Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MARS 2001 11 byggi verk sín ekki á henni. Hvert framhaldið á „List eftir heimspeki og eftir“ verður leiðir framtíðin svo aðeins í ljós, en þó að meirihluti ungra listamanna í dag sé ekki eins miklir harðlínumenn og Kosuth er alltaf ákveðinn hópur sem aðhyllist þá stefnu hans að list eigi að vera einhverskonar rannsókn. Pólitíkin Á áttunda og níunda áratugnum komu fram baráttulistamenn sem að sjálfsögðu höfðu orðið í sinni þjónustu. Þar voru feminisminn og þjóð- félagsádeilan í fararbroddi, og svo tröllreið auð- vitað PC, eða „political correctness“ öllu og gerir kannski enn, mitt í allri naflaskoðuninni sem virðist eiga sér stað um þessar mundir. Hans Haacke var einn þeirra fyrstu sem gagnrýndi harðlega söfn, stórsýningar og fjár- málaheiminn sitt á hvað í verkum sínum. Hann var til dæmis hluti af hóp sem kallaði sig AWC, eða „Art Workers Coalition“ og kröfðust þess til dæmis að Púertó Ríkóbúi væri í öllum stjórnum safna eða sýningarsala sem sýndu list þaðan. Nokkuð var um að baráttuhópar væru myndaðir á þessum tíma, annar hópur var „guerilla girls“, hópur listakvenna sem klæddi sig í górillubúninga og gerði verk í anda kven- réttindabaráttunnar. Hans Haacke gagnrýndi harðlega ýmis söfn og sýningarsali en kaus samt að sýna verk sín einmitt þar, til þess að ná til áhorfenda. Hann sýndi til dæmis rannsóknir sem hann gerði á kaupum og sölum sem fram fóru í myndlistarheiminum. Hann sýndi fram á tengslin milli listarinnar og fjármálaheimsins. Einu verka hans, sem sýndi myndir af öllum byggingum í eigu einnar fjölskyldu á Manhatt- an, var hafnað af Guggenheimsafninu á þeim forsendum að það væri ekki list, og varð það til þess að hætt var við sýninguna í heild. Á vissan hátt fetaði Haacke í fótspor belgíska lista- mannsins Marcel Broodthaers sem einnig gagnrýndi söfn og sýningarsali í verkum sínum. Haacke hefur verið ötull í þessum verkum sín- um og virðist halda broddinum þrátt fyrir mikla velgengni. Tvær eru þær listakonur sem svo þekktar eru fyrir verk sín með texta og feminískan boð- skap sinn að það væri að bera í bakkafullan lækinn að fjalla mikið um þær hér. Þær Barbara Kruger og Jenny Holzer notuðu allar leiðir til að koma verkum sínum á framfæri og urðu heimsfrægar á níunda áratugnum. Kruger var öllu harðari í pólitíkinni, Holzer var kannski ljóðrænni og ekki alltaf eins bein- skeytt. Setningar Holzer birtust á ljósaskiltum og voru prentaðar á boli, báðar reyndu þær á þessum tíma mjög að koma verkum sínum á framfæri utan hefðbundinna sýningarsala. Það má segja það sama um þessa pólitísku bar- áttumenn og stóran hluta hugmyndalistamann- anna, að þeir notuðu orðin sem vopn í baráttu sinni, til að koma upplýsingum, áróðri eða skilaboðum á framfæri, tungumálið er ekki efniviður verka þeirra sem slíkt. Graffiti-list naut líka hylli á níunda áratugnum, og þar sam- einuðust oft orð og myndir í slagorðum ýmissa hópa. Bækur, ljóð, byggingar Eftir að orðin urðu sjálfsagður hluti af mynd- listinni hafa svo margir fengist við tungumálið í list sinni að ógerningur er annað en að velja eftir smekk. Hér segi ég aðeins frá þremur mönnum sem eru mjög ólíkir innbyrðis, en verk þeirra eru aðeins brotabrot af þeirri fjölbreytni sem er í boði. Allen Ruppersberg er Ameríkani, fæddur 1944, og kannski ekki mikill byltingarsinni en hann hefur notað hið skrifaða orð og bók- menntir á óvenjulegan og frumlegan hátt í myndlist sinni. Í byrjun áttunda áratugarins varð hann þekktur fyrir verk sitt Aĺs Cafe, sem var í raun veitingahús. Það leit út eins og ekta gamalt og gott amerískt veitingahús, köflóttir dúkar, póstkort á veggjum, allt var gamalkunn- ugt nema matseðillinn. Þar var boðið upp á til dæmis „ristað