Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. JÚNÍ 2001 5 Finnst þér þá eins og alþjóðahyggjan hafi náð yfirhöndinni þrátt fyrir umrót og upp- reisnaranda þinnar kynslóðar? „Já, enda fer þróunin ekkert eftir því hvað fólki er kennt, ekki einu sinni í háskólum. Þótt fólk komi hámenntað út úr skólakerfinu, með fínar og miklar hugmyndir, þá virðast allir falla í þá gryfju að laga sig að kerfinu á nokkr- um mánuðum.“ En ef litið er til sjötta áratugarins er ljóst að uppgjörið við hefðina kom ekki síst fram í myndlist. Fólk fór að nota aðra aðferðafræði og vinna verk sín í aðra miðla. Þú gerðir t.d. til- raunir með vélarhluta, brúður og ýmislegt dót þar sem samruni hins manngerða og hins mennska er áberandi. Má þó ekki rekja þessa tilhneigingu alveg til upphafs tuttugustu ald- arinnar, til listamanna á borð við Marcel Du- champ og fleiri, – er þetta ekki bara uppgjör aldarinnar sem heildar við innreið tækninnar? „Jú, ég held að það sé einmitt málið,“ svarar Erró. „Enda hefur tækniöldin breytt svo ótrú- lega mörgu. Lífið hefur orðið lausara í reip- unum og alþýðlegra að ýmsu leyti, sem mér finnst vera mikilvægt skref í rétta átt.“ Málverkið að hverfa og annað að taka við Finnst þér þá enginn angi samtímalista skera sig úr um þessar mundir, ef til vill sem afleiðing af þessari þróun? „Maður verður auðvitað var við að það er ýmislegt að gerast í listum. Málverkið er t.d. að hverfa og vídeóið að taka yfir ásamt ljósmynd- um og fleiru,“ svarar Erró. „Stuðningurinn við málverkið er bara ekki lengur fyrir hendi. Sjálfur reyni ég að fylgjast með unga fólkinu þótt ég viti ekki hvort það hjálpar mér í því sem ég er að fást við. Ég finn samt að það er nauðsynlegt fyrir mig. Núna vinn ég t.d. mikið með tölvur og þess háttar tækni til að fá ný sjónarhorn í verkin mín. Það hefur einnig verið gaman fyrir mig að vinna með efni eins og ker- amikið, en þau verk eru framleidd í Portúgal þótt ég fylgi vinnslunni auðvitað mjög vel eftir. Annars er það ekkert nýtt að listamenn noti aðstoðarmenn – ef Rodin hefði gert allar sínar höggmyndir sjálfur hefði hann þurft að lifa í sex hundruð ár!“ En af hverju heldur þú að málverkið sé að hverfa? „Af því að það hefur hreint ekkert gerst í málverkinu frá sextándu og sautjándu öld,“ svarar Erró hlæjandi, „þetta er bara sama efn- ið, sami striginn, sömu litirnir og sama tæknin. Ég er þess vegna alltaf að reyna að koma því á framfæri að mín eigin tækni eigi eitthvað skylt við íslensku handritin,“ heldur hann áfram og hlær enn, „að þau séu eins og myndskreyting- arnar, með svona svartri útlínu og lituðum flöt- um. Mér finnst þær standa mjög nærri vissum myndum eftir mig. Auðvitað segi ég þetta í og með í gamni, en ég held þessu samt fram.“ En er þetta ekki alveg viðeigandi samlíking, þar sem verkin þín hafa verið skilgreind sem „frásagnarmálverk“ – alveg í anda handrit- anna? „Mikið rétt,“ segir Erró og það er greinilegt að honum er skemmt yfir þessu tali, sem ef til vill er gott dæmi um það hvernig hann forðast að taka sjálfan sig of alvarlega. En þótt þessi frásagnarmálverk eigi sér auðvitað rætur í hefðinni þá voru efnistökin hjá þér og þeim sem unnu í svipuðum anda mjög nýstárleg. Þú fórst fljótt að vinna með tutt- ugustu aldar goðsagnir, poppmenningu og pólitískar andstæður. Þannig nýttir þú þinn miðil á gagnrýninn máta sem ef til vill hafði ekki sést áður? „Sjáðu til, nú ert þú einmitt að lýsa því sem ég ætti að segja frá,“ svarar Erró kíminn og kúvendir þar með samtalinu. „Þú veist hvernig þetta er með listamenn, við erum lokaðir inni á vinnustofunni og við tölum ekki við neinn. Ég hitti stundum fólk á kvöldin í París, en það er allt og sumt. Mitt fag er þannig að þegar ég lýk við málverkið er vinnunni lokið og ég hef ekk- ert meira að segja. Í morgun vorum við Eirík- ur