Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. OKTÓBER 2001 7 tímanlega áður en síðustu gyðingunum þar var smalað saman og sendir í dauðann. Í tæpt ár skrimtu þau í felum í kjallara húss pólskra hjóna í útjaðri Varsjár. Haustið 1944 sluppu þau úr þeirri ótryggu vist er Rauði herinn sótti fram. Þau hjónin gengu í pólska rauða herinn og fengu fljótlega það hlutverk að sinna ritskoðun á pósti. Í framhaldi af því æxlast málin þannig, að hann er ráðinn til starfa fyrir leyniþjónustu hinnar nýju stjórn- ar hins nýja Póllands og er fyrst sendur til að sinna verkefnum fyrir hana í Berlín, í janúar 1946. Og árið 1947 er ákveðið að hann fari sem diplómat til Lundúna. Frá fæðingu og fram yfir lok síðari heims- styrjaldar bar Reich-Ranicki aðeins nafnið Marcel Reich. Þegar hann réðst til þjónustu fyrir pólska ríkið er það var endurreist 1945 þótti ættarnafn hans ekki vera nógu pólskt – í bókinni getur hann sér þess sjálfur til að hin- um pólsku embættismönnum hafi þótt það minna bæði of mikið á eitthvað þýzkt og á eitt- hvað gyðinglegt. Því fékk hann skilríki sem erindreki Póllands með nafninu Reich- Ranicki, sem hann hefur borið alla tíð upp frá því. Meðal leyniþjónustuverkefna hans í Eng- landi var að senda skýrslur heim til Varsjár um starfsemi útlaga-Pólverja í Bretlandi. Það leið þó ekki á löngu þar til yfirboðarar hans í Varsjá fóru að tapa trausti á honum. Bókmenntaástríða í skugga Stalíns Árið 1949 fóru fram í nokkrum austan- tjaldslöndum réttarhöld yfir fólki sem komm- únistastjórnirnar, leppir Moskvuvaldsins, grunuðu um svik við málstaðinn. Reich- Ranicki fór að óttast um sinn hag, þar sem hann var gjarnan grunaður um „heimsborg- aramennsku“, en það hugtak var notað í fjöl- miðlum í austantjaldslöndunum til að lýsa ein- staklingum sem ekki þóttu nógu trúir flokkslínunni. Reich-hjónin sáu sér til skelf- ingar að andsemízkar hneigðir voru greini- legar í þessum stalinísku réttlínu-ofsóknum. En þau sneru engu að síður til baka til Var- sjár, þótt þau hefðu auðveldlega getað verið eftir í Lundúnum, þar sem þeim hafði enn- fremur fæðzt sonurinn Andrew. Árin fram til flóttans vestur fyrir járntjald 1958 voru hjónunum erfið. Reich-Ranicki var rekinn úr pólska kommúnistaflokknum vegna „hugmyndafræðilegs villuráfs“. Slíkum dómi fylgdi birtingarbann á öll verk hins dæmda, sem eins og hægt er að ímynda sér kom hon- um mjög illa. En merkilegt nokk þá hélt Reich-Ranicki sig við að reyna að hafa það að aðalatvinnu sinni fjalla um þýzkar bókmennt- ir, sem sannarlega var ekki auðvelt í ljósi and- úðarinnar sem ríkti í Póllandi á þessum tíma á öllu því sem þýzkt var og hinna pólitísku rétt- línu-ofsókna sem lýstu sér líka í ritskoðunar- eftirliti með öllu efni sem birtist á prenti eða flutt var í útvarpi. „Það var algengt að Flokk- urinn miðlaði þeim, sem reknir voru úr hon- um, einhverri vinnu – viðleitnin var sú að við- komandi yrðu ekki svarnir fjendur flokksins eða yrðu hungurmorða. Ég var spurður hvað ég kærði mig um að gera. Ég sagði það ósk mína að fá að vinna í bókaforlagi, sem sinnti útgáfu þýzkra bókmennta. Við þetta svar mitt var viðmælanda mínum öllum lokið,“ skrifar Reich-Ranicki um þetta. Hann fékk starf – sem að vísu entist honum ekki lengi – við bókaforlag pólska varnarmálaráðuneytisins, og tókst honum að fá því