brauð með laufum“eða „lítinn skammt af furukönglum og smáköku“. Fallegar gengilbeinur þjónuðu til borðs og hann var sjálfur „kokkur“ og setti saman það sem um var beðið. Ruppersberg hafði áhuga á hinum daglegu venjum og hvernig þær móta líf okkar. Á sama tíma var hann kannski að gera grín að landslagslist sem var að ganga sér til húðar um svipað leyti. Fljótlega fékk hann áhuga á menn- ingarsögunni á bak við hina hversdagslegu hluti og hefur haldið þeim áhuga æ síðan. Hann notaði einnig ljósmyndir, oft „fundnar“ myndir, af hversdagslegum fyrirbærum og gaf út bæk- ur með slíkum myndum. Hann hóf að gera verk sem byggðust upp á eins konar frásögn, þó í upphafi væri hún í myndum. Eitt verka hans heitir „Við varðeldinn“. Þá raðaði hann litlum stólum í hring og setti ýmsa hluti á hvern stól, ugluvæng, trjágrein og fleira, eins og til að gefa í skyn óttablandna barnasögu. Ruppersberg kom til Hollywood sem ómótaður ungur maður og þessi borg kvikmyndaiðnaðarins, goðsagna og drauma var mikill áhrifavaldur í lífi hans. Hann hélt áfram að gera ýmiss konar ljós- myndaverk og í þrjá mánuði setti hann upp hótel með sjö herbergjum. Þar var hvert her- bergi tileinkað ákveðinni kvikmyndastjörnu. Árið 1973 og 7́4 skrifaði Ruppersberg upp tvær bækur, – Walden og Myndin af Dorian Grey. Hann segir að hann hafi verið að kenna sjálfum sér að skrifa. Hver sér, hver les og hver skrif- ar? spyr hann, og síðan spyr hann hver sé þá höfundur verksins. Áratug síðar gerði Sherrie Levine svipuð verk þegar hún tók ljósmyndir af ljósmyndum þekktra ljósmyndara og setti fram sem eigin verk. Ruppersberg skrifaði líka sjálf- ur bók á þessum tíma, „Kveðja frá Los Angel- es“, það var glæpasaga. En textinn var aðeins þrjú textabrot á þremur síðum hér og hvar í bókinni, hinar voru auðar. Eftir því sem á leið fór hann að rannsaka í auknum mæli hvernig tungumál almennings og fjölmiðla breytist og þróast og það hvernig sög- ur birtast í daglega lífinu. Hann fjallaði líka um dauða og sorg og um mismun þess hvernig ein- staklingurinn upplifir atburði sögunnar og hvernig þeir birtast í fjölmiðlum. Hann fór líka að kynna sér stríð. Árið 1993 gerði hann verk í Hollandi sem heitir „Siste Viator“ eða „Nem staðar, ferðalangur“. Þar minnist hann orust- unnar við Arnhem sem kostaði átta þúsund manns lífið árið 1944. Verkið fólst í því að hann lét endurútgefa tuttugu vinsælar bækur frá þessum tíma, fimm efstu á vinsældalistunum í Hollandi, Þýskalandi, Bretlandi og Póllandi. Hann vildi skapa tengsl á milli persónulegrar og opinberrar minningar. Hann er þeirrar skoðunar að hermennirnir sem lásu bækurnar hafi hver og einn myndað sín tengsl við þær, að minningar þeirra um þessar bækur hafi verið hluti af þeim minningum sem þeir tóku með sér þegar þeir dóu. Bækurnar voru sýndar í lok- uðum verkamannaskúr af þeirri gerð sem not- aðir eru í Hollandi. Þeim var raðað í gluggana, ásamt fleiri hlutum sem minntu á stríðið, til dæmis kvikmyndaplakati sem auglýsti myndina „A Bridge Too Far“, sem gerð var 1977 og fjallaði um orustuna við Arnhem. Bækurnar voru líka seldar í bókabúðum. 1997 gerði Ruppersberg verk í tengslum við stóra sýningu í Munster í Þýskalandi. Hann blandaði saman opinberum og persónulegum frásögnum, bókmenntasögu og sögu þjóðfélags- ins, hlutum, ímyndun, leikhúsi, lestri og skrift- um í verkinu „Það besta úr öllum heimum“. Ruppersberg notaði aðalsöguhetju Voltaire í bókinni Birtingi sem skrifuð var 1759, og ímyndaði sér að hann hefði snúið aftur til heimalands síns eftir 238 ára fjarveru. Í útgáfu Ruppersberg ákveður Candide að opna ferða- skrifstofu, kallar hana „Það besta úr öllum heimum“, og skipuleggur ferðir um Munster. Ruppersberg lét prenta bók, „Ferðahandbók“; en í henni