Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Side 8

Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Side 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MARS 2001 Sjón er sögu ríkari satt fyrir lognu víkur allt er engu líkara enginn er harðari en mjúkur Hver og einn getur kosið sér sín alda-mót. Þannig hugsar maður þegar all-ar þessar skynsamlegu ræður um lokog ris nýrrar aldar eru fram bornar. Það er hentugt fyrir sjálfhverfan tíðarandann, að kjósa sér sinn eigin fæðingardag og ár, eða daginn sem maðurinn varð eins árs, eins og ein- hverjir kynnu að gera, sem nýtt upphaf. Það er hvort sem er bara ein miðja. Nú getur ákvörð- unin sjálf verið ígildi töfrastafsins og breytt merkingu hlutanna og hagrætt tíma og rými. Sú stund sem hver og einn getur valið sér sann- leikann? Sú stund sem hver og einn getur valið sér sviðsetningu og borið fram sinn eigin leik- þátt. Tjaldið fellur. Klapp, klapp, klapp. Tíminn þegar hugurinn getur flogið sam- stundis um alla veröldina í beinni rafrænni tengingu? Andlega heimstengingin víkur. Tími draumaríkisins er upp runninn, þar sem sjúk- dómum er útrýmt. Tíminn þegar hulunni er svift af genamengi mannsins og tíminn þegar af lífrænum ávöxtum jarðar vex gnótt. Tíminn þegar skilningur á eðli manns og náttúru skap- ar hið fullkomna harmonium. Hið útópíska draumaríki er upp runnið. Þegar ég var ungur í sveit á Höskuldsstöðum í Dalasýslu töluðu hjónin á bænum um þau und- ur að bráðum gætu tölvur stýrt dráttarvélum við heyskapinn og ýmislegt annað fjarstæðu- kennt á þeim tíma sem fregnir bárust um að ut- an í skeytaformi. Það var og, hafa þau kannski sagt. Ég man að ég var eitthvað að velta því fyr- ir mér hvort túnin þyrftu ekki að vera hornrétt- ari og beinni og annað slíkt sem kemur upp í hugann þegar manni verður hugsað til stærð- fræðinnar. Hvort vélarnar væru ekki þannig að þær þyrftu að gera allt í rökréttu samhengi, annars gengi allt úr skorðum, eins og hjá Chaplin, sem þá hafði alls ekki hveðið sér hljóðs í Dalasýslu, enda ekkert bíóhús þar. Kannski voru það hrakfarir Georgs Gírlausa sem ég hugsaði til á því augnablikinu. Hvort að það væru ekki alls konar vandamál sem skytu upp kollinum í þessu hægfara þumlungaþjóðfélagi þegar tölvuframtíðin skylli á. Hvað um Jórunn- arhól sem stóð á miðri stærstu flötinni og mátti aldrei slá eða eiga við? Þarna var sem sagt einhvers konar geometr- ískt byggingarstarf hafið, þar sem ég keyrði Farmalinn hring eftir hring, með múgavél í eft- irdragi, sem rúllaði heyinu upp í lænur eða garða eins og það var kallað, og smám saman þrengdist hringurinn, þar til flötin var heylaus, og í staðinn komnir heyhaugar sem kölluðust galtar. Myndræn athöfn. Ég fékk snemma orð á mig fyrir að hlaða fallega galta. Bændum fannst talsvert til vel hlaðinna galta koma. Seinna þegar Mikka Mús-veröldin var gengin í garð var allt í einu kominn nostalgískur galti eftir Sigurð Guðmundsson inn í gallerí Súm, með skilti sem á stóð „A nice girl and a boy“, við misjafnar undirtektir skoðenda. Ég held að flestir gætu skilið verkið í dag og haft gaman af því, í ljósi sögunnar, en ætli menn hafi ekki að- allega velt því fyrir sér á sínum tíma, hvort galt- inn væri vel eða illa hlaðinn. Hvort Sigurður væri nógu búmannlegur í verki. Ef verkið væri sett upp í dag