Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. MAÍ 2001 5 Álftafirði á Snæfellsnesi sem mun hafa verið náfrændi hans. Á öðru skipi voru Bjarni Grím- ólfsson, breiðfirskur að ætt, og Þórhallur Gamlason, austfirskur maður. Á hinu þriðja skipinu voru Þorvarður nokkur og kona hans Freydís, dóttir Eiríks rauða, einnig Þorvaldur sonur Eiríks og Þórhallur sem kallaður var veiðimaður. Lítum á fyrra landabréfið sem fylgir hér með. Rekjum slóð þeirra eftir strikunum á kort- inu. Fyrst sigla þau til Vestribyggðar og þaðan til Bjarneyja (Skálholtsbók) eða Bjarneyjar (Hauksbók). Áður var nafnið haft í eintölu eftir Hauksbók og talið að um væri að ræða ey þá sem nú kallast Diskó. En fleirtalan í Skálholts- bók þykir nú álitlegri. Páll Bergþórsson telur „vel ... hugsanlegt“ að átt sé við nokkrar stórar eyjar „í firðinum suður af Holsteinsborg“. Þetta er nokkru sunnar en Diskó og þar er einmitt styst yfir Davissundið vestur til Baffinslands. Eftir tveggja daga siglingu frá Bjarneyjum komu þeir Karlsefni til Hellulands, og er því fyrr lýst. Þetta hefur verið hin mikla ey Baff- insland. „Melrakkar voru þar margir,“ segir sagan, og mun það ekki ólíklegt. „Þá sigldu þeir norðanveður tvö dægur, og var þá land fyrir þeim og var á skógur mikill og dýr mörg. Ey lá í landsuður undan landinu, og fundu þeir þar bjarndýr og kölluðu Bjarney, en landið kölluðu þeir Markland þar er skógurinn <var>.“ Öllum fræðimönnum ber saman um að þarna hafi þeir komið að ströndu Labradors, það sé sama sem Markland („Skógland“). Helgi Ing- stad, sem vandlega hefur kannað strendur Labradors, hyggur að nafnið Markland hafi verið gefið ströndinni sunnan við Hamiltonvog (Hamilton Inlet). Þar gengur í sæ fram Punt- svínshöfði (Cape Porcupine). Suður og norður frá höfða þessum eru flatar strendur, ljósar og skógi vaxnar, svo sem 50 kílómetrar á lengd. Ágreiningur er um það hvaða ey Bjarney hafi verið. Matthías Þórðarson o.fl. hafa rennt aug- um til Fagureyjar (á ensku Belle Isle), en gall- inn á henni er sá að hún er of skammt frá Ný- fundnalandi miðað við framhald sögunnar. Þó telur Páll Bergþórsson að Karlsefni hafi siglt enn lengra með ströndu meginlandsins, allt inn á Sankti Lárensflóa, og telur hann að Bjarney hafi verið sú ey er nú nefnist Anticosti. Það fær enn síður staðist ef Markland hefur verið norð- ur við Puntsvínshöfða. En mér þykir liggja beint við að skilja söguna svo sem Bjarney hafi verið úti fyrir ströndu Marklands þar sem þau Karlsefni voru þá kom- in. Þarna eru nokkrar eyjar, smáar og stórar, sem menn geta valið úr. Mér líst girnileg ey sú sem nefnd er Huntingdoney (Huntingdon Is- land). Hún er á stærð við Fagurey og liggur syðst úti fyrir hinum ljósu ströndum Mark- lands. Síðan heldur sagan áfram að lýsa för þeirra (Skálholtsbók): „Þá er liðin voru tvö dægur sjá þeir land, og þeir sigldu undir landið. Þar var nes er þeir komu að. Þeir beittu með landinu og létu landið á stjórnborða. Þar voru öræfi og strandir langar og sandar. Fara þeir á bátum til lands og fundu kjöl af skipi og kölluðu þar Kjalarnes. Þeir gáfu og nafn ströndunum og kölluðu Furðustrandir því að langt var með að sigla.