Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Síða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JANÚAR 2001 5 Mig vantaði ekkert nema ljóðabók úr ljóða- deild bókasafnsins, eitthvað verulega vinstri- sinnað um hórdóm fjallkonunnar. Þó róttæknin vildi taka allt upp með rótum byggðist hún ekki síst á því að heyra það sama sagt aftur og aftur. Þess vegna stend ég frammi fyrir bókahill- unum og skima eftir titlum. Stundum þegar maður skoðar bækur er einsog það umlyki mann hjúpur eða andleg ára. Maður er á mörg- um stöðum í einu. Þetta á ekki síst við um ljóða- bækur. Þær kalla fram sérstaka dulúð, kannski ströndina sem Jón úr Vör hefur ort um. Ég er meðvitaður um bergmál safnsins, skúffur sem opnast og lokast, fótatök og loft- ljós, en líð um í leiðslu og finnst löngu síðar sem ósýnileg hönd hafi leitt mig þegar ég stend með Hendur og orð, ljóðabók Sigfúsar Daðasonar, í höndunum og sé fyrstu línurnar: Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinsta andartakinu ... Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinsta andvarpinu eða í sjálfsmorðssælu unglingsins eða hinni einróma reynslu hvíts og svarts hörunds. Hann afhjúpast ekki allur í þeirri andrá þegar storminum lýstur á og ekki að fullnuðum sigri eða langþráðum ósigri. Hann glitrar hvorki allur í ákvörðun morðingjans né uppstigningu mannvinarins. Tilveran mælist ekki á mælikvarða guðs á mælikvarða stjarnanna á mælikvarða eilífðarinnar. Líf þitt stendur andspænis dauðanum en ekki í skugga dauðans. Ég fann allt í einu ljóð sem ekki töluðu til mín heldur við mig, ljóð sem sögðu: Bæng! Þó er ég ekkert viss um að ég hafi skilið ljóð Sigfúsar Daðasonar betur en bresku hagfræðiritgerð- irnar, enda snýst ekki allt um að skilja þegar innri heimur og ytri reynsla rugla reytum sín- um. Þannig hitta ljóð Sigfúsar mig enn í dag, í upphaflegu formi, síbreytileg en föst fyrir, gagnstætt ýmsu sem heltekur mann um skeið en glatar svo áru sinnu undir smásjá sí- breytilegra sjónarhorna. Síðar kynntist ég Sigfúsi Daðasyni. Á milli okkar mynduðust smám saman tengsl sem þró- uðust og gáfu mér mikið. Síðar kenndi Sigfús mér við Háskólann. Ég sótti hjá honum tíma um upphaf nútímaljóðagerðar og leikritun Shakespeares. Hann hafði gaman af kjaftavaðl- inum í okkur sem vorum yngri, af ábyrgð- arlausum skoðunum okkar og óritskoðuðum hugsunum. Fljótlega kom í ljós að Sigfús Daðason var mikill aðdáandi dr. Róberts Péturssonar. „Ég skal segja þér,“ sagði Sigfús, „að dr. Ró- bert er einn mesti snillingur sem hér hefur gengið um götur.“ Ég var honum sammála og þetta gladdi mig mjög mikið, því sumir litu dr. Róbert hornauga og sögðu hann furðufugl og sérvitring. Sigfús bætti við: „Yfirvöldum hefur aldrei tekist að brjóta dr. Róbert niður. Þau hafa oft lagt til atlögu við hann en aldrei lagt hann að velli.