ætti þá ef til vill að setja heyrúllu í stað galtans inn í sýning- arrýmið? Á sama tíma og ég var að velta fyrir mér vél- menninu, sem ég hugsaði mér eins og flestir lík- an manninum nema hvað það hreyfði sig í rykkjum og eftir hornréttum mötunum, á túninu á Höskuldsstöðum, var Mikka Mús-ver- öldin að festa rætur í menningunni annars stað- ar. Popplistin að ryðjast inn í galleríin og söfnin og ég hélt bara áfram hring eftir hring á Farmalnum. Framhjá liðaðist Laxá í Dölum, þar sem heimsfrægt Hollywood-lið var að kasta fyrir lax. Ég vissi ekkert um það fyrr en löngu seinna. Þarna var heillar aldar bil og bændur höfðu meiri áhyggjur af að veiðimenn lokuðu ekki hliðunum á eftir sér en hverjir þar færu og hvort þeir ættu að biðja þá um eiginhandarárit- un. Ég var á söguslóðum og trúði hverju orði úr Laxdælu og aðalleiksvæði mitt var í laut þeirri sem sagt var að Höskuldur hefði komið óvænt að Melkorku á tali við Ólaf Pá. Hún var þá ekki mállaus eftir allt saman og hún átti sér sína eig- in sögu. Dóttir Mýrkjartans. Úti í á var Bring Crosby með veiðistöngina. Hann var sögulaus í huga mínum þar sem ég sat í höstu sæti Farmalsins. Gamli og nýi heimurinn. Mikki Mús og Búkolla. Kannski var eins og um ald- armun væri að ræða. Kannski ekki. Baudrillard segir að Disney-garðurinn sé hinn eiginlegi raunveruleiki. Ein fyrsta sýning sem ég sé í Reykjavík var Peter Holstein sýning í Gallerí Súm. Þá var ég 16 ára. Ég hugsaði svo sem ekkert um það þá, en kannski voru þessi verk ekki svo fjarlæg Bú- kollu, en þessa kú þurfti ekki að mjólka. Engar flautir, enginn rjómi eða undanrenna. Það var einhvern veginn auðvelt að skilja þessi verk og mér líkaði þau vel. Það var gott að þurfa ekki að sulla á sig júgurfeitinni. Ég held að ég hafi skynjað að myndverk þyrfti ekki að gefa af sér veraldlega afurð. Að þessu framansögðu má sjá að það er ekki svo víst að þessi umtöluðu aldamót hafi skipt sköpum. Það eru stöðugar tímaeiningar í loft- inu, og tímaeiningarnar tengjast og riðla landa- mærunum á ný. Nokkrir flugeldar þjóta með hvin og eldglæringum upp í loftið, og svo er komin ný öld. Á himinhvelfingunni birtast aftur sömu stjörnur og voru þar fyrir púðureldana og fyrir umbreytinguna yfir í nýja öld. Alls konar margfeldisbreytingar á vísinda- sviðinu og við stöndum enn gapandi yfir hvers- lags náttúruundrum, sem eru afhjúpuð á rann- sóknarstofunni, og til verða enn meiri undur yfir einhverju nýju og enn ómögulegu. Eldflaug lendir á fjarlægu smástirni sem er rétt á stærð við flugvöll. Er það ekki eitthvað fyrir Reykvík- inga að hugsa um? Er ekki hægt að koma fyrir lítilli fylgistjörnu hér yfir og gera þar flugvöll? Þá geta skipuleggjendur sett niður bari og veit- ingahús að vild á svæðið sem þar skapaðist, vegna þess að það er það sem nútíma Íslending- urinn vill, segja þeir. Maður virðist hafa lifað lengi en hefur aðeins lifað örskotsstund. Tíminn virðist vera eins og snjóbolti sem veltur stöðugt hraðar og hraðar og hleður meiri snjó utan á sig og maður hefur stöðugt meiri áhyggjur af að um síðir ráði hann ekki við stærð sína og springi. Á maður samt ekki að vera áhyggjulaus og segja heldur með- an heldur, og rúlla áfram eins og boltinn, og hlaða utan á sig öllu sem manni getur áskotnast á einni ævi? Orðum og titlum. Hverju sem er. Er ekki