Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚLÍ 2001 5 tónlistarmanna; þar kynntist t.d. Atli Heimir Sveinsson verkum Bartóks og Schönbergs í fyrsta sinn. Ragnar Björnsson, sem var einn af hljómfræðinemendum Urbancic, sagði síðar að hann hefði virst eiga ótrúlega auðvelt með að „finna leiðina að nemandanum, og í ofaná- lag fékk maður á tilfinninguna að hann hefði ómælda ánægju af að miðla okkur sinni miklu þekkingu“. Þegar Jón Þórarinsson sneri aftur heim að loknu meistarnámi hjá Paul Hinde- mith við Yale-háskóla tók hann við stöðu yf- irkennara í tónfræði í stað Urbancic, og við það fækkaði hljómfræðinemendum Urbancic við skólann til muna. Þótti honum það miður, þar sem hann hafði ávallt lagt mikinn metnað í kennslustörf sín í fræðigreinum. Verkefnin voru engu að síður ærið nóg, eins og rakið verður hér að neðan. Strax við komuna til Íslands gerðist Urban- cic orgelleikari við Kristskirkju í Landakoti, og sinnti því starfi til dauðadags. Hann kom því m.a. til leiðar að nýtt orgel var keypt til kirkjunnar 1950, og eitt verka hans, Krists konungs messa, var sérstaklega samið með at- hafnir í Kristskirkju í huga. Fyrsta stóra verk- efni Urbancic á hljómsveitarpalli eftir komuna til Íslands var að æfa Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt rúmlega 50 manna kór, fyrir hátíðar- tónleika í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá fullveldisviðurkenningu Íslands. Hann hafði ekki nema tvo mánuði til að æfa efnisskránna, sem hann þurfti fyrst að læra sjálfur ásamt tungumálinu sem sungið var á, því á tónleik- unum voru eingöngu flutt verk eftir íslensk tónskáld: Emil Thoroddsen, Pál Ísólfsson, Jón Leifs og Karl O. Runólfsson. Koma Urbancic til höfuðstaðarins vakti strax eftirtekt, og tónlistarmenn höfuðstaðar- ins gerðu sér samstundis ljóst hvílíkur fengur var að Urbancic. Í ritdómi um tónleikana í Morgunblaðinu lét Emil Thoroddsen þess meðal annars getið að íslenska þjóðin hefði verið sérstaklega heppin að fá hingað svo nýtan mann sem dr. Urban- cic, og að mikils mætti af honum vænta. Á óplægðum akri Starf Victors Urbancic sem kórstjóra verð- ur seint ofmetið. Fyrstu áratugi 20. aldarinnar var enginn blandaður kór starfandi á landinu sem staðið gat undir nafni. Stöku sinnum var þó hægt að koma saman þokkalegum sönghóp til að glíma við stærri verkefni, hvort sem var fyrir einskæran stórhug einstakra manna (eins og þegar Páll Ísólfsson stjórnaði þáttum úr Þýsku sálumessunni eftir Brahms í Dóm- kirkjunni 1926), eða vegna merkisviðburða á innlendum vettvangi, t.d. Alþingishátíðarinnar 1930. Að öðru leyti var söngstarf af metn- aðarfyllri gerðinni svo að segja óþekkt, enda litu karlmenn það yfirleitt hornauga að ganga í söngfélög með kvenfólki, og varð því oft að leita ásjár karlakóra á síðustu stundu til að manna karlaraddir í þeim fáu blönduðu kórum sem starfandi voru. Urbancic var einn þeirra kórstjóra sem gerbreyttu viðhorfi landsmanna til blandaðs kórsöngs, enda réðst hann ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Strax árið 1940 stjórnaði hann flutningi á Messíasi Händ- els, og voru Páll Ísólfsson, Árni Kristjánsson, Björn Ólafsson og Heinz Edelstein meðal ein- leikara í hljómsveitinni. Eftir þetta urðu kór- tónleikar undir stjórn Urbancic að árvissum menningarviðburði í höfuðstaðnum. 