“ Þegar siglt er suður með ströndu Labradors og land verður fyrir stafni, þá getur tæpast ver- ið um neitt að ræða annað en Nýfundnaland. Menn hljóta beinlínis að rekast á það. Þetta skildi Helge Ingstad, því leitaði hann norrænna rústa á norðurodda landsins – og fann þær. Fundur kjalarins og nafngift nessins er dæmigerð alþýðuskýring, og er hitt raunar lík- legra að þetta sé náttúrunafn dregið af lögun nessins. Þessi nyrsti tangi Nýfundnalands er að vísu skilinn frá landinu með þröngu sundi og nefnist því Quirponey (Quirpon Island) nú á dögum; en sundið er mjög þröngt og sést ekki utan af sjó, og því telja þeir Karlsefni að um nes sé að ræða. – Ég hef aðeins séð Quirpon af landi að sunnan, en hæð liggur eftir því endilöngu, og mundi vel fallið að nefna það Kjalarnes. En þeir Karlsefni „beittu með landinu og létu landið á stjórnborða“, segir sagan, það er að segja þeir sigla austan við landið – sem síðar reynist vera Vínland eftir landkostum að dæma. „Þar voru öræfi og strandir langar ...“ Vafalaust virðist að þarna hafi þeir siglt með- fram austurströndum Norðurness (Northern Peninsula) sem svo nefnist nú. Strendur þessar eru ákaflega eyðilegar, svo mjög að ekki hefur verið lagður bílfær vegur eftir þeim enn þann dag í dag. Og þær eru í sannleika furðulega langar; frá norðurodda Kjalarness inn í botn Hvítafjarðar (White Bay) eru um 250 kílómetr- ar. Hér á eftir er Skálholtsbók fylgt nema tekið sé fram að farið sé eftir Hauksbók. „Þá gerðist vogskorið landið ... Þeir lögðu skipunum inn á fjörð einn. Þar var ey ein úti fyrir, og voru þar straumar miklir um eyna; þeir kölluðu hana Straumsey. Fugl var þar svo margur að trautt mátti fæti niður koma í milli eggjanna. Þeir héldu inn með firðinum og köll- uðu hann Straumsfjörð og báru farminn af skipunum og bjuggust þar um ... Fjöll voru þar, og fagurt var þar um að litast.“ Það stendur heima að Nýfundnaland gerist vogskorið þegar Furðuströndum sleppir. En hvar var Straumsfjörður? Eftir könnunarferðir mínar er niðurstaða mín sú að þrír firðir séu lík- legastir: (1) Hvítafjörður (White Bay). Fyrsti fjörður sem við tekur þegar sleppir Furðuströndum. Þar eru eyjar af ýmsum stærðum; þar eru straumar miklir í hinum djúpa firði, og í góðu skyggni sér til Langafjallgarðs (Long Range Mountains) sem liggur langs eftir Norðurnesi. (2) Hallsfjörður (Halls Bay). Þar eru eyjar í fjarðarkjafti og brattar hæðir sem kalla mætti fjöll umbergis fjörðinn. (3) Dáðafjörður (Bay of Exploits). Þetta er mikill fjörður og girnilegur til búsetu, enda er þar á vorum dögum einna fjölmennast mannlíf um þessar slóðir. Straumar eru miklir, ekki skortir þá, og eyjar hér og þar, en falla ekki til- takanlega vel við lýsingu sögunnar. Allir þessir firðir hafa nú verið skoðaðir nokkuð vel, bæði af landi og sjó og úr lofti, og verða ýmsir staðir síðar teknir til nánari rann- sóknar. Í Straumsfirði hafði Karlsefni aðal- bækistöð sína á Vínlandi. En hinn fyrsti vetur var harður, „en ekki fyrir unnið, og gerðist illt til matarins, og tókust af veiðarnar“. Þeir Karlsefni björguðu fé sínu með því að reka það út í eyna, og með Guðs miskunn „gaf þeim út að róa, og skorti þá eigi birgðir“. Um vorið vill Karlsefni „fara suður fyrir land [þ.e. suður með landi] og fyrir austan, og þykir land því meira sem suður er meir, og þykir hon- um ráðlegra að kanna hvorttveggja. ... Þeir fóru lengi og til þess er þeir komu að á þeirri er féll af landi ofan og í vatn og svo til sjávar. Eyrar voru þar miklar úti fyrir árós- inum, og mátti eigi komast inn í ána nema að háflæðum. Sigldu þeir Karlsefni þá til áróssins og kölluðu í Hópi landið“. Í fyrsta rannsóknarleiðangri mínum 1997 leitaði ég að Hópi og þóttist ganga beint að því á austurströndu landsins, inn af firði þeim er Ferskvatnsfjörð- ur nefnist (Freshwater Bay), en hann gengur aftur inn af hinum víðfeðma Fagraflóa (Bonavista Bay). Hóp væri það sem nú nefnist Gambóvatn eða Gambótjörn (Gambo Pond). Vatn þetta er allt á lengdina, svo sem 30 kílómetrar, og renna í það nokkrar ár eða læk- ir, en til sævar allmikil á yfir grynningar. Umhverfi er mjög skógi vaxið, fagurt og frjósam- legt. Eiríkssaga gerir og mikið úr hinum góðu landkostum í Hópi, og er hætt við að það sé eitthvað orðum aukið: „Þar fundu þeir sjálfsána hveitiakra þar sem lægðir voru, en vínvið- ur allt þar sem holta kenndi. Hver lækur var þar fullur af fiskum. ... Þar var mikill fjöldi dýra á skógi með öllu móti.“ Landkostir góðir, en ófriður við skrælingja Í Hópi gerðu þeir Karlsefni búðir sínar og dvöldust næsta vetur. „Þar kom alls engi snjár,“ segir sagan, „og allur fénaður gekk þar úti sjálfala.“ Menn kunna að undrast þann mikla mun á veðri sem er fyrsta veturinn í Straumsfirði og annan veturinn í Hópi. En heimamenn á Nýfundnalandi, bæði í L’Anse aux Meadows og í Gambó, hafa tjáð mér að þar séu miklar sveiflur í veðurfari; séu sumir vetur frostharðir, en sumir svo mildir að „lítt réni grös“. Þessum mikla mun valda að sjálfsögðu breytilegir haf- straumar og vindar. Ef hinn kaldi Labradorstraumur víkur vitund frá og vindar eru suð- rænir, gerast vetur furðulega mildir. Um vorið komu skrælingjar til Hóps á húðkeipum „svo margir sem kolum væri sáð“. Í fyrstu voru skipti þeirra við Karlsefni friðsamleg, en síðar sló í bardaga, og hafði Karls- efni sigur vegna hreystilegrar framgöngu Freydísar Eiríks- dóttur. „Þeir þóttust nú sjá, þótt þar væri landskostir góðir, að þar mundi jafnan ófriður og ótti á liggja af þeim er fyrir bjuggu,“ segir sagan. Bjuggust þeir því brott og héldu aftur norður til Straumsfjarðar, „og voru þar fyrir alls gnóttir þess er þeir þurftu að hafa. – Það er sumra manna sögn að þau Bjarni [Grímólfsson] og Guð- ríður hafi þar eftir verið og tíutigir manna með þeim, en þeir Karlsefni og Snorri [Þorbrands- son] hafi suður farið og fjórir tigir manna með þeim og hafi eigi lengur verið í Hópi en vart tvo mánuði og hafi sama sumar aftur komið.