Þorláksson, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur, að tala við einhvern á Kjarvals- stöðum og ég bað hann bara að taka yfir. Sem hann og gerði – miklu betur en ég. Því þetta er hans fag. Svo nú getur þú bara snúið því sem þú segir sjálf yfir á mig og ég skal kvitta fyrir,“ segir Erró og hlær enn. Galdurinn felst í listinni sjálfri en ekki í orðræðu um hana „En þótt það sé erfitt að tala um þetta allt saman,“ útskýrir hann hreinskilnislega, „þá er staðreyndin sú að þegar ég vinn koma upp í huga mér alls konar flugur sem ég skrifa niður á blokk hjá mér. Á svona fimm ára fresti set ég það saman svo úr því verður lítill texti. Í stað- inn fyrir að tala við blaðamenn og aðra læt ég þá fá þennan texta. Ég er með einn texta núna í tilefni af opnun safnsins, sem verður í sýning- arskránni. Þú gætir notað hann sem svör við spurningum þínum og það myndi eflaust falla alveg rétt saman.“ Þarna hefur Erró tekist að læða inn sann- leikanum um listina á sinn hógværa hátt; því fyrir honum felst galdurinn að sjálfsögðu í sjálfri listinni en ekki í orðræðu um það. „Það að mála er aðferð til að reyna að komast að merkingu ráðvillts heims“ segir hann í þessum texta, sem ber fyrirsögnina „Ósamfelld frá- sögn, trúleg ef ekki sönn“. Og nokkru seinna víkur hann að þeim svörum sem hann finnur og segir þau „fara eftir aðstæðum og því hver er að hlusta hverju sinni“. Þó nú sé ljóst að Erró er löngu búinn að vinna sjálfur allt efnið í þetta viðtal, lætur hann á engu bera og heldur áfram að svara af um- burðarlyndi spurningum um vinnu sína við málverkið sem hefur verið eins og rauður þráð- ur í lífi hans, þrátt fyrir að hann haldi því fram að það sé á undanhaldi. „Ég er enn að mála og sé fram á að hafa nóg að gera í framtíðinni,“ segir hann, „því það eru margar málverkasyrpur í uppsiglingu. Nýja syrpan, sem heitir „e-mail Breakfast“ er tilbú- in, en hún verður sýnd í París í október. Svo koma „Amazon-konurnar“ í kjölfarið, svo það er nóg að gera. Mér hentar mjög vel að vinna í svona syrpum því þá get ég skipt um tækni og myndir, sem veitir mér visst frelsi. Það gæðir vinnuna lífi, sem er nauðsynlegt þar sem ég er oft á vinnustofunni í tíu til tólf tíma á dag – þótt dagurinn líði eins og tíu mínútur.“ Í tuttugu ár að safna efni í nýju myndirnar Erró hefur lengi notað efni úr teiknimynda- sögum í myndverk sín og hann segir það móta vinnuferlið. „Það tekur mig oft mörg ár að safna efni í myndirnar, ég hef t.d. verið í tutt- ugu ár að safna efninu í þessar stóru, nýju myndir sem nú eru til sýnis hér. Tæknin hefur breyst mikið á þessum árum og teikningarnar sem ég er að vinna með sömuleiðis, því nýir teiknarar koma stöðugt til sögunnar. Þó get ég t.d. ekki notað það efni sem er framleitt núna. Í Bandaríkjunum seljast um 200.000 hefti af teiknimyndabókum á hverjum degi og nú er farið að lita teikningarnar með tölvum.“ Það má þá halda því fram að þú stundir, eins og svo margir myndlistarmenn og rithöfundar af þinni kynslóð, einhvers konar endurvinnslu á hugmyndum úr menningu okkar, eins og t.d. Warhol og John Baldessari sem var hér um daginn? „Já, einmitt, það er alveg rétt. Annars sá ég sýninguna hans Baldessari og hún var mjög góð. Hann tilheyrir þó yngri kynslóð og sú heimsmynd sem hann dregur fram í sinni list er einfaldari en sú sem við í höfum verið að vinna með í frásagnarmálverkinu. Okkar verk eru mun flóknari, án þess þó að við höfum lagt fram sameiginlegt „manifesto“ af nokkru tagi, við kærðum okkur aldrei um það. Tengslin á milli okkar mynduðust einungis þannig að við vorum sýndir saman, en þessi hreyfing hófst í París á sama tíma og poppið. Ég verð þó að taka fram að „nýju realistarnir“, karlar á borð við Arman, César og Spoerri, unnu að popplist löngu áður en Bandaríkjamenn byrjuðu að láta til sín taka á því sviði. Það sama má segja um Englendinga sem voru fljótir að átta sig; Paol- ozzi var að búa til poppklippimyndir strax 1945 og Hamilton sömuleiðis.