Morgunblaðið - 16.06.2002, Qupperneq 36
MINNINGAR
36 SUNNUDAGUR 16. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Njáll Guðnasonfæddist í Hafnar-
firði 4. desember
1907. Hann lést á
Hrafnistu í Reykjavík
9. júní síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Guðni Eyjólfsson, f.
1882, d. 1974, sem
lengst af var verk-
stjóri í Gasstöðinni í
Reykjavík, og Sess-
elja Helgadóttir, f.
1890, d. 1959, vinnu-
kona í Hafnarfirði og
síðar húsmóðir á Fá-
skrúðsfirði. Fóstur-
foreldrar Njáls voru Eyjólfur Eyj-
ólfsson og seinni kona hans,
Þorgerður Halldórsdóttir, sem
bjuggu á Hausastöðum í Garða-
hverfi. Hálfsystkini Njáls sam-
feðra eru: Kjartan (d. 1991), Her-
dís, Gunnar Baldur, Hrefna,
Sigríður, Guðjón (d. 1998), Jóhann
(d. 2001) og Agnar. Hálfsystkini
Njáls sammæðra eru: Kristín, Guð-
jón og Kristinn Björnsbörn og
Kristbjörg Hjartardóttir. Af þeim
er einungis Kristinn á lífi.
Hinn 8. júní 1935 kvæntist Njáll
Guðrúnu Þorsteinsdóttur, f. 6. júní
1911 í Reykjavík. Hún lést 7. mars
1980. Guðrún var dóttir hjónanna
Agnesar Theodórsdóttur, húsmóð-
ur, f. 1887, d. 1969, og Þorsteins
Þorkelssonar, bátsmanns, f. 1879,
d. 1948.
Njáll ólst upp á Hausastöðum frá
nokkurra vikna aldri og átti þar
sitt heimili þar til hann kvæntist.
Heimili þeirra Guðrúnar stóð alla
tíð í Reykjavík. Á Grettisgötu 44,
þar sem Guðrún var fædd og upp-
alin, bjuggu þau allt til 1973 er þau
fluttust í Kelduland 1 í Reykjavík.
Eftir lát konu sinnar bjó Njáll þar
einn, en frá hausti 1998 átti hann
sitt heimili á Hrafnistu í Reykjavík.
Njáli og Guðrúnu varð þriggja
barna auðið en fyrir
átti Guðrún eina
dóttur, Erlu Svan-
borgu, f. 1930, d.
1991, gift Haraldi
Jónssyni, f. 1924, d.
1990. Börn þeirra
eru: Auður Agnes, f.
1960, maki Ingvi Pét-
ursson, þau eiga einn
son, og Þorsteinn
Jón, f. 1964, kvæntur
Bjarneyju Þórarins-
dóttur, þau eiga tvo
syni. Börn Njáls og
Guðrúnar eru: 1)
Árni, f. 1936, íþrótta-
kennari, kvæntur Kristínu Helga-
dóttur, íþróttakennara. Þeirra
dætur eru: Steina, f. 1961, gift Atla
Þorvaldssyni. Þau eiga þrjú börn.
Guðrún, f. 1968, d. 1971. Guðrún, f.
1972, sambýlismaður Eiríkur Orri
Guðmundsson. Þau eiga eina dótt-
ur. 2) Anna Gerður, f. 1944, kenn-
ari, gift Eysteini Björnssyni, kenn-
ara. Þeirra börn eru: Harpa, f.
1965, hún á eina dóttur. Njáll, f.
1970. Þorbjörg Rún, f. 1981. 3) Sig-
rún Agnes, f. 1953, dómritari, gift
Ingólfi Má Magnússyni, húsgagna-
bólstrara. Þeirra synir eru: Brynj-
ar Helgi, f. 1975, kvæntur Kristínu
Halldórsdóttur. Þau eiga tvö börn.
Óli Njáll, f. 1980.