framgengt að hann fengi að þýða og gefa út austur-þýzkar bækur. Hann fór einnig að skrifa um bækur þýzkra nútímarithöfunda í pólsk bókmenntatímarit og honum gafst líka færi á að sinna um bók- menntaumfjöllun í útvarpi – þó alltaf með rit- skoðunarsverðið hangandi yfir sér. Í gegnum þessi störf hitti hann flesta þá (austur-)þýzku höfunda sem erindi áttu til Póllands og byggði þannig upp tengsl sem síðar áttu eftir að reyn- ast honum nytsöm. Að minnsta kosti tókst honum – þrátt fyrir hinar erfiðu aðstæður – að halda sig við að starfa við helztu ástríðu sína – að fjalla um þýzkar bókmenntir. Eftir að staliníska tímanum lauk og Gom- ulka komst aftur til valda í pólska kommún- istaflokknum 1956 slaknaði á ritskoðuninni, sem gerði Reich-Ranicki loks kleift að koma höndum yfir skáldsögur vestur-þýzkra höf- unda og aðrar bækur útgefnar vestan járn- tjaldsins. 1957 fékk Reich-Ranicki í fyrsta sinn heimild til að ferðast til Vestur-Evrópu og fór það árið strax til Austurríkis og Vestur- Þýzkalands. „En andrúmsloftið í Póllandi varð uggvænlegt, ekki sízt fyrir gyðinga,“ skrifar Reich-Ranicki. „Eins fáir og þeir voru orðnir í samanburði við það sem var fyrir stríðið, þá var það staðreynd að þeir höfðu gegnt mikilvægu hlutverki í opinberu lífi hins kommúníska Póllands. Núna, þegar Flokkn- um (ekki sízt vegna þrýstings frá Sovétríkj- unum) var umhugað um að halda fylgismönn- um og oddvitum „þíðunnar“ í skefjum, var þörf á blórabögglum. Og hinir óvinsælu gyð- ingar (og þá er vægt til orða tekið), fyrst og fremst menntamenn af gyðingaættum, voru eins og jafnan áður í sögunni hentugir í þetta hlutverk.“ Það má því segja að gyðingaofsókn- ir, sem hröktu Reich-Ranicki ungan frá Þýzkalandi til Póllands árið 1938, hafi hrakið hann frá Póllandi til Þýzkalands árið 1958. „Eintómar skammir“ Fljótlega eftir flutninginn til Frankfurt am Main fóru nokkur stærstu dagblöð Vestur- Þýzkalands, Die Welt í Hamborg og Frank- furter Allgemeine Zeitung í Frankfurt, að birta pistla Reich-Ranickis, fyrst um bækur austur-þýzkra höfunda en síðan um hvaða bækur sem honum þótti vert að fjalla um. Árið 1960 var hann svo fastráðinn bókmenntagagn- rýnandi vikuritsins Die Zeit, og þeirri stöðu gegndi hann til 1973, er hann skipti yfir til FAZ; þar stýrði hann bókmenntaritstjórninni til 1988. Það ár, þá 68 ára að aldri, hóf hann að stýra sjónvarpsþættinum „Bókmenntafereyk- inu“. „Minn hraði og – eins og sumir létu ummælt (ýmist með velvilja eða kaldhæðni) – undra- verði árangur skýrist að einhverju leyti af eðli bókmenntagagnrýni minnar. Vitandi og óaf- vitandi hélt ég tryggð við hefð, sem í „Þriðja ríkinu“ var gerð útlæg og kollegar mínir sinntu sáralítið eftir stríð. Vissulega átti ég mér aldrei fyrirmynd sem ég vildi endilega líkja eftir. En ég lærði mikið af liðnum stór- mennum þýzkrar bókmenntagagnrýni – frá Kerr til Polgar, frá Jacobsohn til Tucholsky. Jafnvel enn í dag læri ég af þeim og það sér- staklega af gagnrýni rómantíska tímabilsins. Ég sýni þakklæti mitt með því að vísa og vitna oft í hana,“ skrifar Reich-Ranicki, og heldur áfram: „Allir skrifuðu þessir gagnrýnendur í dag- blöð, og það mótaði stíl þeirra. Þeir höfðu sömu lesendur í huga: almenning. Það segir sig ekki sjálft, einkum með tilliti til þess að í Þýzkalandi, þar sem umfjöllun um bókmennt- ir oftar en ekki er í höndum vísindamanna og rithöfunda, en gegn því er ekkert að segja. En vísindamennirnir skrifuðu fyrir vísindamenn- ina og rithöfundarnir fyrir rithöfundana. Al- menningur var afskiptur. Jafnvel án Heine og Fontane og án allra hinna hefði ég aðallega skrifað fyrir hinn almenna lesanda en ekki fræðingana. Skapgerð mín ein hefði rekið mig til þess.