Morgunblaðið - 09.10.2002, Side 35
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. OKTÓBER 2002 35
ÚTLENSKIR hlutir hafa
löngum þótt eftirsóknarverðir á
Íslandi. Þannig hafa ullarpeysur
keyptar í erlendum búðum þótt
mikið huggulegri en íslenska
lopapeysan, útlensk-
ar gallabuxur hafa
fyrir löngu leyst
vaðmálsbrækurnar
af hólmi og í stað ís-
lensks brennivíns
dreypa menn nú á
áfengum berjasafa
ættuðum frá suð-
lægari löndum, vilja
jafnvel helst geta
keypt þennan berja-
safa í matvörubúð-
um, eins og gerist
og gengur í útlönd-
um. Íslensk garð-
yrkja hefur notið
góðs af þessari
ásókn okkar í erlend
áhrif. Innlend flóra
okkar er fremur fábreytileg og
þess vegna hafa Íslendingar í
gegnum tíðina verið ákaflega
duglegir við það að flytja inn er-
lendar plöntutegundir til að prófa
þær við íslenskar aðstæður.
Margar þessara tegunda hafa
fyrir löngu áunnið sér heiðurs-
sess í íslenskum görðum og sóma
sér þar vel. Þegar betur er að gáð
kemur þó í ljós að margar teg-
undir í innlendu flórunni eiga
fullt erindi í garða landsmanna.
Íslensku trjátegundirnar ilm-
björk, ilmreynir og einir hafa alla
tíð verið vinsælar til notkunar í
garða, það má sennilega fullyrða
að ekki fyrirfinnist sá garður á
landinu sem ekki inniheldur að
minnsta kosti eina af þessum
trjátegundum. Fjalldrapi hefur
einnig verið notaður nokkuð í
garða en þó í minna mæli en fyrr-
nefndu tegundirnar. Garður sem
eingöngu er prýddur trjám og
runnum verður hins vegar leiði-
gjarn til lengdar og nauðsynlegt
að hressa eilítið upp á litadýrðina
með fjölærum jurtum og jafnvel
sumarblómum. Innan íslenskrar
flóru má finna ákaflega fallegar
fjölærar blómjurtir sem sumar
hverjar hafa verið notaðar í garða
um langa hríð en aðrar notaðar
minna en efni standa til, verður
minnst á nokkrar þeirra hér á
eftir.
Eyrarrós, Epilobium latifol-
ium, er fjölær, dálítið skriðul 20–
30 cm há planta sem vex gjarnan
á áreyrum. Blóm eyrarrósarinnar
eru mjög stór, rósrauð og skraut-
leg. Hún blómstrar seinni hluta
sumars og myndar þá oft glæsi-
legar rósrauðar breiður. Þetta er
fyrirtaks garðplanta, hún vex
best í fremur sendnum, rýrum
jarðvegi og getur þar dreift tals-
vert úr sér. Hún sáir sér dálítið
en það er auðvelt að hafa hemil á
henni ef þess er þörf.
Steindepla, Veronica fruticans,
er einnig fjölær, mjög lágvaxin
eða jarðlæg planta sem er algeng
um land allt. Blóm steindeplunn-
ar eru í íslensku fánalitunum,
himinblá utantil en hvít í miðj-
unni og aðskilur rauður hringur
bláa og hvíta litinn. Steindeplan
er mjög smávaxin og lætur ekki
mikið yfir sér en blómgun hennar
er mjög falleg. Hún hentar vel til
notkunar í steinhæðabeð þar sem
sólar nýtur og jarðvegur er frem-
ur rýr.
Bláklukka, Camp-
anula rotundifolia,
hefur verið notuð í
garða um áratuga-
skeið, aðallega sú
bláa en einnig hvítt
afbrigði bláklukk-
unnar sem er frem-
ur sjaldgæft. Blá-
klukkan myndar um
20–30 cm háa blóm-
stöngla og á endum
stönglanna koma
svo hinar himinbláu,
lútandi klukkur.
Blómgunartíminn er
í júlí. Bláklukka er,
eins og svo margir
ættingjar hennar af
bláklukkuættinni, nokkuð skugg-
þolin og hentar því til dæmis vel
til notkunar undir birkitrjám í
görðum.
