Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Side 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. JÚNÍ 2001
A
LÞÝÐULIST hefur ef til
vill neikvæðan hljóm; er
slíkt föndur ekki einskis
virði, eitthvað sem fólk
gerir sér til gamans og læt-
ur sér ekki koma í hug að
geti verið list? Rétt er það,
að margir góðir alþýðu-
listamenn hafa ekki sjálfir haft háar hugmynd-
ir um, að þeir ættu slíka sæmd skilið að vera
kallaðir listamenn. Sölvi Helgason dró þó ekki
dul á fullvissu sína, en fyrir það var gert grín
að honum. Á 20. öldinni varð sú breyting á við-
horfi, að farið var að meta verk Sölva og ann-
arra alþýðulistamanna sem fullgild, listræn
verðmæti. Málverk Ísleifs Konráðssonar áttu
sinn þátt í að opna augu manna; einnig ágæt
bók um nokkra íslenzka alþýðulistamenn.
Hreinræktaðir nævistar eru sjaldgæfir, bæði
hér og erlendis, en svo eru þeir nefndir sem
týna ekki niður hinni barnslegu aðferð, sem
blómstrar bezt hjá börnum á aldrinum 6–8 ára.
Ekki eru allir alþýðulistamenn nævistar, en
geta verið góðir samt. Alþýðulist er gjarnan
skipt í fjóra flokka, sem hér segir:
a) Næv list (dregið af naiv), bernsk list, eða
æskulist. Á ensku er einnig talað um Primitive
Art og Innocent Art, þ.e. frumstæða list og
saklausa, hvað sem það þýðir nú. Myndir í
þessum flokki eru algerlega sjálfsprottnar og
án utanaðkomandi áhrifa, oft skrautlegar,
stundum ofhlaðnar en alltaf sjarmerandi.
b) Hin raunverulega alþýðulist, Folk Art á
ensku. Oft er þetta einskonar endurminninga-
list þar sem reynt er að varðveita andblæ hins
liðna, rifja eitthvað upp um horfin vinnubrögð.
Höfundarnir eru venjulega nokkuð við aldur
og hér á Íslandi lýsa þeir gjarnan sjósókn eða
heyskap, eða taka fyrir sagnaminni, lýsa ferða-
lögum með nákvæmum skýringum.
c) Utangarðslist. Þessi tegund alþýðulistar
sprettur upp í borgum, á ensku Art Brut. Höf-
undunum er í mun að koma á framfæri bein-
skeyttum skilaboðum; þeir sýna hörku og
ruddaskap, en eiga líka til viðkvæmnislegri
hliðar, þá með trúarlegum minnum. Þessi
flokkur alþýðulistar ber með sér ósk um at-
hygli og er eiginlega neyðarkall.
d) List af völdum vímu. Þessi grein alþýðu-
listar varð umtöluð á sjöunda og áttunda ára-
tug síðustu aldar. Höfundarnir reyna að túlka
ofskynjanir, litadýrð, alsælu eða hyldýpi þján-
ingar.
Draumurinn látinn rætast
Ekki hefur verið reynt að halda utan um ís-
lenzka alþýðulist fyrr en það gerðist með ein-
staklingsframtaki hjónanna Níelsar Hafstein
myndlistarmanns og Magnhildar Sigurðar-
dóttur geðhjúkrunarfræðings í Safnasafninu á
Svalbarðseyri. Í hinu fámenna, íslenzka lista-
samfélagi hefur Níels Hafstein lengi verið
þekktur sem einn af brautryðjendum nýlistar
á Íslandi og forustumaður árum saman fyrir
Nýlistasafninu við Vatnsstíg í Reykjavík.
En til þess að láta drauminn um Alþýðu-
listasafn rætast fluttu þau hjón norður; keyptu
hús á Svalbarðsströnd, sem verið hafði skóli og
samkomuhús, en venjulega kallað Gamla þing-
húsið. Þetta er svipfallegt hús, byggt árið 1922,
með háu risi og þremur kvistum og blasir við
neðan við þjóðveginn á Svalbarðsströnd. Fyr-
irferðarlítið skilti bendir á safnið þegar nær
kemur húsinu, en ástæða væri til þess að það
sæist betur frá þjóðveginum. Húsið var upp-
gert og í góðu standi þegar þau Níels og Magn-
hildur keyptu það. Sjálf búa þau í húsinu, en
fyrir sýningarhald þurfti að sjálfsögu ýmsu að
breyta.
