efni fyrr en
árið 1991. Nú hafa kínverskir stjórn-
arherrar hins vegar bætt um betur og
tífaldað fjárframlög á síðustu þremur
árum svo sporna megi við landeyð-
ingu.
Ein af ástæðum þess að kínversk
stjórnvöld hafa nú viðurkennt vand-
ann og gripið til varna er sú að vanda-
málið bankaði í orðsins fyllstu merk-
ingu á dyr stjórnarherranna. Vegna
uppblásturs hefur mikil fokmold fokið
yfir Pekingborg. Í mars og apríl á
þessu ári voru t.d. mikil uppblásturs-
veður og í einum storminum er talið
að yfir 20 þúsund tonn af jarðvegi hafi
fokið yfir höfuðborgina með þeim af-
leiðingum að menn fóru um tíma vart
út úr húsum nema hafa varnir fyrir
vitum. Aðeins 60 kílómetrum norður
af Peking eru hús að fara í kaf vegna
uppblásturs sem er svipað ástand og
Íslendingar upplifðu t.d. á Rangár-
völlum og í Landsveit fyrir rúmum
100 árum. Nágrannaþjóðirnar eru
farnar að beita Kínverja þrýstingi því
fokmold vegna uppblásturs hefur
borist allt til Kóreu og Japans og
valdið fólki öndunarerfiðleikum þar.
Kínverjar eru nú farnir að beina
stórum hluta af skógræktarstarfinu
að því markmiði að vernda viðkvæm-
an jarðveg,“ segir Andrés.
Aðgengilegur vettvangur
Ísland hefur möguleika á að skapa
sér stórt hlutverk í alþjóðasamstarfi á
sviði jarðvegsverndar, segir Andrés.
„Hér blasa við bæði vel gróin lönd og
eyðimerkur. Ísland hefur því að bjóða
óvenju aðgengilegan rannsóknavett-
vang fyrir land í fjölbreyttu ástandi.
Saga gróðurhnignunarinnar er nokk-
uð vel þekkt. Við höfum jafnframt
miklu að miðla af árangursríku starfi
okkar við stöðvun jarðvegseyðingar
og endurheimt landkosta.
Eyðimerkursáttmálinn gerir ráð
fyrir miklu samstarfi um rannsóknir
og ráðgjöf og er okkur hvati til að
koma á fót alþjóðlegri jarðvegsvernd-
unarstofnun hér á landi sem skapað
gæti sér mikilvægt hlutverk í ráðgjöf
og rannsóknum.
Þrátt fyrir að tæp eitt hundrað ár
séu liðin frá því að Landgræðsla rík-
isins var stofnuð og hér hófst form-
legt uppbyggingarstarf erum við að-
eins rétt að byrja. Verkefnið við að
endurreisa landkosti er það risavaxið
því að Íslendingar hafa glatað um
helmingi gróðurs og um 96% af skóg-
lendi sínu frá landnámi. Mjög vel hef-
ur gengið að takast á við alvarlegasta
uppblásturinn, sandfok, sem ógnar nú
hvergi byggð lengur, en annað jarð-
vegsrof er víðtækt í tengslum við
langvarandi landhnignun. Upp-
græðsla lands hefur farið vaxandi ár
frá ári með auknum fjárveitingum,
auknu samstarfi við bændur og hjálp
ófárra sjálboðaliða. Þetta starf skilar
góðum árangri. Hér á landi eru að-
stæður til uppgræðslu örfoka lands í
raun og veru einstakar. Óvíða, ef
nokkurs staðar í heiminum, er að
finna ógróið land sem býr í raun og
veru yfir jafngóðum uppgræðsluskil-
yrðum og hér eru algeng. Það stafar
m.a. af því að hér er næg úrkoma, en
mikill hluti af ógrónu landi annars
staðar er á þurrari svæðum,“ segir
Andrés.
Fljótt skipast veður í lofti
„Ljóst er að hin mikla landhnignun
í heiminum mun hafa mikil áhrif á
hagsmuni Íslendinga í framtíðinni. Sú
ofgnótt matvæla sem nú einkennir
hinn vestræna heim er t.d. ekki meiri
en svo að umframbirgðirnar myndu
aðeins endast í nokkra daga ef allt
mannkyn ætti jafnan aðgang að mat.
Framleiðslan er aðeins 0,26% meiri
en neyslan. Þær aðstæður gætu því
skapast fyrr en varir að við verðum að
auka okkar eigin landbúnað og þá
verður þörf fyrir miklu meira af frjóu
landi en við ráðum yfir í dag. Það er
því áríðandi að stöðva eins og kostur
er þá jarðvegseyðingu, sem á sér stað
hér á landi. Samhliða er brýnt að auka
landgæðin með landgræðslu, skóg-
rækt og öðrum landbótum. Þessum
verkefnum er öllum sameiginlegt að
þau stuðla einnig að verndun loftslags
því að plönturnar taka til sín koltví-
sýring úr andrúmsloftinu og breyta
því í lífrænt efni. Loftslag á jörðinni
virðist vera að breytast vegna svo-
kallaðra gróðurhúsaáhrifa, sem gætu
haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir
jarðarbúa, en kolefni, aðallega í formi
koltvísýrings frá brennslu eldsneytis,
er stærsti mengunarvaldurinn. Með
landgræðslustarfi er því verið að
leggja mikið af mörkum í að draga úr
styrk gróðurhúsalofttegunda í and-
rúmsloftinu. Stöðvun jarðvegsrofs og
uppgræðsla hefur jafnframt frá upp-
hafi verið veigamesta starf, sem unnið
hefur verið að vernd og endurreisn
líffræðilegs fjölbreytileika hér á
landi,“ segir Andrés Arnalds að lok-
um.
17. júní er alþjóðlegur jarðvegsverndardagur Sameinuðu þjóðanna
Landhnignun að mestu
manninum að kenna
Landhnignun og eyðimerkurmyndun er einhver
alvarlegasti umhverfisvandi heimsins. Til að efla
samstöðuna í baráttunni gegn þessum vágesti er
17. júní ár hvert alþjóðlegur jarðvegsverndardagur
á vegum Sameinuðu þjóðanna, að því er Andrés
Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, tjáði
Jóhönnu Ingvarsdóttur. Dagsetningin er til heið-
urs því að löngu samningaferli um gerð sáttmál-
ans um varnir gegn eyðimerkurmyndun lauk 17.
júní 1994, en hann tók gildi 1996. Í ár er haldið
upp á þennan dag í sjöunda sinn.
join@mbl.is
Milljónir tonna af jarðvegi hafa glatast hér á landi frá landnámi.
Ljósmynd/Ó.V.E
Vistfræðileg hnignun er ein aðalorsök fátæktar.
Ljósmynd/Andrés Arnalds
Viðkvæmt land hefur verið brotið til ræktunar. Víða er verið að endurbæta
ræktunartækni og hér má sjá svokallaða stallaræktun í Kína.
Ljósmynd/Guðrún Pálmadóttir
Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, í Gobi-eyðimörkinni í Kína.