Vetrarblóm, Saxifraga oppos-
itifolia, er af ættkvísl steinbrjóta
og er fjölær, lágvaxin planta með
sígræn lítil laufblöð. Vetrarblóm-
ið blómstrar eldsnemma á vorin,
oftast í apríl-maí en í góðu vori
stundum í mars. Blómin eru
fremur smá, fallega bleik á litinn
og er blómgunin yfirleitt svo mik-
il að plantan verður þakin blóm-
um. Þessar bleiku blómabreiður
teygja sig jafnvel upp úr snjónum
á vorin og minna á það að vorið
er á næsta leiti. Vetrarblómið
þarf fremur rýran jarðveg og
hentar ákaflega vel í steinabeð.
Ljósberi, Lychnis alpina, er um
20 cm hár með blöð í stofnhvirf-
ingu. Blómin eru í ýmsum til-
brigðum við bleikt, allt frá hér
um bil hvítu yfir í dökkbleikan lit.
Þau eru nokkur saman í þéttum
hnapp á enda blómstönglanna og
er blómgunartíminn í júlí. Ljós-
beri er ljóselskur og þolir allvel
þurrk, hentar því vel í sendinn og
rýran jarðveg í görðum.
Engjarós, Potentilla palustris,
er af ættkvísl muranna. Hún er
um 15–30 cm há og vex einna
best í rökum jarðvegi. Blóm
engjarósarinnar eru dökkbleik
yfir í dumbrautt og þess vegna er
þetta verðmæt garðplanta, blóm-
liturinn er ekki mjög algengur.
Blöðin eru ljósgræn með gráum
blæ og ekki síður til skrauts en
blómin, einnig eru stönglarnir
rauðleitir sem eykur enn á
skrautið. Engjarós er ekki mikið
notuð í garða enn sem komið er
en hún er fyllilega þess virði að
prófa hana.
Auðvitað eru mikið fleiri ís-
lenskar tegundir hentugar í
garða en þeim verða ekki gerð
skil í þetta sinn. Nú er bara um
að gera að heimsækja næstu
gróðrarstöð, næla sér í íslenskar
plöntur og gróðursetja þær í
görðum fyrir veturinn því haustið
er sérlega góður tími til gróð-
ursetningar.
Ljósberi, Lychnis alpina.
ÍSLENSKAR
PLÖNTUR Í GARÐA
VIKUNNAR
BLÓM
Um s j ó n S i g r í ð u r
H j a r t a r
483. þáttur
Guðríður Helgadóttir
garðyrkjufræðingur
✝ Jóna VilborgJónsdóttir
fæddist í Vinaminni
á Stokkseyri 5.
ágúst 1942. Hún
varð bráðkvödd á
heimili sínu 30.
september síðast-
liðinn. Hún var
dóttir Jóns Jóns-
sonar skipstjóra, f.
7.6. 1915, d. 15.6.
1993, og konu hans
Guðnýjar G. Sigur-
rósar Guðmunds-
dóttur, f. 23.10.
1919. Þau skildu.
Hálfsystkini Jónu Vilborgar eru
Svanfríður Sigurlaug Óskars-
dóttir, f. 18.2. 1944, Brynja Ósk-
arsdóttir, f. 22.6. 1950, Viðar
Óskarsson, f. 26.12. 1952, og
Sigurður Jónsson, f. 2.2. 1951,
d. 19.8. 2001. Stjúpfaðir Jónu
Vilborgar var Guðmundur Ósk-
ar Jónsson, f.
25.1.1918, d.
28.12.1997. Seinni
kona Jóns var Sig-
ríður Sigurðardótt-
ir, f. 20.2. 1915, d.
25.6. 1989. Jóna
Vilborg giftist
Húnboga Þor-
steinssyni. Þau
skildu 1965. Börn
þeirra eru: Þor-
steinn, f. 24.9.
1960, kona hans er
Siv Friðleifsdóttir,
þau eiga tvo syni,
og Védís, f. 3.12.
1961, maður hennar er Snorri
Bergmann, þau eiga tvö börn.
Jóna Vilborg lauk prófi frá
Kvennaskólanum í Reykjavík
vorið 1959.
Útför Jónu Vilborgar verður
gerð frá Fossvogskapellu í dag
og hefst athöfnin klukkan 15.