“ Ég held að Sigfús hafi átt við að gagnstætt svo mörgum öðrum hagfræðingum hafi yf- irvöldum aldrei tekist að ná tangarhaldi á dr. Róbert; að hvorki Seðlabankinn né aðrir bank- ar hafi sigrað hann. Dr. Róbert hefur aldrei sest í skriftarstól hjá borgurunum og beðist af- sökunar á tilveru sinni. „Þar hefur trompetleikurinn trúlega bjargað honum,“ sagði Sigfús þó ekki treysti hann sér til að dæma um á hvoru sviðinu dr. Róbert væri færari, í hagvísindum eða trompetleik. „En þegar ég flutti heim frá París,“ hélt Sig- fús áfram, „var dr. Róbert yfirmaður efnahags- mála og stjórnaði í raun þjóðfélagsástandinu á Íslandi. Ég skildi hins vegar ekkert í þjóð- félagsástandinu og ákvað því að snúa mér beint til doktorsins. Hann hafði aðsetur í Efnahags- málastofnuninni sem vinstri stjórnin kom á fót en var síðan lögð niður. Þegar ég kem þangað þá situr dr. Róbert á bak við þungt eikarborð, niðursokkinn í pappíra, sem mér sýndust vera nótnablöð, en gátu eins verið línurit eða súlurit. Dr. Róbert bauð mér sæti og opnaði vínskáp á veggnum, sótti koníaksflösku og staup. Síðan hóf hann að útskýra fyrir mér þjóðfélags- ástandið, en á meðan því fór fram var bráð- hugguleg skrifstofustúlka stödd í hlið- arherbergi, önnum kafinn við að máta undirföt sem dr. Róbert hugðist senda vinkonu sinni með pósti.“ „En þjóðfélagsástandið, varstu einhverju nær um það?“ spyr ég. „Já, heldur betur,“ sagði Sigfús, „og hef ekki átt í nokkrum vandræðum með að henda reiður á því allar götur síðan.“ Höfundur er rithöfundur. J ÓNAS er þjóðskáldið okkar. Hann er kominn út í kassa með skýringum og meira að segja flaueli, ekkert mannsbarn á Íslandi kemst hjá því að lesa ljóðin hans og enn getur fjöldi manna sungið mörg þeirra blaðlaust. Líkamsleifar hans líklegar voru meira að segja fluttar frá Kaup- mannahöfn og dröslað um landið uns þær höfn- uðu í einum einmanalegasta kirkjugarði Ís- lands. Í kassaútgáfunni stóru sem er bæði læsileg og fer vel í hillu er nánast allt birt sem kemur manninum við, meira að segja lækna- og krufningarskýrsla með greiningu íslensks læknis á þeim gögnum. Hugsanlega var mark- miðið með því að stinga á nokkrum goðsagna- kýlum, en eins og blaðaskrif fyrir nokkrum ár- um sýndu dugði það ekki til því goðsögnin, hver sem hún var, var orðin að fjölskylduleyndar- máli sem menn vildu ekki hrófla við. Jónas byrjaði líka á nánast öllu sem ný ís- lensk þjóð þurfti á að halda til þess að komast í hóp menningarþjóða nútímans; hann skrifaði fyrstu sonnettuna, fyrstu smásöguna og síðast en ekki síst fyrstu fræðilegu gagnrýnina sem um leið gerði út af við eitthvað í íslenskum brag, nokkuð sem sumum hefur þótt vera eini ljóð- urinn á ráði Jónasar. Auðvitað ætlaði Jónas sér ekki að gera út af við rímnakveðskap í landinu með þessari grein sem auðvitað gerði það ekki heldur. Dagar rímnakveðskapar sem frásagn- arlistar voru þá þegar taldir og raunar ótrúlegt hve lengi hann lifði; hugsanlega vegna þess að menn fluttu hann enn í fásinninu á Íslandi. Goð- sagnir um hinn fyrsta og hinn síðasta eru hins vegar ævinlega lífseigar og má þar kannski finna orsök þess að fyrsta bókmenntagagnrýn- in sem á íslensku var rituð skyldi koma síðustu rímunni fyrir kattarnef. Grein Jónasar er hins vegar athygli verð fyrir aðrar sakir en þær of- antöldu því í henni má greina áhrif og mótsagn- ir sem sýna kannski hvernig hin svokallaða rómantíska stefna var tekin upp hér á landi og einnig hvernig þessi grein bergmálar enn í höfðinu á sumum íslenskum gagnrýnendum og skáldum. Einn af ritstjórum kassaútgáfunnar, Páll Valsson, flutti fyrir nokkrum árum erindi í út- varpi, Um daginn og veginn, muni ég rétt, þar sem hann réðst líka á garðinn þar sem hann var lægstur, ljóðabækur höfunda sem gefa út á eig- in kostnað. Hugmyndin kemur vitanlega beint frá Jónasi þar sem hann segir: „Leirskáldunum á ekki að vera vært; og þeim mun varla verða það úr þessu nema þau fari að taka sér fram og hætti með öllu eða yrki betur.