“ Annars staðar í bókinni lætur hann frá sér þessa stórkostlegu setningu: „Ég hef aldrei kynnzt rithöfundi, sem ekki er hégómagjarn og sjálfhverfur – nema ef vera skyldi sérstaklega lélegur höfundur.“ Sem dæmisögu um þetta segir Reich-Ran- icki frá kynnum sínum af Stanislaw Jerzy Lec, sem þekktur var fyrir satíruskáldskap, pólsk- ur gyðingur fæddur í Lemberg (Lvov/Lviv) fyrir fyrri heimsstyrjöld, er borgin tilheyrði Austurríki. Þeir fóru eitt sinn í göngutúr nærri húsi skáldsins í Varsjá, fáeinum árum eftir stríðið, og Lec talaði látlaust. Reich- Ranicki, sem sjálfur er ekki þekktur fyrir að vera orða vant, hlustaði og lét sér nægja að skjóta inn stöku orði við og við. „Allt sem hann sagði vakti áhuga minn og skemmti mér (...). Er klukkustund var liðin eða svo sagði hann skyndilega: „Þetta gengur ekki. Við tölum stöðugt bara um mig. Látum okkur nú tala um yður. Hvað fannst yður um nýjustu bókina mína?“.“ Þannig segir Reich-Ranicki að „sí- gild alþjóðleg flökkusögn“ hafi orðið til; hann hafi sagt mörgum þessa sögu og hún hafi breiðzt fljótt út og oft eignuð öðrum höfund- um. Eins og gefur að skilja hefur Reich-Ranicki komizt á ferli sínum í persónuleg kynni við gríðarlegan fjölda rithöfunda, flestra þýzku- mælandi. Í sjálfsævisögunni lýsir hann við- kynnum sínum af mörgum hinna þekktari í hópi þessara höfunda. Í kaflanum þar sem hann lýsir samskiptum sínum við Ingeborg Bachmann, sem hlaut frægð sem ljóðskáld á 7. áratugnum og svipti sig ung lífi, kemst hann að annarri athygl- isverðri ályktun um rithöfunda almennt: „Flestir rithöfundar eru með ritstíflu eða hafa rétt unnið sig út úr ritstíflu eða óttast að fá rit- stíflu. Þess vegna njóta þeir þess ákaflega er annar rithöfundur á við ritstíflu að stríða.“ Orðstír sinn sem miskunnarlauss gagnrýn- anda sem ekki hikar við að fella mjög harka- lega dóma um þær bækur sem hann fjallar um á Reich-Ranicki vafalaust ekki sízt því að „þakka“, að árið 1979 var gefin út bók með safni bókadóma sem hann hafði skrifað í Die Zeit, með titlinum „Lauter Verrisse“ – sem þýðir um það bil: „Eintómar skammir“. Þótt hann hafi ekki löngu síðar birt bók með bóka- dómum sem voru að flestu leyti jákvæðir fest- ist þessi titill – „Eintómar skammir“ – svo við nafn Reich-Ranickis að hann loðir við hann enn þann dag í dag. En, eins og lesa má út úr ályktun þýzka rit- höfundasambandsins, þar sem það lýsir áhyggjum af stöðu bókmenntanna í þýzku sjónvarpi eftir að ákveðið var að hætta út- sendingu „Bókmenntafereykis“ Reich-Ran- ickis, má ef til vill segja: Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. K RISTNIHALD undir Jökli sætir tíðindum á höfundar- ferli Halldórs Laxness. Í þrjá áratugi hafði hann reitt fram skáldsögu með reglu- legu bili, stundum árlega, oftast annað hvert ár, allt fram að Paradísarheimt ár- ið 1960. Þá komu sjö skáldsögulaus ár. Ekki að hann hafi setið auðum höndum, öðru nær, hann tekur til við að skrifa