Nú er haustið komið, stillt og
hlýtt. Haustlitir lyngs og blóma
skarta sínu fegursta. Þessi fegurð
minnir um margt á sterkustu og
bestu eiginleika í fari Jónu. Fugla-
söngur og raddir barna fylla loftið og
glaðværðin berst inn um opna
gluggana.
Þetta er eins og í gamla daga þeg-
ar við krakkarnir þutum eftir götun-
um í boltaleik eða fórum í úllen dúll-
en eða ugla sat á kvisti. Við áttum
endalaus kvöldin og köllin ómuðu.
Hjallavegur var skemmtilegasta gat-
an í hverfinu en heimur okkar náði
einnig yfir á Kambsveginn, Lang-
holtsveginn og Dyngjuveg. Öll húsin
voru full af krökkum. Uppi í holti
blésum við í biðukollur, leyndumst
milli steina, rifum í okkur hundasúr-
ur og söfnuðum í áramótabrennu.
Svo streymdu börnin niður að
sjónum í leit að fjársjóðum, flösku-
skeytum og skeljum. Sílaveiði á
sumrin og skautasvell á veturna.
Vatnagarðar voru heimur ævintýra,
ógrynni af hellum og snarbröttum
klettum, holt og skurðir og skreið-
arhjallar, fagurblá sundin og tignar-
leg Esjan í baksýn.
Að eiga stóra systur sem leiddi
mann í sannleikann um eitt og annað
var ekki smálúxus. Hvert orð hennar
var mér sem opinberun. Ég vitnaði í
hana eins og alfræðibók og hafði eftir
henni setningar. Hún var mér óskap-
lega góð, alltaf að passa hana Svönu
systur. Ég var svo mikil skvetta,
stöðugt til vandræða, stoppaði aldr-
ei, prílaði upp í efstu skápa og hillur,
alltaf í lífsháska.
En Jóna var svo stillt. Alvarleg,
grandvör, ákaflega listræn og næm á
umhverfi sitt, teiknaði myndir og
málaði. Verk hennar sýna hæfileika
og prýða veggi. Hún mótaði styttur
úr leir og hannaði listilegar brúður,
var skarpur námsmaður og lauk
prófi frá Kvennaskólanum í Reykja-
vík árið 1959.
Þegar yngri systkini okkar fædd-
ust sýndi hún þeim sömu ástúð og
mér. Hún var svo blíð og góð. Barna-
pössun lenti mest á Jónu enda mér
ekki treystandi fyrir nýfæddu ung-
viðinu.
Á sunnudögum fór hún með mig í
bíó svo að ég gæti kynnst teikni-
myndum og Davy Crockett og öðrum
hetjum í villta vestrinu. Fyrsta
myndin var Mjallhvít og dvergarnir
sjö. Í þessum leiðöngrum setti ég allt
mitt traust á Jónu. Hún hélt þétt um
höndina á mér svo ég yrði ekki fyrir
bíl og kenndi mér að rata um borg-
ina. Stundum settum við sjálfar upp
leiksýningar, kræktum okkur í
gamla hatta, sömdum leikritin um
leið og við fluttum þau. Sviðið var
vinnupallur við hús.
Við systurnar sátum iðulega í
fanginu á pabba þar sem hann las
fyrir okkur sögur. Seinna þegar við
lærðum sjálfar að lesa drukkum við í
okkur perlur heimsbókmenntanna.
Þá var linnulaus tími bóklestrar.
Menningin var í fyrirrúmi og hug-
sjónir jafnréttis og sósíalisma og
vonir um að framtíðin bæri í skauti
sínu betri framtíð fyrir alla en ekki
fáeina útvalda. Á efri hæð hússins
bjó frændfólk okkar, þrjár kynslóðir,
og mikill samgangur milli hæða. Hjá
ömmu lifðum við og hrærðumst í
heimi þjóðsagna og sálma og brudd-
um kandís og kremkex.
Jóna var barn móður minnar af
fyrra hjónabandi en pabbi ól hana
upp af sama ástríki og sín eigin börn
og gerði engan greinarmun þar á.
