Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚLÍ 2001 11 skáldsögur. Ein þeirra var Stúlkan í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur. Mikið fjári var það góð bók, tuldra ég við viðmælanda minn á Me- dusu. Hún fjallaði um tvær ólíkar konur, aðra undarlega og úr ræsinu, konu sem stöðugt finn- ur bókmenntagersemar í ruslatunnum, hina sem fæst við brúðugerð og njósnar um þá fyrri vegna þess að hana vantar sál í brúðurnar sín- ar. Bókin er uppfull af skitsófreníu og heldur áfram að ásækja mann eftir að maður hefur lagt hana frá sér. Hún nær að skapa einhverja undarlega og klaustrófóbíska stemmningu sem lætur mann ekki í friði. Önnur bók sem þetta gerði var Zombie eftir Sigfús Bjartmarsson, ljóðabálkur sem allur er í ávarpsformi. Hinn ávarpaði er uppvakningur sem þegir og vill ekki láta drepa sig úr dróma. Öll hugmynda- sagan liggur undir í viðleitninni til að vekja hann. Þótt mikill galdur búi í orðaskipan og framsetningu er verkið alls ófeimið við að vera intellektúelt. Hver kom eiginlega þeirri sögu á kreik, tauta ég á barnum, að Íslendingar væru ekki intellektúel þjóð? Ýmislegt nýtt gerðist á áratugnum. Hall- grímur Helgason gaf út aðra skáldsögu sína, Þetta er allt að koma, árið 1994 og þá þriðju, 101 Reykjavík, 1996. Árið 1997 kemur út Falsk- ur fugl, 1998 Saga af stúlku, 2000 Heimsins heimskasti pabbi, allar eftir Mikael Torfason. Báðir þessir höfundar láta vaða á súðum og gera usla. Báðir eru virkir pistlahöfundar og flinkir að notfæra sér fjölmiðla til að ögra, þeir rífa kjaft og reyta af sér brandara, láta allt flakka og taka áhættu. Án þess að ég vilji spyrða þá um of saman boða Hallgrímur og Mikael hvor um sig nýja tíma í íslenskum bók- menntum. Hallgrímur er höfundur orðaleikja og skopstælinga, stórra örlaga farsakenndra persóna í orðmörgum skáldsögum. Mikael er kraftmikill og gróteskur höfundur sem tekur viðfangsefni sín beint úr samtímanum. Viðtök- ur bóka þessara höfunda hafa verið nokkuð misjafnar, þeir eru til sem finna þeim allt til for- áttu, aðrir hefja þær upp til skýjanna; spurning er hvort þeir hafi náð til nýs lesendahóps. Hall- grímur og Mikael eru dæmigerðir að því leyti að báðir þreifa eftir mörkum þess sem má og má ekki, athuga hversu langt sé hægt að fara. Það lá í loftinu að nú væri hætt að vera hægt að ganga fram af nokkrum manni, hvort sem er með klámi, guðlasti eða lágkúru; mestu smá- borgarar eru öllu vanir úr sjónvarpi og kippa sér ekki upp við neitt, bregðast ekki við með hneykslan heldur þaulreyndu fálæti. Fyrirbær- ið hneyksli hefur breyst og þöggun ef til vill tekið við fyrra hlutverki þess Á sama tíma fer vaxandi áhugi á annarskon- ar reynslu. Tabúum fer semsé fækkandi um leið og áhugi á minnihlutahópum, vex. Líklega er óáhugaverðasta persóna sem finnst á tíunda áratugnum hvítur, karlkyns, gagnkynhneigður Evrópumaður af millistétt, sá hinn sami og ver- ið hafði í aðalhlutverki bókmenntanna lungann úr öldinni og raunar öldunum. Á tíunda ára- tugnum var leitast við að draga fram í dags- ljósið það sem hafði verið hulið. Kvenleg reynsla er áhugaverð, undirmálsfólk, sturlun, aðrir kynþættir, hommar og lesbíur. Kristján Kristjánsson heimspekingur gagn- rýndi þetta hér í Lesbók í frægum greinum á sínum tíma, allan áhugann á minnihlutahópum sem væri á kostnað klassískra bókmennta. Bókmenntafræðingurinn Geir Svansson hefur skrifað merka grein í Skírni um það sem hann kallar „hinsegin fræði“ en þar eru til umfjöll- unar nokkur skáldverk sem fjalla um samkyn- hneigðar ástir. Það má láta sér detta í hug að sú hætta sé fyrir hendi að allar bókmenntir verði lesnar sem dæmisögur um fórnarlömb þjóð- félagsins; hægt er að þvinga uppá fíngerðustu listaverk kenningu um að þau séu „beinskeytt og markviss gagnrýni á fordóma“ einhverra, en ekki kvikur og lifandi texti sem er á sífelldu iði og neitar að láta njörva niður merkingu sína í eitt skipti fyrir