voru sögur fólks í borginni, fólks sem tók þátt í verkinu og sagði sína persónulegu sögu, sögu veitingahúsa sem búið var að leggja niður og fleira. Skoðunarferðin sem boðið var upp á í tengslum við sýninguna lá svo um þess- ar persónulegu söguslóðir. Ferðaskrifstofu- þemað hefur verið vinsælt hjá listamönnum á síðasta áratug eða svo. Listamenn hafa sett upp ferðaskrifstofur sem seldu raunverulegar ferð- ir, til dæmis á listamessunni í Köln fyrir nokkr- um árum. Sýn Ruppersberg nær þó lengra en svo og verk hans fjalla á sérstæðan hátt um einstaklinginn, tungumálið og bókmenntirnar og hvaða máli þau skipta í lífi okkar. Ulrich Meister Ulrich Meister er annar listamaður sem unn- ið hefur með tungumálið á persónulegan hátt. Hann er fæddur í Þýskalandi 1947 og var, eins og fleiri, nemandi hjá Beuys í Dusseldorf. Eftir námið var hann heimavinnandi húsfaðir í nokk- ur ár og þekktur kokkur. Síðan komst hann í sviðsljósið. Meðal verka hans eru litlar einfald- ar skrifaðar myndir, af hversdagslegum hlut- um. Þessi verk eru tvískipt, hlutur og texti á blaði, hlið við hlið. Textinn á blaðinu lýsir hlutn- um og er til dæmis svona; en eftirfarandi textar eru teknir úr bókinni „Ulrich Meister“, 1992. (um gamlan plastpoka, innsk. þýð.) 17. Tómur, skinn hans afmyndað af hrukkum, krumpaður og rifinn, hékk hann þarna, og átti ekki einu sinni sjálfan sig að vini. (um brauðpoka) 4. Með því að halda þeim saman og sveigja sig að útlínum þeirra, hélt pokinn sig – þrátt fyrir nafnið og ótal misfellur þess – í bakgrunni brauðsneiðanna. Jafnvel þegar hann trónaði sem hæst, var það til að heiðra innihaldið. (um svamp) 3. Breiddin var háð hæðinni. Hæðin var afleiðing breiddarinnar. Dýptin átti eiginleika sína þeim báðum að þakka. Frá þeim spratt lögun hlutarins. Ulrich Meister heldur sig við hið örsmáa og hversdagslega, en hann endurskapar hlutinn í orðum og verk hans eru talandi dæmi um mis- munandi eiginleika myndar (eða hlutar) og orða. Það sem hann segir getur hann aðeins sagt í orðum, en orðin þurfa líka á myndinni (eða hlutunum) að halda, til eins konar sam- anburðar. Orðin veita engar upplýsingar, það gerir hluturinn. Hér umskapa orðin heiminn, þó á smáum skala sé. Siah Armajani Bandarísk/íranski listamaðurinn Siah Armaj- ani (1939) vinnur á hinum enda skalans og nálg- un hans á tungumálinu er gerólík. Hann er kallaður myndhöggvari en verk hans liggja ein- hversstaðar milli arkitektúrs og hönnunar með nokkurs konar gestaherbergi fyrir ljóðlist. Meðal verka hans eru verkin „Orðabók bygg- ingar“, þar sem hann gerir módel, eða út- færslur í fullri stærð af hlutum bygginga, horni, glugga, stiga eða álíka. Hann hefur gert mikið af verkum fyrir almenningsrými í Banda- ríkjunum aðallega og er líklega þekktastur fyr- ir ýmiss konar brýr. Hann hannaði til dæmis brú sem notuð var á Ólympíuleikunum í Atl- anta. Hann leggur gjarnan áherslu á að skapa rými sem býður upp á frið, hvíldarstaði. Verk hans eru oftar en ekki tileinkuð ákveðnum per- sónum, eins „Lestrarherbergi Saccho og Vanz- etti“, „Síðasta herbergi Noam Chomsky“, og fleiri. Ljóð fylgja oftar en ekki þessum verkum hans, eru þá til dæmis greipt í brúarhandrið eða bækur eru til reiðu í „lestrarherbergjum“. Hann virðist vilja mjög einlæglega bæta borg- arumhverfið og að list hans sé nýtt í þágu al- mennings og það er honum mikilvægt að verk hans virki eins og þau eiga að gera. Hann flutti frá Íran til Bandaríkjanna á fullorðinsárum og er ákafur demókrati. Meðfylgjandi mynd sýnir eins konar innsetningu í garði, bekki og veggi, þarna er hægt að setjast niður með hádeg- ismatinn sinn, eða grípa í bók. Og er það ekki hlutverk listarinnar, – að vera opið rými, þar sem tími gefst til umhugsunar? „Myndlist er ekki