Hún átti tvo pabba sem mér þótti
hálfgert svindl þar sem ég átti aðeins
einn en á jólunum fékk ég að fljóta
með í veislur til Jóns. Mamma púss-
aði okkur upp í taftkjóla með pífum,
hnýtti í okkur slaufur og lakkskó á
fótum. Hjá Jóni kynntist ég stórfjöl-
skyldunni frá Vinaminni á Stokks-
eyri, annáluðu dugnaðar- og atorku-
fólki.
Heimili Önnu, föðursystur Jónu,
hafði sérstakt aðdráttarafl. Anna átti
fallegt, dálítið sérkennilegt bakhús á
Laugaveginum sem var í alfaraleið.
Anna var einstök sómakona og gest-
risin með afbrigðum. Í stórum ísskáp
leyndust alltaf nokkur ílöng form af
heimatilbúnum ís. Þetta var enginn
venjulegur ís. Þetta var örugglega
besti ís í heimi. Við Jóna vorum vit-
lausar í ís og þegar formin voru orðin
tóm barst leikurinn að girnilegri, all-
veglegri Mackintosh-dós á eldhús-
borðinu. Svo var stormað með börn-
unum hennar Önnu upp á loft í leiki.
Tekið var tilhlaup og sófar voru
stökkbretti. Í þessu spennandi húsi
var hægt að hlaupa úr einu herbergi í
annað þar til komið var á upphafsreit
og tilvalið fyrir eltingarleiki. Ærslin
bárust oftast út í garð, klifrað yfir
grindverk og upp á skúra og yfir á
næstu lóðir. Uppátækjum okkar og
öllum hávaðanum tók Anna með stó-
iskri ró. Í lok dags lagðist allt liðið
flatt fyrir framan útvarpið og hlust-
aði á Bangsímon.
Árin liðu og við tókumst á við lífið.
Heimurinn varð flóknari og lífið var
ekki lengur auðvelt.
Það haustaði snemma í lífi Jónu.
Hún átti við langvinn veikindi að
stríða en kvartaði aldrei, hún var
sjálfri sér nóg og vissi hvað hún vildi.
Við fórum heim til hennar á 60 ára af-
mælinu í ágúst sl. Hún ljómaði öll,
var innilega glöð yfir að sjá okkur og
rifjaði upp gamla tíma. Augljóst var
að heilsu hennar hafði hrakað tölu-
vert. Hún var orðin mæðin og átti
erfitt með andardrátt, farin að kröft-
um. Og nú mitt í ljúfsárri fegurð
haustsins kom kallið.
Kannski verður allt auðvelt aftur, í
kærleika eilífðarlandsins, í heimi
birtu og heiðarleika.
Blessuð sé minning Jónu systur.
Svanfríður S. Óskarsdóttir.
Jóna Vilborg skólasystir mín og
vinkona er látin. Fyrst af okkur
skólasystrunum úr Kvennaskólan-
um sem útskrifuðumst vorið 1959.
Jóna kom inn í Kvennaskólann í 4.
bekk og skar sig strax úr hópnum.
Hún var svo dul og dálítið leyndar-
dómsfull, dugleg í stærðfræði en
sagði fátt. brosti og hafði spékoppa
og djúpblá augu. Við urðum vinkon-
ur og urðum óaðskiljanlegar í mörg
ár en svo veiktist þessi góða vinkona
mín og ég missti allt samband við og
varð oft hugsað til þessarar gáfuðu,
einlægu, orðheppnu, mystísku vin-
konu minnar sem hvarf mér.
Það voru undarleg örlög sem svo
fallegri, gáfaðri stúlku voru sköpuð.
Hún virtist hafa allt sem gæti tryggt
henni gæfu í lífinu sem við vorum að
búa okkur undir og hún hafði hærri
hugmyndir um framtíðina en aðrir
og var ekki eins bundin samtímanum
eins og aðrir unglingar á þeim tíma
og var svo heimspekileg fannst mér.
Okkar vinátta hélst samt alla ævi
hennar þótt aðstæður allar væru
okkur mótsnúnar.
Mig langaði að minnast þessarar
gáfuðu stúlku sem hafði allt til að
bera og virtist geta sigrað heiminn
en veiktist svo ung og hvarf okkur að
mestu. Hún á hjá mér miklu betri
eftirmæli en þau sem ég er fær um að
skrifa, hún var svo yndisleg og góð
og hjartkær vinkona sem ég mun
ávallt sakna og harma hin illu örlög
sem henni voru búin. Svo fjarri lífinu.