leik- rit: Strompleikinn (1961), Prjónastofuna Sólina (1962), Dúfnaveisluna (1966). Sjálfur réttlætti hann þessi umskipti í hálfkæringi með því að hann væri á hröðum flótta undan svonefndum Plús Ex, boðflennu sem lægi ýmist á hleri eða gluggum í hvert skipti og fitjað væri upp á skáldsögu. Undankomu- leiðin væri sviðið, þar stigi textinn fram hjálparlaust og Plús Ex yrði að gjöra svo vel og sitja úti í sal eins og við hin. En það er með þessi leikrit Halldórs, hvernig sem maður snýr þeim: í samanburði við sagnaskáldið er leikskáldið ekki svipur hjá sjón. Hvað skortir á? Ætli það sé ekki einmitt þessi Plús Ex, alias Kiljan Laxness, sem andar út úr hverri setningu prósans? Skáldatími kom út um líkt leyti og leik- ritin (1963) og gerði tvennt: færði Halldóri lesendahóp sem hafði sniðgengið hann af pólitískum ástæðum og fjarlægði hann fylg- ismönnum sem höfðu átt samleið með hon- um á vettvangi stjórnmálanna. Þegar hér var komið sögu fór ekki hjá því að nokk- urrar beiskju gætti hjá hinu hálf-sjötuga skáldi, í Íslendingaspjalli (1967) segist hann nú loksins vera gleymdur verðskuldaðri gleymsku á Íslandi. *** Þá kemur Kristnihaldið. Í millitíðinni hafði nýskáldsagan verið allsráðandi úti í Evrópu. Viðleitni hennar var að brjóta af sér kæki og klisjur hins hefðbundna róm- ans, persónusköpun var varpað fyrir róða og í stað framvindu komu lotulangar lýs- ingar á hlutum veruleikans. Nýskáldsögunni hætti til að eyða öllu sínu púðri á formið og kallaði í fyllingu tímans á andstæðu sína: dókumentarsöguna sem setti innihaldið í fyrirrúm – umbúðalaust. Halldór með sinn hárfína tíðarandaskynj- ara hefur að sjálfsögðu numið allt þetta þótt hann stæði álengdar. Kristnihaldið byrjar sem leikrit, það er skilgetið afkvæmi leik- ritatímabilsins, en það sem gerir gæfumun- inn er að hér er Plús HKL ævinlega í fyr- irrúmi. Hann heilsar upp á nýskáldsöguna (lýsingin á kirkjunni undir Jökli) og tekur mið af dokúmentarsögunni (segulbandið). En þetta eru aukaatriði, undir niðri er Kristnihaldið samandregin kunnátta og reynsla útsmogins höfundar, indian summer og hápunktur höfundarverksins. *** Bækur eru búnar til úr bókum segir forn orðskviður og það á með sanni við um Kristnihald undir Jökli. Sumar nefnir höf- undurinn sjálfur til leiks: Eyrbyggju, Hans d’Islande eftir Victor Hugo, Voyage au centre de la terre eftir Jules Vernes. Aðrar eru ónefndar, en ekki síður veitular í verk- inu: Ævisaga Árna Þórarinssonar, skráð af Þórbergi Þórðarsyni, leggur honum til eina af aðalpersónunum: Úu. Og heimspekin sem Godman Syngman er skrifaður fyrir er í heilu lagi fengin úr Nýölum Helga Pjeturss. Enn er ótalin sú bók sem er að minnsta kosti jafn fyrirferðarmikil í Kristnihaldinu og Gróður jarðar í Sjálfstæðu fólki: Nýja testamentið. Í vissum skilningi má segja að Kristnihaldið sé tilbrigði við Guðspjöllin. En fyrst og síðast er Kristnihaldið and- svar höfundarins við áreiti tímans, hér er kominn sjöundi áratugurinn: neyslusam- félagið, Víetnamstríðið, Hipparnir, Bítlarnir, stúdentahreyfingarnar … Hér voru komin fyrirbærin sem maður þekkti, en höfðu ekki náð að rata inn í samtímaskáldsögur sem voru veruleikafælnar í anda módernismans: prins póló, bítlar, sjoppur, uppmælingaaðall, Ríkisútvarpið. Persónur Kristnihaldsins, ólíkt persónum leikritanna, marséruðu