1941 stjórnaði hann Stabat mater eftir Pergolesi og fjórum köflum úr h-moll messu Bachs, og ári síðar stjórnaði hann Sálumessu Mozarts. Eitt metnaðarfyllsta verkefnið, og kannski einnig það bíræfnasta, tók við árið 1943. Það ár stóð Urbancic fyrir flutningi Jóhannesar- passíunnar (í styttri útgáfu) á fernum tónleik- um í Fríkirkjunni. Upphaflega hafði staðið til að flytja verkið á þýsku, en í stað þess var farin ný leið og ákveðið að fella sálmatexta Hallgríms Péturs- sonar og annarra 17. aldar skálda að tónum Bachs, fyrir utan aríukaflana, sem þeir Jakob Jóh. Smári og Þorsteinn Valdimarsson snör- uðu á íslensku. Nokkuð skiptar skoðanir voru um þessa ákvörðun Urbancic áður en að tón- leikunum kom, en að þeim loknum voru flestir á einu máli um að þarna hefði verið snilld- arlega að málum staðið. Meðal þeirra sem skrifuðu um flutninginn var Jón Þórarinsson: „Það er engri rýrð kastað á Tónlistarfélagið, þá áhugamenn, sem að því standa, né nokkurn annan, þó að fullyrt sé, að það er einum manni aðeins að þakka, að Íslendingum gafst að þessu sinni kostur á að heyra þetta fagra tón- verk í jafn ágætum og sérstaklega jafn ís- lenskum búningi og raun bar vitni. Það vill svo til, að þessi maður er útlendingur, dr. Victor von Urbancic. Þetta er að vísu ekki í fyrsta skipti, sem hann færist mikið í fang, en þó mun þetta grettistakið mest. Hann hefur unnið það vandasama verk, að fella íslensku textana við tóna Bachs, auk þess sem hann stjórnaði flutn- ingi verksins og hafði á hendi allar æfingar með kór, hljómsveit og 12 einsöngvurum, sem flestir voru lítt söngvanir. Mun það erfitt fyrir þá, sem ekki þekkja gerla til, að gera sér grein fyrir því, hver óhemju vinna þetta er og hvílíkt afrek að sigrast á öllum erfiðleikum, sem á því voru, að flutningurinn gæti orðið verkinu sam- boðinn. Það eitt að færa verkið í íslenskan há- tíðarbúning, hefði nægt til þess að gera hlut Urbancic í þessum tónleikum mikinn og veg- legan, ekki síst, þegar þess er gætt, að verkið er unnið af erlendum manni. Urbancic hafði uppi svipaðar ráðagerðir varðandi íslenskun Mattheusarpassíunnar, en entist ekki aldur til að hrinda þeirri ætlun sinni í framkvæmd. Aldrei síðan hefur heilt passíuverk verið flutt á íslensku, þótt á síðari árum hafi stundum tíðkast að syngja a.m.k. hluta sálmalaganna á íslensku og áheyrendur þá hvattir til að taka undir. Árið 1944 var Vic- tor Urbancic veittur riddarakross hinnar ís- lensku fálkaorðu, „fyrir að laga Passíusálma Hallgríms Péturssonar og annan íslenskan 17. aldar kveðskap að Jóhannesarpassíu Bachs“. Ánægjan með kórstarfið undir stjórn Ur- bancic var slík, að árið 1943 var Kór Tónlistar- félagsins formlega stofnaður á heimili Ólafs Þorgrímssonar hrl., sem var einn af „post- ulunum tólf“ sem veittu Tónlistarfélaginu for- stöðu. Kórnum hélt áfram að vaxa fiskur um hrygg, og næstu árin voru m.a. flutt Stabat mater eftir Rossini, óratórían Davíð konungur eftir Arthur Honegger og Júdas Maccabeus eftir Händel, auk þess sem Sálumessa Moz- arts og Jóhannesarpassía Bachs heyrðust báð- ar öðru sinni. Auk þess hélt kórinn í söngför til Kaup- mannahafnar sumarið 1948 og tók þar þátt í norrænu söngmóti. Efnisskrá kórsins var að nokkru leyti sú sama og Alþingishátíðarkórs- ins sem fór á norrænt söngmót í Kaupmanna- höfn 1929, bæði „Sangen i Norden“, sem var kantata samin af fimm norrænum tónskáldum, og Fjallkona Sigfúsar Einarssonar. Þó var kórinn einnig með nýja tónlist á efnisskrá sinni. Á tónleikum sínum 2. júní frumflutti kórinn Requiem eftir Jón Leifs, sem tónskáld- ið hafði samið árið áður til minningar um látna dóttur sína. Vakti verkið strax svo mikla hrifn- ingu að það þurfti að endurtaka sönginn eftir langvinnt lófatak, og dönsk dagblöð nefndu sérstaklega að verk Jóns hefði snert við til- finningum áheyrenda. Auk kórstjórnar- og kennslustarfa var Ur- bancic, sakir menntunar sinnar og reynslu sem óperustjóri á meginlandinu, svo að segja sjálfkjörinn til að stjórna óperettuuppfærslum sem Tónlistarfélagið stóð fyrir í Iðnó. Árið eftir komuna til Íslands stjórnaði hann Meyjarskemmuni við tónlist Schuberts, ári síðar Brosandi landi eftir Lehár, og árið 1941 óperettunni Nitouche eftir Florimund Hervé. Sú uppfærsla naut gífurlegra vinsælda og var sýnd samtals 109 sinnum, þ.