“ Á milli Jónasar og ritstjóra hans um 150 árum seinna er fjöldi greina sem hefur þessa hugsun að leiðarljósi og má kannski finna þarna upphafið að þeirri af- dráttarlausu díalektík sem ríkir milli svokall- aðrar há- og lágmenningar á Íslandi. Nákvæmlega lesin í samhengi evrópskra bókmennta, sem stundum eru nefndar heims- bókmenntir af mikilli hógværð, tekur þessi grein Jónasar á sig fleiri, en þó tengdar, mynd- ir. Segja má að Jónas ráðist á Tristansrímur frá tveimur hliðum; sú fyrri er meira tæknilegs eðl- is og snýr að handverki skáldsins og getu til að orða hugsun sína, Jónas telur upp og flokkar af mikilli nákvæmni hortitti og aðrar málleysur máli sínu til sönnunar. Markmiðið er, eins og hann segir sjálfur hér að ofan, að fá leirskáldin til þess að yrkja betur en ekki reka þau úr rík- inu. Krafan um betrumbætur kemur í gegnum klassískt sigti upplýsingarinnar miklu fremur en rómantísku stefnunnar sem oft hefur verið klínt upp á Jónas fyrir þá sök eina að hann er uppi skömmu fyrir miðbik nítjándu aldar. Aug- ljóst er að Jónas leit á íslenskar fornbókmennt- ir sem klassískar og arf frá forfeðrunum sem leirskáldin væru að spilla með handarbaka- vinnu sinni eins og tilvitnunin til Hórasar í upp- hafi greinarinnar bendir til. Hin hliðin á gagn- rýni hans er vissulega undir merki rómantíkurinnar, á yfirborðinu a.m.k., og snýr að öðrum þætti sem einnig hefur verið þraut- seigur í íslenskri bókmenntaumræðu, sem sé muninum á kveðskap og skáldskap. Nýlegt dæmi um svipaða umræðu má til dæmis sjá í grein eftir Guðberg Bergsson sem nefnist „Skáldsagnahöfundurinn og textinn. „Óttinn“ við textann“ og birtist í Tímariti Máls og menn- ingar fyrir fáum árum. Í báðum tilvikum er grunnkrafan hin sama: Skáldið skal semja með hugviti sínu einu en ekki vera bundið við gamlar sögur. Þessi krafa um frumleika er oft sett und- ir nítjándu öldina og rómantík, en er í raun flóknara fyrirbrigði en kennslubækurnar hafa oft viljað vera láta. Spurningin er kannski fremur hvað hin róm- antíska stefna innihélt og hvort hún sé í algjörri mótsögn við það sem gerðist í Evrópu upplýs- ingarinnar eins og oft hefur verið sett fram. Einfalda myndin er yfirleitt sú að upp úr frönsku byltingunni hafi ung og róttæk skáld viljað slíta sig úr viðjum formfestu og fyrir- mynda frá öðrum og farið að yrkja sig sjálf inn í ódauðleikann með því að samsama líf sitt skáld- skapnum og draumum um frelsi mannsins sem aðeins gátu endað með dauða fyrir aldur fram. Þessi hugmynd er vitanlega alls ekki rétt, klassísk form héldu vel velli alla nítjándu öldina þótt skáldin væru hætt að yrkja langljóð til frá- sagnar að mestu leyti, skáldsagan festi sig í sessi sem epískur miðill. Sögulega myndin er einnig brengluð með frönsku byltingunni sem auðvitað er ekki fyrsta byltingin í Evrópu, Lúther hafði grafið undan katólsku kirkjunni á stórum svæðum og Bretar aflífuðu konung sinn opinberlega upp úr