Að loknu hefðbundnu barna-
skólanámi stundaði Njáll ýmis
störf, var m.a. í byggingarvinnu,
tíðum kaupamaður í sveit á sumr-
in, garðyrkjumaður á Vífilsstaða-
spítala og landverkamaður á vetr-
arvertíðum í Vestmannaeyjum.
Frá 1937 og til sumarloka 1984 var
hann hins vegar starfsmaður SÍS,
lengst af sem verkstjóri í Afurða-
sölu Sambandsins á Kirkjusandi.
Útför Njáls verður gerð frá
Fossvogskirkju þriðjudaginn 18.
júní og hefst athöfnin klukkan
13.30.
Nú er gamli maðurinn búinn að fá
hvíldina, datt mér í hug þegar ég
heyrði andlát Njáls Guðnasonar
tengdaföður míns.
Ég sá Njál Guðnason fyrst á
heimili sínu á Grettisgötu 44. Ég átti
þangað brýnt erindi, líklega hef ég
ekki farið brýnni erinda í nokkurt
hús annað en þá, að biðja dóttur
þeirra hjóna Njáls og Guðrúnar.
Mér var vel tekið, af kurteisi og ljúf-
mannlegri stillingu og varð þess
fljótt var að þau hjónin vildu allt fyr-
ir þennan unga mann gera sem dótt-
ir þeirra hafði fengið augastað á.
Njáll Guðnason var virðulegur í
framkomu og bar sig vel, fáorður og
hæverskur en ákaflega bóngóður
þegar til hans var leitað. Það gerð-
um við hjónin oft og einatt fyrstu
búskaparárin, enda hæg heimatökin
þar sem við leigðum í kjallaranum
hjá þeim Guðrúnu og Njáli á meðan
við vorum að koma undir okkur fót-
unum. Ekki var húsaleigan há og
varð dvölin á Grettisgötunni lengri
en upphaflega var ætlað, heil fimm
ár.
Á þessum tímamótum langar mig
að þakka tengdaforeldrum mínum
af alhug allt sem þau létu af hendi
rakna til ungu hjónanna í kjallaran-
um sem voru að feta sín fyrstu skref
í hjónabandinu. Í upphafi bara ung
og ástfangin, síðan komu börnin,
fjölskyldulífið og lífsbaráttan í blíðu
og stríðu. Tvö elstu börnin okkar,
Harpa og Njáll, komu bæði í heim-
inn á fæðingarheimilinu á Eiríksgöt-
unni og fóru í sinn fyrsta bíltúr rak-
leiðis í litlu kjallaraíbúðina á
Grettisgötu 44. Þótt samgangur
væri mikill við þriðju hæðina þar
sem Njáll og Guðrún bjuggu, þau
hjónin alltaf boðin og búin að passa
börnin okkar og vera okkur stoð og
stytta í hvívetna, þá skiptu þau sér
aldrei af búskaparháttum eða lífs-
máta ungu hjónanna í kjallaranum.
Löngu seinna laukst það upp fyrir
mér hve sjaldgæf slík tillitssemi og
hæverska er.
Ég þakka tengdaföður mínum
fyrir að segja já þegar ég bað um
hönd dóttur hans, fyrir að smíða
fyrstu mublurnar í nýju íbúðina
okkar í Breiðholtinu sem mér fannst
alltaf svo fallegar, fyrir allar kartöfl-
urnar, veglegar afmælisgjafir og að
vera alltaf til staðar þegar á þurfti
að halda.
Liggi leið mín á góðum degi um
Laugaveginn eða nálægar götur er
ég stundum ósjálfrátt kominn á
Grettisgötuna og stend fyrir framan
þetta virðulega, þrílyfta hús með
veglegu útihurðinni, lít upp í
gluggana og kem létt við gljáandi
látúnshúninn.
Eysteinn Björnsson.
Hann tengdapabbi hefur kvatt,
tæplega 95 ára að aldri. – Hann
hafði hjá okkur ýmis gælunöfn, „Sá
gamli“, „Der Alte“, „höfðinginn“,
„herforinginn“. Hann fæddist ekki
með silfurskeið í munni, öðru nær.