rakleiðis inn í þjóð- arsálina með Hnallþóru í fararbroddi. En verkið mætti líka andstöðu, einn rit- dómari spyrti saman Kristnihaldið og Tóm- as Jónsson sem dæmi um uppdráttarsýki ís- lenskra bókmennta og sumir vinstrimenn áttu erfitt með að taka skopmyndum Hall- dórs af íslenskri alþýðu eins og hún hold- gerist í Jódínusi Álfberg og Frú Fínu Jón- sen. Þeirra á meðal var sjálfur erkiþýðandi Halldórs, Peter Hallberg, sem skrifaði hvassan ritdóm þar sem hann kunni ekki að meta firringu Halldórs frá alþýðunni og olli sú grein fáleikum vinanna um skeið. *** Kristnihald undir Jökli er eitthvert rót- tækasta verk höfundarins og þar af leiðandi heimsbókmenntanna. Þessi meistari orðsins lýsir frati á orðin – og orðar það óaðfinn- anlega. Róttækni gagnvart trúnni, gagnvart konunni, gagnvart kynlífinu. Það er engu líkara en Vefarinn mikli hafi umpólast í Kristnihaldinu: sköpunarverkið er sam- þykkt án trúarbragða og konan sem kyn- vera. Jón prímus boðar frjálsar ástir í anda hippanna og Lés konungs: módel fyrir kyn- lífið er samband hunangsflugu og blóms. Og hann eftirlætur Umba eiginkonu sína. Kontrapúnkturinn við Prímusinn er God- man Syngman. Séra Jón gerir við prímusa, brotnar skrár og hraðfrystihús. Godman Syngman hefur fundið upp og smíðað há- tæknivígtól. Jón er áreynslulaus partur af guðdómnum, hefur hann fyrir augunum og hrærist í honum daglega. En Godman Syng- man smíðar hátimbruð kerfi til að gera lífið eilíft, þetta líf sem hann nær ekki sambandi við, „hann hafði ekki samband“, segir Úa. *** Hvernig fór höfundurinn að því að nema alla þessa strauma og miðla þeim í skáld- verki, kominn á aldur þegar flestir láta sér nægja að horfa á heiminn úr hægindastól og hrista hausinn? Maður freistast til að álíta að eitt með öðru hafi verið sú staðreynd að hann átti dætur sem einmitt á þessum árum voru unglingar og hafa væntanlega borið inn í Gljúfrastein Bítlaplötur, hártísku og klæðaburð hins nýja tíma. En hvað veldur því að verkið springur út einmitt þarna? Margt bendir til að Halldór hafi lengi verið með efnið í huganum. Í við- tali við Morgunblaðið (23. maí 1993) segir Auður Laxness, aðspurð um hvort hún hafi innblásið einhverjar persónur eiginmanns- ins: „Halldór hafði alltaf gaman af því að ég segði honum frá athyglisverðu fólki. Hann skemmti sér t.d. vel þegar ég sagði honum frá prestinum að vestan sem var alltaf að gera við prímusa heima hjá okkur á Báru- götunni …“ Sjálfur segir Halldór í viðtali sem Þjóð- viljinn tók við hann áttræðan: „Séra Jón er ortur út úr þessum tíma og þessu sálarlífi, því andlegu ásigkomulagi sem ég upplifði á þessum merka áratug. Þá fór um Evrópu sterk hreyfing sem for- dæmdi margt af því sem talið hafði verið gott og gilt í bókmenntum. Og með ein- hverjum hætti tengdist þetta svo stúdenta- óeirðunum sem voru annað og meira en þær sýndust vera og gerðu skurk þótt þær stæðu stutt. Það var ýmislegt merkilegt að gerast í tíðarandanum sem snart marga með svipuðum hætti og mig. Og þessi tíðindi gerðust áreiðanlega vegna þess að svo og svo mikið af stjórnmálahreyfingum í heim- inum höfðu þolað niðurbrot.“ Já Kristnihald undir Jökli, mikil dæma- laus bók. SVO KOM KRISTNIHALD UNDIR JÖKLI Höfundur er rithöfundur. E F T I R P É T U R G U N N A R S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.