Margir sperra eyrun þegar þeir heyra þetta
nafn: Safnasafn. Þótt orðið sé gegnsætt vefst
það fyrir fólki að skilja það. Skýringin er sú að
safnið samanstendur af mörgum smásöfnum,
oftast eftir einstaklinga, en einnig því sem ein-
staklingar hafa safnað og má nefna sem dæmi
fágætt brúðusafn, sem Magnhildur Sigurðar-
dóttir á heiðurinn af. Í því eru bæði innlendar
og erlendar brúður. Ég held samt, að nafnið sé
ekki sem bezt og geti staðið þessu safni fyrir
þrifum og að augljósara hefði verið að nefna
það Alþýðulistasafn.
En Safnasafn heitir það og er eitt um það
meðal listasafna á Íslandi að halda til haga sem
flestum tilbrigðum alþýðulistar. Starfsemin
felst í að safna þessum listaverkum og hlutum;
varðveita þá, eiga samskipti við höfundana og
örva þá. En þó ekki séu árin mörg að baki hef-
ur safninu borizt fjöldi gripa frá velunnurum,
sem treystir því að safnið varðveiti þá og sýni.
Í aðalstjórn safnsins eru þau Níels og Magn-
hildur ásamt Ástu Ólafsdóttur myndlistar-
manni í Reykjavík. Stjórninni er heimilt að
taka við listaverkum og munum sem verið hafa
í eigu einstaklinga, dánarbúa, félaga og stofn-
ana og varðveita þá í lengri eða skemmri tíma.
„Sögubjögunin“
Ekki stoðar að sitja sem fastast norður á
Svalbarðsströnd og vona að góð alþýðulist skili
sér sjálfkrafa til safnsins. Stofnendur safnsins
voru farnir að ferðast um landið fyrir 20 árum
og heimsækja listamenn, sem komu sér ekki á
framfæri og voru vonlausir um athygli. Af
ýmsum þess konar listamönnum hefur safnið
keypt verk og sett á sýningar til að vega upp á
móti einstefnunni sem annars ríkir. Níels Haf-
stein segir svo um það í kynningarbæklingi
fyrir Safnasafnið:
Með þessu er verið að legja í púkkið undir
nýritun á listasögu landsins, sögubjöguninni,
með því að safna, varðveita, skrásetja, rann-
saka, skrifa um og kynna verðmæti sem eiga
undir högg að sækja. Þessu starfi hefur hingað
til verið sinnt við erfiðar aðstæður, lengst af án
annars endurgjalds en þess sem gefst af full-
vissunni um rétta hugsjón og leiðsögn smekk-
vísinnar í leit að einlægni fólksins.“
Til þess að varpa skýrara ljósi á alþýðu-
listina setur Safnasafnið upp sýningar á verk-
um eftir skólamenntað listafólk. Þess hefur
einnig orðið vart, að menntaðir listamenn leiti í
auknum mæli í þjóðararfinn; setji verk sín í
nýtt samhengi í tengslum við hugmyndaheim
og handbragð fortíðarinnar, þá með hliðsjón af
alþýðulist.
Með því að vekja athygli á alþýðulist og velja
verk af því tagi á safn er alls ekki verið að
„snobba niðurávið“ eins og stundum er sagt.
Það er ekki verið að upphefja að ástæðulausu
verk manna sem ekki nutu skólamenntunar á
neinn hátt. En það er eftirtektarvert hvað hinn
listræni neisti hefur getað blundað lengi í
sumu fólki án þess að fá örvun af nokkru tagi
og ekki einu sinni tækifæri til þess að koma í
ljós fyrr en að loknu ævistarfi. Þrír íslenzkir al-
þýðulistamenn í fremstu röð, Ísleifur Konráðs-
son, Eggert Magnússon og Sæmundur Valdi-
marsson, fóru ekki að sinna list sinni fyrr en
þeir voru komnir í raðir eldri borgara. Af
þeirra kynslóð var einnig Stefán frá Möðrudal,
en hann mun hafa farið að rækta sinn garð fyrr
á ævinni en hinir. Sama má segja um Samúel í
Selárdal.
Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi í
Grímsnesi er ekki eins þekktur, en verk hans
eru af sömu rót. Hann notaði gjarnan stein-
steypu í verk sín, sem hann málaði síðan, og
mannamyndir hans, sem sjá mátti í garðinum
við hús hans í Gnoðarvogi, voru stundum í
fullri líkamsstærð. Um tíma átti ég heima í
næsta húsi og sá þá, að þetta tiltæki var frem-
ur litið hornauga. Líkt og fleiri alþýðulista-
menn leitaðist Ragnar við að bregða upp
myndum af fólki fortíðarinnar við vinnu sína;
sláttumenn, konur með mjólkur- eða vatnsföt-
ur. Að líkindum hefur þessum verkum Ragn-
ars aldrei verið neinn sómi sýndur fyrr en nú,
að Safnasafnið hefur eignast 12 verk og sett
þau upp. Þar á meðal er sérkennileg trúarleg
mynd: Maður sem krýpur og biðst fyrir, en að
baki hans er stór, svartskeggjaður náungi, eig-
inlega risavaxinn. Af naglaförum á höndum og
blæðandi síðusári má sjá að það er Kristur.