“ Sýni- lega hefur sagnamenn greint á um dvöl Karls- efnis í Hópi. En miklir atburðir sem gerast í Hópi og frásögn af skálum sem „voru sumir ... nær meginlandinu, en sumir nær vatninu“, bendir til að þeir hafi haft þar veturvist. Einn leiðangursmanna var Þórhallur veiði- maður, forn í skapi og „hafði lítt við trú bland- ast síðan hún kom á Grænland“. Hann þóttist illa svikinn af gæðum hins nýja lands – „kom-at vín á grön mína“, kvað hann í vísu einni – og hlaut að drekka vatn, „krjúpa að keldu“. Þegar Karlsefni sigldi suður með landi hélt Þórhallur við níunda mann í aðra átt, hann vill „fara norð- ur um Furðustrandir og fyrir Kjalarnes og leita svo Vínlands“ (hins eina sanna). Lýsingin á för hans á eins og annað harla vel við Nýfundna- land: „Síðan sigldu þeir norður fyrir Furðu- strandir og Kjalarnes og vildu beita vestur fyr- ir. Þá kom móti þeim vestanveður, og rak þá upp á Írlandi ...“ Og sagan heldur áfram (texti Hauksbókar): „Karlsefni fór þá á einu skipi að leita Þórhalls veiðimanns, en annað liðið var eftir, og fóru þeir norður fyrir Kjalarnes, og ber þá fyrir vestan fram, og var landið á bakborða þeim. Þar voru þá eyðimerkur einar allt að sjá fyrir þeim og nær hvergi rjóður í. Og er þeir höfðu lengi farið fellur á af landi ofan úr austri og í vestur. Þeir lögðu inn í árósinn og lágu við hinn syðra bakk- ann.“ Hér er enn rétt sem dregið sé upp líkan af Nýfundnalandi. Karlsefni fer eftir Þórhalli norður með hinum löngu Furðuströndum, norður fyrir Kjalarnes – nyrsta odda landsins – og síðan (suður) „fyrir vestan fram, og var land- ið á bakborða þeim“. Eina land annað á þessum slóðum sem unnt væri að fara norður fyrir og síðan suður með að vestan væri Nýja Skotland (Nova Scotia) ásamt með Bretoneyju. Á þeim slóðum þykist Páll Bergþórsson einmitt finna Kjalarnes og Furðu- strandir (sjá kort hans í Vínlandsgátunni, bls. 61). En ef Kjalarnes hefur verið sama sem Cape North á Bretoneyju þá ber að skilja söguna svo að þeir Karlsefni hafi siglt suður með eynni að vestan, en ekki, eins og Páll telur, „vestur með suðurströnd Lárensflóa ... og síðan allt norður fyrir svonefndan Gaspéskaga en eftir það beygt svo langt til suðvesturs að á féll úr austri“ (Vín- landsgátan 80). Þetta getur ekki átt við lýsingu sögunnar. Annar hængur á tilgátu Páls er sá að austurströnd Nýja Skotlands er alls ekki svipuð Furðuströndum Eiríkssögu; þar eru ekki „öræfi og strandir langar og sandar“. Orðið öræfi merkir ekki „eyðilegt eða lítt byggilegt land ... vegna samfelldra skóga“, eins og Páll Bergþórsson telur (Vínl.g. s. 59), heldur eyði- lega og hafnlausa strönd svo sem réttilega er þýtt í orðabók Guðbrands Vigfússonar („an open, harbourless coastland“). Þessa merkingu sanna tilvísanir Guðbrands í fornritin. Og slíkt landslag er einmitt að finna á austurströndu Norðurness á Nýfundnalandi eins og fyrr er lýst. Þorvaldur Eiríksson var með Karlsefni í þessari för, og þarna á vesturströndu landsins varð hann fyrir örvarskoti innfæðings (sem kallaður er „einfætingur“ í sögunni) og bíður bana af. – Í Grænlendingasögu deyr Þorvaldur einnig af örvarskoti skrælingja, en aðstæður eru aðrar: þá stýrir hann leiðangri og hefur fundið fagran stað þar sem hann hugðist reisa bæ sinn. Dæmigerð tilbrigði munnmælasagna eins og víða í sögunum tveim! Eftir dauða Þorvalds heldur Karlsefni aftur til Straumsfjarðar og dvelst þar hinn þriðja vet- ur. „Gengu menn þá mjög í sveitir, og varð þeim til um konur, og vildu þeir er ókvæntir