eðli tímans að nærast á framrás hlut- arins? Hlutgerast í framrás atburðanna? Hver maður leggur til orð í þessa stuttu setningu sem tíminn togar til og frá. Lit í klessuverk verald- arinnar, sem er hægt að sundurgreina í fjar- lægðinni. Það er hægt að fara hratt yfir í landa- mæralausri veröld, slíta og tengja. Klastra saman. Ég hef alltaf hrifist að klastrinu. Þegar tilfallandi hlutum er klastrað saman til að öðlast nýjan tilgang. Finna genamengi hvers lítils af- brigðis. Í listinni þar sem enginn einn sann- leikur er réttur, leiðir hvert afbrigði til nýrrar undrunar og nýrra spurninga. Ef til vill er það sannleikurinn. Við erum stöðugt að finna sann- leikann, en hann endist aðeins augnablik vegna þess að það er kominn annar tími. Ég hitti vin minn mikinn listáhugamann um daginn, hann var viss um sannleikann. Hvers vegna veit ég svona lítið um þennan sannleika? Hann sagði að mikilvægir listfrömuðir í hópi sýningaskipuleggjara aldarinnar (þeirrar tutt- ugustu) væru teljandi á fingrum handarinnar. Hann hefði ekki þurft að telja þá upp, ég vissi hverja hann mundi nefna. Stundum veit maður um meintan sannleika ef maður hefur forsend- urnar fyrir honum. En Steinn Steinarr sagði að það væri vitlaust gefið. Sannleikurinn. Kjarninn sem verður til við rökrétta rann- sókn á óræðum hlut. Aftur. Með endurtekning- unni og rökræðunni verður hún raunveruleg. Goðsögurnar, biblíusögurnar, mannkynssagan og Íslandssagan birtast í táknmáli umhverfis- ins, í lögum og reglu og atferli. Þær verða sann- ar með það í huga. Þar er önnur hlið á mann- legri tilveru. Óljósari, eða hvað, en kannski verð rannsóknar með raunsæu hugarfari. Sköpun þarfnast raunsærrar nálgunar. Hefur maður ekki getað sagt hvað sem er í skjóli þess að vera listamaður? Hér læt ég að minnsta kosti allt flakka. Rökrænt samhengi listasögunnar, sem komið er fyrir í skjóli við hversdagsleikann. Einhvers konar frítími heitir allt sem er utan við það sem við teljum eðlilegt og venjulegt í umhverfinu. Þess vegna er Disney orðinn raun- verulegur. Þegar maður upplifir tíma verðbréfanna veit maður þá hvorum megin þessi frítími er? Hugarfar þar sem sýnin verður raunveruleg. Sjóndeildarhringurinn fyrir framan okkur. Fjarandi fjarlægðin. Fjarandi fortíð. Fjarandi nútíð. Fjarandi framtíð. Það virðist eins og ný öld ætli að reyna að staðsetja nákvæmar þær sundurslitnu myndir sem hafa birst okkur í tímanum sem við köllum nútíma til að sjá hvort þær öðlist annað líf. Eðl- isgreina þær og fá í þær nákvæmara orsaka- samhengi. Kannski er það það sem alltaf hefur verið gert og kannski höfum við alltaf verið viss um að okkar tími hefur verið bestur til að af- hjúpa leyndarmálin. Kannski er undur aldanna fólgið í þeirri vissu að verið sé að finna lykilinn að öllum leyndardómum. Það er spurning hvort draugurinn sé algjörlega horfinn úr fjósdyrun- um. Snjóboltinn snýst ótrúlega hratt T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN HAGRÆÐING Í TÍMA OG RÚMI Morgunblaðið/Kristinn Það virðist eins og ný öld ætli að reyna að staðsetja nákvæmar þær sundurslitnu myndir sem hafa birst okkur í tímanum sem við köllum nútíma, til að sjá hvort þær öðlist annað líf. Höfundur er myndlistarmaður. E F T I R H E L G A Þ O R G I L S F R I Ð J Ó N S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.