Sonur ógiftrar 17 ára vinnukonu
sem varð að láta hann frá sér aðeins
nokkurra vikna gamlan. En hann
eignaðist góða fósturforeldra sem
hann talaði um af væntumþykju og
átti mörg uppeldissystkini. Fór að
vinna fyrir sér strax og hefðbundnu
barnaskólanámi lauk. Um frekari
menntun var ekki að tala. En það er
hægt að segja að vísa Klettafjalla-
skáldsins eigi hér vel við:
Þitt er menntað afl og önd,
eigir þú fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.
Allar þessa eiginleika átti Njáll í
ríkum mæli.
Njalla mínum kynntist ég fyrst
þegar ég vann skamma hríð í Kjöt-
iðnaðarstöð Sambandsins á Kirkju-
sandi. Þar stjórnaði hann heilli her-
sveit verkamanna og bílstjóra af
miklum skörungsskap. Hafði orð á
sér fyrir að vera strangur en sann-
gjarn. Mér var líka sagt að meðan
Njáll væri þarna þyrftu starfsmenn
Afurðasölunnar hvorki reiknivél né
símaskrá, þeir hefðu Njalla. Síðar
höguðu örlögin því svo að hann varð
tengdafaðir minn. Ég er ekki viss
um að mér hafi þótt það góður kost-
ur í byrjun, hélt hann væri svo
strangur. Hann tók mér varlega í
fyrstu eins og hans var von og vísa.
Njalli flanaði ekki að neinu. En þeg-
ar við höfðum kynnst almennilega
varð mjög kært með okkur. Ég upp-
götvaði einnig að hann hafði góðan
húmor og var glaðlyndur þó ekki
væri hávaðanum fyrir að fara, og
einstaklega orðheldinn.
Njáll var góður heimilisfaðir og
var fjölskylda hans honum afar kær
og hag barna og barnabarna bar
hann mjög fyrir brjósti. Hann var
afar stoltur þegar þeim gekk vel í
námi og starfi en tók það mjög
nærri sér ef eitthvað bjátaði á, en
var aldrei maður margra orða. Hann
var vanari því að láta verkin tala.
Búskapur okkar Sigrúnar hófst á
heimili hans og tengdamömmu. Þar
bjuggum við að mestu frá 1973 til
haustsins 1977. Aldrei bar nokkurn
skugga á þá sambúð. Sambandið
hélst sterkt þó við flyttum. Njáll og
Gunna höfðu gaman af ferðalögum,
en bíl eignuðust þau aldrei sjálf.
Mörg sumur fórum við saman í eina
viku í einn af sumarbústöðum SÍS í
Borgarfirðinum og gerðum þá iðu-
lega víðreist í dagsferðum út frá
honum. Var Njáll þá einstaklega
glöggur og fljótur að átta sig á því
hvar við vorum stödd og þekkti ör-
nefni þó við værum á slóðum sem
hann hafði aldrei farið áður. En við
vorum iðulega ósammála um fegurð
landslagsins. Í Njáli blundaði nefni-
lega bóndi og ræktunarmaður, eins
og lóðin við Kelduland 1 bar merki
um í mörg ár meðan honum entist
heilsa til að hirða um hana. Þar sem
ræktarlegt var, þar var fallegt. Fjöll
áttu að vera í hæfilegri – helst tölu-
verðri – fjarlægð, þar var ekkert
hægt að rækta. Við hjónin urðum
líka þeirrar ánægju aðnjótandi að
fara með honum í hans fyrstu tjald-
ferð sem hann fór í í yfir 40 ár. Og
þær urðu fleiri. Skaftafell í 20 stiga
hita og glampandi sól, Njáll í fót-
bolta við dóttursoninn og leikandi
sér að flugdreka, þá á 74. aldursári,
Njáll röltandi upp að Svartafossi.