á m. í leikferð til Norðurlands þá um sumarið. Hann hélt einnig um tónsprotann á fjölmörgum leiksýningum Leikfélags Reykjavíkur, m.a. við frumflutning Gullna hliðsins 1941, Péturs Gauts 1944, sem og við flutning á íslensku óperettunni „Í álög- um“ við tónlist Sigurðar Þórðarssonar síðar sama ár. Stríð í Þjóðleikhúsinu Á sumardaginn fyrsta 1950 var Þjóðleik- húsið vígt með sýningu á Nýársnótt Indriða Einarssonar. Victor Urbancic stjórnaði tón- listinni, og hélt einnig um sprotann þegar Rigoletto eftir Verdi var færð upp ári síðar. Sú sýning markaði nokkur tímamót í óperusögu Íslands, því hér var um að ræða fyrstu stóru óperuna sem flutt var af íslensk- um söngvurum, utan hlutverk Gildu, sem aust- urríska sópransöngkonan Else Mühl var feng- in til að syngja. Í febrúar 1953 var Urbancic síðan ráðinn kór-og hljómsveitarstjóri Þjóð- leikhússins til 5 mánaða. Guðlaugur Rósin- kranz þjóðleikhússtjóri lýsti því síðar svo í æviminningum sínum: „Eftir hina vel heppn- uðu sýningu á óperunni Rigoletto eftir Verdi, var ég ákveðinn í því að gera allt sem ég gæti til þess að halda áfram söngleikjum [óperum] í Þjóðleikhúsinu. Til þess að tryggja að slíkt gæti orðið var mér ljóst að nauðsynlegt væri að hafa hljómsveitarstjóra mér við hlið sem ég gæti ráðfært mig við og stjórnaði óperusýn- ingum. Sá maður hér á landi, sem ég vissi að mesta reynslu hafði á þessu sviði, var dr. Vikt- or Urbancic. Hann hafði stjórnað hljómsveit- inni í Nýársnóttinni við vígslu Þjóðleikhússins, og á Rigoletto. Auk þess hafði hann stjórnað mörgum stórum hljómsveitarverkum og ora- torium á undanförnum árum fyrir Tónlistar- félagið, stofnað kór Tónlistarfélagsins, sem haldið hafði marga tónleika, meðal annars tek- ið þátt í norrænni tónlistarhátíð í Kaupmanna- höfn, og hlotið fyrir ágæta dóma, og kór hans jafnvel talinn besti kórinn á þeirri tónlistarhá- tíð. Þar að auki þekkti ég hann af því samstarfi sem ég hafði átt við hann, að því að vera ein- staklega lipran, elskulegan og úrræðagóðan.“ Ráðning Urbancic við Þjóðleikhúsið mætti harðri andstöðu Tónlistarfélagsmanna, þeirra sömu og höfðu staðið að komu Urbancic til Ís- lands fimmtán árum fyrr. Í blöðum mátti lesa fyrirsagnir eins og „Styrjöld um hljómsveit- arstjóra Þjóðleikhússins“ og „Tónlistarstríðið í Þjóðleikhúsinu“. Hatrammastar urðu deil- urnar milli þeirra Ragnars Jónssonar í Smára, sem gekk svo langt að líkja ráðningunni við árásir Japana á Pearl Harbor, og Guðlaugs Rósinkranz, sem varði ráðningu Urbancic með ráðum og dáð. Málið allt var nokkuð flókið og því verða ekki gerð nein tæmandi skil hér. Við stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar 1950 hafði verið gert ráð fyrir að Þjóðleikhúsið tæki þátt í kostnaði við rekstur hljómsveitarinnar, en svo varð þó ekki. Tónlistarfélagsmönnum þótti ráðningin vera skref í ranga átt, og óttuðust að öflugur tónlistarflutningur á vegum Þjóðleik- hússins yrði til að draga máttinn úr hinni ný- stofnuðu Sinfóníuhljómsveit, jafnframt því sem hann myndi gera að engu fyrirhugaðan óperuflutning á vegum Sinfóníunnar. Deilan í Þjóðleikhúsinu setti mark sitt á síð- ustu ár