“ Í Bandaríkjunum ríkti mikil hugmyndaauðgi og frelsi „Það sem gerði Bandaríkin þó svo aðlaðandi að mínu mati, var hve allt var frjálst á þessum tíma. Þar ríkti miklu betri stemmning en í Evr- ópu auk þess sem þar var meira fjör. Allir voru í góðu skapi, partí á hverju kvöldi, maður fann ekki fyrir leiðinlegri afbrýðisemi auk þess sem enginn reyndi að halda uppi neinum kenning- um. Í Evrópu var alltaf verið að vinna þessar litlu myndir, en í Bandaríkjunum var enginn hræddur við risastór myndverk. Ameríkutím- inn var því góður fyrir mig og ég dvaldi þar í marga mánuði á ári frá 1962–70. Þar ríkti svo mikil hugmyndaauðgi – allt flaug,“ segir Erró. Má kannski rekja hömluleysi þeirra til þess að þeir voru ekki eins undir hælnum á hefðinni og Evrópubúar? „Já,“ segir Erró og hlær, „of mikil menning hefur áreiðanlega haldið Evrópu niðri.“ En fólst þá ekki ákveðið frelsi í því fyrir þig að koma héðan þar sem var engin hefð? „Ég lenti nú í alls konar akademíum inni á milli þar sem ég þurfti að teikna og mála nakt- ar konur og appelsínur. Svo þurfti ég líka að búa til gifsmyndir í grískum anda í mörg, mörg ár,“ svarar hann brosandi. „Ég veit ekki hvort ég græddi neitt á þessu, en ég kynntist þó mörgu fólki í þessum skólum sem hafði áhrif á mig. Þó er ég ekki frá því að mósaíkið hafi hjálpað mér mest. En í raun hefur minn ferill gengið vel og tíminn hefur flogið áfram. Ég held þó að það eigi aldrei aftur eftir að koma annað tímabil eins og þetta sem ég upplifði; tónlistin, Bítlarnir, hipparnir og allt sem fylgdi í kjölfarið. Á tíu, tólf árum varð skyndilega allt svo lifandi og ég óttast að það gerist ekki aftur. Núna er t.d. enginn munur á flokkum til vinstri og hægri það eru allir í miðjunni,“ segir Erró, og það er ekki laust við að það votti fyrir eft- irsjá í röddinni. „Annars hef ég ekki hugmynd um hvað listamenn eiga eftir að fást við í fram- tíðinni eða hvort það verður einhver heimspeki úr því. Það verður greitt úr því öllu seinna, ætli það taki ekki fimmtíu ár!“ Aldrei verið öfgamaður Nú var farið að líða að lokum þess tíma sem okkur var ætlaður til samtalsins og þótt það hafi tekið óvænta stefnu um stund hafa þessi stuttu kynni afhjúpað litríkan og gefandi per- sónuleika sem þó lætur afar lítið yfir sér. Í samræmi við það er Erró fljótur að svara neit- andi þegar hann er að lokum spurður að því hvort hann telji sig hafa rutt brautina fyrir aðra íslenska listamenn. „Rétt á eftir mér kom fram mjög sterk kynslóð listamanna, Súmm- ararnir og það sem þá gerðist hér á landi var stórmerkilegt. Það var eins og hálfgert krafta- verk; féll alveg inn í Flúxus-hreyfinguna og fleira sem var að gerast annars staðar. Ég hef þó alla tíð reynt að fylgjast með því sem er á seyði á Íslandi, utan frá, ég vil ekki stinga nef- inu í það,“ segir Erró, og minnir blaðamann glettnislega á að koma því til skila í viðtalinu að hann hafi „aldrei verið neinn öfgamaður.“ Sem eru líklega orð að sönnu því eins og fram kem- ur í fyrrnefndum texta hans, er hann sér full- komlega meðvitandi um afstæði tilverunnar og hætturnar samfara algildum sannindum: Hann reiknar með að öll svör við tilraunum hans til að ráða í merkingu ráðvillts heims „væru næstum sönn, en ekkert gæti verið full- komlega satt. Né hinn endanlegi sannleikur.“ fbi@mbl.is Erró hóf vinnu við verkið „Georges Grosz“ (220x500) árið 1999 og hefur verið að leggja síðustu hönd á það allt fram á þennan dag. „Þær sögur sem maður segir eru of langar til að fara með upphátt. Þegar ég mála, þá dettur mér aldrei í hug að ég ætti að leggja verk mín á einhvern fyrirfram ákveðinn mælikvarða eða formúlu, eða beygja þau undir einhverja kreddu.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.