Morgunblaðið - 16.06.2002, Blaðsíða 28
28 SUNNUDAGUR 16. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
AUGLÝSINGARLandsbankans semdunið hafa á lands-
mönnum í kringum lands-
leiki Íslands í handknattleik
undanfarið þykja mér væg-
ast sagt athyglisverðar. ,,Við
Íslendingar erum engum
líkir,“ segir Landsbankinn
og telur upp ýmsar ástæður
þess, sumar allspaugilegar,
og má segja að húmorinn
bjargi auglýsingunni fyrir
horn hvað blákalda þjóð-
rembu varðar. Tónlistin sem
leikin er undir hefði þó
sæmt sér vel í góðri þjóð-
ernislegri áróðursmynd og
eins finnst mér slagorðið
,,við Íslendingar erum eng-
um líkir“ dansa á fínni línu
smekklegheita nú á tímum
þegar augljóst virðist að
heimurinn hefði gott af því
að þjóðir hættu að hugsa um
það sem aðgreinir þær og
einbeittu sér í auknum mæli
að því sem sameinar þær.
Ég hef dvalið um tíma
sem útlendingur í tveimur
löndum, Frakklandi og
Bandaríkjunum. Þessi lönd
byggja þjóðir sem eru mjög
stoltar og ánægðar með sig
og sem útlendingur náði ég
aldrei almennilega að tengja
við þá stemmningu, hvað þá
að ég upplifði mig sem hluta
af heildinni. Ég var gestur.
Og það var líka allt í lagi því
ég hef hvorki hug á að ger-
ast Frakki né Kani. En ég
get vel sett mig spor þess
sem hefði viljað gerast
franskur eða kanskur og
geri ég það finn ég að það
hefði verið heldur snúið mál
að verða fullgildur meðlimur
þessara þjóða, menning-
arlega og hugarfarslega.
Það er líklega frekar erf-
itt að finnast land sem mað-
ur flytur til besta land í
heimi, og þó svo að fólkinu
sem er fætt og uppalið þar
finnist landið sitt best allra
landa þá er spurning hvaða
tilgangi það þjónar að vera
sífellt að tönnlast á því.
Fólki sem kemur í nýtt land
og vill setjast þar að hlýtur
að finnast slagorð á borð við
,,við Íslendingar erum eng-
um líkir“ stuðandi. Þetta er
eins og að koma í partý til
einhvers sem talar um það
hátt og snjallt yfir borðum
hvað hann og hans heim-
ilisfólk sé nú ofsalega ein-
stakt. Það væri sennilega
auðvelt að fá á tilfinninguna
að maður væri annars flokks
og satt að segja er ég ekki
viss um að ég myndi nenna
að staldra lengi við heima
hjá einhverjum sem væri
svona upptekinn af sjálfum
sér.
Kannski truflar umrædd
auglýsing mig sérstaklega
eftir að hafa dvalið í Banda-
ríkjunum nú í vetur sem
leið, þar sem harmleikurinn
11. september breyttist
smám saman í alveg skelfi-
legt ,,melódrama“ með þjóð-
rembulegum undirtóni.
Bandaríkjamenn máttu allt
eftir 11. september. Þeir
máttu hata alla, þeir máttu
hefna sín, þeir máttu hrópa
,,við erum besta þjóð í
heimi“ eins hátt og þeir
gátu. Smátt og smátt birtist
bandaríski fáninn í öllum
gluggum, á öllum bílum, á
fatnaði og öðrum búnaði og
gjarnan fylgdu slagorð á
borð við ,,Hræðist þetta“!