Urbancic, þótt hér verði ekki dvalið lengur við leiðindin sem spunnust af ráðningu hans þar. Hins vegar verður ekki hjá því kom- ist að vitna í bréf Urbancic til Ragnars í Smára, dags. 9. maí 1952, þar sem hann lýsir þeim vinnuskilyrðum sem hann mátti búa við á Íslandi lengst framan af: „Ég hef ekki slegið í borðið. Ég trúði því, sem mér var sagt: Að Ís- land væri fátækt land, Tónlistarfélagið fátækt félag, sem hefði ekki ráð á neinum þeim menn- ingarmunaði, sem aðrar þjóðir geta veitt sér. En ég var ákveðinn í að helga íslenzku tónlist- arlífi alla krafta mína, ég mætti þreyttur og lú- inn eftir margar kennslustundir um kvöldið á hljómsveitaræfingar, sætti mig við það að hafa mun færri æfingar en þær, sem mér þóttu óumflýjanlegar, gerði allar raddæfingar að- stoðarlaus, til að spara, ég eyddi mánuðum saman hverju einasta fríkvöldi til þess, að mála og líma íslenzka textann í kórraddir af Jóhannesarpassíunni, skrifaði allar hljóm- sveitarraddir af tveimur Chopin-konsertum, allar raddir af tveimur óperettum sjálfur – og eftir 75. sýningu á „Nitouche“ þurfti ég lög- fræðilega aðstoð vinar okkar Ólafs Þorgríms- sonar, til að knýja fram það ákvæði, að mér skuli borgað a.m.k. sama kaup, sem hver hljómsveitarspilari fékk á kvöldin, en þá var ég búinn að æfa mánuðum saman áður en hljómsveitin tók til starfa.“ Victor Urbancic lést langt fyrir aldur fram á föstudaginn langa 1958, aðeins 54 ára að aldri. Álagið sem fylgt hafði tónlistarstríðinu í Þjóðleikhúsinu hafði vafalaust tekið sinn toll. Á minningartónleik- um um Urbancic í Þjóðleikhúsinu hélt Jón Leifs ræðu fyrir hönd Tónskáldafélags Ís- lands, þar sem hann sagði m.a.: „Segja má, að orsök dauða hans hafi verið ofreynsla vegna örðugleikanna í voru enn lítt þroskaða tón- menntalífi. Góðvild hans og samvizkusemi er kunn. Hann var fús á að hjálpa öllum og takast á hendur svo að segja hvert það hlutverk, sem honum var falið, jafnvel þótt naumast væru tök á að leysa það, og hann reyndi ætíð sitt bezta. Hann var ekki sá eini, sem varð hér á landi að láta sér nægja að skila stundum hlut- verki sínu óloknu við ófullnægjandi aðstæður og undirbúning. Þegar umhverfið gerir of miklar kröfur og maður treður leirinn og leðj- una, án þess að sjá fram á að ná markinu, – þá bilar maðurinn.“ Tónskáldið gleymda Tónsmíðum sínum hélt Urbancic ekki mjög á lofti í lifanda lífi, og ekki hafa þær heldur eignast öfluga málsvara að honum látnum. Það kann því að koma ýmsum á óvart að verkaskrá hans telur vel yfir 40 verk. Flest voru þau samin á árunum 1919–1938, þ.e.a.s. á náms- árum hans og fyrstu starfsárum í Þýskalandi og Austurríki. Helstu verk hans frá námsár- unum eru fjölmargir sönglagaflokkar í síðróm- antískum anda, þar sem víða gætir áhrifa frá Hugo Wolf, helsta sönglagatónskáldi Þjóð- verja á síðustu áratugum 19. aldarinnar. Áhrifa Mahlers gætir einnig víða, m.a. í vali á textum, sem margir eru teknir úr þjóðkvæða- safninu „Des Knaben Wunderhorn“ og þýð- ingum Bethges, „Kínversku flautunni“, þaðan sem Mahler valdi texta sína í Das Lied von der Erde. Þá má einnig nefna sónötur fyrir selló, fiðlu, og píanó, fantasíu fyrir lágfiðlu og píanó, og konsert fyrir hljómsveit. Eftir komuna til Íslands varð tónsmíða- starfið stopulla, enda gáfu tónsmíðar lítið í aðra hönd auk þess sem hér var í mörgu að snúast og lausar stundir til tónsmíða af skorn- um skammti. Helst ber að nefna snjallar út- setningar hans á íslenskum þjóðlögum, útsetn- ingar á lögum úr íslenska handritinu „Melódíu“ fyrir karlakór, Concertino fyrir 3 saxófóna og hljómsveit og Gamanforleik í