leikur með liti og form“ Ekki má gleyma okkur sjálfum, en margir ís- lenskir listamenn notuðu orð í verkum sínum á sjöunda og áttunda áratugnum. Sigurður Guð- mundsson bæði skrifaði ljóð og setti fram kenn- ingar árið 1969, þar sem hann segir meðal ann- ars að myndlist sé ekki leikur með liti og form. Hann skrifaði einnig „fundin“ ljóð, þar sem hann notaði til dæmis umgengnisreglur hót- elgesta varðandi handklæðanotkun, leiðbein- ingar í lyftu og fleira. Hann notaði einnig orð í myndverkum á sjöunda áratugnum, en notkun hans á möguleikum tungumálsins er einstak- lega skemmtileg í verkinu „Gangstétt, gata“, sem sést hér, þar sem hann setur kommu milli gangstéttar og götu. Í seinni verkum hans hverfa orðin og orðlaus ljóð taka við, byggð á óvæntum samsetningum hluta, og efnismeðferð listamannsins. Nú á síðustu árum er Sigurður svo tekinn til við skriftir eins og flestir vita, en sennilega flokkar hann bækur sínar ekki undir myndlist, eða hvað? Sá íslenski myndlistarmaður sem hvað mark- vissast hefur notað tungumálið í verkum sínum er líklega Birgir Andrésson, en hann hefur til dæmis sýnt verk sem sýna stutta kafla úr Ís- lendingasögunum, stuttar mannlýsingar og einnig sýnt texta sem lýsa íslenskri náttúru. Annar listamaður hefur gert fallegt verk um ís- lenska náttúru með hjálp íslenskrar tungu, en það er hollenski listamaðurinn Douwe Jan Bakker, sem tók ljósmyndaröð af landslagsfyr- irbærum eins og laut, hól, hæð, fjalli, dal, og svo framvegis og sýndi myndirnar með nöfn- unum undir. Fleiri íslenskir listamenn hafa auðvitað unnið með texta á einn eða annan hátt, eins og til dæmis Hulda Hákonardóttir en hún hefur gert skemmtileg verk sem sameina texta og mynd svo hvorugt getur án hins verið. Þor- valdur Þorsteinsson hefur einnig unnið með tungumálið í verkum sínum og margir hafa bæði fengist við myndlist og skrifað án þess að þetta tvennt skarist að ráði. Má þá nefna til dæmis Dag Sigurðarson, Harald Jónsson og Hallgrím Helgason, þó allir séu þeir auðvitað mjög ólíkir innbyrðis. Eins og sjá má af þessum ólíku listamönnum, sem aðeins eru brotabrot af því sem í boði er, eru orðin og tungumálið löngu viðurkenndur hluti af myndlist í dag, – það sama má í raun segja um marga aðra miðla, – kvikmyndir, uppákomur ýmislegar og svo framvegis, mynd- listin er löngu búin að viðurkenna allar þessar „aðrar“ greinar og gera þær að sínum. Hún er orðin eins fjölbreytt og mennirnir eru margir. Enski listamaðurinn Douglas Gordon hefur gert verk sem er nafnalisti, sem skrifaður er á vegg sýningarsalarins. Nöfnin eru öll þau nöfn sem hann man eftir í það og það skiptið, nöfn sem hann þekkir, nöfn vina og kunningja, fjöl- skyldumeðlima, listamanna og frægs fólks, nöfn úr mannkynssögunni, einfaldlega öll nöfn sem hann man. Listinn er breytilegur eftir því hvað hann man, verkið er ekki alltaf alveg eins. Ég ætla nú að stela þessari hugmynd og bæta við nafnalista yfir nokkra þekkta nútímalistamenn sem nota orðin og tungumálið í list sinni en ekki komust að hér, svo áhugasamir geti kynnt sér þá nánar: John Baldessari, Robert Barry, Victor Burgin, Bruce Nauman, Ed Ruscha, Thomas Locher, Sophie Calle, Hanna Darbov- en, Jean le Gac, Christian Boltanski, Jonathan Borofsky, Q.S. Serafijn, Jochen Gerz, On Kaw- ara, Ben, Ilya Kabakov, Richard Prince, David Wojnarowicz, Tim Rollins og K.O.S., Dan Graham, Rodney Graham, Jean-Michel Bas- quiat, Peter Fend, Ian Hamilton Finlay, Sue Williams, og fleiri og fleiri... Höfundur er myndlistarmaður og rithöfundur. Siah Armajani, innsetning í almenningsgarði. Sigurður Guðmundsson, Gangstétt, gata, 1973. Salt + sykur..., Lawrence Weiner, 1987. Marian Goodman Gallery, New York.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.