voru sækja til í hendur þeim sem kvæntir voru, og stóð af því hin mesta óró,“ segir Eiríkssaga. Um vorið héldu þau brott alfari frá Vínlandi. Liggur beinast við að skilja söguna svo sem ástæðan hafi verið kvenmannsleysi leiðangursmanna og deila um þær fáu konur sem með voru í för; en ófriður skrælingja hefur vafalaust valdið miklu, þótt þeirra sé raunar ekki getið í Straumsfirði. Frá Vínlandi héldu þeir Karlsefni fyrst norð- ur til Marklands og þaðan til Grænlands og voru með Eiríki rauða um veturinn. „Annað sumar eftir fór Karlsefni til Íslands og Guðríður með honum og fór heim í Reynines,“ segir Ei- ríkssaga, sem lýkst síðan með ættartölu bisk- upanna þriggja eins og fyrr getur. Það má virðast kynlegt að þeir Karlsefni skuli ekki koma við í skálunum í L’Anse aux Meadows á för sinni norður fyrir Kjalarnes og suður með Vínlandi að vestan. Aðeins virðist geta verið um tvennt að ræða: (1) Þeir hafa ekki vitað af skálunum og því siglt framhjá þeim, eða (2) rústirnar í L’Anse aux Meadows eru ekki frá för Leifs, heldur frá einhverjum síðari Vín- landsferðum. Í niðurlagi Grænlendingasögu er vitnað til Karlsefnis sem heimildarmanns að sögunni. Karlsefni og Guðríður hafa verið upphafsmenn þeirra munnmælasagna sem höfundar beggja hinna rituðu íslensku sagna studdust við. En eftir að þau hjónin eru horfin heim til Íslands kunna þau ekki meira að segja frá Vínlands- ferðum. Þó má vel vera að Grænlendingar hinir fornu hafi haldið áfram að sigla til Vínlands enn um hríð, jafnvel enn lengra suður til landa held- ur en Þorfinnur og Guðríður. Og þá má vera að þeir hafi reist vetrarbúðirnar í L’Anse aux Meadows. Þó er ljóst að búðir þessar hafa ekki verið lengi nýttar, því að þar eru sorphaugar aðeins óverulegir. Landnámið á Vínlandi var frá upphafi dæmt til dauða. Vínland var í órafjarlægð frá Græn- landi, og enn lengra frá Noregi þar sem skipin voru smíðuð. Skipakostur Grænlendinga þvarr, og landið sjálft einangraðist gersamlega frá öðrum löndum. Við árið 1121, rúmri öld eftir ferðir Leifs og Þorfinns, er þess getið í fornum íslenskum ann- álum að Eiríkur upsi Grænlandsbiskup hafi far- ið að leita Vínlands. Þá hefur Vínlandsferðum verið löngu lokið og landið týnt. Engin vitn- eskja er um það hvernig för Eiríks biskups lyktaði, og hann er sjálfur úr sögunni. En glöggvar minjar Vínlandsferða fundu Helgi og Anna Stina Ingstad á norðurenda Ný- fundnalands. Og við nútímamenn, sem ráðum yfir örskreiðum farkostum og fullkominni tækni til fornleifarannsókna, erum skyldir til að halda uppi merki Eiríks biskups og reyna eftir megni að finna fleiri minjar um Vínland hið góða. Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar. Vínlandsferð Þorfinns karlsefnis og Guðríðar. Yfirlitskortið sýn- ir ferð Karlsefnis frá Snæfellsnesi til Grænlands, síðan ferð þeirra hjóna til Vínlands, þaðan aftur til Grænlands og loks heim til Skagafjarðar þar sem þau reisa bú sitt. Innfellda kortið sýnir Vínland (Nýfundnaland) með þeim örnefnum sem Karls- efni og menn hans gáfu. Staðirnir virðast vafalausir nema ef til vill Straumsfjörður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.