öll. Bókmenntir verða þá ekkert einstakt fyrirbæri heldur einsog einhver skoð- anaskipti, umræðuþáttur í sjónvarpi. Fordóm- ar eru vandmeðfarið hugtak. Hinsvegar liggur fyrir að ef eitthvað er hægt að segja með sæmi- legri rænu um bókmenntir á tíunda áratugnum er það að þær leituðust við að birta og kanna annars konar reynslu en þá venjulegustu. Þær tóku til rannsóknar bælda reynslu, líf í felum í þjóðfélaginu. Þetta gera bæði Z eftir Vigdísi Grímsdóttur, Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma eftir Guðberg Bergsson, Englar al- heimsins eftir Einar Má Guðmundsson, Lasta- fans og lausar skrúfur eftir Diddu, Saga af stúlku eftir Mikael Torfason… Hvort þessi verk hafi minnkað fordóma er örðugt að segja til um. 5 Það er inni að sitja einsog fínn maður á bar á meginlandinu og hugsa allt í einu um hrun, horfa á fornfáleg húsin í kring og verða hugsað til sveitaborgarinnar Reykjavíkur, þangað sem förinni er senn heitið, og sjá það skyndilega og skýrt sér fyrir hugskotsjónum að íslensk menn- ing sé merkt hruninu og að fall hennar verði mikið. Þetta orð, hrun, bergmálar í huganum af ægilegum þunga og fylgir því djöfullegur dómsdagsniður í höfðinu. Maður heldur ró sinni og lætur þetta ekki koma sér hið minnsta á óvart, svo margar eru brellurnar sem hug- urinn leikur til að stytta sér stundir, og raunar er hið besta veður, ekki óþægilega heitt, nota- legt að sitja á bar og dveljast um stundarsakir einhversstaðar annarsstaðar einsog lífið sjálft. Er hún ekki líkt og innbyggð í sögu menning- arinnar, hugmyndin um endalok hennar? Tungumál deyja, þjóðmenningar líða undir lok, tjáningarform hrökkva upp af. Vinur minn á barnum Medusu er löngu hættur að hlusta á mig og sjálfsagt farinn að velta því fyrir sér hvernig honum gat dottið í hug að spyrja mig slíkra spurninga sem hann gerði. Það er rætt – fama est – að nú séu efstu dagar; efstu dagar hvers? Ýmislegs – íslenskrar þjóðmenningar og bókarinnar, svo eitthvað sé nefnt. Dagný Kristjánsdóttir tók í grein dæmi af dönskum krítiker sem lýsti því yfir að sér væri alveg sama þótt dönsk menning og tunga liði undir lok. Þetta myndi enginn Íslendingur láta útúr sér um íslenska menningu og tungu, sagði Dagný. Tja… nei fjárinn, ég fer ekki að gera það, hugsa ég. En ég gæti hinsvegar hugsað mér að láta spyrjast til mín segja að mér væri nokk sama um afdrif bókarinnar. Afhverju ætti maður að hafa áhyggjur af henni? Og mig rám- ar í einn af þessum glannalegu fræðimönnum sem ég man ekki hvað heitir en sem hélt því fram að dagar bókarinnar væru senn á enda og að farið hefði fé betra. Við upphaf vega, sagði hann, þegar hið ritaða orð hafði enn ekki farið með sigur af hólmi gátu önnur tjáningarform fullt eins náð þeirri stöðu sem það síðar náði. Myndletur gat orðið ríkjandi tjáningarform. Hljóðið hefði getað öðlast þann sess sem því ber. Galdurinn átti lengi möguleika. Söngurinn, snertingin, lyktin, táknmál handahreyfinga... Það sem kom orðinu til áhrifa var ekki nátt- úruleg hæfni þess til tjáskipta heldur valda- stéttir sem sáu í hendi sé að með rituðu orði væri hægastur vandi að drottna og kúga. Orðið var notað markvisst til að útiloka alla aðra tján- ingarhætti, láta þá virðast ómerkilega, tak- markaða. Prenttæknin styrkti valdhafa svo enn í sessi. Auðvitað færði fræðimaðurinn fyrir þessu menningarsöguleg rök en mér fyrirgefst sú vanræksla því ég sit á bar á meginlandinu. En síðan sneri hann sér (vitaskuld) að netinu sem mun, sagði hann, leysa bókina af hólmi og jafnvel hið ritaða orð að miklu leyti. Þessa eru þegar farin að sjást merki. Það er haldin „vika bókarinnar“, sem segir sína sögu. Það heldur enginn fjársöfnun fyrir þá ríku, viku tölvunnar, dag heilbrigðra. Vika bókarinnar bendir til þess að hún sé á hallanda fæti. Og þetta er ekki áhyggju- heldur fagnaðarefni, segir fræðimað- urinn – mig minnir að nafnið hans byrji á T og að hann sé frá