Þá var athyglisvert að sjá að
erlendir eigendur veit-
ingastaða fánaskreyttu staði
sína einna mest og var erfitt
að fá annað á tilfinninguna
en að þeir gerðu það til að
fyrirbyggja skemmdarverk
eða annað ofbeldi gegn sér,
en nóg var um slíkt þrátt
fyrir það. Ég verð að við-
urkenna að sú stemmning
sem ríkti í Bandaríkjunum í
vetur vakti mér hálfgerðan
óhug. Ég held það hljóti að
vera varasamt að þjóð líti
svo stórt á sig að hún telji
sig yfir allar aðrar hafnar,
fyrir utan hvað það er leið-
inlegur eiginleiki. Eins
saknaði ég þess í þeirri
sjálfskoðun sem fór í gang
meðal bandarísku þjóð-
arinnar í vetur, að hún tæki
galla sína einnig til athug-
unar. Þegar þjóðern-
iskenndin fer úr hófi fram
er jú hætta á að þjóðin sjái
sjálfa sig í svo miklum dýrð-
arljóma að hún verði blind á
eigin vankanta.
Í ljósi þessa mætti alveg
hnýta aftan við áðurnefnda
auglýsingu Landsbankans,
sérstaklega með tilliti til at-
burða undanfarinna daga
þar sem gestrisni Íslendinga
fór lönd og leið og fram-
koma okkar við erlent fólk
sem hingað vildi koma var
til skammar.
Já, við Íslendingar erum
engum líkir; við eigum svo
fáar löggur að við getum
ekki virt tjáningarfrelsi í
landinu okkar.
Við Íslendingar erum eng-
um líkir; við meinum fólki
aðgang að landinu okkar á
grundvelli dularfulls nafna-
lista sem virðist hafa dottið
af himnum ofan.
Við Íslendingar erum eng-
um líkir; við lokum fólk inni
í barnaskóla og sviptum það
ferðafrelsi, en neitum að við-
urkenna að það sé í haldi
,,því skólinn er svo huggu-
legur“.
Við Íslendingar erum eng-
um líkir; við byggjum sjálf-
stætt lýðræðisríki, en heft-
um frelsi friðelskandi fólks
til ferða og tjáningar.
Nei, við Íslendingar erum
engum líkir.
Birna Anna
á sunnudegi
Við Íslendingar
erum engum líkir
Morgunblaðið/Jóra
bab@mbl.is
L
ISTAMENN eru sífellt að tak-
ast á við og tjá samtíma sinn.
Á síðustu áratugum hefur ljós-
myndin verið sá miðill sem
listamenn hafa talið hæfa hvað
best til að takast á við núið og
síaukinn hraða tímans. Um ný-
liðin árþúsundamót reyndu ótal listamenn að
skapa verk sem sýndu breytinguna og þróun
mála – breytingu sem í raun var þó aðeins
ný töluruna í vestræna tímatalinu. Eitt
áhugaverðasta verkið sem ég hef séð koma
úr þessari árþúsundasmiðju er eftir Frakka
á áttræðisaldri, þekktan fótósjúrnalista og
tískuljósmyndara, Frank Horvat að nafni.
Hann skráði í ljósmyndum dagbók í mynd-
um; allt árið 1999 var hann að taka myndir
og valdi síðan eina eða tvær frá hverjum ein-
asta degi ársins. Þetta er tilgerðarlaust
verk, einfalt og einlægt; heilsteypt og
áhugaverð skráning á lífi fullorðins Evr-
ópubúa á þessu tiltekna
ári.