C- dúr, saminn 1952 og tileinkaður Sinfóníu- hljómsveit Íslands. Íslensku verkin hafa ekki yfir sér sama heildarsvip og þau sem samin voru fyrir komuna hingað, og er slíkt raunar ekki skrýtið því oft liðu mörg ár milli verka. Þó hafa þau mörg yfir sér einhvern léttleika sem ekki var til staðar í eldri verkunum, og má nefna sem dæmi saxófónakonsertinn, þar sem djassáhrif heyrast í bland við gegnsæja ný- klassíska strauma. Þó er verkið ekki allt eins léttúðugt og ætla mætti, því að þriðji kaflinn er fúga af strangara taginu. Af mörgum frambærilegum sönglögum hans þekkjast hér engin. Reyndar söng Sig- ríður Ella Magnúsdóttir eitt laga hans, Ist das bald? (í íslenskri þýðingu Björns Franzsonar) inn á vinsæla einsöngslagaplötu árið 1972, og Rannveig Fríða Bragadóttir og Jónas Ingi- mundarson fluttu sönglagaflokinn Elizabeth op. 8 (við ljóð eftir Hermann Hesse) á Kamm- ertónleikum á Kirkjubæjarklaustri 1997. Hljóðfæratónlistin heyrist enn sjaldnar, og að undanskilinni Fantasíusónötunni í h-moll op. 5, sem Kjartan Ólafsson og Hrefna Eggerts- dóttir léku inn á geisladisk fyrir nokkrum ár- um, má segja að þau séu algjörlega óþekkt. Árið 1996 var þó frumflutt, eftir 40 ára bið, verkið Óður Skálholts fyrir kór, þul og blás- arasveit. Verkið hafði höfundurinn samið fyrir keppni um kantötu til flutnings á Skálholtshá- tíðinni 1956, og hlotið fyrir önnur verðlaun, en verk Páls Ísólfssonar bar sigur úr býtum. Góð- ur rómur var gerður bæði að verkinu sjálfu og flutningi þess, og sagði tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins meðal annars, að Óður Skál- holts hefði fengið „mjög góða fæðingu eftir all- an Þyrnirósar-svefninn“. Helsta ástæðan fyrir því að verk Urbancic heyrast svo sjaldan er vafalaust sú, að líkt og aðrir útlendingar af hans kynslóð sem settust hér að hefur hann aldrei fyllilega verið tekinn í hóp „íslenskra“ tónskálda. Þannig hefur tónlist hans legið óbætt hjá garði meðan önnur verk íslenskra tónskálda frá fyrri hluta 20. aldarinnar eru dregin fram á hátíðarstundum, sum af gæðum, en önnur að öllum líkindum meira af skyldurækni. Vissu- lega voru flest tónverk Urbancic samin á meg- inlandi Evrópu, en það væri engu að síður verðugt viðfangsefni fyrir íslenska tónlistar- menn, og ekki síst fyrir íslenska söngvara, að kynna sér betur tónsmíðar Victors Urbancic. Auk þeirrar ánægju sem hin kunnáttusamlega gerðu verk hans myndu vafalaust færa þeim sem á hlýddu, yrði þannig færður eins konar þakklætisvottur þeim tónlistarmanni sem helgaði Íslandi krafta sína óskipta í tvo ára- tugi, og átti ómældan þátt í að gróðursetja þá sprota íslenskrar tónmenningar sem nú blómstra fagurlegar en nokkru sinni fyrr. Heimildir: Aðalheiður Þorsteinsdóttir: Dr. Victor Urbancic (lokaverkefni frá tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík, 1997). Baldur Pálmason: Lítil ábending (Morgunblaðið, 29. janúar 1997). Bjarki Sveinbjörnsson: Örlítið um Skálholtshátíðina 1956 og dr. Victor Urbancic (Morgunblaðið, 22. nóv- ember 1996). Jón Leifs: Dr. Urbancic minnzt (Morgunblaðið, 27. nóvember 1958). Jón Þórarinsson: Listir – merkur tónlistarviðburður (Helgafell, 4.–6. hefti, 1943) Guðlaugur Rósinkranz: Allt var þetta in- dælt stríð (Reykjavík, 1977) Ragnar Björnsson: Góð fæðing eftir Þyrnirósar-svefn (Morgunblaðið, 26. nóv- ember 1996) Bréf Victors Urbancic til Ragnars Jóns- sonar, dags. 9. maí 1952 (í einkasafni) Victor Urbancic Ljósmynd/Gunnar V. Andrésson Melitta Urbancic Höfundur stundar doktorsnám í tónvísindum við Harvard-háskóla.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.