Suður-Ameríku. Annars má heyra víða söng um dásemdir netsins og því er ekki að neita að Íslendingar eru framarlega í tölvutækni og tölvur mjög útbreiddar hér. Þeg- ar í lok tíunda áratugarins sést fjöldi vefstaða, veftímarita og jafnvel vefskáldverk. Skáldsög- ur eru farnar að birtast á netinu, þótt þær nýti sér oftast ekki miðilinn nema sem eftirlíkingu af prentuðum texta. Hvernig endar þetta eig- inlega? Ég veit það ekki. 6 Það er verið að loka barnum og ég er ekki frá því að viðmælandi minn sé farinn. Ég hef rétt lýst því yfir að ekkert sé til sem heiti heims- bókmenntir og til einskis að rembast við að skrifa þannig bækur. Fólk er að hverfa hvert til síns heima en Sigurður Nordal er þarna á sveimi einhversstaðar. „Saga Íslendinga,“ sagði Sigurður Nordal, „getur orðið lítilfjörleg og brosleg, ef hún er skráð með einfeldnislegu grobbi án þess hlutfalla sé gætt,“ sagði Nordal. En er þetta ekki bara ansi hreint blómlegt nýjabrum í bókmenntum á einum áratug, Sig- urður? Ég held það. Ha? Sigurður? Tíundi áratugurinn er liðinn. Ég las fáeinar bækur. Ágætt skáld sagði að lífið væri ann- arsstaðar. Lífið er nánar tiltekið niðurkomið á bar á meginlandinu, bar sem heitir Medusa og þar sit ég í hrókasamræðum við Sigurð Nordal, að ég held, eða einhvern annan, kannski sjálfan mig, líklegast er enginn að hlusta. Hvernig út- skýrir maður tíunda áratuginn í íslenskum bók- menntum og menningu fyrir útlendingi á bar sem heitir Medusa? Spurningin er útí hött en engin leið að koma sér undan henni. Maður gæti sagt: Ísland er lygasaga sem einhver sagði og er of seint að leiðrétta nú eftir að hún er komin á kreik. En nú er búið að loka barnum og öll ljósin eru slökkt. Höfundur er bókmenntafræðingur. MENNTUM OG MENNINGU – 3. HLUTI Hvers vegna og hversu mikið er hægt að létta átak með blökkum? Er til dæmis hægt að lyfta 100 tonnum með annarri hendi? SVAR: Áhaldið sem við köllum blökk, trissu eða skoruhjól er gamalt. Líta má á það sem eins konar vogarstöng. Við notum trissur eink- um á tvo vegu, annaðhvort þannig að ás hennar er fastur eða að hún leikur laus í ramma á bandinu og færist þegar togað er í það. Í fyrra tilvikinu verkar trissan eins og vog- arstöng sem er hengd upp í miðpunkti, við tog- um í hægri endann niður á við og vinstri endinn færist upp. Báðir endarnir færast jafnlangt og kraftarnir eru jafnstórir en stefna þeirra er gagnstæð. Þegar ásinn í trissu er hengdur eða festur upp (mynd 1, vinstri hluti) hegðar trissan sér nákvæmlega eins: Lyftikrafturinn hægra meg- in er jafnstór og togkrafturinn vinstra megin. Við lyftum hlutnum jafnlangt og við togum bandið. Það eina sem breytist í báðum þessum dæmum er stefna kraftsins og það getur vissu- lega skipt máli í ýmsum dæmum. En við getum líka notað vogarstengur eins og járnkarla, hrífusköft eða sköft á mat- skeiðum til að breyta krafti og færslu. Ef hægri endinn á vogarstönginni er fastur, við hengjum hlut í miðpunkt hennar og lyftum vinstri end- anum þurfum við aðeins að beita krafti sem nemur helmingi af þyngd hlutarins en við þurf- um að færa vinstri endann tvöfalt lengri leið en hluturinn fer. Ef við festum nú upp endann á bandi og leggjum bandið um trissu með lóði í gerist ná- kvæmlega það sama þegar við togum í bandið: Við þurfum aðeins að beita hálfum krafti til að lyfta lóðinu en þurfum hins vegar að draga bandið tvöfalt lengri vegalengd en lóðið fer. Ef okkur finnst óþægilegt að toga upp á við getum við til dæmis lagt bandið yfir trissu sem er föst við loftið og togað síðan niður á við (mynd 1, hægri hluti). Við getum tekið eftir því að triss- an og hluturinn hanga í rauninni í tveimur böndum og því er eðlilegt að þyngdin skiptist í tvennt. Ef við ráðum ekki við að lyfta lóðinu með þessu getum við tekið enn eina trissu og fest við þá fyrstu þannig að þær hreyfist saman. Jafn- framt leggjum við bandið yfir aðra trissu sem er föst í loftinu. Með