Árið 2000 sýndi Horv-
at dagbókina á veggjum
sýningasala og þá kom
einnig út bók með úrvali
mynda:
„1999 – A Daily Report“. Á heimasíðu
Horvats (www.horvatland.com) er grein þar
sem hann segir drifkraftinn bakvið verkið
ekki hafa verið núllin þrjú í ártalinu sem var
að birtast, heldur sú tilfinning hans að aldrei
í sögu mannsins hafi átt sér stað jafn miklar
breytingar á lífsstíl og gildum í lífi manna og
við lok 20. aldar. „Jafnvel framtíðarsýnin í
skáldsögum Orwells og Huxleys, sem ég
gleypti í mig á unglingsárum, auðveldaði
mér ekki að sjá fyrir þá blöndu tungumála
og manngerða sem ég upplifi í neðanjarð-
arlestinni í London; fjölbreytnina í græn-
meti, alls staðar að og frá öllum árstímum,
sem blasa við í kjörbúðum; fáránlegt handa-
patið á götum Rómaborgar, þar sem vegfar-
endur (og ökumenn) þrýsta farsímum að
eyrum sér með annarri hendi og leggja með
hinni dramatískar áherslur á samtal sitt við
ósýnilegan viðmælandann; eða einfaldlega
smellina í mús þess sem kallar orðin og
myndirnar upp á skjáinn.“
Það sem Horvat undrast samt ennþámeir er að á sama tíma og heimurinnverður sífellt einsleitari og tækninfullkomnari, þá breytist annað varla
neitt. Þannig sér hann í fréttum sjónvarps-
ins, kvöld eftir kvöld, hvar verið er að myrða
konur og börn í nafni trúarlegra öfga eða
haturs úr fortíðinni. Horvat segist lifa með
þessum öfgum en ekki gera sér far um að
sýna þá í dagbók sinni. Í myndunum vill
hann sýna sinn eigin persónulega sjóndeild-
arhring og um leið þakka örlögunum fyrir að
vera fæddur inní og fá að lifa á þessum ein-
stöku en grimmu tímum. Í verkefninu setti
hann sér að vera sífellt opinn fyrir öllu því
sem væri á seyði í kringum sig, að velta fyrir
sér hverri hreyfingu, hverjum hlut. Og hann
vitnar í Goethe, sem sagði: Það erfiðasta af
öllu er það sem talið er auðveldast: að sjá í
raun það sem er fyrir framan augu manns.
Það er mun erfiðara að sjá heimilið og
næsta nágrenni ferskum augum, en fjar-
lægar slóðir. Þessvegna er líka svo spenn-
andi að skoða sjónrænar dagbækur. Margir
ljósmyndarar hafa tekist á við dagbók-
arhugmyndina, enda er myndavélin í eðli
sínu skráningartæki og fólk notar hana
venjulega til að skrásetja sitt daglega líf og
uppákomur í fjölskyldunni. Nokkrir ljós-
myndarar hafa vakið athygli með persónu-
legum dagbókum í myndum á síðustu ára-
tugum. Nan Goldin skrásetti líf sitt og vina
sinna á austurströnd Bandaríkjanna og vakti
athygli fyrir „berorðar lýsingar“ á kynlífi,
vímuefnanotkun og ofbeldi; Max Pam setur
saman dagbækur um ferðir sínar um heim-
inn; Lee Friedlander myndar sig og konu
sína, börn og barnabörn. Frank Horvat er
ekki að sýna fréttnæma atburði, íþróttaleiki
eða átök; hann notar litla vasamyndavél og
er að skrá hrynjandi hversdagslífsins, fólkið
umhverfis og sitt nánasta umhverfi. Í mynd-
unum birtast þannig börn hans og barna-
börn, sambýliskona hans til tuttugu ára og
ýmsir vinir, og þar á meðal heimsþekktir
ljósmyndarar eins og Helmut Newton, Ed-
ouard Boubat og Henri Cartier-Bresson.
Horvat myndar á heimili sínu, sem er
skammt fyrir utan París, og einnig í húsi
fjölskyldunnar í Suður-Frakklandi. Þá heim-
sótti hann öll lönd Evrópusambandsins árið
1999 og svipmyndir frá þeim birtast í mynd-
um teknum úr bílum eða þaðan sem ljós-
myndarinn er að þvælast um eins og hver
annar ferðamaður. Þetta eru skyndimyndir
teknar á röltinu.