Verði hún kært kvödd, mín æsku-
vinkona.
Sigrún Dúfa Helgadóttir.
Elsku Jóna mín, þegar mér barst
fregnin um að þú værir farin héðan
trúði ég því ekki í fyrstu. Ég vildi
ekki trúa því að þú værir horfin mér
með öllu.
Ég minnist stunda aftur í tímann,
þegar þú varst að koma til mín og
hennar ömmu þinnar í firðinum.
Henni fannst svo ósköp vænt um
hana Jónu sína. Jónu sína sem alltaf
var svo blíð við alla, bæði menn og
málleysingja, og fannst hún alltaf
þurfa að gæta Svönu systur sinnar
svo vel.
Ég minnist fyrstu skrefanna sem
þú tókst á Brávallagötunni og hvað
þröskuldarnir reyndust stuttu fótun-
um erfiðir og svo seinna þegar þú
varst farin að hlaupa á eftir kisu og
pútunum, heima hjá okkur ömmu
þinni.
Ég minnist þegar við hjónin fórum
með þig austur á Norðfjörð með Esj-
unni og hvað þú varðst hryllilega sjó-
veik, veslingurinn.
Fyrir austan vannstu hug og
hjarta allra. Þú varst ekki nema 10
ára en þig skorti ekki hugmyndaflug
til að framkvæma hið óvenjulega. Þú
og Anna vinkona þín fyrir austan
brösuðuð ýmislegt. Anna man vel
eftir því þegar þú saumaðir sæng-
urföt úr smjörpappír með venjuleg-
um tvinna og tróðst síðan út með
grasi, þar sem taubútar voru ekki til
staðar. Í eitthvert skiptið hafðir þú
sett blett á nýja ljósa kjólinn þinn og
þegar ég ætlaði að ávíta þig bannaði
tengamóðir mín það. Þar hafðir þú
unnið vísan hjartastað. Þannig var
það með alla sem kynntust þér.
Þegar þú laukst svo landsprófi
virtust allar dyr vera þér opnar og
atvinnutækifærin fleiri en mörgum
öðrum jafnöldrum þínum buðust.
Þú varst bara 17 ára þegar þú
kynntist verðandi maka þínum og 19
ára komin með 2 börn. Það var leitt
að sjá af þér vestur. Sambandið rofn-
aði og varð aldrei eins og það var áð-
ur, ekki einu sinni þegar þú komst
vængbrotin suður með börnin og
tímar erfiðleika hófust.
Elsku Jóna mín, það er með sorg í
hjarta sem ég kveð þig í síðasta sinn,
elsku frænka mín. Elsku Þorsteinn
og Védís, ég sendi ykkur mínar bestu
kveðjur á erfiðleikastund. Hún móð-
ir ykkar er alltaf hjá ykkur þótt hún
sé farin héðan.
Fanney Guðmundsdóttir.
JÓNA VILBORG
JÓNSDÓTTIR
Afmælis- og minningargreinum má skila í
tölvupósti, netfangið er minning@mbl.is,
svar er sent sjálfkrafa um leið og grein hef-
ur borist. Ef greinin er á disklingi þarf út-
prentun að fylgja. Nauðsynlegt er að síma-
númer höfundar og/eða sendanda
(vinnusími og heimasími) fylgi með. Þar sem
pláss er takmarkað getur þurft að fresta
birtingu greina, enda þótt þær berist innan
hins tiltekna frests. Nánari upplýsingar eru
á mbl.is. Um hvern látinn einstakling birtist
formáli og ein aðalgrein af hæfilegri lengd á
útfarardegi, en aðrar greinar skulu ekki
vera lengri en 300 orð, u.þ.b. 1.500 slög (með
bilum) eða um 50 línur í blaðinu (17 dálks-
entimetrar). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak-
markast við eitt til þrjú erindi. Einnig er
hægt að senda örstutta kveðju, HINSTU
KVEÐJU, 5–15 línur, og votta virðingu án
þess að það sé gert með langri grein. Grein-
arhöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn
sín en ekki stuttnefni undir greinunum.