Þórsmörk – starfsmannaferð með
Afurðasölunni. Allir þurftu að
spjalla við Njál og rétta pytlu. Njalli
söng „Kvöldið er fagurt“. Hver
starfsmaðurinn á fætur öðrum
þurfti að segja mér hvað ég væri
heppinn að eiga þennan mann sem
tengdaföður. En þess þurfti ekki, ég
vissi það. Þetta eru góðar minning-
ar.
Þrátt fyrir dugnaðinn hafði
tengdapabbi þann hæfileika að geta
slakað á. Hann undi sér löngum við
lestur bóka, fylgdist vel með, jafnt
heimsfréttum, veðurfréttum sem
fréttum af fjölskyldu og vinum.
Hann var ekki einn af þeim sem allt-
af var að dásama gamla tímann
heldur var mjög hrifinn af ýmsum
tækninýjungum. Var t.d. mikið hleg-
ið í fjölskyldunni þegar Njáll var að
dásama örbylgjuofninn sem hann
eignaðist og fullyrti að ofninn væri
svo mikið undratæki við hafragraut-
argerð að hann sparaði meira að
segja haframjölið.
Lengst af var hann heilsuhraust-
ur mjög og vann fulla vinnu þar til
hann varð tæplega 77 ára að aldri.
Þegar því tímabili ævinnar lauk
tóku við nokkur góð ár við brids-
spilamennsku og aðra skemmtan
vítt og breitt um bæinn á vegum Fé-
lagsþjónustunnar. Þar hitti hann oft
gamla kunningja og hafði af mikla
ánægju. Fyrir allnokkrum árum
varð hann hins vegar mjög slæmur
af svokallaðri augnbotnakölkun og
varð að hætta að lesa og spila. En
það átti ekki við Njál að leggja árar í
bát eða gefast upp baráttulaust.
Hann gætti þess að hafa allt í röð og
reglu heima við svo hann fyndi hlut-
ina þó hann sæi þá ekki og fór að
hlusta á bækur af hljóðsnældum og
dásamaði mjög þjónustu Blindra-
bókasafnsins.
Synir mínir tengdust afa sínum
sterkum böndum. Gistu þeir oft hjá
honum og undu þar við að spjalla,
spila og lesa bækur. Þeir sakna nú
báðir afa síns en eru um leið þakk-
látir fyrir að eiga góðar minningar
um hann.
Njáll var maður birtunnar – sólar
og hlýju. Hann naut þess í ríkum
mæli, þegar hann var hættur að
vinna, að sitja á sólarströndinni
sinni, eins og hann kallaði svalirnar
sínar, og láta sólina verma sig þegar
hún sýndi sig. Á svölunum ræktaði
hann líka blóm og jafnvel jarðarber.
Á veturna gaf hann fuglunum bæði á
svalahandriðið og í garðinn og
skemmti sér við að fylgjast með at-
ferli þeirra.
Frá hausti 1998 bjó Njáll á Hrafn-
istu í Reykjavík. Heyrnin orðin æði
léleg, sjónin nánast engin en koll-
urinn skýr. Hann var fréttamiðstöð
fjölskyldunnar, vissi hvað allir voru
að gera og hvar þeir voru og gat
miðlað upplýsingum. Það átti vel við
hann.
Hann kvaddi sunnudaginn 9. júní
sl. Sá dagur var hlýr og fallegur, það
var vel við hæfi. Ég þakka tengda-
föður mínum samfylgdina.
Ingólfur Már.
Elsku afi, þá er hún komin hvíldin
og mér finnst erfitt að kveðja.
Afi minn var orðinn gamall maður
og við vissum að við þessu mátti bú-
ast hvað úr hverju. Samt fæ ég að
reyna það nú sem áður að það er fátt
sem býr mann undir sorgina, minn-
ingabrotin streyma fram og ég er
aftur orðin barn.