En þótt aðferðin sé í anda skyndi-myndanna, þá eru rammar ljósmynd-arans margir ákaflega fínir og meðuppröðun þeirra skapast heillandi
sýn af hversdagslífinu. Í sumum myndanna
sést ljósmyndarinn sjálfur; í skoðun hjá
lækni, í klippingu eða sem tær sem standa
uppúr baðvatni. Þá er áhugavert að velta
fyrir sér tímastrúktúrnum í verkinu. Hann
er settur upp á ólíkan hátt í bókinni og á
vefnum, en á vefnum er nú hægt að skoða
myndir fyrstu átta mánaðanna í einu flæði
og skapar það ýmis hugrenningatengsl með
þeim sem skoðar. Þetta er ljóðræn sýn á
heiminn; götur, markaðir, dúfnaskítur, snjór
á trjám. Þarna birtast þemu sem eru kunn-
ugleg úr eldri myndum ljósmyndarans, eins
og portrett af trjám í ýmsum myndum og
farþegar í lestum. Og tíminn líður svo sann-
arlega í þessu myndflæði: 4. maí myndar
Horvat vin sinn ljósmyndarann Boubat á
heimili sínu, Boubat er glaðhlakkalegur og
horfir til himins. 4. júlí horfum við ofan í
opna gröf hans.
Á vef Horvats má sjá úrval úr öðrum
helstu verkum hans. Þegar Horvat myndaði
tísku fór hann oft þá leið að færa módelin út
í hversdagslegt umhverfi; á bari, í neð-
anjarðarlestir, á knattspyrnuleiki. Þetta eru
oft ferskar myndir og bera ekki í sér leið-
indin og dauðann sem eru svo yfirþyrmandi í
þorra tískumynda. Margar þekktustu mynd-
ir Horvats eru úr seríum hans af fatafellum
og úr strippbúllum. Þær myndir eru iðulega
munúðarfullar og hálf fáránlegar í senn.
Þessar gömlu myndir koma upp í hugann
þegar ein myndanna í dagbók Horvats er
skoðuð en sú er frá Kristjaníu í Kaupmanna-
höfn. Hún er tekin 19. júlí og sýnir hvar
fatafella er að bera sig í sólskini úti á torgi;
hópur fólks horfir á og í forgrunni tvö reið-
hjól – þetta er danskur hversdagsleiki.
Á áttunda áratugnum fór Horvat að missa
áhugann á tískumyndum og þá fór hann að
leika sér við að vinna myndir í tölvu. Hann
bjó til myndir þar sem hann felldi dýr inní
dramatískt umhverfi og aðrar þar sem hann
skapaði engla og hverskyns goðsagnarverur.
Þessi verk eru merkt tilraunum og leik, út-
koman hátimbruð og dramatísk. Í því ljósi
er ennþá áhugaverðara að sjá þetta látlausa
flæði hversdagslífsins frá 1999, þess hyllingu
lífsins og umhverfisins sem er tjáð með sér-
stöku lita- og formskyni manns sem hefur
reynt margt á ferlinum en skapar sitt besta
verk þegar hann beinir linsunni að sér og
sínum.
Horvat er sjálfur ekki viss um hvern-ig þessi sýn hans muni standa íframtíðinni. Hann skrifar: „Þessisjóndeildarhringur getur ekki verið
fullkominn. Það er ekki einu sinni víst að
barnabörnin mín muni þekkja þetta sem
bernskuheim sinn. Ef til vill sjá þau aðeins
endurspeglun af minni sýn, mótaðri af tilvís-
unum frá nítjándu öldinni, nærðar af upplif-
unum á þeirri tuttugustu og ennþá forvitinni
um hvað sá litli hluti af nýju árþúsundi sem
bíður mín muni bera í skauti sér. Og þannig
er þetta einskonar sjálfsmynd. Sem getur
þýtt: bara ein blekking enn til að sleppa úr
klóm tímans.“
Dagbók ljósmyndarans
Ljósmynd/Frank Horvat
Sunnudagur 18. apríl Cotignac, Frakklandi, „La Véronique”. Sjálfsmynd í baði.
AF LISTUM
eftir Einar Fal
Ingólfsson
efi@mbl.is
Ljósmynd/Frank Horvat
Þriðjudagur 19. janúar Boulogne-Billancourt,
Frakklandi. Á Ambroise Paré-spítalanum, sjálfs-
mynd fyrir læknisskoðun.