trúarbragðastríði á miðri sautjándu öld. Og upp úr Napóleonsstríðum setti Vínarfundurinn ekki síður mark á þjóð- félagsþróun í Evrópu en byltingartilraunir borgarastéttarinnar. Það gerðist samt einhver meiri háttar breyting í höfðum skáldanna, breyting sem kannski sést best í orðum Byrons um Shakespeare þar sem hann hélt því fram að Shakespeare væri vonlaust skáld þar sem hann hefði aldrei getað fundið upp neinar sögur sjálf- ur. Byron var svo djarfur að halda því fram að sól Shakespeares hlyti að ganga brátt til viðar. Þessi gagnrýni Byrons er mjög keimlík þeirri sem Jónas beitir gegn Sigurði Breiðfjörð (án þess að bera Sigurð saman við Shakespeare, auðvitað) á sviði skáldskaparins, frumleiki er sköpun nýrrar frásagnar, eftiröpun er hnoð. Skáldbróðir Byrons, Alexander Pope, hafði hins vegar tæpum hundrað árum áður gefið verk Shakespeares út og taldi einmitt frum- leika þjóðskáldsins enska vera það sem skildi það frá öðrum minni spámönnum. Hvernig má skýra þennan mun? Er frum- leiki ekki alltaf frumleiki? Það dugir ekki að segja að Pope hafi verið „klassískt“ skáld sem studdist einungis við húmanisma endurreisn- arinnar; húmanisti var hann vissulega, en sá húmanismi gat ekki leitt neitt annað en til sjálfsmyndar skáldsins sem sjálfs síns herra. Shakespeare hafði heldur aldrei verið talinn standa sig vel þegar kom að klassískum reglum skáldskaparlistarinnar, nokkuð sem Hamann og Herder, feður Sturm und Drang í hinni þýskumælandi Evrópu um 1770, töldu vera hans stærsta kost. Og rómantíkerinn Byron var svo „klassískur“ að hann taldi nauðsynlegt að synda sem grísk hetja fyrir ströndum Grikk- lands og skipta sér af frelsisstríði Grikkja, sem hann gerði með blessun hins „klassíska“ Goethes. Byron bar meira að segja beinin í Grikklandi. Ungur auðvitað, en klerkarnir í Westminster Abbey vildu hins vegar ekki hýsa slíkan syndara. Gagnrýni Jónasar minnir raun- ar svolítið í anda á skrif Herders fyrir og um 1770 þar sem hinn ungi nemandi Hamanns og Kants hamast á „klassískum“ gagnrýnendum samtíma síns og hafnar með öllu hinni frönsku klassík í bókmenntum sem þá réð ríkjum á meginlandinu. Leit Herders að „norrænni klassík“ og um leið heppilegum fyrirmyndum fyrir Þjóðverja, sem hann fann í Ossían, Eddu- kvæðum og Shakespeare, lauk með útgáfu und- irstöðurits Sturm und Drang-stefnunnar, Von deutscher Art und Kunst, lítilli bók sem Goethe átti líka litla grein í, bók sem olli straumhvörf- um í bókmenntum þýskumælandi manna. Herder lagði einkum áherslu á tvennt í skrifum sínum: Menn skyldu ekki apa eftir hinum frönsku fyrirmyndum sem þegar höfðu gengið svo langt að móta „klassíkina“ meira en hún mótaði þær og að tilfinningin, eldmóðurinn, væri uppspretta skáldskaparins. Fyrirmynd- irnar nýju voru þannig innblástur upprunninn úr eigin ranni en ekki hinum suðræna og „klassíska“. Ef til vill má sjá hér hina gömlu línu milli mótmælenda og katólskra í Evrópu, línuna milli norðurs og suðurs sem enn er til í kolli flestra Evrópubúa (svo hastarlega að sum- ir Ítalir vilja kljúfa landið þótt allt önnur lína sé). Það var hins vegar tvennt mikilvægt við þennan nýja innblástur: Í fyrsta lagi átti hann upptök sín í „eiginlegri“ arfleifð skáldanna, þeirri germönsku og