Við systkinin vorum mikið hjá afa
og ömmu, þar var gott að vera og
þegar ég hugsa til ykkar og heimilis
ykkar í Keldulandinu finn ég
hlýjuna streyma um mig. Ótal sam-
verustundir sem við áttum með ykk-
ur, við fórum í bæinn saman að
spássera um og að kaupa ís, þegar
við fengum að gista þá fengum við
nammi og að vaka lengur, það var
alger hátíð. Þið voruð ótrúlega dug-
leg að spila við okkur og var þá oft
glatt á hjalla, ég sé fyrir mér hvern-
ig þú dregur upp tóbaksklútinn og
hlærð út í annað að einhverju
fyndnu sem amma hefur sagt.
Þegar við suðuðum í ömmu um
eitthvað þá sagði hún gjarnan: Farið
þið og talið við hann afa ykkar, við
fórum og töluðum við afa; í minning-
unni brosir þú góðlega, teygir fram
vangann til að fá koss á kinn og
klappar mér á kollinn, segir fátt en
ert jafn yndislegur fyrir það.
Afi minn var ekki mjög ræðinn
maður en hann var góður maður og
traustur, hann var maður orða sinna
og þekktur fyrir ábyrgðartilfinningu
og vinnusemi. Maður bar ósjálfrátt
virðingu fyrir honum en fann jafn-
framt alltaf hvað honum þótti vænt
um mann. Hann var eins og klettur í
hafinu sem manni fannst að myndi
alltaf vera til staðar fyrir mann.
Það er það sem stendur upp úr
þegar ég hugsa til baka, það er þessi
mikla hlýja og væntumþykja sem ég
fékk bæði frá þér og ömmu sem var
mér svo óendanlega dýrmæt.
Í dag eruð þið bæði dáin en mér
finnst ég samt eiga ykkur í hjartanu,
þið gáfuð mér hluti sem aldrei verða
frá mér teknir.
Elsku afi, takk fyrir það allt og
Guð geymi þig.
Þín dótturdóttir
Harpa Eysteinsdóttir.
Þegar sá eldri okkar bræðranna
fæddist var afi tæplega 68 ára og að
verða 73 þegar hinn yngri okkar
kom í heiminn. Okkur fannst afi
samt ekki gamall. Eiginlega fannst
okkur hann ekki verða aldraður fyrr
en hann varð að fara á elliheimili
rúmlega 90 ára að aldri.
Afi var svona alvöruafi, næstum
eins og sagt er frá í sögubókum.
Hann hafði stórar, þykkar og hlýjar
hendur sem héldu þétt þegar hann
leiddi litla drengi yfir hættulegar
götur. Afi tók í nefið – mikið – og svo
snýtti hann sér í stóran rauðan tób-
aksklút og hnerraði. Eitt það fyrsta
sem við lærðum að gera sem pínu-
litlir pattar var að hnerra eins og afi.
Hann hafði gaman af að spila
rommý við litla stráka og var alltaf
fús til þess, nema rétt á meðan frétt-
ir voru sagðar í útvarpi og sjónvarpi,
já og á meðan veður- og dánarfregn-
ir voru lesnar. Honum fannst flug-
drekar afskaplega skemmtileg leik-
föng og keypti alltaf minnst einn
handa hvorum okkar á hverju sumri
eða þar til við bræðurnir hættum að
hafa áhuga á þeim. Afi átti líka bæk-
ur sem gaman var að skoða, miklu
skemmtilegri bækur en mamma og
pabbi. Hann átti Öldina okkar og Ís-
lenska sjávarhætti og var óþreyt-
andi að skoða þessar bækur með
okkur og fræða. Hann sá líka til
þess að við ættum alltaf hamra og
nóg af nöglum. Að vísu voru hamr-
arnir oftar notaðir til að stúta
Matchbox bílum en til að smíða með
þeim. Afi sagði okkur líka sögur frá
því þegar hann var lítill. Hvernig
hann þurfti að ganga langa leið í
skólann í Garðahverfinu á veturna
og þegar hann þurfti stundum að
ganga alla leið inn í Reykjavík.