Af góðum alþýðulistamönnum sem hlotnast
hefur frægð á síðari árum er Valdimar Bjarn-
freðsson, sem kallar sig Vapen. Safnasafnið
hefur nú eignast 13 verk eftir hann og einnig
hefur safnið nýlega eignast verk eftir Eggert
Magnússon og allt verður það til sýnis í sumar.
Meðal þess sem sérstök ástæða er að benda
á eru 19 verk, sem safnið hefur eignast eftir
Sigurð Sveinsson. Hann er 96 ára og hugs-
anlega elzti myndlistarmaður landsins, bróðir
Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og fað-
ir Hallsteins myndhöggvara. Sem alþýðulista-
maður er Sigurður sérstæður í þá veru, að
hann vinnur alveg abstrakt, eða óhlutbundið.
Hann notar lituð límbönd, strekkibönd sem
notuð eru á pappakassa og vísast hér á ljós-
mynd af einu þessara verka.
Í Hornstofu Safnasafnsins, sem svo er
nefnd, verður sýning á þessum verkum Sig-
urðar fram til 1. júní. Í Hornstofu verða þar að
auki sérsýningar skólaðra listamanna. Sýning
Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá er næst
á eftir og stendur til 6. júlí. Þar næst til 3. ágúst
verður sýning Margrétar Jónsdóttur á Akur-
eyri: Spiladósir, leir og gangverk. En síðast á
þessu sumri, frá 4. ágúst til 2. september, verð-
ur sýning Arnars Herbertssonar. Hann er einn
af fáum íslenzkum súrrealistum og málar á tré.
Ástæða er til þess að benda listunnendum og
vegfarendum á prýðilegt safn listaverkabóka,
sem Safnasafnið hefur eignast og sett upp.
Safnið er heldur ekki einskorðað við myndlist
eins og hið fágæta brúðusafn er til dæmis um.
Þar á meðal eru einnig haglega gerðir hlutir
svo sem líkan af dagróðrarbáti, sem Hafsteinn
Vilhjálmsson á Akureyri hefur gert eftir
minni, fagurlega útfærð verkfæri sem tengjast
veiðum: Lukt, ljósahlíf, baujuljós, netanálar,
melspíra, krókstjaki, goggur, veiðiljós, sjó-
hraðamælir (logg), vettlingar, blökk, vasahníf-
ar, sökkur og steypumót. Einnig hannyrðir, út-
saumur, nálhús og fleira smálegt af því tagi.
Fjárlaganefnd Alþingis hefur ákveðið að
veita Safnasafninu ríflegan fjárstyrk og er það
fagnaðarefni. Ljóst er að eftir því sem safnið
stækkar vex fjárþörfin. Starfsemi safnsins og
listaverkaeign er nú þegar vaxin húsnæðinu
yfir höfuð og brýnt er að byggja viðbótarhús-
rými til sýninga. Þau Níels og Magnhildur eiga
mikinn heiður skilinn fyrir frumkvæðið, en
þeim þykir nú tími til kominn að geta andað
léttar „frá þreytandi snerru við þá vondu for-
tíðardrauga, fátækt og fordóm, sem enn ríða
röftum“ eins og Níels orðar það.
SAFNASAFNIÐ Á SVALBARÐSSTRÖND
Að frumkvæði hjónanna
Níelsar Hafstein og
Magnhildar Sigurðar-
dóttur er til orðið listasafn
á Svalbarðseyri, sem hýs-
ir alþýðulist. Þar var byrj-
að smátt en á hverju ári
hefur safnið eignast
marga góða gripi, svo nú
er húsnæðið sprungið.
Safnið er við þjóðveginn,
aðeins fáeina km frá Ak-
ureyri og sjálfsagður við-
komustaður á ferðum um
Norðurland í sumar.
Ljósmynd/Gísli Sigurðsson
„Gamla þinghúsið“ á Svalbarðsströnd, sem áður var nefnt svo. Nú er Safnasafnið þar á tveimur
hæðum, en sýningarrýmið er þegar orðið of lítið. Húsið stendur skammt frá þjóðveginum.
Ljósmynd/Magnhildur Sigurðardóttir
Níels Hafstein og Haraldur sonur hans taka á móti og þvo 6 af 12 myndum Ragnars Bjarnasonar
frá Öndverðarnesi.
Ljósmynd/Gísli Sigurðsson
Þrjú málverk í eigu safnsins eftir Valdimar Bjarnfreðsson, Vapen.
E F T I R G Í S L A S I G U R Ð S S O N
Höfundur er blaðamaður.