keltnesku, og í öðru lagi var hann (norrænt) klassískur og þannig jafn- gildur hinum suðræna. Hið nýja var ekki nýtt heldur annað og eigið og í því felst hugmynda- fræðilegur kraftur þessarar hreyfingar. Þessi hugsun birtist hjá Jónasi og undanför- um hans á borð við Jón á Bægisá og Bjarna vit- anlega í vali þeirra á fornnorrænum bragar- háttum fyrir frumyrkingar sínar og þýðingar. En þrátt fyrir alla rómantík og þjóðernisstefnu komst Jónas ekki hjá að leita víðar fanga í klassíkinni og kemur það einkum fram í þýð- ingum hans á formi og efni. Jónas þýddi ljóð eftir ýmis skáld en þó einkum hinn rómantíska Heinrich Heine og þekkja vísast allir Íslend- ingar Álfareiðina af þeim kvæðum. Þessar þýð- ingar eru hins vegar í flestum tilvikum fremur frjálslegar og eltast lítt eða ekki við formið á kvæðunum eða orðalagið, Jónas reynir að skapa ný kvæði með hina útlendu fyrirmynd fyrir framan sig, nokkuð sem nefna mætti frumlegar þýðingar í anda rómantíkurinnar. Það sem Jónas var hins vegar að gera með nýliðun sinni á formi í íslenskri ljóðagerð má nefna þýðingar án frumtexta. Hann tók form sem ekki höfðu verið notuð á íslensku og orti á þeim þannig að þau féllu að tungumálinu, meira að segja með stuðlum og höfuðstöfum eins og hefð var fyrir, hefð sem rímnakveðskapurinn hafði haldið á lífi fram á daga Jónasar. Frá sjón- arhorni heimsbókmennta evrópskra eru þetta auðvitað lítil tíðindi, eini munurinn er sá að eitt tungumálið enn hefur tekið upp kveðskapar- form sem löngu er þekkt. En fyrir þetta tungu- mál er nýtt tjáningarform til orðið og byltingin sem Jónas olli með þessum „þýðingum“ er sam- bærileg við þá sem Klopstock hratt af stað í þýskum bókmenntum með Messíasi, frum- sömdum ljóðabálki að fyrirmynd Miltons þar sem Klopstock „þjóðar“ sexliðaháttinn gríska með því að laga hann að þýskum áherslum. Með viðlíkum samruna forms, merkingar og tungu- máls í mörgum af sínum mikilvægustu og „ís- lenskustu“ ljóðum tókst Jónasi í þýðingum sín- um, frumsömdum og eftirortum, að endurnýja íslenska ljóðagerð, ekki með díalektískri árás til að ganga af rímnakveðskap dauðum. Vera kann að sporgöngumenn Jónasar í gagnrýnenda- og skáldastétt hafi misskilið umbótastefnu hans og sniðgengið rímnakveðskap þess vegna og það á þeirri öld sem það þótti einmitt rómantískt að sækja fyrirmyndina til alþýðulista, allt frá því að Skotinn Macpherson safnaði gelískum rím- um í heimalandi sínu og gaf út undir nafni forn- skáldsins Ossíans, rímur sem í ljóðrænum prósa urðu að heimsbókmenntum (evrópskum) í einni svipan og var Jónas í stórum hópi frægra skálda sem þær þýddu að hluta. Einhverra hluta vegna fengu þær þó á sig hið klassíska form fornyrðislags í hans höndum og má segja að þar með hafi alþýðukveðskapur nágranna- landsins verið kominn í þá góðu skó sem vel hefði mátt setja rímnakveðskapinn íslenska í, hefðu menn áttað sig á því að gullið liggur ekki í hlunkum á yfirborðinu heldur þarf að grafa eft- ir því á réttum stöðum. Jónas byrjaði, en síðan komu menn sem héldu að gullið væri fyrir glópa. JÓNAS OG KLASSÍKIN Höfundur kennir þýðingar og þýðingafræði við Háskóla Íslands. Jónas Hallgrímsson E F T I R G A U TA K R I S T M A N N S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.