Hann sagði okkur frá frostavetrin-
um mikla því hann mundi hann vel
og hvernig hægt var að stytta sér
leiðir vegna þess að sjóinn lagði.
Hann sagði okkur líka prakkarasög-
ur af sjálfum sér og þegar mamma
hafði orð á því að þetta hefði hún
aldrei heyrt hló hann og sagði að
auðvitað hefði hún ekki heyrt þetta
sem krakki, hann hefði þurft að ala
hana upp en okkur mætti hann
spilla. Hann sagði okkur frá hörm-
ungum atvinnuleysisins í kreppunni
og sagði oft að hann vonaði að við
ættum aldrei eftir að upplifa slíkt.
Við vorum svo heppnir að hitta
afa nánast daglega því eftir að
amma okkar lést 1980 kom hann og
borðaði kvöldmat heima hjá okkur
flesta daga vikunnar og alla hátíð-
isdaga. Því kynntumst við afa mjög
náið. Afi var dálítið sérstakur að því
leyti til að þrátt fyrir háan aldur var
hann ekkert ragur við að bragða á
ýmsum nýjum réttum og fannst t.d.
grænmeti og alls kyns pastaréttir
hinn besti matur. En að hans mati
tók nú samt fátt fram vel feitu salt-
kjöti með kartöflum og smjöri.
Hann var ekki einn af þessum öf-
um, sem maður heyrir um, sem eru
alltaf að tala um það hvað allt hafi
verið gott í gamla daga og ungling-
arnir nú til dags ómögulegir. Hon-
um fannst nútíminn á margan hátt
heillandi og var að mörgu leyti uppi
á röngum tíma. Við erum vissir um
að hefði hann verið 20 árum yngri
hefði hann t.d. lært að nota tölvu og
trúlegast spilað tölvuleiki og bridge
á hana af miklum móð.
Hann var fús að leyfa afastrákum
að gista og þá gætti hann þess að
eiga litla kók í gleri og Kókópuffs, af
því að foreldrar okkar keyptu ekki
svoleiðis góðgæti dags daglega, og
einnig var „sælgætisskápurinn“
troðinn gulum ópal, hrauni og smar-
ties.
En umfram allt hafði hann alltaf
áhuga á öllu sem við tókum okkur
fyrir hendur, hvatti okkur til að
standa okkur vel í skóla og sinna
hverju því starfi sem okkur væri fal-
ið að vinna af trúmennsku og alúð.
Sjálfur var hann sú besta fyrirmynd
sem hugsast getur, kærleiksríkur,
glaðlyndur, stundvís og orðheldinn.
Allt sem afi sagði, stóð eins og staf-
ur á bók. Við söknum afa en við vit-
um að allar okkar góðu minningar
um hann munu ylja okkur í framtíð-
inni.
Brynjar Helgi og Óli Njáll.
Þó að falli í feðrafold
flest af því sem lifir.
Enginn getur mokað mold
minningarnar yfir.
(B. Jónsson)
Um leið og lítil stelpa hleypur inn
um dyrnar hjá afa sínum heyrist úr
stól við stofuborðið eitthvað um
Coke og frostpinna í ísskápnum.
Lítil stelpa brosir og sest svo á móti
afa sínum við stofuborðið með góð-
gætið. Ojæja, segir afi, tekur upp
rauðan neftóbaksklút og snýtir sér
áður en hann seilist í spilastokk og
gefur í Ólsen Ólsen. Eftir langa setu
við spilin skoðar stelpan allt skrýtna
dótið í hillunum hans og svo dýfa
þau kringlum í kaffi áður en stúlkan
heldur heim á leið. Afi kveður þá
með örlítið bros út í annað munn-
vikið.
Já, svona mun ég muna þig, elsku
afi minn, þó minningarnar hafi verið
margar. Takk fyrir allt saman, bæði
þessa tíma og alla þá sem á eftir
komu.
Guð geymi þig.
Þín dótturdóttir
Þorbjörg Rún.
NJÁLL
GUÐNASON