þessu helmingum við kraftinn aftur enda hangir hluturinn nú í fjór- um böndum. Til að lyfta lóði sem er 200 kg þyrftum við þannig aðeins kraft sem svarar 50 kg en myndum toga bandið fjórum sinnum lengra en lóðið færist. Og svona getum við haldið áfram. Þetta er þó varla hagkvæmt ef trissurnar verða mjög margar. Eigin þyngd þeirra og bandsins fer þá að segja til sín og sömuleiðis núningur, meðal annars vegna stífni í bandinu. Ef maður vill „lyfta“ 100 tonnum með ann- arri hendi er líklega best að nota vökvalyftu eða „-tjakk“. Í slíku tæki hreyfum við dælu eða bullu með litlu þverskurðarflatarmáli og þrýst- um þannig vökva undir stóra bullu eða flöt sem færist þá upp á við (mynd 2). Kraftahlutfallið er þá jafnt hlutfallinu milli flatarmálanna. Við get- um til dæmis hugsað okkur að minni bullan sé 5 fersentímetrar í þverskurð en sú stærri 5 fer- metrar. Flatarmálshlutfallið er þá 10.000 og kraftur sem samsvarar 10 kg mundi duga til að lyfta 100 tonnum. Vogarstengur eru skemmtileg einföld tæki sem blasa við allt í kringum okkur. Með þeim er ekki bara hægt að margfalda kraftinn heldur líka margfalda færsluna í staðinn og minnka þá kraftinn, samanber áhald eins og hrífu. Mann- kynið hefur í árþúsundir notað vogarstengur, trissur og hjól á öxli til að létta sér lífið. Hjól á öxli er í rauninni náskylt vogarstönginni og er til dæmis notað í gírum á reiðhjólum og bílum. Í þessum mikilvægu hlutum í tækni nútímans eru menn því enn að nota svipaða tækni og beitt var þegar pýramídarnir í Egyptalandi voru byggðir fyrir næstum fimm þúsund árum. Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði og rit- stjóri Vísindavefjarins. Hvðan kemur nafnið „Innrétting- arnar“ á fyrirtækinu sem starfaði hér á 18. öld? SVAR: Átjándu aldar fyrirtækið sem kallað hefur verið „Innréttingarnar“ rekur upphaf sitt til ársins 1751. Starfsemi þess gekk undir ýms- um nöfnum þegar í upphafi. Það var stofnað af íslensku hlutafélagi sem á íslensku hét „Hið ís- lenska hlutafélag“ og var hið fyrsta sinnar teg- undar sem stofnað var á landinu. Félagið var stofnað af íslenskum embættismönnum á Þing- völlum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn ís- lenskra landshaga. Hálfu ári eftir að félagið var stofnað, í janúar 1752, fékk það stórfelldan fjárstuðning og sér- leyfi konungs til framkvæmda. Þá var heiti þess snarað yfir á dönsku líka, „Det Privileg- erte Islandske Interessentskab. Skammstöf- unin var PII og átti að geta staðið fyrir nafni félagsins bæði á dönsku og latínu. Við þessi þáttaskil efldist félagið mjög að fjármunum og verkefnum. Starfsemin varð fjölþætt, tók til jarðræktartilrauna, brennisteinsvinnslu, ull- arvefsmiðja, litunar, kaðlagerðar, skinnaverk- unar, skipasmíða og útgerðar svo það helsta sé nefnt. Starfsemin fór fram víða um land en mið- stöð framkvæmdanna var í Reykjavík og ná- grenni. Þessar framkvæmdir voru á danskri tungu kallaðar „De Nye Indretninger“, eða „hinar nýju framkvæmdir“. Þaðan kom því heitið „Innréttingarnar“ sem fór að festast við at- hafnir og verkstæði Hins íslenska hlutafélags. Fyrsta áratuginn var flest það sem að ofan er nefnt í fullri starfsemi en eftir 1760 tengdist Innréttingaheitið fyrst og fremst ullarvef- smiðjunum í Aðalstræti en þær störfuðu til árs- ins 1803. Brennisteinsvinnslan hélt einnig velli fram yfir aldamótin 1800, fyrst í Krýsuvík en síðan á Húsavík. Á Íslandi hefur oft verið talað um starfsemi Hins íslenska hlutafélags sem „Innréttingar“ Skúla Magnússonar landfógeta en í dönskum skjölum eru þær fremur nefndar „Hans Maj- estæt Høystsalig Kong Friderich den 5. stif- tede Indretninger. Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur. 100 TONN MEÐ ANNARRI HENDI? Efni frá Vísindavefnum birtist nú í fyrsta skipti í Lesbók og mun framvegis eiga þar fast sæti. Heimasíða Vefjarins er www.visindavefur.hi.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.